Fimmtudagur 9.11.2017 - 15:27 - Ummæli ()

Stólaleikurinn að hefjast

Orðið á götunni er að nú þegar Sjálfstæðisflokkurinn stefnir í viðræður með VG og Framsókn, muni Bjarni Benediktsson vera tilbúinn til þess að láta Katrínu Jakobsdóttur eftir forsætisráðuneytið.
Hinsvegar geri hann kröfu um að Sjálfstæðisflokkurinn fái þá þeim mun fleiri ráðuneyti önnur og líklegt telst að hann ásælist fjármála- og efnahagsráðuneytið, innanríkisráðuneytið, atvinnuvega og nýsköpunarráðuneytið, en láti VG og Framsókn eftir velferðaráðuneytið, mennta- og menningarmálaráðuneytið, umhverfis- og auðlindarráðuneytið og utanríkisráðuneytið, sem er líklegt að fari til Framsóknar.

Það er mál manna að þetta gæti verið klókur leikur hjá Bjarna, þar sem almennari sátt gæti náðst um Katrínu Jakobsdóttur meðal almennings og þingsins, en líka vegna þess að Katrín þyrfti þá að taka hitann og þungann ef illa fer, sem virðast örlög flokka sem starfa með Sjálfstæðisflokki í ríkisstjórn.

Með því að bjóða Katrínu forsætisráðherrastólinn gæti Bjarni einnig komist hjá erfiðum málamiðlunum varðandi skattamál og auðlindagjald, nokkuð sem sjálfstæðismönnum hrýs hugur við, en mun vafalaust vera eitt af forgangsmálum VG í stjórnarmyndunarviðræðum.

Líklegt verður að teljast að Sigurður Ingi, formaður Framsóknarflokksins, sætti sig fyllilega við tvö ráðuneyti í besta falli, þó líklegra þyki að flokkurinn fái aðeins eitt ráðuneyti, í ljósi úrslita kosninganna. Þá má heyra á tali Sigurðar Inga, að hann vilji frekar hafa Katrínu sem forsætisráðherra heldur en Bjarna Ben.

Ljóst er þó að hinn sígildi stólaleikur fer senn að hefjast.

Ertu með athyglisverða ábendingu?
Sendu okkur póst á ordid@eyjan.is - fyllsta trúnaðar gætt.
Fimmtudagur 26.10.2017 - 17:50 - Ummæli ()

Lokaskotin

Orðið á götunni er að nú séu í gangi lokaskotin fyrir kosningarnar á laugardag. Stór hluti kjósenda svarar ekki könnunum eða hefur ekki ákveðið hvað á að kjósa. Enn fleiri kjósendur eru svo á báðum áttum með hvað þeir eigi að kjósa, hvort þeir eigi að kjósa taktískt til að koma í veg fyrir að atkvæði sitt falli niður dautt eða til að koma í veg fyrir líklegt ríkisstjórnarsamstarf með einhverjum tilteknum flokki.

Lokaskot rétt fyrir kosningar einkennast helst af því þegar frambjóðandi kemur fram og segir eitthvað nýtt til þess að reyna að sannfæra einhvern tiltekinn hóp.

Birgir Ármannsson í Sjálfstæðisflokki skaut einu slíku lokaskoti í Morgunblaðinu í dag þegar hann biðlaði til þeirra sem hallast að Miðflokknum, Viðreisn, Framsókn eða Flokki fólksins að kjósa frekar Sjálfstæðisflokkinn til þess að tryggja hægristjórn í landinu.

Logi Einarsson í Samfylkingunni skaut á Sjálfstæðisflokkinn og biðlaði til milli- og lágtekjuhópa með tölum um skattaáform Sjálfstæðisflokksins.

Óttarr Proppé í Bjartri framtíð skaut á Sigmund Davíð Gunnlaugsson og Miðflokkinn vegna kunnuglegra loforða Sigmundar um að gefa landsmönnum pening, eða í þessu tilviki eignarhlut í banka.

