Föstudagur 14.7.2017 - 12:45 - Ummæli ()

Skattahækkanir

Orðið á götunni er að stemningin hafi verið orðin heldur súr innan Sjálfstæðisflokksins með stjórnarsamstarfið og yfirlýsingar tveggja ráðherra Viðreisnar, sem boða beinar skattahækkanir, hafi gert ástandið miklu verra.

Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra boðaði í vikunni að tollar og gjöld á díselolíu verði hækkuð til að jafna stöðu þess eldsneytisgjafa gagnvart bensíni. Auðvitað datt honum ekki í hug að lækka gjöldin á bensínið til að jafna stöðuna.

Útvarpsgjald er hækkað, þótt einkareknir fjölmiðlar eigi allir í vök að verjast. Og nú er tilkynnt um stórhækkun veiðigjalda á útgerðina og miðað við afkomuna árið 2015, enda þótt allir viti að gengisbreytingar síðan hafi gjörbreytt rekstrarumhverfinu í sjávarútvegi.

Stutt er síðan kynnt voru áform um hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustu, þvert á gefin loforð.

Á sama tíma er orðið ljóst að ríkisstjórnin ætlar ekki að standa við loforð til fyrirtækjanna í landinu um að lækka tryggingagjaldið, þótt atvinnuleysi sé nánast ekki neitt.

Á sínum tíma var ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar kölluð sú hægri sinnaðasta í lýðveldissögunni. Ekkert bendir til þess að það sé rétt. Ríkisstjórn sem hækkar bara álögur á einstaklinga og fyrirtæki og stendur ekki við gefin fyrirheit um skattalækkanir er bara gamaldags vinstri stjórn.

Hvað er Bjarni Benediktsson að gera sem forsætisráðherra í slíkri ríkisstjórn? Ætlar hann að láta þetta yfir sig og Sjálfstæðisflokkinn ganga?

Ertu með athyglisverða ábendingu?
Sendu okkur póst á ordid@eyjan.is - fyllsta trúnaðar gætt.
Fimmtudagur 6.7.2017 - 11:14 - Ummæli ()

Stjórnskipulegt uppnám

Orðið á götunni er að hinn geysivinsæli forseti okkar hafi sannarlega fundið fyrir því undanfarna daga, að það geti verið kalt á toppnum.

Hann hefur á stuttum tíma blandast inn í tvö ákaflega umdeild mál, annars vegar uppreist æru fyrir lögmann sem dæmdur hefur verið fyrir ítrekað barnaníð, og hins vegar með því að skrifa undir fimmtán skipunarbréf dómara við hinn nýja Landsrétt.

Guðni Th. Jóhannesson nýtur þess að vera enn nýr í embætti, þótt hann eigi auðvitað að teljast sem fræðimaður einn mesti sérfræðingur þjóðarinnar á þessu sviði. En engum duldist að hann átti erfitt á dögunum er hann færði fyrst rök fyrir ákveðinni rannsóknarskyldu sinni í dómaramálinu og lét ráðuneyti og Alþingi svara tilteknum spurningum um málsmeðferð áður en hann skrifaði undir, en svo þegar kom að því að færa rök fyrir uppreist æru fyrir dæmdan barnaníðing, sem hefur tekið út dóm fyrir brot sín og vill nú hefja lögmennsku á ný, greip forsetinn til þess ráðs að benda á ráðuneytið og venjir og hefðir og undirstrika að forsetinn væri í raun ábyrgðarlaus af stjórnarathöfnum.

Óhætt er að segja að ýmsum innan stjórnkerfisins hafi verið heldur skemmt yfir þessum ósamrýmanlegu yfirlýsingum forsetans á örfáum dögum, því kerfið gleymir engu og margir innan þess kunna forsetanum enn litlar þakkir fyrir viðbrögð hans við úrskurði Kjararáðs.

Orðið á götunni er að rökstuðning setts ríkislögmanns í máli Ástráðs Haraldssonar hrl. gegn dómsmálaráðherra og íslenska ríkinu vegna landsréttarmálsins beri ef til vill að skoða í því ljósi. Svo er nefnilega að sjá, að ríkislögmaður fríi ráðherra og Alþingi af ábyrgð sinni og bendi bara á forsetann, sem hafi farið með hið endanlega vald í málinu.

