Miðvikudagur 26.10.2016 - 21:14 - Ummæli ()

Hverjum treystir þú?

Vésteinn Valgarðsson varaformaður Alþýðufylkingarinnar & oddviti í Reykjavíkurkjördæmi norður

Vésteinn Valgarðsson
varaformaður Alþýðufylkingarinnar
& oddviti í Reykjavíkurkjördæmi norður

Vinstri-græn hafa undanfarið slegið um sig með spurningunni „Hverjum treystir þú?“ Þetta er eðlileg spurning í aðdraganda kosninga, og fyrst þau gefa þennan bolta upp er best að skoða málið. Og vegna þess að verkið lofar meistarann, þá er marktækast að skoða síðasta kjörtímabil.

Byrjum á húsnæðisstefnunni: Húsnæðisstefna VG var að láta bankana sjá um að útfæra húsnæðisstefnuna, til að geta sjálft þvegið hendur sínar af henni. Í skjóli þess voru gjaldþrota heimili flokkuð: Fólk gat fengið verulegar niðurfellingar ef það gat staðið í skilum með restina. Aðrir voru settir á nauðungaruppboð — á færibandið, eins og það var kallað innan bankanna.

Tökum næst efnahagsstefnuna. VG er ekki með neitt sem er hægt að kalla alvöru efnahagsstefnu. En Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er það hins vegar. Að forsögn hans var rekin hér harðsvíruð stefna niðurskurðar og markaðsvæðingar í nafni ríkisstjórnarinnar sem kenndi sig við vinstri.

Eigum við að tala um Evrópusambandið? Hvaða ályktanir dregur fólk, þegar sama fólkið hefur það á stefnuskránni að „hagsmunum Íslands sé best borgið utan ESB“ og greiðir síðan atkvæði með aðildarumsókn? Og þráast enn við að vilja þjóðaratkvæði um eitthvað sem þau segjast sjálf vera á móti?

Einkavæðing bankanna hin síðari. Magma-málið. Olíuleit á Drekasvæðinu. Stóriðja á Bakka. Áform um rafmagnssæstreng. Við þekkjum öll þessa sögu, en við þurfum að muna hana núna þegar við eigum að fara að kjósa aftur.

Ég var í VG mestan hluta síðasta kjörtímabils. Ég barðist á hæl og hnakka gegn öllum þessum málum, innan flokks sem utan, þar til ég sá að það var fullreynt. Eftir meira en þrjú ár af innanflokksátökum sá ég að þetta var tímasóun. Þau mundu aldrei koma með út í uppgjör við fjármálaauðvaldið. Fyrsta varnarlína auðvaldsins var innan flokksins.

Ef ég treysti Vinstri grænum, væri ég þar enn. En reynslan segir mér að sá sem ætlar í slag við auðvaldið hefur ekkert að gera þar. Þess vegna var ég með í að stofna Alþýðufylkinguna. Hún er flokkur sem skilur inntak og gildi félagslegra lausna, vísar leiðina út úr kapítalismanum í stað þess að ætla sér að lappa enn einu sinni upp á hann, og veit hvaða krafta þarf til að koma á nauðsynlegum umbótum. Það eru kraftar stéttabaráttunnar.

Almenningur í landinu þarf að taka virkan þátt í baráttunni frá degi til dags, því hún fer ekki bara fram í kosningum til þings eða á þingi. En hún fer meðal annars fram þar. Alþýðufylkingin er raunhæfur og raunsær valkostur til vinstri sem leitar ekki friðkaupa við fjármálaauðvaldið, sem grætur ekki kreppuna heldur safnar liði. Verið með. Kjósið okkur núna, en takið líka slaginn eftir kosningarnar.

Föstudagur 29.7.2016 - 10:08 - Ummæli ()

Skuldsetning, eignir og áhættudreifing

Ásgeir Daníelsson, forstöðumaður rannsókna- og spádeildar Seðlabanka Íslands.

Ásgeir Daníelsson, forstöðumaður rannsókna- og spádeildar Seðlabanka Íslands.

Stefán Ólafsson, prófessor í félagsfræði, birti nýlega greinina Hrunið skýrt: Sjónarhorn klassískra kenninga um fjármálakreppur um fall bankanna 2008. Stefán kemur víða við og býður upp á skemmtileg skoðanaskipti um fjölmargt í íslenskri hagsögu undanfarinna áratuga, allt frá umbótum Viðreisnarstjórnarinnar á sjöunda áratugnum og fram til atburða á fyrsta áratug þessarar aldar. Því miður verð ég að sleppa mörgu og fara lauslega yfir annað, m.a. þáttum í atburðarásinni í aðdragandanum að falli bankanna 2008. Um það atriði hefur verið fjallað af mörgum aðilum, m.a. undirrituðum, á öðrum vettvangi. Markmið þessarar greinar er að ræða almennt um ástæður fyrir falli bankanna 2008 og sérstaklega tengslin við erlenda skuldsetningu. Stefán virðist telja að sama tilhneigingin til skuldsetningar sem hafi leitt til falls bankanna 2008 hafi einnig verið til staðar á árunum 1997-2001. Ég held að það sé ekki rétt og að hægt sé að rökstyðja að þótt erlendar skuldir hafi aukist á árunum 1997-2001 hafi innlendir aðilar, t.d. lífeyrissjóðirnir, bætt áhættudreifingu í eignasöfnum sínum og þar með hafi stöðugleiki kerfisins aukist.