Sigmundur Davíð í Miðflokknum skaut óbeint á Flokk fólksins með því að ræða um útlendingamálin og biðlaði til kjósenda sem vilja hörð útlendingalög. Skaut hann einnig á Sjálfstæðisflokkinn og Framsóknarflokkinn fyrir að hafa samþykkt núverandi útlendingalög.

Viðskiptablaðið, sem hefur hingað til beint spjótum sínum að vinstrimönnum, skaut svo í dag á Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur formann Viðreisnar og minnti lesendur á kúlulánið sem hrakti hana úr stjórnmálum á sínum tíma. Er þetta skot ekki síst áhugavert þar sem Viðskiptablaðið sjálft hefur kvartað undan því að atburðir frá 2008 séu rifjaðir upp, en ólíkt umfjöllun Stundarinnar sem byggir á áður óbirtum gögnum þá virðist tilgangur Viðskiptablaðsins aðeins vera að rifja upp kúlulánið, sem er sjálfsagt að gera fyrst að um er að ræða stjórnmálamann sem hafnar leyndarhyggju. Hver veit nema Stundin og Reykjavík Media fjalli um mál Þorgerðar Katrínar og eiginmanns hennar ef það leka einhver gögn úr Kaupþingi einn góðan veðurdag.

Magnús Þór Hafsteinsson í Flokki fólksins svaraði skoti Sigmundar Davíðs og biðlaði til þeirra sem vilja hert útlendingalög og talaði um stjórnleysi og „glæpalýð“ sem kæmi hingað undir formerkjum hælisumsókna.

Vésteinn Valgarðsson í Alþýðufylkingunni skýtur á þá sem standa fyrir skoðanakönnunum en Alþýðufylkingin er iðulega flokkuð sem „aðrir flokkar“, það er ekki oft sem það sést stjórnmálamaður sem vill að greint sé frá pilsnerfylgi flokksins síns í fjölmiðlum.

Enn eiga eftir að berast lokaskot frá Viðreisn og Framsóknarflokki en það er heill dagur eftir, fyrir utan þetta myndband frá Framsóknarflokknum sem virðist eiga að höfða til þeirra sem höfðu gaman af kökuskreytingum Bjarna Benediktssonar:

Ertu með athyglisverða ábendingu?
Sendu okkur póst á ordid@eyjan.is - fyllsta trúnaðar gætt.
Þriðjudagur 24.10.2017 - 06:49 - Ummæli ()

Aftur í borgina?

Orðið á götunni er að frambjóðendur Bjartrar framtíðar séu þegar byrjaðir að uppfæra ferilskrána fyrir komandi afhroð á laugardaginn. Flokkurinn mælist varla með fylgi og í nýjustu könnun Félagsvísindastofnunar mældist flokkurinn með fordæmalaust 0,0% fylgi í einu kjördæmi. Þó að könnunin sé ekki fullkomlega marktæk þá eru skilaboðin frá kjósendum alveg skýr.

Það er áhugavert að skoða feril Bjartrar framtíðar síðastliðna 12 mánuði, flokkurinn náði inn á þing í síðustu kosningum með því að hjóla í búvörusamninginn og sameinaðist nánast Viðreisn í stjórnarsamsstarfi við Sjálfstæðisflokkinn. Í ríkisstjórn týndust þingmenn flokksins í ráðuneytunum  á meðan grasrótin hélt heim í sína gömlu flokka. Hrokafull viðbrögð ráðherra flokksins í kjólamálinu alræmda, sem var klæðskerasniðið að Áramótaskaupinu, komu síðan í veg fyrir að Björt framtíð gæti talist trúverðugur flokkur þegar kemur að siðbótum ráðamanna. Flokkurinn reyndi vissulega að endurheimta trúverðugleikann í augum stuðningsmanna sinna með því að slíta stjórnarsamstarfinu en það var einfaldlega of seint, grasrótin og stuðningsfólk Besta flokksins var þegar farið annað. Meira að segja Jón Gnarr sjálfur.