Svanur Kristjánsson, prófessor emeritus í stjórnmálafræði, vekur athygli á þessu í grein í Fréttablaðinu í dag og segir:

Í nauðvörn er gripið til splunkunýrrar túlkunar á stjórnskipun Íslands: „Dómsmálaráðherra bar ekki ábyrgð á skipun dómara í Landsrétt – ákvörðun um hverjir yrðu dómarar var Alþingis og endanlegt skipunarvald í höndum forseta Íslands. Þetta segir í greinargerð íslenska ríkisins í máli sem einn umsækjendanna um stöðu dómara höfðaði.“ (Frétt RÚV 3. júlí 2017.)

Árið 2004 taldi sem sagt einn ráðherra Sjálfstæðisflokksins að forseti Íslands væri með öllu valdalaus. 2017 kemur svo annar ráðherra sama flokks og telur að Ísland sé ennþá konungsríki þar sem forseti Íslands fari með skipunarvald, ráði að vild hverjir verða dómarar og hverjir ekki. Dómsmálaráðherra sé hins vegar ábyrgðarlaus á slíkum stjórnarathöfnum. Samkvæmt túlkun dómsmálaráðherra ætti kæra vegna skipunar dómara að beinast að hinum raunverulega handhafa, forseta Íslands, en ekki að valdlausa ráðherranum.

Svo mörg voru þau orð. Orðið á götunni er að forseta Íslands geti ekki verið skemmt að vera stillt fremstum fram í umdeildri málsvörn dómsmálaráðherra í máli sem allt eins er líklegt til að tapast. Ekki er ólíklegt að hann noti fljótlega tækifærið og skilgreini sína sýn á embættið og stöðu forsetans nú þegar hann hefur gegnt því í eitt ár. Eitt er að skrifa bækur um hlutina, annað er að verða umfjöllunarefnið sjálfur.

Að skrifa um forseta eða vera forseti, er nefnilega eins og maðurinn sagði, allt annar handleggur.

Ertu með athyglisverða ábendingu?
Sendu okkur póst á ordid@eyjan.is - fyllsta trúnaðar gætt.
Föstudagur 23.6.2017 - 14:22 - Ummæli ()

Þjóðarsálin

Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra og formaður Viðreisnar.

Orðið á götunni er að ríkisstjórnin hefði getað sparað sér ómælda orku með því að beita aðeins ofurlítilli almennri skynsemi áður en farið var í að kynna hugmyndir tveggja starfshópa um aðgerðir gegn skattsvikum í gær.

Tillögurnar vöktu strax mikla athygli, enda tilkynnti Benedikt Jóhannesson glaðbeittur að þeim yrði ekki stungið ofan í skúffu, heldur ættu þær strax að verða að veruleika.

Á fundi sem blaðamönnum sem hann boðaði til, komu fram áform um draga markvisst úr notkun reiðufjár, verslunum verði einungis heimilt að taka við rafrænum greiðslum, og vinnuveitendum skylt að greiða laun rafrænt. Þá verði 10 þúsund króna seðillinn tekinn úr umferð og 5 þúsund króna seðillinn hverfi í kjölfarið.

„Hverjir eru það sem eru með alla þessa tíu þúsund kalla,“  sagði fjármálaráðherra í fréttum Ríkisútvarpsins í gær. Og hann bætti við: „Með því að minnka seðlanna sem eru í umferð þá verður óþægilegra að nota þá. En meira máli skiptir hitt að laun séu greidd rafrænt inn á bankareikninga og hitt atriðið, að það sé ákveðið hámark á því hvað megi borga mikið í reiðufé.“

Það var og.

En það var bara eitt smá vandamál. Samflokksmenn hans í Viðreisn og aðrir í stjórnarliðinu komu af fjöllum, könnuðust ekkert við málið og hörð andstaða varð strax ljós. Samskiptamiðlar loguðu og ljóst varð um leið að þessar hugmyndir væru algjörlega andvana fæddar.

Enda tók Bjarni Benediktsson forsætisráðherra af öll tvímæli um það eftir ríkisstjórnarfund á morgun og sagðist ekki hrifinn af þessum tillögum.

