Miðvikudagur 20.9.2017 - 11:02 - Ummæli ()

Sótt að Sigmundi og Gunnari

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.

Orðið á götunni er að innanflokksátökin í Framsóknarflokknum haldi áfram sem aldrei fyrr. Lítill tími er til stefnu fram að kosningum og því er líklegast að stilla þurfi upp á alla framboðslista, þar sem ekki er tími fyrir prófkjör eða tvöföld kjördæmisþing til að kjósa framboðslista, eins og gert hefur verið undanfarin ár.

Þessi óvenjulega staða gerir það að verkum, að menn á borð við Sigmund Davíð Gunnlaugsson, fv. forsætisráðherra og formann flokksins, og Gunnar Bragi Sveinsson, fv. utanríkisráðherra, geta átt á hættu að uppstillingarnefndir hliðhollar flokkseigendafélaginu reyni að koma þeim af framboðslistum flokksins, enda þótt ljóst sé að þeir myndu vinna yfirburðasigur á kjördæmisþingum eða prófkjörum, eins og raunin varð fyrir aðeins rúmu ári síðan.

Orðið á götunni er að í reykfylltum bakherbergjum vinni flokkseigendur í Framsóknarflokknum nú að því að koma sínu fólki fyrir í helstu sætum fyrir komandi kosningar. Þetta er fólk eins og Þórólfur Gíslason kaupfélagsstjóri á Sauðárkróki, Ingibjörg Pálmadóttir fv. ráðherra á Akranesi og Valgerður Sverrisdóttir fv. ráðherra á Lómatjörn.

Framsóknarflokkurinn mælist lágt í skoðanakönnunum þrátt fyrir ótrúlegar pólitískar vendingar og ljóst er að frekari innanflokksátök munu auka enn á vanda flokksins. Þar með er raunveruleg hætta á að varaformaðurinn Lilja Alfreðsdóttir nái ekki kjöri sem þingmaður Reykvíkinga, þótt hún hafi að flestra mati staðið sig afar vel eftir að hún steig inn á stjórnmálavettvanginn með óvæntum hætti, að tillögu Sigmundar Davíðs, þáverandi formanns Framsóknarflokksins..

Ertu með athyglisverða ábendingu?
Sendu okkur póst á ordid@eyjan.is - fyllsta trúnaðar gætt.
Föstudagur 15.9.2017 - 09:39 - Ummæli ()

Að vera eða vera ekki geislavirkur

Orðið á götunni er að Sjálfstæðisflokkurinn logi stafnanna á milli eftir tíðindi gærkvöldsins, þar sem Björt framtíð ákvað á stjórnarfundi að slíta ríkisstjórnarsamstarfinu.

Blöð voru farin í prentun, flestir farnir að sofa þegar svofellt skeyti var sent til fjölmiðla af hálfu stjórnarformanns Bjartrar framtíðar:

„Stjórn Bjartrar framtíðar hefur ákveðið að slíta samstarfi við ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar. Ástæða slitanna er alvarlegur trúnaðarbrestur innan ríkisstjórnarinnar.“

Svo mörg voru þau orð. Grasrót flokksins tók völdin, ráðherrarnir stóðu frammi fyrir vonlausri stöðu. Fyrsta ráðuneyti Bjarna Benediktssonar náði ekki einu sinni að mæla fyrir sínu fyrsta fjárlagafrumvarpi áður en það sprakk í loft upp.

Björt framtíð nýtti tækifærið

Fyrir tæplega ári sagði nánasta bakland Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, að forsætisráðherrann Sigmundur Davíð Gunnlaugsson væri hálf geislavirkur og yrði að víkja. Stuttu síðar stendur Bjarni í sömu sporum. Enginn efast um kaldhæðni örlaganna.

Á vettvangi stjórnmálanna telja margir að forystumenn Bjartrar framtíðar hafi fyrir löngu talið ríkisstjórnina búna að vera. Framundan séu fjárlög sem hefðu getað reynst flokknum pólitískt þungbær og ekki hafi skoðanakannanir verið hagstæðar — nema síður sé. Nú hafi flokkurinn látið brotna á prinsippmálum tengdum kynferðisglæpum, sem allur almenningur hefur algjöra andstyggð á, og geti á ný öðlast hlutverk í íslenskum stjórnmálum.