Þó að Björt framtíð hverfi af þingi á laugardaginn þá verður flokkurinn áfram til, a.m.k. fram á næsta vor. Flokkurinn er hluti af meirihluta bæjarstjórna og í borgarstjórn Reykjavíkur. Í viðtali í þættinum Harmageddon ræddi Óttar Proppé formaður Bjartrar framtíðar um stjórnmálin, vakti athygli margra hlustenda þegar hann var spurður um sveitarstjórnarmálin og Óttarr gat hreinlega ekki hamið sig í að ræða málefni Reykjavíkurborgar. Óttarr var hluti af hallarbyltingu Besta flokksins  í ráðhúsinu á sínum tíma og þekkir vel til málefna borgarinnar. Ef Óttarr dettur af þingi á laugardaginn og situr í starfsstjórn fram á næsta ár á meðan greitt er úr yfirvofandi stjórnarkreppu, hver veit nema hann freisti þess þá að fara bara aftur í borgina.

Ertu með athyglisverða ábendingu?
Sendu okkur póst á ordid@eyjan.is - fyllsta trúnaðar gætt.
Fimmtudagur 19.10.2017 - 18:11 - Ummæli ()

Frambjóðendur á nálum

Það yrðu stór pólitísk tíðindi ef forseti Alþingis og varaformaður Framsóknarflokksins dyttu af þingi.

Orðið á götunni er að frambjóðendur til Alþingis geti ekki beðið eftir að sjá nýja skoðanakönnun sem sýni fylgi flokka skipt milli kjördæma. Rúm vika er til kosninga og þó að vika sé vissulega löng í pólitík þá er lítið svigrúm á endasprettinum til að koma boðskap á framfæri nema það angi af örvæntingu. Margir áberandi þingmenn eiga á hættu að missa þingsæti sitt, þar á meðal forseti Alþingis Unnur Brá Konráðsdóttir og Lilja Alfreðsdóttir varaformaður Framsóknarflokksins, fyrir utan alla þingmenn og ráðherra Viðreisnar og Bjartrar framtíðar.

Kannanir á landsvísu sýna tiltölulega stöðugt fylgi Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokks. Samfylkingin er að fá byr í seglin með því að ná aftur í kjósendurna sem fóru yfir í Bjarta framtíð árið 2013. Miðflokkurinn er einnig að ná til sín kjósendum Flokks fólksins.

Á meðan það er ekki gerð marktæk kjördæmisskipt könnun er ómögulegt að spá fyrir um úrslit kosninganna. Ekki er vitað hversu sterkur Sigmundur Davíð Gunnlaugsson er í Norðausturkjördæmi og hvort Miðflokkur hans sé að saxa á fylgi Sigurðar Inga Jóhannssonar og Framsóknarflokksins í Suðurkjördæmi. Einnig er engin leið að vita hvort Inga Sæland eigi möguleika á kjördæmiskjöri í Reykjavík eða hvort Flokkur fólksins sé í 4% um allt land. Fyrir utan að fylgi Sjálfstæðisflokksins og VG getur verið að sveiflast mikið á milli kjördæma þó að flokkarnir virðist vera stöðugir á landsvísu.

Áhugafólk um stjórnmál er spennt og forvitið að vita hver staðan er í raun og veru, en frambjóðendur, sérstaklega frambjóðendur minni flokkanna, eru á nálum.

Ertu með athyglisverða ábendingu?
Sendu okkur póst á ordid@eyjan.is - fyllsta trúnaðar gætt.
Miðvikudagur 18.10.2017 - 14:14 - Ummæli ()

Úr takti

Davíð Oddsson ritstjóri Morgunblaðsins og fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins.

Orðið á götunni er að leiðarar dagblaðanna í dag geti varla verið ólíkari þó þeir fjalli um sama hlutinn. Leiðarahöfundur Morgunblaðsins, sem engum dylst að er Davíð Oddsson ritstjóri, líkir lögbannsmálinu við lekamálið, auglýsir eftir réttlætisriddörum, vitnar í Pál Vilhjálmsson Moggabloggara, gefur í skyn að lögbannið hafi verið sett á markvisst til að valda Sjálfstæðisflokknum hámarksskaða og nær að senda fréttastofu RÚV enn eina pilluna:

Það blas­ir því við að upp­lýs­ingaþjóf­arn­ir hafa gögn um þúsund­ir manna en velta sér aðeins upp úr einu nafni til að reyna að af­baka yf­ir­stand­andi kosn­ing­ar.