Orðrétt sagði Bjarni:

„Nei mér líst ekki á það. Og mér finnst þetta ekki raunhæfar tillögur.“

Þar með þarf varla að ræða þetta mál frekar. Eftir stendur laskaður fjármálaráðherra og flokkur hans Viðreisn. Í herbúðum Bjartrar framtíðar var uppi mikil gremja í gær vegna þessa máls. Og sjálfstæðismenn kepptust við af afneita þessu með öllu.

En tíu þúsund kallinn mun áfram lifa góðu lífi. Óhætt er að segja að hann hafi unnið þessa lotu, ekki fjármálaráðherrann.

Og stjórnmálamennirnir okkar verða að kunna betur að lesa í þjóðarsálina. Það er lykilatriði.

 

Ertu með athyglisverða ábendingu?
Sendu okkur póst á ordid@eyjan.is - fyllsta trúnaðar gætt.
Miðvikudagur 21.6.2017 - 11:38 - Ummæli ()

Stofnandinn settur af?

Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra og formaður Viðreisnar.

Orðið á götunni er að sífellt minnkandi fylgi ríkisstjórnarinnar sé forystumönnum stjórnarflokkanna umtalsvert áhyggjuefni, ekki síst formanna Viðreisnar og Bjartrar framtíðar. Ný könnun MMR sýnir ótrúlega lítinn stuðning við stjórn sem er nánast nýtekin við völdum og þá virðast Viðreisn og Björt framtíð hreinlega við það að þurrkast út.

Og það eru sannarlega ekki bara formennirnir Benedikt Jóhannesson og Óttarr Proppé sem hafa áhyggjur. Innan raða beggja flokka ræða menn nú sín á milli hvernig hægt sé að bregðast við. Og í tilfelli Viðreisnar vekur athygli, að spjótin beinast mjög að formanninum Benedikt sem stofnaði þó flokkinn aðeins fyrir fáeinum misserum síðan.

Benedikt hefur átt mjög traust bakland innan tiltekins hluta viðskiptalífsins. Þekkt er að formleg stofnun flokksins drógst mjög á langinn í þeim tilgangi að safna eins miklu fjármagni í sjóði hans og kostur væri, áður en hann yrði formlega að stjórnmálaflokki og lyti þá lögum og reglum um hámarkshæð styrkja. Þetta bakland, sem menn á borð við Helga Magnússon í Málningu, hafa farið fyrir, eru nú orðnir mjög efins um að hægt sé að halda áfram með óbreytta forystu. Fjárfestirinn Jónas Hagan hefur líka verið áberandi í þessum hópi.

Þeir félagar, sem eru snjallir og ákveðnir í allri sinni málafylgju, höfðu sannarlega ekki þau plön fyrir Viðreisn að verða smáflokkur við það að þurrkast út.

Helgi Magnússon.

Innan raða ferðaþjónustunnar ríkir jafnframt gífurleg reiði út í Benedikt vegna áforma um breytingar á virðisaukaskattskerfinu á sama tíma og krónan hefur styrkst mikið.

Sjónvarpsstöðin Hringbraut og samnefndur vefur hefur lengi verið mjög hliðhollur Benedikt og Viðreisn. Svo mjög að orðið á götunni á tímabili var að Benedikt mundaði þar stundum penna sjálfur og frægt er þegar Sigmundur Ernir Rúnarsson, ritstjóri stöðvarinnar, setti óvart á fésbókina spurningu til Benedikts um hvaða fólk væri sniðugt að fá í tiltekinn þátt.

En nú virðist jafnvel Hringbraut búin að snúa baki við velgjörðarmanni sínum.

Þar birtist í gærkvöldi pistill, sem var reyndar tekinn út skömmu síðar, þar sem fullyrt var að Benedikt yrði að hætta strax sem formaður Viðreisnar. Og í eldri pistli, sem Róbert Trausti Árnason, fv. sendiherra og forsetaritari, skrifar, segir meðal annars:

„Hjarta Dagfara tók innstæðulausan gleðikipp um helgina þegar hann sá fyrirsögn í blöðum sem hljóðaði svona: „Benedikt hættir sem formaður.“

Fyrstu viðbrögðin voru þau að trúa því að Benedikt Jóhannesson væri búinn að átta sig á því að hann þyrfti að láta af formennsku í Viðreisn enda er hann búinn að tapa helmingi fylgisins sem flokkurinn hlaut í kosningum fyrir rúmlega hálfu ári.

Hann ræður ekki við formannshlutverkið.

