Laugardagur 24.9.2016 - 16:33 - Ummæli ()

Vandlega undirbúin uppreisn

Sigurður Ingi JóhannssonOrðið á götunni er að loft sé lævi blandið innan Framsóknarflokksins eftir yfirlýsingu Sigurðar Inga Jóhannssonar í gærkvöldi um að hann byði sig fram til formanns flokksins gegn Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni.

Þetta verður sögulegt uppgjör í stjórnmálaflokki sem er að verða hundrað ára. Varaformaðurinn skorar formanninn á hólm. Forsætisráðherra leggur til atlögu við fyrrverandi forsætisráðherra.

Með yfirlýsingu sinni í gærkvöldi gengur Sigurður Ingi auðvitað gegn því sem hann hafði sjálfur sagt opinberlega og við framsóknarmenn mánuðum og vikum saman. Athygli vekur, að hann nýtti ekki einu sinni þingflokksfundinn í gær til að lýsa yfir framboði sínu og horfast í augu við félaga sína, heldur fékk hann fréttakonu Ríkissjónvarpsins á Akureyri til að vera með beina útsendingu í kvöldfréttatímanum þar sem hann lýsti yfir framboði sínu.

Orðið á götunni er að fáeinum mínútum áður hafi hann tilkynnt Sigmundi Davíð framboð sitt í stuttu símtali og borið við mikilli hvatningu víðs vegar að í þjóðfélaginu.

Lýðræði eða plott?

Innan Framsóknarflokksins skiptast menn í tvö horn um það sögulega uppgjör sem framundan er. Ýmsir eru orðnir dauðþreyttir á umræðum um Winstris-mál og þrá frið og ró sem þeir telja að Sigurður Ingi geti fært flokknum sem formaður. Hann hafi staðið sig vel sem forsætisráðherra, sé mannasættir og lítt umdeildur. Þeir viðurkenna um leið, að mikil áhætta sé fólgin í því að taka Sigmund Davíð af sem formann á flokksþingi og fara svo í kosningabaráttu og ætla að stæra sig við af miklum árangri ríkisstjórnarinnar. Fæstir telja Sigurð Inga hafa verið mikinn hugmyndafræðing í þeim efnum, með allri virðingu fyrir honum.

Hinn hópurinn, og hann er ekki lítill, er mjög óhress með framboð Sigurðar Inga. Ekki síst að það komi jafn seint fram og raun ber vitni. Aðeins viku fyrir flokksþing og mánuði fyrir kosningar. Áhættan sé gífurleg og sömuleiðis gangi þvert á hefðir innan Framsóknarflokksins að koma þannig fram við formann sinn.

Þessir hinir sömu benda á, að gott og blessað sé að tala fjálglega um mikilvægi lýðræðisins og þess að unnt sé að kjósa milli tveggja góðra kosta á flokksþingi. Staðreyndin sé hins vegar sú, að hópur stuðningsmanna Sigurðar Inga og Eyglóar Harðardóttur, hafi skipulega grafið undan Sigmundi Davíð í flokksstarfinu undanfarnar vikur og mánuði. Í því sambandi megi benda á að allir þingmenn flokksins í Norðausturkjördæmi hafi boðið sig fram í fyrsta sætið sem margir töldu gert til að veikja umboð formannsins. Niðurstaðan hafi komið þeim á óvart, því Sigmundur Davíð setti undir sig hausinn og vann yfirburðasigur.

SigmundurDavidOg svo er þingflokksfundurinn í gær nefndur til sögunnar. Til hans var boðað með skömmum fyrirvara og ætlunin var að fá þar samþykkta fordæmalausa bókun þingflokksins til stuðnings Sigurðar Inga og gegn sitjandi formanni. Í framhaldinu ætti svo Sigurður Ingi að koma fram og svara kallinu.

Snemma á fundinum í gær kom í ljós að enginn stuðningur var við slíkt ráðabrugg. Þingmenn þjöppuðu sér þvert á móti um formanninn, þvert á væntingar margra fjölmiðlamanna sem fyrir utan biðu. Þeir sem ósáttastir eru innan Framsóknarflokksins spyrja sig nú: Ef ætlunin er aðeins að leyfa lýðræðinu að njóta sín og láta flokksþing ráða, hvers vegna var þá fyrst reynt að taka formanninn af í eigin kjördæmi og loks í eigin þingflokki með undirmálum?

Hvers konar lýðræði er það?

Nótt hinna löngu hnífa

Orðið á götunni er að það hafi allt ræst, sem fram kom í umtöluðum pistli sem birtist fyrir nokkrum vikum á þessum vettvangi, um átökin að tjaldabaki innan Framsóknarflokksins.