Skýringar á fjármálakreppu

Stefán setur fram þá kenningu að fjármálakreppur eigi rætur að rekja til innbyggðs óstöðugleika kapítalismans, sem stjórnvöld þurfi að hafa hemil á ef ekki eigi illa að fara. Ég hugsa að það sé nokkuð til í þessu. Þetta svarar hins vegar ekki stóru spurningunum sem lúta að því hversu mikið regluverk og eftirlit með fjármálastofnunum sé æskilegt. Það er ólíklegt að ríkisbankakerfið sem við höfðum fyrir 1986 þar sem allir vextir voru ákveðnir af Seðlabankanum hefði fallið í alþjóðlegu fjármálakreppunni 2008 en samt eru sennilega flestir á því að það sé ekki skynsamlegt að taka það upp aftur. Ég hugsa að það sama gildi um gjaldeyris- og fjármagnshöftin sem voru við líði á sama tíma. Þótt þetta fyrirkomulag væri stöðugt hafði það óneitanlega líka sína galla. Og þótt við eigum auðvitað að læra af reynslu fortíðar í þessum efnum verðum við líka að gera okkur grein fyrir að núverandi aðstæður, t.d. tækni, bæði almenn samskiptatækni og tækni á sviði fjármála, skapa áður óþekktar áhættur og möguleika.

Stefán bendir réttilega á að EES-samningurinn sem tók gildi árið 1995 hafi breytt miklu í stofnanaumhverfinu, einkum með því að heimila frjálsa fjármagnsflutninga milli EES-landa. Hann nefnir hins vegar ekki frelsi til að stunda bankastarfsemi á EES-svæðinu, sem t.d. olli því að Hollendingar treystu sér ekki til að stoppa innlánssöfnun íslensku bankanna í landinu á árunum 2006-2008, eða það vandamál, sem m.a. Már Guðmundsson seðlabankastjóri hefur margbent á, að EES-reglur sem leyfa frjálsa starfsemi banka gera ekki ráð fyrir sameiginlegum stuðningi við banka í erfiðleikum. Þegar þeir dynja á þarf hvert ríki að sjá um sína banka.

Fjármálakreppur og skuldir

Stefán telur sig greina afleiðingar af breytingum í stofnanaumhverfinu í þróun erlendra skulda íslenska þjóðarbúsins sem hann sýnir sem hlutfall af landsframleiðslu í mynd 1. „Í reynd tvöfölduðust erlendar skuldir frá um 1997 til 2001, sem er mikið á alla mælikvarða.“ Það er ekki alveg ljóst hvernig Stefán hugsar sér samspil fjármálakerfisins og raunhagkerfisins við þessar breyttu aðstæður en það er hægt að lesa grein hans þannig að hann telji uppruna þenslunnar/bólunnar liggi í lausara regluverki sem leiði til meiri skuldsetningar vegna betri aðgangs að erlendu fjármagni. Það er erfitt að finna rök fyrir þessari skoðun. Íslensku bankarnir höfðu hátt lánshæfismat bæði fyrir og eftir 1995 þegar Ísland gekk í EES og nutu hagstæðra kjara í samræmi við það. Það er engin ástæða til að ætla að þeir (ásamt ríkissjóði og ríkisfyrirtækjum sem tóku erlend lán á þessum tíma) hafi ekki getað aflað erlends lánsfjár eins og þörf væri á.

Ég held að gangverkið í samspilinu sé í samræmi við hefðbundna keynesíska greiningu þar sem erlenda skuldsetningin er afleiðing fremur en orsök. Ef litið er framhjá breytingum í verði eigna og skulda gildir bókhaldssambandið: Aukning í erlendum skuldum yfir tiltekið tímabil = Aukning erlendra eigna yfir tímabilið + Samanlagður viðskiptahalli tímabilsins. Aukin erlend fjárfesting leiðir þannig að öðru jöfnu til meiri erlendrar skuldsetningar.

Skýringin á aukningu erlendra skulda 1997-2001 liggur í að bæði erlendar eignir jukust og að viðskiptahalli var verulegur á tímabilinu vegna mikillar innlendrar eftirspurnar. Skv. EES samningnum höfðu íslenskir aðilar leyfi til að fjárfesta erlendis. Stefán talar um að „(s)trandhögg útrásarvíkinga viðskiptalífsins hófst á þessum tíma …“ Stærstu aðilarnir sem nýttu sér nýfengið frelsi til að fjárfesta erlendis voru lífeyrissjóðirnir sem með þessu móti bættu dreifingu áhættu í eignasafni sínu. Bætt áhættudreifing í eignasafni og rekstri var einnig upphaflega hugmyndin að baki erlendra fjárfestinga sumra útrásarvíkinga eins og Ásgeir Jónsson lýsir ágætlega í bók sinni Why Iceland? þar sem hann fjallar um kaup Kaupþings á FIH-bankanum í Danmörku. Ég held að það sé hægt að sýna fram á að stærsti hlutinn af erlendum fjárfestingum íslenskra aðila á árunum 1997-2001 bætti áhættudreifingu og gerði kerfið þannig stöðugra. En erlendar fjárfestingar minnka ekki áhættuna í eignasafninu nema upp að vissu marki. Of miklar erlendar fjárfestingar geta vissulega aukið á áhættuna eins og kom á daginn síðar.

Uppsveiflan 2004-2007 var óneitanlega mikið öflugri en uppsveiflan 1997-2000. Stofnanaumhverfið hafði einnig breyst mikið frá fyrra tímabilinu. Ísland var orðinn hluti af alþjóðlegu fjármálakerfi og fjármagnsstraumar inn og út úr hagkerfinu voru miklir. Það er t.d. óhugsandi að hægt hefði verið að halda uppi fastgengiskerfi eins og því sem var við lýði hér fram til ársins 2001, mörgum árum eftir að önnur nálæg ríki (eina undantekningin var Noregur) höfðu gefið stefnuna upp á bátinn vegna aðgerða spákaupmanna. Í öðru lagi er nauðsynlegt að hafa í huga að þenslan í hagkerfi Vesturlanda, sem lauk með alþjóðlegu fjármálakreppunni 2007-2008, hafði mikil áhrif á þróunina hér á landi.