Og framganga ýmissa forystumanna Sjálfstæðisflokksins í þessum uppreist-æru-málum undanfarna daga og vikur hefur verið eins og umferðarslys í hægri endursýningu. Röð af röngum ákvörðunum, þögn og leyndarhyggja. Nefndarmenn flokksins neita að kynna sér gögn og loks upplýsir dómsmálaráðherra að forsætisráðherrann hafi mánuðum saman búið yfir þeirri vitneskju að faðir hans hafi verið einn meðmælenda með barnaníðingi í umsókn um uppreist æru. Hélt þetta fólk í alvöru að þetta myndi ekki komast upp? Að hægt væri að sópa þessu undir teppið?

Vinstri græn og Framsókn bíða átekta

Orðið á götunni er að strax í nótt hafi forystumenn Sjálfstæðisflokks borið sig upp við Vinstri græna og Framsóknarflokk. Þar á bæ vilja menn ekki taka neinar ákvarðanir strax, enda öll kurl ekki enn komin til grafar. Þessir flokkar væru alveg til í kosningar, en það er kostur sem líklega er sá versti í stöðunni á þessum tímapunkti fyrir Sjálfstæðisflokkinn og Viðreisn.

Ekki er staða Benedikts Jóhannessonar innan Viðreisnar betri. Hann vissi um þátt Benedikts Sveinssonar frænda síns undanfarna daga, en sagði ekki neitt. Hann er tengdur Bjarna og Benedikt svo nánum fjölskylduböndum, að hann er einhvern veginn ekki rétti maðurinn til að ræða þessi mál. Enda sagðist Benedikt ekki upplifa trúnaðarbrest, þvert á yfirlýsingar félaga hans innan Bjartrar framtíðar.

Innan Sjálfstæðisflokksins er horft til þess hver gæti leyst Bjarna Benediktsson af hólmi sem formann Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra, verði þessi mál til þess að hann víki af vettvangi stjórnmálanna. Er þar helst nefndur til sögunnar Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra, maðurinn með mörgu pólitísku lífin, sá sem lifað hefur af flest banatilræðin í pólitíkinni.

Ertu með athyglisverða ábendingu?
Sendu okkur póst á ordid@eyjan.is - fyllsta trúnaðar gætt.
Fimmtudagur 31.8.2017 - 21:52 - Ummæli ()

Hafna afarkostum Viðreisnar

Orðið á götunni er að alvarleg staða í sauðfjárrækt sé farin að valda miklum titringi í ríkisstjórnarsamstarfinu. Viðtal landshlutablaðsins Vesturlands við Harald Benediktsson, formann fjárlaganefndar og fv. formann Bændasamtakanna, sýnir gremju hans og margra fleiri sjálfstæðismanna með aðgerðaleysi Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur landbúnaðarráðherra og ekki bætir úr skák að í Valhöll telja menn Viðreisn reyna að kúga bændur í erfiðri stöðu til að taka upp búvörusamningana án þess að ræða það einu orði við samstarfsflokkinn í ríkisstjórn.

Málavextir munu hafa verið þannig, að á fundi ráðuneytisstjórans í sjávarútvegs- og landbúnaðrráðuneytinu með forystu sauðfjárbænda voru mögulegar aðgerðir ræddar til að bregðast við hruni á afurðaverði og offramboði á kindakjöti. Ráðuneytið hafði kynnt ákveðnar tillögur og forysta bænda óskaði eftir tilteknum breytingum á þeim.

Næsta sem gerist í gær, er að aðstoðarmaður fjármálaráðherra kemur þeim skilaboðum á framfæri við bændaforystuna, að skilyrði fyrir slíkum tillögum sé að búvörusamningarnir verði endurskoðaðir. Orðið á götunni er að forystumenn bænda hafi skilið þetta sem hreina afarkosti og þótti sem þarna væru komin skilyrði beint úr kosningastefnuskrá Viðreisnar.