Og Rík­is­út­varpið tek­ur full­an þátt í leikn­um eins og gegn öðrum for­sæts­ráðherra fyr­ir rúmu ári og viti menn, þá ein­mitt í sam­starfi við sömu kump­ána og núna. Þetta ástand get­ur vart öm­ur­legra verið,

segir Davíð í leiðara Morgunblaðsins í dag.

Á sama tíma í Fréttablaðinu talar Magnús Guðmundsson menningarritstjóri um mikilvægi fjölmiðla, tjáningarfrelsis, gefur í skyn að sýslumaður gangi erinda Sjálfstæðisflokksins og krefst þess að lögbannið verði afturkallað strax:

Atburðir síðastliðins mánudags þegar sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu úrskurðaði um lögbann á fréttaflutning Stundarinnar og Reykjavík Media eru áfall og afturför fyrir íslenska fjölmiðlun. Atlaga að opinni, lýðræðislegri og lífsnauðsynlegri fjölmiðlun og tjáningarfrelsi í landi þar sem hvert spillingarmálið virðist reka annað. Takmörkun á möguleikum kjósenda til þess að fá upplýsingar sem eiga erindi við almenning. Takmörkun á lýðræðislegum réttindum almennings. Lýðræði þar sem fjölmiðlar eru múlbundnir og þeim gert ómögulegt að fjalla um hagsmunatengsl ráðamanna við fjármálaöflin stendur á brauðfótum,

segir Magnús.

Athygli vekur að orð Magnúsar ríma mun betur við orð forystumanna Sjálfstæðismanna en orð Davíðs.

Ég tel að við eigum að byggja okkar opna samfélag upp með þeim hætti að fjölmiðlar séu frjálsir af því að flytja fréttir, fjalla um málefni, sérstaklega þau sem varða almenning

sagði Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins í samtali við RÚV gær. Sagði hann lögbannið út í hött, verja þurfi tjáningarfrelsið og frjálsa fjölmiðla. Og þó svo að hann væri ekki endilega sáttur við allt sem um hann sé skrifað þá viti hann að sem opinber persóna gildi önnur viðmið um hann en aðra:

Og við þurfum að gera mun á opinberum persónum í því samhengi og hinum sem á ekkert að vera að fjalla um ef það varðar með engum hætti almannahagsmuni.

Guðlaugur Þór Þórðarson, Kristján Þór Júlíusson, Óli Björn Kárason og fleiri Sjálfstæðismenn tóku í sama eða svipaðan streng og Bjarni. Má því skilja umræðuna sem svo að Davíð sé að fjarlægjast hugsanagang Sjálfstæðismanna, nema þá að Sjálfstæðismennirnir séu einfaldlega með kosningagrímuna á sér.

Ertu með athyglisverða ábendingu?
Sendu okkur póst á ordid@eyjan.is - fyllsta trúnaðar gætt.
Þriðjudagur 17.10.2017 - 13:47 - Ummæli ()

Spádómurinn

Orðið á götunni er að Sjálfstæðisflokkur hljóti nú að koma fram með afgerandi viðbrögð sem allir flokksmenn geti tekið undir varðandi lögbannið á fréttaflutning Stundarinnar. Stjórnmálamenn úr Vinstri grænum, Pírötum og Bjartri framtíð hafa stigið fram og mótmælt lögbanninu harðlega.  Lögbannið kemur verst út fyrir Sjálfstæðisflokkinn og best út fyrir Stundina sama hvernig sem á það er litið. Þó svo að það Glitnir sem fari fram á lögbannið þá hafði umfjöllunin fram að lögbanninu snúið að viðskiptum Bjarna Benediktssonar formanns Sjálfstæðisflokksins þegar hann var þingmaður flokksins fyrir hrun.