Ein minniháttar athugsemd í lokin. Stefán segir í gein sinni að „(þ)rír stærstu einkabankarnir á Íslandi settu allir upp útibú í Lúxemborg til að þjóna íslensku efnafólki með einkabankaþjónustu…“ Þessi útibú voru sett upp nokkrum árum fyrir einkavæðingu stóru ríkisbankanna.

Mánudagur 25.7.2016 - 23:17 - Ummæli ()

Kári Stefánsson svarar Andríki

Kári Stefánsson.

Kári Stefánsson.

Ég er feginn því að vefritið Andríki sé til vegna þess að í því (eða á því) leggja skríbentar töluvert á sig við að hampa mikilvægi og fegurð frelsisins í mannlegu samfélagi. Hvort tveggja er óumdeilanlegt. Það er hins vegar umdeilanlegt hversu takmarkalaust frelsið eigi að vera og þegar að því kemur er ég oft á öndverðum meiði við þá sem skrifa í Andríki. Ég er samt feginn því að skoðanir þeirra eigi sér rödd þótt hún sé ekki samhljóma minni vegna þess að rétturinn til frelsis á oft undir högg að sækja í okkar samfélagi þegar hann rekst á annan rétt sem meirihlutinn telur mikilvægari. Ég verð hins vegar alltaf jafnhissa þegar hugsjónamenn frjálshyggjunnar taka þá ákvörðun að þegar einhver setur fram röksemdir fyrir því að takmarka frelsi á einhverju sviði sé best að taka á því með því að hjóla í hann frekar en röksemdirnar. Hugmyndin er að öllum líkindum sú að sýna fram á að maðurinn sem vill takmarka frelsið sé vondur og þar af leiðandi hljóti röksemdir hans að vera vondar, hverjar svo sem þær séu.

Ég lenti í þessu í gær þegar það birtist eftir mig grein í Fréttablaðinu þar sem ég setti fram röksemdir fyrir því að útlendingaspítali í Mosfellsbæ yrði ekki góður fyrir íslenskt samfélag. Viðbrögð Andríkis voru þau að ég væri óhæfur til þess að tjá skoðanir vegna þess að:

1. Það hefðu verið sett lög sem veittu Ríkinu heimild til þess að ábyrgjast skuldabréf fyrir deCODE genetics. Þótt ég hefði staðið fyrir þessum lögum er býsna löng og skrikkjótt leið frá því og að þeirri skoðun að þess vegna séu röksemdir sem ég set fram máli mínu til stuðnings slæmar og ekki þess virði að svara þeim. Staðreyndin er hins vegar sú að hvorki ég né fyrirtækið sem ég vinn fyrir berum hina minnstu ábyrgð á lögunum. Við áttum ekki hugmyndina að þeim, við skrifuðum ekki frumvarpið, við lögðum það ekki fram og við greiddum ekki um það atkvæði. Það er Alþingi Íslendinga sem ber ábyrgð á lögunum en ef Andríkismenn vilja kalla einstakling til ábyrgðar verður það annað hvort að vera Davíð Oddsson þáverandi forsætisráðherra eða Geir Haarde þáverandi fjármálaráðherra. Lagaheimildin var aldrei nýtt og félagið aflaði fjár án hjálpar frá ríkinu og þess ber að geta að það hefur aldrei notið hinnar minnstu aðstoðar frá hinu opinbera og aldrei farið fram á fé úr ríkissjóði.

2. Íslenskir ríkisbankar hefðu skorið erlenda stofnfjárfesta í deCODE niður úr snörunni. Jafnvel ef það reyndist rétt að bankarnir hefðu bjargað erlendu fjárfestunum væri það skrýtin mótbára við röksemdum mínum gegn útlendingaspítalanum. Staðreyndin hér er sú að það var krafa í íslensku samfélagi að erlendu fjárfestarnir deildu eignarhaldinu með landsmönnum þótt það megi halda því fram að hún hafi verið óskynsamleg. Það var settur þrýstingur á fjárfestana og þeir féllust á að selja hluta af sínu og þeim leið ekki eins og það væri verið að bjarga þeim heldur að þeir væru að hlúa að tengslum fyrirtækisins við samfélagið. Þótt kaup bankanna á þessum hlutabréfum hafi leitt til þess að einhver gjaldeyrir færi úr landi er fyrirtækið búið að flytja nettó meira en 175 milljarða króna í erlendum gjaldeyri til landsins á síðustu tuttugu árum.

3. deCODE genetics Inc hafi óskað eftir gjaldþrotaskiptum í Bandaríkjunum árið 2009. Og þess vegna er auðvitað ekkert að marka það sem ég segi um útlendingaspítalann? Það er frjálshyggjumönnum Andríkis auðsætt. Það er rétt að deCODE fór í gjaldþrotaskipti árið 2009 um svipað leyti og flest fyrirtæki á Íslandi. Það sem fór endanlega með deCODE var að bandaríski bankinn Lehman Brothers fór á hausinn og tók með sér tveggja ára rekstrarfé fyrirtækisins. Það skuldaði mikið fé í Bandaríkjunum en varla krónu á Íslandi. Fyrirtækið var endurreist og eftir sem áður hefur það haldið áfram að leiða heiminn á sviði mannerfðafræði og er ábyrgt fyrir því að bera orðstý Íslands í vísindum víðar en áður hefur þekkst í sögu þess.

En nú er nóg sagt. Ég vil þó enda á að benda hugsjónamönnunum sem skrifa fyrir Andríki á þá staðreynd að það er ekkert í hugmyndafræði frjálshyggjunar sem ætti að hvetja þá til þess að tjá sig um menn þegar umræðan er um málefni þótt tjáningarfrelsið verji rétt þeirra til þess að gera það. Það ver meira að segja rétt þeirra til þess að líta út eins og kjánar fyrir vikið þótt það fari aldrei vel innblásnum hugsjónamönnum.