Þar voru þessi ummæli höfð eftir Sigmundi Davíð á fundi með framsóknarmönnum í Skagafirði:

„Ég mun aldrei gefast upp fyrir skíthælunum sem hafa þráð að drepa mig frá því ég byrjaði í pólitík. Ef þeim tekst ætlunarverk sitt verður það aðeins með því að þeim takist að fá framsóknarmenn sjálfa, fólkið sem ég hef verið að vinna fyrir til að sjá um aftökuna.“

Niðurstaðan í þeim efnum ætti að liggja fyrir um næstu helgi.

Föstudagur 23.9.2016 - 14:12 - Ummæli ()

Miskunnarleysi gagnvart Margréti

Margrét Tryggvadóttir

Margrét Tryggvadóttir. Var í Hreyfingunni og Borgarahreyfingunni, en tók svo þátt í prófkjöri Samfylkingarinnar á dögunum.

Orðið á götunni er að átök um niðurstöður prófkjöra hafi skekið bæði Sjálfstæðisflokkinn og Samfylkinguna illilega undanfarið. Gervöll forysta Sjálfstæðra kvenna fyrr og nú hefur yfirgefið flokkinn út af afhroði kvenna í kraga og suðurkjördæmi og lýst flokkinn óvinnandi vé karlanna.

Þá er hart tekist á um reglur og röðun á framboðslista í Samfylkinginni og margir vilja breyta niðurstöðunni í kraganum í ljósi atburða gærdagsins. Kjördæmisráð flokksins í Reykjavík samþykkti fyrr í sumar afar umdeilan aldurskvóta ofan í reglur um jöfnuð kynjanna í efstu sætum.

Kjördæmisráðið í kraganum tók aldursregluna beint upp eftir reykvíkingum og beitti henni „af fullkomnu miskunnarleysi“ líkt og Jón Daníelsson, blaðamaður og Samfylkingarmaður, orðar það á facebookþræði flokksins, þegar Margrét Tryggvadóttir var færð úr þriðja sæti niður í það fimmta, þar sem hún var of gömul samkvæmt reglunni. Rétt fertug manneskjan.

Umdeild aðgerð sem hafði af Margréti væntanlegt varaþingsæti og huganlega þingsæti síðar.

Þegar siðan til stykkisins kom í höfuðborginni heiktist kjördæmsráðið á því að beita eigin reglu um aldur í efstu sæti og vék reglunni hiklaust frá. Þrátt fyrir brúkun á henni í kraganum sem kostaði Margréti sætið.

Svör forystumanna flokksins eru fátækleg, Þannig segir Kjartan Valgarðsson, fundarstjóri á kjördæmisþinginu sem samþykkti regluna, að það hafi verið „mín mistök að taka tillöguna á dagskrá“ í heitum umræðum á sama þræði.

Ekki er þá öll sagan sögð um lög og reglur Samfylkingarinnar um aldur og kvóta. Einnig var vikið frá skilyrðislausu lagaboði flokkins um jafnan hlut kynja í efstu sætum en þrjár konur skipa fjögur efstu sætin í Reykjavík norður, þrátt fyrir skýr fyrirmæli um annað.

Í reglum flokksins um svokallaða paralista að jafnt hlutfall kynjanna skuli vera í tveimur efstu sætum, þá næstu tveimur og síðan koll af kolli. Mikill urgur er í flokksmönnum vegna þessara skýru brota á reglum flokksins og ekki síður hinu að kraginn og Margrét Tryggvadóttir hafi verið höfð að pólitísku háði og spotti í ljósi framgöngu félaganna í höfuðborginni.

Því er orðið á götunni það að ómögulegt annað sé en að breyta afturvirkt röðinni í kraganum og færa Margréti aftur það sæti sem hún vann með afgerandi hætti í prófkjöri flokksins. Engin rök standi til annars eftir að horfið var frá reglunni í Reykjavík, hvaðan hún kom upphaflega.

Þriðjudagur 20.9.2016 - 15:43 - Ummæli ()

Óvæntur stuðningur

Lilja Alfreðsdóttir

Lilja Alfreðsdóttir

Orðið á götunni er að Lilja Dögg Alfreðsdóttir hafi komið með einkar sterkum hætti inn í íslensk stjórnmál eftir að hún var óvænt gerð að utanríkisráðherra í sumar.