En þetta var því miður tálsýn. Benedikt er einungis að hætta sem formaður í ósköp meinlausum klúbbi sem heitir Hollvinafélag MR.

Því miður fyrir Viðreisn. En vonandi er hann farinn að gera sér ljóst að Viðreisn á sér ekki viðreisnar von nema skipt verði um karlinn í brúnni sem fyrst því karlinn í brúnni verður að fiska. Þessi karl er ekki að fiska eins og allar skoðanakannanir sýna glögglega.“

Og Róbert Trausti heldur áfram:

Benedikt hefur yfirgefið öll helstu hugsjónamál Viðreisnar og selt kosningaloforð fyrir völd fjármálaráðherra.

Hann er uppteknari af því að auka skatta en að auka fylgi Viðreisnar að nýju. Hann er ófær um að leiða flokkinn.

Fái Viðreisn ekki nýjan formann fljótlega þá bíða flokksins þau örlög að verða einnota eins og hent hefur fjölda flokka á Íslandi.

Viðreisn þarf nýjan formann og nýtt upphaf þar sem hugsjónir og grunngildi flokksins yrðu sett í öndvegi að nýju. Þau eru góð og mikilvæg. Viðreisn á erindi við okkur Íslendinga ef hún heldur stefnu sinni.

Til þess þarf nýjan formann.

Svo mörg voru þau orð. Sagt er að óhugsandi sé að slík orð séu skrifuð í orðastað Dagfara á vef Hringbrautar án þess að menn eins og Helgi Magnússon leggi velþóknun sína yfir þau, enda er hann talinn hafa skrifað flesta pistla undir því heiti um langt skeið.

Benedikt Jóhannesson þarf því að hafa góðar gætur á flokki sínum næstu vikur og mánuði, eigi ekki að fara eins fyrir honum og Guðmundi Steingrímssyni, að stofna sinn eigin flokk og vera svo settur þar af síðar. Fyrstu merki þess að hann skynji aðsteðjandi hættu, er ráðning hans á Ólafíu Rafnsdóttur sem aðstoðarmanni, því hún er sannarlega betri en engin þegar kemur að kosningum og því að sigra þær.

Það er nefnilega ekki mikill tími til stefnu. Vika er langur tími í pólitík og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og hennar fólk er í startholunum að taka við.

Ertu með athyglisverða ábendingu?
Sendu okkur póst á ordid@eyjan.is - fyllsta trúnaðar gætt.
Fimmtudagur 8.6.2017 - 15:26 - Ummæli ()

Eftirlit forseta

Orðið á götunni er að fáum (nema kannski Pírötum) hafi komið á óvart að Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands hafi skrifað í dag undir skipunarbréf fimmtán nýrra dómara við Landsrétt.

Á hinn bóginn hafa margir staldrað við yfirlýsingu forseta, sem hann sendi frá sér þar sem hann skýrði frá undirritun skipunarbréfanna.

Kristrún Heimisdóttir lögfræðingur gerir þetta að umtalsefni á fésbók og bendir á að yfirlýsing forseta Íslands feli í sér nýmæli í meðferð forsetavalds.

„Forseti rannsakar málsatvik og ákveður að Alþingi hafi fylgt lögum á réttan hátt. Þetta virðist vera nýtt úrskurðar- og eftirlitshlutverk og forseti Íslands kveður upp skriflegan rökstuddan dóm,“ segir Kristrún og bendir á að forsetinn segi í úrskurði sínum:

Með hliðsjón af öllum þeim málavöxtum sem hér hafa verið raktir komst ég að þeirri niðurstöðu að mistök hefðu ekki átt sér stað við undirbúning og tilhögun atkvæðagreiðslunnar 1. júní og hún hefði verið í samræmi við lög, þingvenju og þingsköp.

Ertu með athyglisverða ábendingu?
Sendu okkur póst á ordid@eyjan.is - fyllsta trúnaðar gætt.
Mánudagur 5.6.2017 - 19:08 - Ummæli ()

Kosningaútspil

Halldór Halldórsson er oddviti sjálfstæðismanna í borgarstjórn.

Orðið á götunni er að kurr sé í sjálfstæðismönnum með blaðamannafund Dags B. Eggertssonar borgarstjóra og þriggja ráðherra ríkisstjórnarinnar fyrir helgi, þar sem kynnt var útspil ríkis og borgar í húsnæðismálum.