Útspil fjármálaráðherra kom bændum í opna skjöldu og ekki síður þingmönnum Sjálfstæðisflokksins sem brugðust illa við í gær þegar tíðindin spurðust, enda höfðu þeir ekki heyrt á þetta minnst. „Bændur verða ekki kúgaðir til stuðnings við aðgerðaáætlun,“ sagði einn þingmaður Sjálfstæðisflokksins og má ljóst verða, að hart verði tekist á um þessi mál næstu daga, nú þegar sláturtíð er að hefjast.

Þessi sami sjálfstæðisþingmaður bætti við: „Þeim fækkar óðum, ástæðunum fyrir því að styðja þessa blessuðu ríkisstjórn.“

Ertu með athyglisverða ábendingu?
Sendu okkur póst á ordid@eyjan.is - fyllsta trúnaðar gætt.
Þriðjudagur 22.8.2017 - 12:03 - Ummæli ()

Hætta á að flokkurinn þurrkist út

Gísli Kr. Björnsson, formaður Varðar.

Orðið á götunni er að hart sé tekist á innan Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík um fyrirkomulag á vali á framboðslista flokksins fyrir komandi borgarstjórnarkosningar. Vörður, full­trúaráð sjálf­stæðis­fé­lag­anna í Reykja­vík, hef­ur samþykkt til­lögu um val á fram­boðslista flokks­ins í Reykja­vík til borg­ar­stjórn­ar­kosn­ing­anna næsta vor.

Til­lag­an kveður á um að haldið sé opið próf­kjör um odd­vita list­ans, en upp­still­ing­ar­nefnd, kjör­in af tæp­lega tvö þúsund meðlim­um full­trúaráðsins, ákveði aðra fram­bjóðend­ur.

Fyrir Verði fer Gísli Kr. Björnsson lögmaður. Í stjórninni, sem hann veitir forystu, sitja for­menn allra sjálf­stæðis­fé­lag­anna í Reykja­vík auk annarra sem kjörn­ir eru á aðal­fundi Varðar. Til­lag­an var samþykkt með 19 at­kvæðum, án mót­atkvæða, á stjórnarfundi á dögunum.

Helstu rökin fyrir henni eru þau, að erfiðlega gangi að fá nýtt hæfileikafólk til að taka þátt í prófkjöri, auka þurfi breidd á framboðslistanum, þar sem hann geti meðal annars endurspeglað búsetu í ólíkum hverfum borgarinnar og tryggt ákveðna endurnýjun. Undirliggjandi er ótti margra sjálfstæðismanna við enn eitt kjörtímabilið í minnihluta, ef ekki verði gripið til róttækra aðgerða.

Bessí Jóhannsdóttir.

Athygli vekur að félag sjálfstæðiskvenna er ósátt við tillöguna nú, enda þótt Hvöt hafi jafnframt harmað niðurstöðu undanfarinna ára í prófkjörum og farið fram á breytingar á framboðslistum eftir á.

En Gísli Kr. Björnsson fær þungavigtarstuðning í grein í Morgunblaðinu í dag, þar sem Bessí Jóhannsdóttir stingur niður penna, en hún hefur verið áhrifakona í Sjálfstæðisflokknum í borginni um áratugaskeið; formaður Hvatar lengi vel og varaþingmaður, svo dæmi séu tekin.

Bessí hjólar í grein sinni í Arndísi Kristjánsdóttur, formann sjálfstæðiskvennafélagsins Hvatar, og skrifar:

Ef full­trúaráðið samþykk­ir ekki til­lög­una er veru­leg hætta á því að Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn þurrk­ist út í Reykja­vík í kosn­ing­um í vor eða í þar næstu borg­ar­stjórn­ar­kosn­ing­um, þótt höfuðborg­in hafi á árum áður verið höfuðvígi flokks­ins í meira en sex ára­tugi.