 

Mánudagur 25.7.2016 - 10:18 - Ummæli ()

Á að sparka Þjóðarflugvellinum burt úr höfuðborginni?

Guðni Ágústsson.

Guðni Ágústsson.

Hvernig má það vera að tveir stjórnmálamenn sem stoppuðu stutt við í pólitíkinni skuli ætla að komast upp með þau spjöll að loka neyðarbrautinni á Reykjavíkurflugvelli og þar með að loka leiðinni inn á Landsspítalann fyrir sjúkraflugið í vitlausum veðrum og leggja drög að því að koma flugvelli þjóðarinnar í Vatnsmýrinni fyrir kattarnef. Þessa ákvörðun tóku Hanna Birna Kristjánsdóttir þá innanríkisráðherra og Jón Gnarr fyrrverandi borgarstjóri Reykjavíkur. Þetta var gert án aðkomu Alþingis og örugglega ekki rætt í Ríkisstjórninni, gerendurnir undirskrifuðu þetta í bakherbergi eftir að annað skjal hafði verið undirritað af þeim með forsætisráðherra árið 2013 um að allt flugvallarmálið væri sett í bið um nokkurra ára skeið, sem sé hið fyrra samkomulag var lítilsvirt andartaki síðar. Hæstiréttur hefur fellt þann dóm að gjörningurinn sé löglegur og eftir honum verði að fara, en það útilokar ekki nýja ákvörðun Alþingis í ljósi afleiðinganna sem hlýst af samningi Hönnu Birnu við Jón Gnarr og niðurstöðu Rögnu-nefndarinnar,ekkert flugvallarstæði annað til staðar í Reykjavík.

Hæstaréttardómurinn snerist ekkert um flugvöllinn mikilvægi hans og flugöryggi heldur um að gjörningurinn stæðist lög. Núverandi innanríkisráðherra með Alþingi á bak við sig getur hrint þessari niðurstöðu og tekið aðra ákvörðun vegna mikilvægra öryggishagsmuna. Sökudólgarnir eru á bak og burt (horfin úr hinum stóru embættum) en Dagur B Eggertsson borgarstjóri glottir við gaflaðið og braskararnir sem ætla að byggja dýrustu hús og hótel í Vatnsmýrinni strjúka sitt peningaveski og fagna því að flugvöllurinn í heild er kominn á dauðalistann. Þetta gerist þótt þjóðarviljinn hafi verið mældur hvað eftir annað milli 80% og uppí 84% sem vilja flugvöllinn á þessum stað og í friði. Meiri stuðningur en við nokkuð annað verkefni, samt komast Valsmenn allra flokka upp með að hrekja flugvöllinn á burt.

Dauðans alvara

Reykjavíkurflugvöllur er sjúkraflugvöllur allra landmanna og allra þeirra sem veikjast og slasast alvarlega á ferðalögum um landið. Flugvöllurinn hefur verið brú milli höfuðborgarinnar og landsbyggðarinnar um hann fóru 750 sjúkraflug árið 2015, þar af helmingur farþega í lífshættu og margir upp á líf og dauða. Hvar sem menn búa í landinu gerir flugið og flugvöllurinn það að verkum að á einni klukkustund er hægt að ferðast til höfuðborgarinnar sem allir Íslendingar hafa byggt upp og Vatnsmýrin er lykillinn að því, með flugvellinum stendur eða fellur innanlandsflugið. Spyrja má er Vatnsmýrin hentugt byggingaland fyrir hótel eða íbúðabyggð? Fróðir menn segja mér að hún sé vatnssósa mýri eins og nafnið bendir til, nokkurra metra djúp, mengaður jarðvegur eftir veru hersins. Gríðarleg jarðvegsskipti yrðu að eiga sér stað, hvað kostar það og hvert skal aka mýrinni/moldinni og hvert verður mölin sótt? Hverjir bíða eftir hinum rándýru íbúðum? Fræðimenn segja að þetta muni lækka grunnvatnsstöðuna í Vatnsmýrinni og Reykjavíkurtjörn kunni að þornar upp?

Vatnsmýrin er besta flugvallarstæðið

Þrasið um að færa flugvöllinn upp á Hólmsheiði eða út á Löngusker er afskrifað í úttekt Rögnunefndarinnar og sú dæmalausa tillaga um flugvöll í Hvassahrauni í hlaðinu á Keflavík var bábylja og sennilega úr munni borgarstjórans Dags B Eggertssonar sem sat í staðarvalsnefndinni og hlýtur hann að hafa verið  gjörsamlega vanhæfur þar. Reykjavíkurflugvöllur er nefnilega merkilegur að því leiti að hann uppfyllir öll skilyrði hvað flug og flugöryggi varðar. Ennfremur er hann varaflugvöllur landsins fari hann er búið að veikja flugið í landinu og líka til og frá landinu því hann er Keflavík mikilvægur,hann er einn af varaflugvöllum  Keflavíkur sem færist þá til Skotlands. Flugmenn segja að allar hugmyndir um styttingu brauta og skerðingu þeirra séu varhugaverðar og það ætti ekki að setja slíkt fram eða ráðast í þær nema eftir nákvæma rannsóknarvinnu. Með brotthvarfi flugvallarins er stefnt að óafturkræfu tjóni í samgöngumálum landsins og sjúkrakerfi þess. Og miklum skaða fyrir Reykjavík í þjónustu, lífsöryggi og atvinnu kringum flugið sem varð reyndar til með Reykjavíkurflugvelli.

Alþingi stungið svefnþorni?