Meirihlutinn í borginni hefur verið í töluverðri vörn í húsnæðismálunum og sjálfstæðismenn í borgarstjórn sótt nokkuð í sig veðrið að undanförnu. Það kom því mörgum á óvart að ríkisstjórnin skyldi óvænt kynna samstarf við borgarstjórn á þessum tímapunkti.

Athygli vakti að enginn ráðherra úr Sjálfstæðisflokknum var á staðnum, en þeir Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra og Þorsteinn Víglundsson úr Viðreisn voru mættir ásamt Björt Ólafsdóttur úr Bjartri framtíð.

Ekki er enn ljóst hvort Viðreisn og Björt framtíð bjóða fram í næstu borgarstjórnarkosningum. Björt framtíð tilheyrir nú meirihlutanum að baki borgarstjóra, en Viðreisn var ekki til þegar síðast var boðið fram.

Innan Sjálfstæðisflokksins telja margir að útspilið fyrir helgi tengist mögulega sameiginlegu framboði Samfylkingar, Bjartrar framtíðar og Viðreisnar í komandi kosningum eða kosningabandalagi þessara þriggja flokka.

Innan Samfylkingarinnar hafa menn hins vegar áhyggjur af því að óvinsældir ríkisstjórnarinnar smitist yfir á meirihlutann í borginni, ekki síst vegna stöðunnar í heilbrigðismálum þar sem borgarfulltrúinn fyrrverandi, Óttarr Proppé, ræður ríkjum. Jafnframt er bent á að Benedikt Jóhannesson leggi sem formaður Viðreisnar og fjármálaráðherra sín fyrstu fjárlög í haust og þau verði að líkindum harkalega gagnrýnd á kosningavetri.

Orðið á götunni er að Halldór hafi átt sterkan leik í kvöldfréttum RÚV í gær, þar sem hann var spurður um þessi tíðindi.

Halldór svaraði:

„Það er verið að tala um 2.000 íbúðir þarna, þær bætast þá við allar þúsundirnar sem eru í glærunum hans Dags B. Eggertssonar, borgarstjóra. Fólk hefur ekki getað flutt inn í þær glærur ennþá þannig að því miður bætist þetta bara þar við.“

Ertu með athyglisverða ábendingu?
Sendu okkur póst á ordid@eyjan.is - fyllsta trúnaðar gætt.
Fimmtudagur 1.6.2017 - 10:12 - Ummæli ()

Í alvöru Finnur?

Orðið á götunni er að Finnur Árnason, forstjóri Haga, hljóti að bregðast við fréttaflutningi Viðskiptablaðsins í dag og varpa ljósi á ásakanir sem þar koma fram, um að nokkrum íslenskum framleiðendum hafi borist þau skilaboð frá Högum að ef þeir hyggist selja vörur sínar í Costco þá verði þær teknar úr hillum verslana Bónuss og Hagkaupa.

Hagar er stærsta verslunarfyrirtæki landsins, stærstu eigendur þess eru lífeyrissjóðirnir — okkar sameiginlegu sjóðir. Innkoma Costco er gríðarleg kjarabót fyrir almenning í landinu og það er algjörlega óásættanlegt að stærsti verslunarrisinn sem fyrir er, beiti hótunum þegar hann stendur loksins frammi fyrir alvöru samkeppni.

Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, getur ekki látið sem ekkert sé yfir svona fréttaflutningi. Hann hlýtur að setja þegar í stað rannsókn í gang á viðskiptaháttum Haga.

Það er svo kaldhæðnislegt, að Finnur Árnason hefur árum saman talað fyrir auknu viðskiptafrelsi á opinberum vettvangi og kallað eftir margskonar breytingum. Einkum hefur Finnur verið duglegur að kenna bændum um hátt vöruverð og landbúnaðarkerfinu. Aukin umsvif fyrirtækisins sem hann stjórnar, hafa orðið til þess að ýmsir minni aðilar hafa lagt upp laupana.

En svo kemur stór erlendur aðili inn á íslenska fákeppnismarkaðinn. Og eru viðbrögð stjórnenda Haga þá í alvöru þau að hóta innlendum framleiðendum og birgjum?

Í alvöru Finnur?