Vissulega telja margir það kjánalegt að grafa upp áratugagömul og margrannsökuð viðskipti korter í kosningar, en á sama tíma er erfitt að halda því fram að gögn innan úr Glitni sem hrekja staðhæfingar Bjarna frá því í desember eigi ekki erindi við almenning. Þó það til séu þeir sem telji margar milljónir ekki vera neitt sem skipti máli, þá sagði meira að segja Bjarni sjálfur að hann hefði skilning á að 50 milljónir séu risavaxin fjárhæð.

Viðbrögð Sjálfstæðismanna verða einhver, hjá því verður ekki komist. Brynjar Níelsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins þvoði hendur flokksins af lögbanninu á Fésbókarsíðu sinni í gær, sagði hann með sinni þjóðþekktu hótfyndni að Sjálfstæðisflokkurinn hefði ekkert að gera með lögbannið.

Illugi Jökulsson rithöfundur og þekktur andstæðingur Bjarna og Sjálfstæðisflokksins, kom fram með athylgisverðan spádóm í morgun:

Þegar loks verður búið að meika Bjarna nóg og skipuleggja „blaðamannafund“ með klappliðinu, þá mun málflutningur hans ganga út á að lögbannskrafa kröfuhafanna í Glitni – sem alltaf vilji gera Íslendingum allt illt – hafi verið rangur og óþarfur gjörningur, enda hafi ekkert nýtt verið í gögnum Stundarinnar. Það verður semsagt Hneykslaði Bjarni sem birtast mun fjölmiðlum í þetta sinn. En um leið er tryggt að engar nýjar upplýsingar birtast fram að kosningum. Sanniði til, þannig verður þetta.

Illugi bætti svo við á Fésbókarvegg Gunnars Smára Egilssonar:

Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins hímir undir vegg, tilbúinn til að vera smalað inn á til að klappa fyrir Bjarna þegar verður búið að þaulæfa handahreyfingar hans fyrir „blaðamannafundinn“ væntanlega. Það er sérstakur maður í því. Þegar Bjarni verður búinn að fara með þrautæfða þuluna sína, þá mun þingflokkurinn opna munninn og mæla einum rómi. Þetta er frekar illa komið, kannski ekki síst fyrir þingmenn sem maður ímyndaði sér að hefðu sjálfstæða lund eins og gamlir jaxlar eins og Vilhjálmur Bjarnason eða Brynjar Níelsson eða ungu konurnar Hildur Sverrisdóttir eða Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir en sannleikurinn virðist sá að öll séu þau jafn sjálfstæð og þægu róbótarnir í Blade Runner.

Nú er bara að sjá hvað gerist.

Ertu með athyglisverða ábendingu?
Sendu okkur póst á ordid@eyjan.is - fyllsta trúnaðar gætt.
Þriðjudagur 17.10.2017 - 10:25 - Ummæli ()

Bragðað af eigin meðali

Orðið á götunni er að helgin hafi ekki gengið jafn vel og liðsmenn Miðflokksins höfðu vonað. Lítið var fjallað um stefnumál flokksins og fundinn í Rúgbrauðsgerðinni í fjölmiðlum, enda stefnumál Miðflokksins keimlík þeim sem höfðu þegar komið fram og illskiljanleg fyrir þá sem hafa ekki mikla þekkingu á bönkum og lífeyrissjóðum. Sjálfstæðisflokknum tókst að vera á nokkrum dögum á undan Miðflokknum að tala um að minnka bankana og ráðstafa þaðan féi til uppbyggingar á innviðum. Þeir einu sem fylgdust spenntir með fundi Miðflokksins og þóttust skilja allt sem þar var sagt voru þeir sem þegar fylgja Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni í einu og öllu. Athygli vekur að fjölmiðlinn sem sýndi Miðflokknum hvað mestan áhuga var sjálft RÚV.