Því miður hefur Alþingi verið stungið svefnþorni í þessu máli þótt góður vilji margra þingmanna hafi staðið til að bjarga flugvellinum. Nú liggur fyrir að neyðarbrautin er á förum nema að tekin verði ný ákvörðun og þá um að bjarga henni og flugvellinum. Ég hvet innanríkisráðherra Ólöfu Nordal og alþingismenn til að taka málið upp á sumarþingi og ræða það í aðdraganda alþingiskosninga. Það er hægt með löggjöf að bjarga flugvellinum og það á að gera. Hæstiréttur hefur aðeins fellt dóm um að gjörningur borgarstjórans fyrrverandi og innanríkisráðherrans standist, en enginn bannar þinginu að taka nýja ákvörðun út frá hagsmunum þjóðarinnar, því ekkert flugvallarstæði leysir Reykjavíkurflugvöll af hólmi það er hin nýja niðurstaða Rögnunefndainnar. Það er bæði betra og ódýrara að borga Reykjavíkurborg skaðabætur en láta eyðilegginguna ganga fram,hún kostar mörg hundruð milljarða og er óafturkræft tjón sem varðar alla Íslendinga. „Hjartað Í Vatnsmýrinni,“ hrópar á hjálp. Myndum breiða pólitíska samstöðu um Reykjavíkurflugvöll. Gerum flugvallarmálið að kosningamáli verði það ekki leyst á sumarþingi.

Föstudagur 27.5.2016 - 21:53 - Ummæli ()

  Umdeild ummæli Magnúsar Orra Schram

Birgir Dýrfjörð.

Birgir Dýrfjörð.

“Við eigum að stofna nýja hreyfingu sem stefni saman fólki frá miðju til vinstri. Hreyfingu sem rúmar fjölbreyttar raddir og mörg sjónarmið”. – Þessi ummæli Magnúsar Orra Schram lýsa þeim draumi að sameina alla jafnaðarmenn í einni öflugri hreyfingu.  Hann vill hefja samtal við aðrar stjórnmálahreyfingar og fólk utan flokka, um auðlindir í almannaþágu, um nýja stjórnarskrá, umhverfisvernd, eflingu velferðar, jöfn tækifæri o.fl. o.fl.

Samfylkingin er ávöxtur þróunar og rökrétt er að halda opnum tækifærum til að hún geti þróast áfram. Á þeirri vegferð verður að sýna tillitsemi. Ekki má stranda á nafngiftum. Samfylkingin héldi t.d. vel sóma sínum í flokki sem héti Jafnaðarmannaflokkur Íslands.

Gífuryrði.

Það er eðlilegt að fólki sýnist sitt hvað um framtíðarsýn Magnúsar Orra og ræði það.  En afar ómakleg ummæli Ólínu Þorvarðardóttur í fjölmiðlum, gefa þó tilefni til að skoða aðdraganda og tilurð Samfylkingarinnar.

Fyrirsögnin um skrif Ólínu Þorvarðardóttur í fjölmiðlum var:  “Ólína biðst vægðar gegn sjálfsmorðsárásum örvæntingarfullra formannsframbjóðenda.”

Þar skrifar hún um „karlpeninginn“ í Samfylkingunni, sem boðar dauða flokksins nema hann fái að ráða honum.  Hún skrifar þar um, að flokkurinn geti dafnað vel fái hann frið fyrir fólki með þeirra hugarfar.

Ætli ráðið til að fá frið fyrir „karlpeningnum“ í Samfylkingunni sé þá að breyta henni í Kvennalista?

Þróun samfylkingar félagshyggjufólks.

Haustið 1989 voru viðræður milli fólks úr Alþýðubandalaginu og Alþýðuflokknum um að sameinast í framboði til borgarstjórnar Reykjavíkur. Ekki náðist eining í Alþýðubandalaginu, en öflugur hópur undir forystu Kristínar Ólafsdóttur, borgarfulltrúa og Margrétar Björnsdóttur og fleiri jafnaðarmanna í Alþýðubandalaginu ákvað að bjóða fram undir heitinu Nýr Vettvangur.  Það var forsenda fyrir framboðinu að Alþýðuflokkurinn yrði ekki formlegur aðili að því. Þá tók Alþýðuflokkurinn þá djörfu ákvörðun, í fyrsta sinn frá stofnun hans, að bjóða ekki fram eigin lista til borgarstjórnar. Hann gaf af sínu og lýsti yfir stuðningi við Nýjan Vettvang.

Enginn sakaði forustu Alþýðuflokksins um sjálfsmorðsárás.  Enginn sagði þá um félaga sína, – einsog Ólína nú: “Flokkurinn á alla möguleika á því að dafna vel fái hann frið fyrir fólki með þetta hugarfar.“

Enginn lýsti því sem “sjálfsmorðsárásum örvæntingafullra frambjóðenda”. Enginn sagði þá að “karlpeningurinn” í Alþýðuflokknum  “kepptist við að boða dauða flokksins nema þeir fái að stjórna honum.”

Gráglettni.

Við röðun á framboðslista Nýs Vettvangs var svo viðhaft opið prófkjör. Í efsta sæti listans lenti þekkt fréttakona í sjónvarpinu. Ólína Þorvarðardóttir. Hún var óflokksbundin.  Varaformaður Alþýðuflokksins Jóhanna Sigurðardóttir hvatti svo flokksfólk mjög að kjósa óflokksbundna manneskju.

Líklega er það skáldleg gráglettni örlaganna að tilvitnuð gífuryrði hér að ofan eru öll fengin úr skrifum Ólínu Þorvarðardóttur, sem hún birti vegna hugmynda Magnúsar Orra um að þróa Samfylkinguna áfram á nýjum vettvangi jafnaðarmanna.

Var R-listinn sjálfsmorðsárás?