Og hún bætir við:

„Finnst Arn­dísi lýðræðis­legt að Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn í Reykja­vík bjóði fram lista þar sem kannski ein eða eng­in kona verður í fyrstu fimm efstu sæt­un­um, eng­inn full­trúi ungs fólks né eldri borg­ara og eng­inn full­trúi efri byggða borg­ar­inn­ar, sem þó eru í mikl­um meiri­hluta borg­ar­búa, s.s. Breiðholts, Árbæj­ar­hverf­is, Sel­ás­hverf­is, Norðlinga­holts, Grafar­vogs, Grafar­holts eða Úlfarsár­dals, ef niðurstaða próf­kjörs verður sú? Ætlar hún þá að una sínu beina lýðræði, eða ætl­ar hún að heimta það aft­ur að kjör­nefnd „leiðrétti“ list­ann, eins og hún og Hvöt gerðu eft­ir opið próf­kjör til alþing­is­kosn­ing­anna í fyrra?“

Og lokaorð Bessíar eru þessi:

Ætlar nú Arn­dís að bjóða ein­stak­ling­um að eyða millj­ón­um í próf­kjör og breyta síðan regl­un­um eft­ir á? Já, reynd­ar! Því ef þú hleyp­ur eft­ir duttl­ung­um fjöld­ans og breyt­ir stjórn­mála­skoðunum þínum eins og Par­ís­ar­tísk­an breyt­ist, frá vori til hausts, þá fyrst ertu kom­inn út á veru­lega hálan ís.

Ertu með athyglisverða ábendingu?
Sendu okkur póst á ordid@eyjan.is - fyllsta trúnaðar gætt.
Fimmtudagur 10.8.2017 - 11:20 - Ummæli ()

Fer Davíð í borgina?

Davíð Oddsson, fv. borgarstjóri og forsætisráðherra.

Orðið á götunni er að sífellt fleiri sjálfstæðismenn í Reykjavík horfi til ritstjóra Morgunblaðsins í örvæntingarfullri leit sinni að kandídat sem geti leitt flokkinn í komandi borgarstjórnarkosningum og fellt meirihluta Dags B. Eggertssonar borgarstjóra.

Eyðimerkurganga Sjálfstæðisflokksins í borginni er orðin æði löng og Reykjavík er sannarlega ekki lengur það krúnudjásn í valdakerfinu í Valhöll sem áður var. Nú er staðan sú, að þrátt fyrir verulegar óvinsældir meirihlutans, er fátt sem bendir til þess að minnihluti sjálfstæðisflokksins og framsóknarmanna nái vopnum sínum. Sem verður að teljast með nokkrum ólíkindum.

Og þá er horft til þess að á ritstjórastól Morgunblaðsins er maður sem hefur unnið hvað stærsta sigra innan Sjálfstæðisflokksins, bæði í borgarstjórn og á landsvísu. Davíð Oddsson var svo vinsæll borgarstjóri, að flokkurinn fékk ekki aðeins hreinan meirihluta, heldur vann hann með algjörum yfirburðum. Fjölmargir úr röðum vinstri manna segja enn, að Davíð sé besti borgarstjóri sem borgarbúar hafi átt.

Fulltrúaráð sjálfstæðisfélaganna hefur nú farið þá leið að efna til kosningar um oddvita flokksins í komandi kosningum, en raða að öðru leyti á lista. Það er líklega skynsamleg leið, ef ætlunin er að tryggja einhverja endurnýjun og fjölbreytni í frambjóðendahópnum.

En ætli Davíð Oddsson sé klár í slaginn?

Stjórnmálaspekúlantar stöldruðu alltént við þessa klausu í leiðara Morgunblaðsins sl. laugardag:

Allt bend­ir til að nú­ver­andi borg­ar­yf­ir­völd telji sig aldrei munu þurfa að standa skil aðgerða sinna eða aðgerðal­eys­is. Þau ættu þó að hafa í huga að það stytt­ist í að borg­ar­bú­ar geti sagt skoðun sína á óreiðunni. Væri ekki betra að taka aðeins til áður en sú stund renn­ur upp? Eða ætl­ar borg­ar­stjóri að treysta á að eng­inn ann­ar kost­ur verði í boði? Það er hættu­legt veðmál.

Svo mörg voru þau orð.

Ertu með athyglisverða ábendingu?
Sendu okkur póst á ordid@eyjan.is - fyllsta trúnaðar gætt.
Föstudagur 14.7.2017 - 12:45 - Ummæli ()

Skattahækkanir

Orðið á götunni er að stemningin hafi verið orðin heldur súr innan Sjálfstæðisflokksins með stjórnarsamstarfið og yfirlýsingar tveggja ráðherra Viðreisnar, sem boða beinar skattahækkanir, hafi gert ástandið miklu verra.

Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra boðaði í vikunni að tollar og gjöld á díselolíu verði hækkuð til að jafna stöðu þess eldsneytisgjafa gagnvart bensíni. Auðvitað datt honum ekki í hug að lækka gjöldin á bensínið til að jafna stöðuna.

Útvarpsgjald er hækkað, þótt einkareknir fjölmiðlar eigi allir í vök að verjast. Og nú er tilkynnt um stórhækkun veiðigjalda á útgerðina og miðað við afkomuna árið 2015, enda þótt allir viti að gengisbreytingar síðan hafi gjörbreytt rekstrarumhverfinu í sjávarútvegi.

Stutt er síðan kynnt voru áform um hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustu, þvert á gefin loforð.

Á sama tíma er orðið ljóst að ríkisstjórnin ætlar ekki að standa við loforð til fyrirtækjanna í landinu um að lækka tryggingagjaldið, þótt atvinnuleysi sé nánast ekki neitt.

Á sínum tíma var ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar kölluð sú hægri sinnaðasta í lýðveldissögunni. Ekkert bendir til þess að það sé rétt. Ríkisstjórn sem hækkar bara álögur á einstaklinga og fyrirtæki og stendur ekki við gefin fyrirheit um skattalækkanir er bara gamaldags vinstri stjórn.

Hvað er Bjarni Benediktsson að gera sem forsætisráðherra í slíkri ríkisstjórn? Ætlar hann að láta þetta yfir sig og Sjálfstæðisflokkinn ganga?

Ertu með athyglisverða ábendingu?
Sendu okkur póst á ordid@eyjan.is - fyllsta trúnaðar gætt.
Fimmtudagur 6.7.2017 - 11:14 - Ummæli ()

Stjórnskipulegt uppnám

Orðið á götunni er að hinn geysivinsæli forseti okkar hafi sannarlega fundið fyrir því undanfarna daga, að það geti verið kalt á toppnum.

Hann hefur á stuttum tíma blandast inn í tvö ákaflega umdeild mál, annars vegar uppreist æru fyrir lögmann sem dæmdur hefur verið fyrir ítrekað barnaníð, og hins vegar með því að skrifa undir fimmtán skipunarbréf dómara við hinn nýja Landsrétt.

Guðni Th. Jóhannesson nýtur þess að vera enn nýr í embætti, þótt hann eigi auðvitað að teljast sem fræðimaður einn mesti sérfræðingur þjóðarinnar á þessu sviði. En engum duldist að hann átti erfitt á dögunum er hann færði fyrst rök fyrir ákveðinni rannsóknarskyldu sinni í dómaramálinu og lét ráðuneyti og Alþingi svara tilteknum spurningum um málsmeðferð áður en hann skrifaði undir, en svo þegar kom að því að færa rök fyrir uppreist æru fyrir dæmdan barnaníðing, sem hefur tekið út dóm fyrir brot sín og vill nú hefja lögmennsku á ný, greip forsetinn til þess ráðs að benda á ráðuneytið og venjir og hefðir og undirstrika að forsetinn væri í raun ábyrgðarlaus af stjórnarathöfnum.

Óhætt er að segja að ýmsum innan stjórnkerfisins hafi verið heldur skemmt yfir þessum ósamrýmanlegu yfirlýsingum forsetans á örfáum dögum, því kerfið gleymir engu og margir innan þess kunna forsetanum enn litlar þakkir fyrir viðbrögð hans við úrskurði Kjararáðs.

Orðið á götunni er að rökstuðning setts ríkislögmanns í máli Ástráðs Haraldssonar hrl. gegn dómsmálaráðherra og íslenska ríkinu vegna landsréttarmálsins beri ef til vill að skoða í því ljósi. Svo er nefnilega að sjá, að ríkislögmaður fríi ráðherra og Alþingi af ábyrgð sinni og bendi bara á forsetann, sem hafi farið með hið endanlega vald í málinu.