Lilja hefur nú gefið kost á sér fyrir Framsóknarflokkinn í Reykjavíkurkjördæmi í komandi kosningum og einn þeirra sem lýkur lofsorði á hana á fésbókinni er Sigurður G. Guðjónsson hæstaréttarlögmaður, kunnur fyrir stuðning sinn við Samfylkinguna um árabil.

Ljóst er að Samfylkingin fær ekki atkvæði Sigurðar í næstu kosningum, því hann segir:

„Af mörgum góðum kostum sem eru í boði fyrir reykvíska kjósendur er Lilja án efa fremst. Virðing Alþingis verður aðeins endurheimt og aukin veljist þar til starfa fólk, sem kann eitthvað og getur eitthvað.“

Þriðjudagur 13.9.2016 - 21:41 - Ummæli ()

Nótt hinna löngu hnífa?

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.

Orðið á götunni er að loft sé orðið lævi blandið í Framsóknarflokknum. Stutt er í kjördæmisþing flokksins í Norðausturkjördæmi sem leiðir í ljós hvort formaðurinn Sigmundur Davíð Gunnlaugsson heldur forystusæti sínu og skömmu síðar verður flokksþing þar sem líklegt er að komi til uppgjörs millum Sigmundar og varaformannsins Sigurðar Inga Jóhannssonar forsætisráðherra. Innan flokksins er sagt að nótt hinna löngu hnífa geti verið á næsta leiti.

Sigurður Ingi hefur mjög styrkt stöðu sína undanfarið með vandraðri framgöngu sinni sem forsætisráðherra, en það kemur mörgum innan Framsóknarflokksins mjög á óvart að hann hugleiði nú að fara gegn Sigmundi Davíð á flokksþinginu. Gunnar Bragi Sveinsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur enda sagt að með því væri Sigurður Ingi að ganga á bak orða sinna, því hann hafi margítrekað að hann myndi aldrei fara gegn Sigmundi í formanninn.

Flestir innan Framsóknarflokksins viðurkenna að staðan sé mjög snúin. Allir vita að það fylgja því erfiðleikar að fara í kosningabaráttu með Sigmund Davíð í forystu, enda varla til umdeildari menn, en vita um leið að það fylgja því jafnvel meiri erfiðleikar að gera það ekki.

„Mjög margir gengu til liðs við framsókn af því þeir hafa trú á Sigmundi og hans framtíðarsýn. Þetta fólk myndi aldrei kjósa gömlu framsókn, þeirra Sigurðar Inga og Guðna Ágústssonar,“ segir reyndur erindreki framsóknar.

Þórólfur snýst gegn Sigmundi

gudni_agustssonOrðið á götunni er að Þórólfur kaupfélagsstjóri Gíslason á Sauðárkróki sæki fast að Sigurður Ingi taki við formennsku í flokknum. Ummæli Guðna Ágústssonar í Fréttablaðinu beri að skoða í því ljósi. Sömuleiðis framboð Sveinbjörns Eyjólfssonar úr Borgarfirði til formennsku í flokknum.

Sjálfur virðist Sigmundur Davíð ekkert gefa eftir í baráttunni og ýmsir innan Framsóknarflokksins segja að þeir muni aldrei sætta sig við að formaður flokksins verði veginn úr launsátri af eigin flokksmönnum. Frekar muni þeir styðja hann í sérframboði, enda viðurkenni flestir að ríkisstjórnin hafi náð fádæma árangri undir hans forystu, enda þótt enginn deili um skaðleg áhrif Wintris-málsins. Benda þeir á að flokkurinn hafi unnið einn stærsta kosningasigur sinn í sögunni undir forystu Sigmundar Davíðs fyrir aðeins þremur árum og sagan sýni að hann kunni kosningabaráttu og að láta hana snúast um sig og sín baráttumál.

Sjálfur var Sigmundur Davíð spurður á fundi með Skagfirðingum á dögunum hvort hann hafi ekki hugleitt að hætta.

Sigmundur Davíð svaraði:

„Ætli þetta sé ekki þrjóska. Ég mun aldrei gefast upp fyrir skíthælunum sem hafa þráð að drepa mig frá því ég byrjaði í pólitík. Ef þeim tekst ætlunarverk sitt verður það aðeins með því að þeim takist að fá framsóknarmenn sjálfa, fólkið sem ég hef verið að vinna fyrir til að sjá um aftökuna.“

Svo mörg voru þau orð.

Mánudagur 12.9.2016 - 08:51 - Ummæli ()

Kvennalistinn

Hanna_B_Kristjansd_160Orðið á götunni er að hann sé orðinn nokkuð langur og athyglisverður, listinn yfir þær konur sem eru að hverfa af þingi þessa dagana, ýmist af sjálfsdáðum eða eftir slæma úrkomu í prófkjörum sinna flokka.