  Árið 1994  ákváðu félagshyggjuflokkarnir þrír í Reykjavík plús Kvennalistinn að sameinast í einu framboði, R-listanum.  Líklega er tími R-listans árangursríkasta skeiðið í samstarfi félagshyggjuaflanna í landinu. Myndi Ólína kalla stofnun hans sjálfsmorðsárás? Varla. Árið 1994 varð einnig sá afdrifaríki atburður í sundrungarsögu félagshyggjuflokkanna að einn þeirra, Alþýðuflokkurinn, var klofinn.  Jóhanna Sigurðardóttir, Ólína Þorvarðardóttir og fleiri góðir jafnaðarmenn stofnuðu Þjóðvaka eftir að Jóhanna Sigurðardóttir tapaði formannskjöri í Alþýðuflokknum.   Þá hefði verið hægt að snúa fyrrgreindum ummælum Ólínu um Magnús Orra upp á hana sjálfa, og tala um  “kvenpening,  sem keppist við að boða dauða flokksins nema þær fái að stjórna honum”. – Klofningur Alþýðuflokksins leiddi af sér stjórn Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar, sem stóð í fjórtán ár, með þekktum afleiðingum.

Stórt skref-  en ekki lokaskref.

Árið 1999 ákváðu Alþýðubandalagið, Alþýðuflokkurinn, Samtök um kvennalista og Þjóðvaki að mynda kosningabandalag, sem síðar yrði flokkur. Kosningabandalagið var kallað samfylkingin. Engin var sakaður um sjálfsmorðsárás. Markmið samfylkingarinnar var að ná öllum þessum flokkum í eina hreyfingu. Það gekk að mestu leyti eftir utan þó að Alþýðubandalagið klofnaði. Úr þeim klofningi varð til stjórnmálaflokkur, Vinstri-Græn.

Það á ekki að vera ámælisvert að kynna það sem markmið, eins og Magnús Orri, að jafnaðarmenn þessara flokka og aðrir geti mæst sem jafningjar í einum samtökum.

Þau gætu t.d. heitið Jafnaðarmannaflokkur Íslands.

Núvitund er nauðsynleg.

Ég hef hér að framan stiklað á nokkrum atriðum sem varða breytingar á starfsháttum félagshyggjuflokkanna á Íslandi.  Lifandi samfélög taka breytingum. Stjórnmálahreyfingar mega ekki staðna. Þær verða að geta lagað starfshætti sína og skipulag að breyttum samfélögum. Það er kjarni lýðræðisjafnaðarmanna, að geta það og gera það, án þess að grunnkenningin: “ég á að gæta bróður míns” breytist.

Birgir Dýrfjörð. Höfundur situr í flokksstjórn Samfylkingarinnar.

 

Mánudagur 16.1.2012 - 16:15 - Ummæli ()

Jólasýning Þjóðleikhússins

Enginn íslenskur rithöfundur á síðustu öld stenst samjöfnun við Halldór Laxness. Þekking hans og innsæi, dirfska, orðvísi og víð veraldarsýn tekur öðru fram. Hann var skáld minnar kynslóðar, en virðist síður höfða til ungu kynslóðarinnar, a.m.k. ekki þess hluta hennar sem alinn er upp við sýndarveruleika bandarískra kvikmynda. Ef til vill væri ástæða til þess að kynna ungu kynslóðinni enn frekar heim Halldórs Laxness til þess auka henni gagnrýni og opna henni víðari sýn. Ein leiðin til þess er að flytja verk hans á leiksviði eins og Þjóðleikhúsið hefur gert áratugum saman, síðast með eftirminnilegri uppfærslu á Íslandsklukkunni, sérstæðri sýningu á Gerplu og nú með áhrifamikilli sýningu á sögu Ólafs Kárasonar.

Það er ekki vandalaust að koma mikilfenglegum fjórleik Halldórs Laxness um skáldið Ólaf Kárason til skila í einni leiksýningu. Þetta mikla verk fjallar um lífið og ástina, um manninn og guð, um kúgun, svik og ánauð og um vonina, fegurðina og kærleikann og hinn breyska og vanmáttuga einstakling og baráttu hans fyrir réttlæti og góðvild. Aðalpersónan, Ólafur Kárason – skáldið sem ber heiminn á herðum sér – hefur sterka skírskotun til Krists, ljóss heimsins, mannssonarins sem ber allar syndir heimsins og á móður en engan föður – nema föðurinn á himnum.

Kjartani Ragnarssyni hefur ásamt leikurum, leikmyndasmiðum, ljósa- og búningahönnuðum og öðru hæfu starfsfólki sínu tekist að gera sýningu þar sem orðlist Halldórs Laxness nýtur sín og kjarni fjórleiksins kemur fram, vanmáttug barátta mannsins fyrir réttlæti og jöfnuði, þráin eftir ást og leitin að guði. Með þessari sýningu hefur Kjartan Ragnarsson enn einu sinni sýnt listræna hæfni sína og sýning hans ber vitni um að við eigum góða leikara og Þjóðleikhúsið hefur enn einu sinni gegnt því meginhlutverki sínu sem musteri íslenskrar tungu að sinna íslenskum skáldskap og íslenskum leikverkum. Vonandi verður þessi sýning til þess að opna augu ungu kynslóðarinnar fyrir mikilfengleik íslenskra bókmennta – og þá ekki sýst mikilverðu hlutverki Halldórs Laxness sem rithöfundar.

Föstudagur 6.1.2012 - 12:19 - Ummæli ()

Skömm Ríkisútvarpsins

Áramótaskaup Ríkisútvarpsins var eins og við var að búast grátt gaman, þar sem á einstaka stað var slegið á létta strengi, en einkum níðst á fólki og óþverrabrandarar hafðir í fyrirúmi. Hefur öllu skammotað aftur síðan Stefán Jónsson, Flosi og Jón Múli skemmtu með léttri gamansemi sinni.