Svanur Kristjánsson, prófessor emeritus í stjórnmálafræði, vekur athygli á þessu í grein í Fréttablaðinu í dag og segir:

Í nauðvörn er gripið til splunkunýrrar túlkunar á stjórnskipun Íslands: „Dómsmálaráðherra bar ekki ábyrgð á skipun dómara í Landsrétt – ákvörðun um hverjir yrðu dómarar var Alþingis og endanlegt skipunarvald í höndum forseta Íslands. Þetta segir í greinargerð íslenska ríkisins í máli sem einn umsækjendanna um stöðu dómara höfðaði.“ (Frétt RÚV 3. júlí 2017.)

Árið 2004 taldi sem sagt einn ráðherra Sjálfstæðisflokksins að forseti Íslands væri með öllu valdalaus. 2017 kemur svo annar ráðherra sama flokks og telur að Ísland sé ennþá konungsríki þar sem forseti Íslands fari með skipunarvald, ráði að vild hverjir verða dómarar og hverjir ekki. Dómsmálaráðherra sé hins vegar ábyrgðarlaus á slíkum stjórnarathöfnum. Samkvæmt túlkun dómsmálaráðherra ætti kæra vegna skipunar dómara að beinast að hinum raunverulega handhafa, forseta Íslands, en ekki að valdlausa ráðherranum.

Svo mörg voru þau orð. Orðið á götunni er að forseta Íslands geti ekki verið skemmt að vera stillt fremstum fram í umdeildri málsvörn dómsmálaráðherra í máli sem allt eins er líklegt til að tapast. Ekki er ólíklegt að hann noti fljótlega tækifærið og skilgreini sína sýn á embættið og stöðu forsetans nú þegar hann hefur gegnt því í eitt ár. Eitt er að skrifa bækur um hlutina, annað er að verða umfjöllunarefnið sjálfur.

Að skrifa um forseta eða vera forseti, er nefnilega eins og maðurinn sagði, allt annar handleggur.

Ertu með athyglisverða ábendingu?
Sendu okkur póst á ordid@eyjan.is - fyllsta trúnaðar gætt.
Föstudagur 23.6.2017 - 14:22 - Ummæli ()

Þjóðarsálin

Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra og formaður Viðreisnar.

Orðið á götunni er að ríkisstjórnin hefði getað sparað sér ómælda orku með því að beita aðeins ofurlítilli almennri skynsemi áður en farið var í að kynna hugmyndir tveggja starfshópa um aðgerðir gegn skattsvikum í gær.

Tillögurnar vöktu strax mikla athygli, enda tilkynnti Benedikt Jóhannesson glaðbeittur að þeim yrði ekki stungið ofan í skúffu, heldur ættu þær strax að verða að veruleika.

Á fundi sem blaðamönnum sem hann boðaði til, komu fram áform um draga markvisst úr notkun reiðufjár, verslunum verði einungis heimilt að taka við rafrænum greiðslum, og vinnuveitendum skylt að greiða laun rafrænt. Þá verði 10 þúsund króna seðillinn tekinn úr umferð og 5 þúsund króna seðillinn hverfi í kjölfarið.

„Hverjir eru það sem eru með alla þessa tíu þúsund kalla,“  sagði fjármálaráðherra í fréttum Ríkisútvarpsins í gær. Og hann bætti við: „Með því að minnka seðlanna sem eru í umferð þá verður óþægilegra að nota þá. En meira máli skiptir hitt að laun séu greidd rafrænt inn á bankareikninga og hitt atriðið, að það sé ákveðið hámark á því hvað megi borga mikið í reiðufé.“

Það var og.

En það var bara eitt smá vandamál. Samflokksmenn hans í Viðreisn og aðrir í stjórnarliðinu komu af fjöllum, könnuðust ekkert við málið og hörð andstaða varð strax ljós. Samskiptamiðlar loguðu og ljóst varð um leið að þessar hugmyndir væru algjörlega andvana fæddar.

Enda tók Bjarni Benediktsson forsætisráðherra af öll tvímæli um það eftir ríkisstjórnarfund á morgun og sagðist ekki hrifinn af þessum tillögum.