 

Ertu með athyglisverða ábendingu?
Sendu okkur póst á ordid@eyjan.is - fyllsta trúnaðar gætt.
Föstudagur 26.5.2017 - 11:09 - Ummæli ()

Kosningabaráttan er hafin

Borgar Þór Einarsson lögmaður. Er hann á leið í borgarstjórn?

Orðið á götunni er að mikill hugur sé í herbúðum sjálfstæðismanna um þessar mundir. Reykjavíkurþingið um liðna helgi er til marks um það, en andrúmsloftið einkenndist af baráttuvilja, jákvæðni og hugmyndaauðgi.

Brúnaþungir Sjálfstæðismenn vegna ástandsins í Reykjavík hafa nú fyllst vonarneista. Merkja má á mörgum málsmetandi mönnum innan úr herbúðum flokksins að „Reykjavíkurþingið geti verið byrjun á endurheimt meirihluta í borgarstjórn,“ eins og Styrmir Gunnarsson fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins orðaði það á vef sínum, og bætti við: „Það vekur hinum almenna flokksmanni bjartsýni að sjá athafnasemi á borð við þessa í Valhöll.“

Orðið á götunni er að þessi athafnasemi sem Styrmir talar um sé engin tilviljun og að þingið hafi sérstaklega verið haldið til þess að skapa samheldni sem tilfinnanlega hefur skort undanfarin ár. Að skipulagningu þingsins komu mjög svo athafnasamir einstaklingar sem hafa unnið hverjar kosningarnar á fætur annari.

Í því samhengi hafa heyrst nöfn á borð við miðstjórnarmennina Ísak Rúnarsson og Þengil Björnsson. Einnig hefur verið rætt um Sigurð Helga Birgisson, sem nýverið sigraði formannskosningar í félagi sjálfstæðismanna í Nes- og Melahverfi með afgerandi hætti. Þá minntist Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, sérstaklega á Janus Arn Guðmundsson, miðstjórnarmann í Sjálfstæðisflokknum, í ræðu sinni.

Allir eru þessir menn úr innsta hring stuðningskjarna Guðlaugs Þórs, en þær sögusagnir heyrast æ oftar að aðstoðarmaður utanríkisráðherra, Borgar Þór Einarsson lögmaður muni gefa kost á sér í oddvitasætið í Reykjavík á móti Halldóri Halldórssyni, en Halldór hefur átt erfitt uppdráttar meðal sjálfstæðismanna í borginni.

Önnur nöfn sem hafa verið nefnd í því tilliti, eru Gunnar Einarsson bæjarstjóri í Garðabæ og Eyþór Arnalds, fv. borgarfulltrúi.

Borgar Þór er margreyndur í pólitík, leiðtogi Deiglu-armsins svonefnda sem lengi hefur verið ein virkasta hugmyndaveitan, hægra megin við miðju í íslenskum stjórnmálum, og á nú þingmenn bæði úr röðum Sjálfstæðisflokks og Viðreisnar. Þá er hann sonur Ingu Jónu Þórðardóttur fv. oddvita Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn og stjúpsonur Geirs H. Haarde fv. forsætisráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins.

Orðið á götunni er að kosningabarátta Sjálfstæðisflokksins sé hafin. Ljóst þykir að Sjálfstæðisflokkurinn muni láta sverfa til stáls í komandi sveitarstjórnarkosningum og sjái nú meiri tækifæri á sigri en áður í ljósi vandræða á húsnæðismarkaði.

Spurningin stendur þó enn eftir: Hver mun leiða Sjálfstæðisflokkinn í borgarstjórn?

Ertu með athyglisverða ábendingu?
Sendu okkur póst á ordid@eyjan.is - fyllsta trúnaðar gætt.
Þriðjudagur 9.5.2017 - 14:14 - Ummæli ()

Höskuldur aftur í lögmennsku

Höskuldur Þórhallsson fv. alþingismaður.

Orðið á götunni er að Höskuldur Þór Þórhallsson, fyrrverandi alþingismaður, sé genginn til liðs við Íslensku lögfræðistofuna. Fyrir á stofunni eru Haukur Örn Birgisson hrl., Arnar Kormákur Friðriksson hdl., Eggert Páll Ólason hdl. og Ómar Örn Bjarnþórsson hdl. sem eru eigendur stofunnar.