Af öllu aumu í Áramótaskaupi Ríkisúvarpsins frá upphafi voru þessi orð þó verst: „Við [Norðmenn] tökum þó ekki ábyrgð á innfæddum sinnissjúkum karlmönnum á miðjum aldri sem skjóta þig og/eða sprengja húsið þitt með áburðarsprengjum.”

Nú veit ég, að Páll Magnússon útvarpsstjóri biðst ekki afsökunar á þessum orðum. Hann biðst aldrei afsökunar á neinum afglöpun sínum né starfsmanna sinna. Hins vegar vil ég fyrir hans hönd og sem gamall starfsmaður Ríkisútvarpsins biðja frændur okkar og vini Norðmenn afsökunar á þessum orðum. Þetta áttu þeir ekki skilið eftir mestu hörmungar sem yfir norsku þjóðina hafa dunið á friðartímum.

Hafi Ríkisútvarpið skömm fyrir.

Þriðjudagur 3.1.2012 - 16:18 - Ummæli ()

Gráir fyrir járnum á Gaza

Nú stendur Ísraelsher grár fyrir járnum og segist tilbúinn að hefja nýtt jólagereyðingarstríð á Gaza-ströndinni.

Ég sé hvergi skrifað um þetta á íslenskum fréttasíðum sem eru uppteknar af þyngd Ásdísar Ránar, túrtappaauglýsingum og öðru yndisefni sínu.

Nú erum við nýbúin að  viðurkenna ríki Palestínumanna. Ég sakna þess að heyra ekki mótmælaraddir við blygðunarlausum hótunum ísraelska hersins um yfirvofandi múgmorð á saklausu fólki og eyðileggingu. Ljóst er að þeir þykjast geta farið sínu fram, óhræddir við linkuna Óbama, en þrátt fyrir að hafa  orðið uppvísir að margvíslegum stríðsglæpum í jóladrápunum 2008 hafa þeir í engu verið látnir svara fyrir glæpi sína.

Ég skora á Íslendinga að mótmæla kröftuglega fyrirhugaðari árás eins öflugasta herveldis Jarðar á eitt þéttbýlasta svæði hennar til drápa og limlestinga á saklausum borgurum, konum og börnum.

Utanrískisráðherra ætti að senda kröftug mótmæli til ríkisstjórnar Ísraels, USA og einnig til Evrópusambandsins og það strax, áður en þessi nýjasta útrýmingarherferð Ísraelsmanna hefst!

Mánudagur 2.1.2012 - 18:16 - Ummæli ()

Sameiningartákn þjóðar

Ólafur Ragnar Grímsson er mikilhæfur stjórnmálamaður og verður talinn meðal svipmestu stjórnmálamanna lýðveldistímans. Hann getur brugðið sér í mörg líki og látið með eindæmum ólíkindalega og komið andstæðingum sínum á óvart, eins og slyngum stjórnmálamönnum er tamt. Flestir túlka óljós orð hans í áramótaávarpinu á nýársdag á þann veg, að hann muni ekki bjóða sig fram til forseta að nýju. Hins vegar má eins vel túlka þau á þann veg, að ef á hann verði skorað, muni hann svara kalli. Litlar líkur eru hins vegar á því að á hann verði skorað. Nú er nóg komið af Ólafi Ragnari Grímssyni sem forseta Íslands.

Orð hans í Kryddsíldinni á gamlársdag vöktu mér furðu – komu mér á óvart, þegar hann talaði um þá „kenningu manna” að forsetaembættið væri sameiningartákn, enda vissi hann ekki til að neitt sambærilegt orð væri til í öðrum málum um þjóðhöfðingja, og væri þetta séríslenskt fyrirbæri og kenningin búin til af þeim sem vilja „koma böndum á forsetann”.

Stundum hendir það mælska menn sem ástunda málskrúð eða lýðskrum og eru blindaðir af eigin ágæti að vita ekki hvað þeir segja af því að þeir þurfa ekki að hugsa áður en þeir tala. Til er saga austan af fjörðum um mælskasta verkalýðsleiðtoga kalda stríðsins sem í miðri hvatningarræðu stansaði við og mæli: „Hvurn andskotann er ég eiginlega að segja?” Svo gekk hann úr ræðustól.

En aftur að kenningunni um þjóðhöfðingja sem sameiningartákn. Fjölmargir þjóðhöfðingjar hafa orðið þjóð sinni sameiningartákn bæði fyrr og síðar. Í síðari heimstyrjöldinni varð Hákon sjöundi Noregskonungur sameiningartákn norsku þjóðarinnar, raunar á sama hátt og Kristján tíundi Danakonungur, bróðir hans, afi Margrétar annarrar Danadrottningar. Þegar Hákon sjöundi var sjötugur, hinn 3. ágúst 1942, var hann landflótta í Lundúnum. Þúsundir Norðmanna og Englendinga tóku þátt í hyllingargöngu í Hyde Park og konungur talaði til 5000 Norðmanna í Albert Hall. Vakti þessi atburður athygli hins frjálsa heims og varð milljónum manna hvatning til þess að berjast gegn kúgunaröflunum. Heima í Noregi báru frjálsir Norðmenn blóm í hnappagatinu þennan dag til heiðurs konungi sínum.

Í Danmörku situr Margrét önnur Danadrottning á friðastól og er lýsandi sameiningartákn einnar fremstu menningarþjóðar í heimi. Á gamlársdag flutti hún fertugasta gamlársdagsávarp sitt. Danskir fjölmiðlar hafa síðan fjallað um drottningu sína sem sameiningartákn og skrifa m.a. um ræðuna: „Talen favner alle, berører alle og inkluderer alle, så vi alle sammen føler os lidt mere danske, når dronningen har sagt Gud bevare Danmark, og vagterne foran Amalienborg genindtager skærmen.
”

Ef þetta eru ekki dæmi um sameiningartákn meðal annarra þjóða, veit ég ekki hvað sameiningartákn er.