Athygli helgarinnar beindist að Ásmundi Friðrikssyni þingmanni Sjálfstæðisflokksins sem varaði við óhóflegri fjölgun hælisleitenda. Gagnrýnendur Sigmundar Davíðs, vinstri vængur stjórnmálanna og samflokksmenn Ásmundar eyddu dágóðu púðri í að koma með rök gegn málflutningi hans. Á meðan sat Sigmundur Davíð í Rúgbrauðsgerðinni ógagnrýndur og athyglislaus. Orðið á götunni er að reynsla margra af kosningabaráttu gefi til kynna að Ásmundur hafi ekki bara hent fram skoðun sinni af handahófi út í loftið heldur hafi útspil hans um helgina verið hugsað til að Sjálfstæðisflokkurinn gæti bæði höfðað til þeirra sem eru ekki hrifnir af komu hælisleitenda hingað til lands, samanber umræður á Útvarpi Sögu á mánudagsmorgunn þar sem Ásmundi var hrósað í hástert, og til að höfða til þeirra sem hafna málflutningi Ásmundar í einu og öllu.

Nú færist athyglin að frelsi fjölmiðla og tjáningarfrelsinu, hvað sem hver segir verður það varla jafn hávært og þögnin sem ríkir nú í herbúðum Sjálfstæðismanna um lögbannið á fréttaflutning Stundarinnar.

Miðflokkurinn sjálfur náði að stela talsverðri athygli í byrjun mánaðarins á kostnað annarra, má því segja að flokkurinn hafi fengið að bragða á eigin meðali.

Ertu með athyglisverða ábendingu?
Sendu okkur póst á ordid@eyjan.is - fyllsta trúnaðar gætt.
Föstudagur 13.10.2017 - 16:54 - Ummæli ()

Tækifærismennska

Orðið á götunni er að formennska Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur í Viðreisn eigi sér talsvert lengri aðdraganda en komið hefur fram til þessa. Stuðningsmenn Benedikts Jóhannessonar segja í hljóði að formannsskiptin hafi verið í gerjun í allt sumar og tímasetningin nú sé aðeins tækifærismennska af hálfu Þorgerðar Katrínar og fylgjenda hennar.

Heyrst hefur að Guðmundur Kristján Jónsson aðstoðarmaður Þorgerðar Katrínar og Heiða Kristín Helgadóttir eiginkona hans hafi ásamt fleirum innan flokksins unnið að því að gera Þorgerði Katrínu að formanni í nokkurn tíma. Upphaflega átti að gera atlögu að Benedikt á landsþingi flokksins en boðun kosninga setti óvænt strik í reikninginn. Ekki var hægt að gera ráð fyrir að Viðreisn myndi lifa af kosningarnar þannig að það þurfti að hafa hraðar hendur til að steypa Benedikt. Dræmt fylgi í skoðanakönnunum var svo notað til að bola stofnanda flokksins úr formannsstólnum.

Margt er enn á huldu varðandi fund Viðreisnar þar sem ákveðið var að Þorgerður Katrín tæki við. Léttur yfirlestur yfir samþykktir flokksins sýnir að ákvörðunin var tekin án mikillar umhugsunar enda stendur skýrum stöfum að kosning formanns fari fram á landsfundi og að formaður og varaformaður skulu ekki vera af sama kyni. Einnig skýtur það skökku við að Jóna Sólveig Elínardóttir varaformaður skyldi ekki verða formaður við afsögn Benedikts, líkt og gerðist í tilviki Loga Einarssonar sem tók við sem formaður Samfylkingarinnar við afsögn Oddnýjar Harðardóttur í fyrra.

Nú á bara eftir að koma í ljós hvort Þorgerði Katrínu takist að bjarga flokknum eða hún sitji uppi með Svarta-Pétur.

Ertu með athyglisverða ábendingu?
Sendu okkur póst á ordid@eyjan.is - fyllsta trúnaðar gætt.
Föstudagur 13.10.2017 - 15:45 - Ummæli ()

Fylgisrán um hábjartan dag

Orðið á götunni er að fylgismenn Flokks fólksins séu í unnvörpum að færa sig yfir til Miðflokks Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Miðað við stöðuna á könnunum ættu Vinstri græn og Sjálfstæðismenn að vera ánægð með að vera tveir stórir turnar sem koma til greina sem kjölfesta í næstu ríkisstjórn, það er a.m.k. betra en að þurfa að taka þátt í botnslagnum með öllum hinum.