Höskuldur Þór útskrifaðist sem lögfræðingur frá Háskóla Íslands árið 2003 og hlaut réttindi til starfa sem héraðsdómslögmaður árið 2005.

Höskuldur stundaði nám í Evrópurétti og alþjóðlegum einkamálarétti við Háskólann í Lundi í Svíþjóð árið 2001. Hann var aðstoðarmaður dómara við Héraðsdóm Reykjavíkur á árunum 2003 til 2005 og sat í stjórn Stéttarfélags lögfræðinga frá 2004 til 2006. Hann starfaði sem lögmaður á Mörkinni lögmannstofu hf. frá 2005 til 2007 þar sem hann öðlaðist mikla reynslu af málflutningsstörfum og hagsmunagæslu fyrir einstaklinga, fyrirtæki, opinberar stofnanir og sveitarfélög. Höskuldur var einnig stundakennari í viðskiptarétti við Háskólann í Reykjavík frá 2005 til 2007.

Höskuldur sat á Alþingi frá 2007 til 2016 fyrir Norðausturkjördæmi. Á þeim árum sat Höskuldur í fjölmörgum nefndum Alþingis, svo sem menntamálanefnd, umhverfisnefnd, viðskiptanefnd, fjárlaganefnd og svo umhverfis- og samgöngunefnd þar sem hann var formaður. Hann átti einnig sæti í Þingvallanefnd og kjörbréfanefnd Alþingis ásamt stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þingsins. Hann var jafnframt formaður Íslandsdeildar Norðurlandaráðs frá 2013 til 2016 og gegndi stöðu forseta Norðurlandaráðs árið 2015. Undanfarna mánuði hefur Höskuldur starfað sem formaður nefndar á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar sem hefur það verkefni að móta stefnu fyrir Norður-Atlantshafssvæðið. Höskuldur situr jafnframt í eftirlitsnefnd Norræna fjárfestingarbankans (NIB).

 

Ertu með athyglisverða ábendingu?
Sendu okkur póst á ordid@eyjan.is - fyllsta trúnaðar gætt.
Föstudagur 5.5.2017 - 14:37 - Ummæli ()

Lífið er dásamlegt

Orðið á götunni er að lífið sé dásamlegt í pólitíkinni á landi hér. Nú klóra þingmenn og stjórn þingsins sér í höfðinu yfir kosningu í bankaráð Seðlabankans sem Þorsteinn Víglundsson jafnréttisráðherra hefur sagt að eigi að kjósa í aftur vegna kynjamála.

Það verður snúið. Kosningin er gild samkvæmt lögum sem gilda um Seðlabanka Íslands. Því verður bankaráðið hreinlega að segja af sér ef kjósa á nýtt.

Það eru ekki margir leikir í stöðunni, þessir þó helstir verið nefndir:

1) einn karl segi af sér og þingið kjósi konu í hans stað. Þetta er ekki talið hafa á sér nægilega góðan brag, hvorki fyrir ráðið né konuna sem kæmi í karls stað.

2) bankaráð segi allt af sér og verði kosið að nýju, óbreytt nema kona komi inn fyrir einhvern karl. Þetta lúkkar heldur ekki vel sbr. hér að ofan auk þess sem það yrði öðrum bankaráðsmönnum og þinginu til lítils sóma. Þar fyrir utan er ólíklegt að allir bankaráðsmenn séu til í þennan díl. Því er m.a. haldið fram að eini landsbyggðarmaðurinn í bankaráði sé ekki á þeim buxunum að segja af sér til að kona verði kosin í hans stað auk þess sem það yrði einnig til þess að Frosti Sigurjónsson héldi sínu sæti og væri þá nánast bankaráðsmaður í boði Vinstri grænna.

3) samkvæmt lögum um Seðlabankann skal kjósa nýtt bankaráð að loknum kosningum og það sitji þar til nýtt ráð verði kosið, þ.e. að loknum næstu kosningum.

Vænlegasta leiðin til að redda málinu er því að boða til þingskosninga og kjósa svo aftur í bankaráð líkt og kveðið er á um í lögunum.

Síðastnefndi möguleikinn er alls ekki sá ólíklegasti í stöðunni miðað við stemninguna í stjórnarliðinu!

Ertu með athyglisverða ábendingu?
Sendu okkur póst á ordid@eyjan.is - fyllsta trúnaðar gætt.

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is