Föstudagur 23.12.2011 - 13:39 - Ummæli ()

Hafnarfjarðarbær ekki féflettur. Svar við grein Karls Garðarssonar.

Í Fréttablaðinu 21. desember birtist greinin „Hafnarfjarðarbær féflettur – og öllum er sama“ eftir Karl Garðarsson. Karli er þakkað fyrir að opna mjög þarfa umræðu, en þó eru nokkur atriði varðandi aðkomu embættis byggingarfulltrúa sem ástæða er til að leiðrétta, og jafnframt að minnast á ábyrgð byggingarstjóra í þessu máli.

Karl fjallar um skort á réttri skráningu byggingarstigs fasteigna, sem er grundvöllur álagningar fasteignagjalda. Þar sem hús sem flutt er inn í séu enn skráð sem fokheld, innheimtist aðeins hluti lögboðinna fasteignagjalda af þeim. Karl fullyrðir síðan að ekkert sé gert í málinu og að lítið sem ekkert eftirlit hafi verið með því að fasteignamat sé rétt skráð í bænum. Bæjaryfirvöld hafi ekkert gert í málinu svo árum skipti, en hafi loks vaknað af „Þyrnirósarsvefni“.

Ég upplýsti Karl um nokkur atriði í símtali, m.a. að þetta ástand væri afrakstur þenslunnar, og að bærinn hafi byggst það hratt upp og framkvæmdir verið það miklar að ógerningur hafi verið að fylgja þessum málum eftir. Á árunum 2003 – 2007 voru stundum samþykkt 10 – 15 byggingarleyfi á viku og eftirlitsmenn náðu rétt að hlaupa á milli húsa í úttektum. Á árinu 2007 voru byggingarleyfin t.a.m. um 250 talsins. Í aðdraganda hrunsins fór að hægja á þessu, og jafnframt fóru eftirköst þenslunnar að koma í ljós. Meðal þess var að einstaka byggingarstjórar höfðu látið undir höfuð leggjast að óska eftir úttektum sem er lögboðin skylda þeirra. Þetta á þó alls ekki við um alla byggingarstjóra. Meðal þessa voru fokheldisúttektir og lokaúttektir, sem mynda grunn fyrir rétta skráningu húsnæðisins. Dæmi voru jafnvel um það að hús væru skráð á byggingarstigi 1, sem þýðir aðeins að byggingarleyfi hafi verið gefið út, þó svo að húsin væru fullbyggð og fólk flutt inn í þau. Það gefur aðeins 10% af fullu fasteignamati. Við brugðumst strax við þessu og frá og með árinu 2008 höfum við verið að krefja byggingarstjóra iðnaðarhúsnæðis og fjölbýlishúsa um fokheldisúttektir og lokaúttektir, sem er forsenda þess að færa byggingarstig upp og þarmeð innheimta full fasteignagjöld. Þ.e. færa húsnæði af byggingarstigi 4 (fokhhelt) sem gefur 50% af fullu fasteignamati og upp á byggingarstig 7 (fullbúið) sem gefur fullt fasteignamat.

Samkvæmt eldri skipulags- og byggingarlögum voru úrræði okkar fram til ársins 2010 að beita dagsektum til að fá byggingarstjórana sjálfa til að sækja um lokaúttekt og þurfti það allt að fara gegnum skipulags- og byggingarráð og síðan bæjarstjórn, sem tók ærinn tíma. Með nýjum mannvirkjalögum, sem tóku gildi 1. janúar 2010 getur byggingarfulltrúi boðað lokaúttekt og ef byggingarstjóri mætir ekki, sett á hann dagsektir, allt án milliliða.

Á þessu tímabili höfum við verið með 130 slík eftirrekstrarmál í gangi og árangurinn hefur verið að á árunum 2009 og 2010 skilaði þetta 50 fokheldisúttektum íbúðarhúsa með 240 íbúðum og um 50 fokheldisúttektum á atvinnuhúsnæði. Lokaúttektir voru álíka margar, en lokatölur þessa árs liggja enn ekki fyrir. Þar með hafa umtalsverð fasteignagjöld skilað sér.

Þar með er ekki öll sagan sögð hvað varðar fasteignagjöldin. Nú er það svo, að hafi lokaúttekt ekki farið fram, en húsið teljist fullbúið, færir Þjóðskrá (Fasteignamat ríkisins) matsstig húsanna upp í matsstig 8, sem þýðir að 95% af fullu fasteignagjaldi eru innheimt. Karl tekur sérstaklega upp skráningu einbýlishúsa. Því miður er það oftast svo að ekki er gerð lokaúttekt á einbýlishúsum og liggja til þess ýmsar ástæður, einkum þær að eigendur ljúka oft við hús sín án aðkomu byggingarstjóra. Fjöldi slíkra mála er slíkur að ógerningur er að sinna þeim, enda eru flest þessara húsa með matsstig 8 og skila þ.a.l. 95% fasteignagjalda. Hér er því ekki um það tekjutap eða mismunun íbúa að ræða sem Karl heldur fram. Það er því mjög villandi að benda á að fjöldi húsa sé á byggingarstigi 4 og fasteignagjöld skili sér ekki þess vegna, þar sem í flestum tilvikum er matsstigið 8.

Þetta fékk Karl allt upplýst, en fjallar ekki um í grein sinni. Því skal þó ekki mótmælt að full þörf er á að taka betur til í þessum skráningarmálum og yfirliti yfir þau. Best væri að fara um bæinn og gera fullkomna úttekt á þessu, eins og Karl bendir réttilega á. Því skal þó bætt við að þar þarf að fara að lögum, en þess munu dæmi, að sveitarfélög skrái byggingarstig 7 án þess að lokaúttekt hafi farið fram. Slíkt gerum við ekki í Hafnarfirði.