Liðin helgi var einkar blóðug í þeim efnum. Elín Hirst náði ekki tilsettu marki hjá Sjálfstæðisflokknum, ekki heldur þær Ragnheiður Elín Árnadóttir ráðherra og Unnur Birna Konráðsdóttir. Sama er að segja um Ólínu Þorvarðardóttur og Valgerði Bjarnadóttur hjá Samfylkingu. Að líkindum detta allar þessar konur út af þingi, Ragnheiður Elín hefur þegar tilkynnt að hún sé hætt í pólitík.

Við bætast fjölmargar þingkonur. Vigdís Hauksdóttir, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Jóhanna María Sigmundsdóttir, Sigrún Magnúsdóttir, Hanna Birna Kristjánsdóttir og Katrín Júlíusdóttir tilkynntu allar að þær gæfu ekki kost á sér áfram og er því ljóst að gífurleg endurnýjun verður að minnsta kosti í hópi kvenna á Alþingi eftir kosningarnar í næsta mánuði.

 

Þriðjudagur 6.9.2016 - 18:50 - Ummæli ()

Vitlaust gefið

RagnheidurElinOrðið á götunni er að talsvert hafi kvarnast úr bakvarðarsveit Ragnheiðar Elínar Árnadóttur, iðnaðar-og viðskiptaráðherra, en mýmörg dæmi eru um að þungavigtarfólk í Sjálfstæðisflokknum í Suðurkjördæmi hafi snúið við henni baki.

Ráðherrann hefur átt nokkuð erfitt uppdráttar með stærri mál sín.  Það sem oftast er nefnt í því samhengi er náttúrupassinn, skattaívilnanir, ráðning framkvæmdastjóra Stjórnstöðvar ferðamála – án auglýsingar með ráðningasamning sem hljóðaði upp á tæpar tvær milljónir á mánuði – og nýleg ráðning Evu Magnúsdóttur, sem aðstoðarmanns.

Ráðning Evu vakti mikla athygli fjölmiðla enda ráðin degi áður en Alþingi var slitið vegna sumarleyfa. Sá orðrómur er uppi meðal sjálfstæðismanna að tímasetning ráðningar Evu beri þess augljós merki að ráðherrann hafi verið að ráða sér kosningastjóra á kostnað skattgreiðenda, enda fyrirhugaðar kosningar í haust og því augljóst að ráðning Evu er til skamms tíma.

Kosningabarátta keyrð á skattfé

Frambjóðendur í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi standa nú í ströngu þessa dagana við kynna sig og sínar áherslur, sem þykir síður en svo létt verk í þessu víðfeðmasta kjördæmi landsins. Athygli hefur vakið að í föruneyti ráðherrans eru oftast eingöngu starfsmenn á launaskrá hjá hinu opinbera; bílstjóri og tveir aðstoðarmenn. Þá er ótalinn sá kostnaður sem hlýst af greiðslu dagpeninga, akstri og uppihaldi.

Orðið á götunni er að sjálfstæðismenn í Suðurkjördæmi telji þarna ekki farið nægilega vel með opinbert fé. Auk þess sé þetta afar ósanngjarnt gagnvart öðrum frambjóðendum í prófkjörinu, þarna sé hreinlega vitlaust gefið.

Föstudagur 26.8.2016 - 11:02 - Ummæli ()

Titringur í Valhöll

Bjarni Benediktsson og Ólöf Nordal formaður og varaformaður Sjálfstæðisflokksins.

Bjarni Benediktsson og Ólöf Nordal formaður og varaformaður Sjálfstæðisflokksins.

Orðið á götunni er að forysta Sjálfstæðisflokksins sé verulega uggandi yfir stöðu mála í aðdraganda kosninga og óttist úrslit kosninganna og áhrifaleysi flokksins að þeim loknum.

Lengst af á kjörtímabilinu hafa Píratar verið Valhallarfólki þyrnir í augum og Sjálfstæðisflokkurinn mælst að jafnaði með fjórðungsfylgi, stundum meira og stundum minna, sem í sögulegu ljósi er vitaskuld afleit staða.

En nú er Viðreisn mætt til leiks. Og miðað við nöfn sem gefið hafa kost á sér í forystu fyrir Viðreisn síðustu daga er ástæða fyrir forystu Sjálfstæðisflokksins til að hafa áhyggjur. Miklar áhyggjur.