Fylgi Ingu Sæland er byrjað að skreppa saman á sama tíma og Miðflokkurinn bætir við sig fylgi. Orðið á götunni er að Flokkur fólksins eigi eftir að skreppa enn meira saman fram að kosningum vegna titrings innan flokksins. Á morgun mun svo Miðflokkurinn loksins birta stefnuskrá og mun þá að öllum líkindum ná að tæla til sín marga fylgjendur Ingu Sæland.

Slíkt fylgisrán er lýsandi fyrir stöðu íslenskra stjórnmála í dag. Fólk sem vill bætt kjör fyrir öryrkja og aldraða fer frekar yfir til Miðflokksins en yfir til Vinstri grænna og Samfylkingarinnar. Þó svo að þetta geti allt talist félagslegir réttlætisriddarar þá tókst ríkisstjórn  Jóhönnu og Steingríms að binda svo um hnútana að þeir sem verst komu út úr hruninu munu aldrei geta hugsað sér að kjósa hinu hefðbundnu vinstri flokka. Óbeit margra á ESB og aðgerðum vinstristjórnarinnar varð meira að segja til þess að stærsti flokkurinn í kosningunum 2009 nánast hvarf árið 2016.

Þessi undarlega staða hefur gert það að verkum að ein yfirlýsing frá Sigmundi Davíð um að tækla bankana verður að fylgisráni um hábjartan dag.

Ertu með athyglisverða ábendingu?
Sendu okkur póst á ordid@eyjan.is - fyllsta trúnaðar gætt.
Fimmtudagur 12.10.2017 - 20:47 - Ummæli ()

Feluleikur

Orðið á götunni er að sumir stjórnmálaflokkar séu í feluleik með ákveðna stjórnmálamenn til að koma sér ekki í klandur fyrir kosningar. Töldu margir víst að Vinstri græn myndu fela Steingrím J. Sigfússon, oddvita sinn til áratuga í Norðausturkjördæmi, fram yfir kosningar. Svo var ekki og mætti hann, eins og frægt er orðið, í pallborðsumræður fyrir hönd flokksins í Menntaskólanum á Akureyri í vikunni og gerði flokknum engan greiða. Verður Steingrímur því líklega í felum til 29. október næstkomandi.

Brynjar Níelsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins sagði nýverið að hann hefði verið beðinn um að fara í felur og einbeita sér að kökuskreytingum. Það varði ekki lengi og lætur Brynjar eins og ekkert hafi í skorist á Fésbók. Enda er um að ræða mann sem er ekki þekktur fyrir að liggja á skoðunum sínum.

Enn á eftir að koma í ljós hvort Miðflokkurinn fari í feluleik. Gunnar Bragi Sveinsson fékk ekki oddvitasæti í Norðvesturkjördæmi en það á eftir að koma í ljós hvort hann dúkki upp annarsstaðar á landinu. Svo er alltaf spurningin hvort Miðflokkurinn tefli fram frambjóðendum úr Samvinnuflokknum eða hvort allir þaðan verði faldir fyrir kjósendum.

Svo er spurning hvort Viðreisn sé í feluleik. Benedikt Jóhannesson stofnandi flokksins verður ekki formaður flokksins þar sem flokkurinn telur vænlegra að tefla fram Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur sem formanni í stað Benedikts. Athygli vekur að varaformaðurinn, Jóna Sólveig Elínardóttir, varð ekki formaður eins og venja er með varaformenn. Einnig er það orðið á götunni að flokkurinn hafi farið gegn eigin reglum um að einstaklingar af gagnstæðu kyni séu í formanns og varaformannsembætti. Það á nú eftir að koma í ljós hvort Benedikt verði falinn fram að kosningum og hvort Viðreisn fái fleiri atkvæði með Þorgerði Katrínu í brúnni eða ekki.

Ertu með athyglisverða ábendingu?
Sendu okkur póst á ordid@eyjan.is - fyllsta trúnaðar gætt.

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is