Orðrétt sagði Bjarni:

„Nei mér líst ekki á það. Og mér finnst þetta ekki raunhæfar tillögur.“

Þar með þarf varla að ræða þetta mál frekar. Eftir stendur laskaður fjármálaráðherra og flokkur hans Viðreisn. Í herbúðum Bjartrar framtíðar var uppi mikil gremja í gær vegna þessa máls. Og sjálfstæðismenn kepptust við af afneita þessu með öllu.

En tíu þúsund kallinn mun áfram lifa góðu lífi. Óhætt er að segja að hann hafi unnið þessa lotu, ekki fjármálaráðherrann.

Og stjórnmálamennirnir okkar verða að kunna betur að lesa í þjóðarsálina. Það er lykilatriði.

 

Ertu með athyglisverða ábendingu?
Sendu okkur póst á ordid@eyjan.is - fyllsta trúnaðar gætt.
Miðvikudagur 21.6.2017 - 11:38 - Ummæli ()

Stofnandinn settur af?

Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra og formaður Viðreisnar.

Orðið á götunni er að sífellt minnkandi fylgi ríkisstjórnarinnar sé forystumönnum stjórnarflokkanna umtalsvert áhyggjuefni, ekki síst formanna Viðreisnar og Bjartrar framtíðar. Ný könnun MMR sýnir ótrúlega lítinn stuðning við stjórn sem er nánast nýtekin við völdum og þá virðast Viðreisn og Björt framtíð hreinlega við það að þurrkast út.

Og það eru sannarlega ekki bara formennirnir Benedikt Jóhannesson og Óttarr Proppé sem hafa áhyggjur. Innan raða beggja flokka ræða menn nú sín á milli hvernig hægt sé að bregðast við. Og í tilfelli Viðreisnar vekur athygli, að spjótin beinast mjög að formanninum Benedikt sem stofnaði þó flokkinn aðeins fyrir fáeinum misserum síðan.

Benedikt hefur átt mjög traust bakland innan tiltekins hluta viðskiptalífsins. Þekkt er að formleg stofnun flokksins drógst mjög á langinn í þeim tilgangi að safna eins miklu fjármagni í sjóði hans og kostur væri, áður en hann yrði formlega að stjórnmálaflokki og lyti þá lögum og reglum um hámarkshæð styrkja. Þetta bakland, sem menn á borð við Helga Magnússon í Málningu, hafa farið fyrir, eru nú orðnir mjög efins um að hægt sé að halda áfram með óbreytta forystu. Fjárfestirinn Jónas Hagan hefur líka verið áberandi í þessum hópi.

Þeir félagar, sem eru snjallir og ákveðnir í allri sinni málafylgju, höfðu sannarlega ekki þau plön fyrir Viðreisn að verða smáflokkur við það að þurrkast út.

Helgi Magnússon.

Innan raða ferðaþjónustunnar ríkir jafnframt gífurleg reiði út í Benedikt vegna áforma um breytingar á virðisaukaskattskerfinu á sama tíma og krónan hefur styrkst mikið.

Sjónvarpsstöðin Hringbraut og samnefndur vefur hefur lengi verið mjög hliðhollur Benedikt og Viðreisn. Svo mjög að orðið á götunni á tímabili var að Benedikt mundaði þar stundum penna sjálfur og frægt er þegar Sigmundur Ernir Rúnarsson, ritstjóri stöðvarinnar, setti óvart á fésbókina spurningu til Benedikts um hvaða fólk væri sniðugt að fá í tiltekinn þátt.

En nú virðist jafnvel Hringbraut búin að snúa baki við velgjörðarmanni sínum.

Þar birtist í gærkvöldi pistill, sem var reyndar tekinn út skömmu síðar, þar sem fullyrt var að Benedikt yrði að hætta strax sem formaður Viðreisnar. Og í eldri pistli, sem Róbert Trausti Árnason, fv. sendiherra og forsetaritari, skrifar, segir meðal annars:

„Hjarta Dagfara tók innstæðulausan gleðikipp um helgina þegar hann sá fyrirsögn í blöðum sem hljóðaði svona: „Benedikt hættir sem formaður.“

Fyrstu viðbrögðin voru þau að trúa því að Benedikt Jóhannesson væri búinn að átta sig á því að hann þyrfti að láta af formennsku í Viðreisn enda er hann búinn að tapa helmingi fylgisins sem flokkurinn hlaut í kosningum fyrir rúmlega hálfu ári.

Hann ræður ekki við formannshlutverkið.

En þetta var því miður tálsýn. Benedikt er einungis að hætta sem formaður í ósköp meinlausum klúbbi sem heitir Hollvinafélag MR.

Því miður fyrir Viðreisn. En vonandi er hann farinn að gera sér ljóst að Viðreisn á sér ekki viðreisnar von nema skipt verði um karlinn í brúnni sem fyrst því karlinn í brúnni verður að fiska. Þessi karl er ekki að fiska eins og allar skoðanakannanir sýna glögglega.“

Og Róbert Trausti heldur áfram:

Benedikt hefur yfirgefið öll helstu hugsjónamál Viðreisnar og selt kosningaloforð fyrir völd fjármálaráðherra.

Hann er uppteknari af því að auka skatta en að auka fylgi Viðreisnar að nýju. Hann er ófær um að leiða flokkinn.

Fái Viðreisn ekki nýjan formann fljótlega þá bíða flokksins þau örlög að verða einnota eins og hent hefur fjölda flokka á Íslandi.

Viðreisn þarf nýjan formann og nýtt upphaf þar sem hugsjónir og grunngildi flokksins yrðu sett í öndvegi að nýju. Þau eru góð og mikilvæg. Viðreisn á erindi við okkur Íslendinga ef hún heldur stefnu sinni.

Til þess þarf nýjan formann.

Svo mörg voru þau orð. Sagt er að óhugsandi sé að slík orð séu skrifuð í orðastað Dagfara á vef Hringbrautar án þess að menn eins og Helgi Magnússon leggi velþóknun sína yfir þau, enda er hann talinn hafa skrifað flesta pistla undir því heiti um langt skeið.

Benedikt Jóhannesson þarf því að hafa góðar gætur á flokki sínum næstu vikur og mánuði, eigi ekki að fara eins fyrir honum og Guðmundi Steingrímssyni, að stofna sinn eigin flokk og vera svo settur þar af síðar. Fyrstu merki þess að hann skynji aðsteðjandi hættu, er ráðning hans á Ólafíu Rafnsdóttur sem aðstoðarmanni, því hún er sannarlega betri en engin þegar kemur að kosningum og því að sigra þær.

Það er nefnilega ekki mikill tími til stefnu. Vika er langur tími í pólitík og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og hennar fólk er í startholunum að taka við.

Ertu með athyglisverða ábendingu?
Sendu okkur póst á ordid@eyjan.is - fyllsta trúnaðar gætt.
Fimmtudagur 8.6.2017 - 15:26 - Ummæli ()

Eftirlit forseta

Orðið á götunni er að fáum (nema kannski Pírötum) hafi komið á óvart að Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands hafi skrifað í dag undir skipunarbréf fimmtán nýrra dómara við Landsrétt.

Á hinn bóginn hafa margir staldrað við yfirlýsingu forseta, sem hann sendi frá sér þar sem hann skýrði frá undirritun skipunarbréfanna.

Kristrún Heimisdóttir lögfræðingur gerir þetta að umtalsefni á fésbók og bendir á að yfirlýsing forseta Íslands feli í sér nýmæli í meðferð forsetavalds.

„Forseti rannsakar málsatvik og ákveður að Alþingi hafi fylgt lögum á réttan hátt. Þetta virðist vera nýtt úrskurðar- og eftirlitshlutverk og forseti Íslands kveður upp skriflegan rökstuddan dóm,“ segir Kristrún og bendir á að forsetinn segi í úrskurði sínum:

Með hliðsjón af öllum þeim málavöxtum sem hér hafa verið raktir komst ég að þeirri niðurstöðu að mistök hefðu ekki átt sér stað við undirbúning og tilhögun atkvæðagreiðslunnar 1. júní og hún hefði verið í samræmi við lög, þingvenju og þingsköp.

Ertu með athyglisverða ábendingu?
Sendu okkur póst á ordid@eyjan.is - fyllsta trúnaðar gætt.

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is