Og vart þarf að taka fram, að Bjarni Benediktsson er búinn sem formaður flokksins ef niðurstaðan verður enn einn ganginn fylgi undir 30% og að flokkurinn komist ekki í ríkisstjórn.

Búast má við skothríð

Orðið á götunni er að fundað hafi verið um taktíkina gagnvart Pírötum og Viðreisn í Valhöll og búast megi við hörðum skotum, jafnvel skothríð, í garð þessara tveggja framboða næstu daga og vikur.

„Við klárum prófkjörin og mönnum listana,“ segir einn þaulreyndur innanbúðarmaður í Valhöll. „Svo ráðumst við á þá með kjafti og klóm, enda höfum við engu að tapa miðað við stöðuna en allt að vinna. Það er óhugsandi möguleiki að hverfa úr ríkisstjórn þegar svo mikill árangur hefur náðs. Það væri ótrúlegt áfall fyrir flokkinn,“ sagði hann ennfremur.

Þriðjudagur 23.8.2016 - 12:20 - Ummæli ()

Orð í tíma töluð

Hreinn Loftsson, stjórnarformaður og útgefnandi Birtíngs.

Hreinn Loftsson, stjórnarformaður og útgefnandi Birtíngs.

Orðið á götunni er að áskorun forráðamanna Útvarps Sögu, ÍNN, Hringbrautar, Símans og 365 miðla í Fréttablaðinu og Morgunblaðinu í morgun, varðandi samkeppnisstöðu fyrirtækja á íslenskum fjölmiðlamarkaði, séu orð í tíma töluð.

Stjórnmálamenn, hvar í flokki sem þeir eru, hljóta að taka mið af því sem þar kemur fram og því sem forráðamenn íslenskra fjölmiðlafyrirtækja hafa sagt að undanförnu. Það er galið að ætla að setja sérstakar reglur og hömlur á innlenda fjölmiðla á örsmáum markaði meðan erlendir risamiðlar geta farið sínu fram eins og þeim sýnist á sama markaði. Facebook getur boðið íslenskum lesendum sínum upp á íslenskar áfengisauglýsingar og haft miklar tekjur af, en íslenskir fjölmiðlar mega það ekki. Íslenskar sjónvarpsstöðvar þurfa að talsetja eða texta barnaefni, en Netflix ekki. Erlendir miðlar greiða hvorki skatta né hafa skyldur hér, en íslensk fjölmiðlafyrirtæki eru bundin af íslensku lagaumhverfi.

Einn þeirra sem hefur tjáð sig um málið á fésbók í dag er Hreinn Loftsson, útgefandi Birtíngs.

Hann tekur heilshugar undir yfirlýsingu ljósvakafyrirtækjanna, en bætir þó við:

„Ég er þeim þó ósammála um eitt: Komi til þess að RÚV verði tekið af auglýsingamarkaði á ekki að hækka útvarpsgjaldið sem nemur tekjumissi ríkisfyrirtækisins og tryggja þannig óbreytta starfsemi RÚV. Miklu fremur þyrfti að laga starfsemi ríkisfjölmiðilsins að minni tekjum. Slíkt kallar á endurskipulagningu og endurskilgreiningu á hlutverki RÚV.

Með því að taka RÚV af auglýsingamarkaði og afnema virðisaukaskatt af starfsemi fjölmiðla yrði stórt skref stigið til að jafna samkeppnisstöðu sjálfstærða fjölmiðlafyrirtækja gagnvart ríkisrekstrinum og erlendri samkeppni á borð við Netflix, Google og Facebook. En fleira verður að koma til. Bann við áfengisauglýsingum er líka tímaskekkja. Á sama tíma og áfengisauglýsingar flæða um netið á Facebook og víðar er íslenskum fjölmiðlum meinað að nýta sér þessa tekjuleið. Heildsalar og áfengisframleiðendur mega borga Facebook fyrir að kynna vörur sínar gagnvart íslenskum neytendum en ekki íslenskum fjölmiðlum.“

„Fremur en að taka upp styrkjakerfi að sósíalískri fyrirmynd, líkt og gert hefur verið með stjórnmálaflokkana, væri nær að fara framangreinda leið og gera fjölmiðlafyrirtækjum þannig kleift að treysta undirstöður sínar, eflast og dafna,“ segir Hreinn Loftsson.

Fimmtudagur 18.8.2016 - 16:51 - Ummæli ()

Afsögn?

eygloOrðið á götunni er að Eygló Harðardóttir hafi svo gott sem sagt sig úr ríkisstjórninni með hjásetu sinni á Alþingi þegar atkvæði voru greidd um ríkisfjármálaáætlun 2017-2021 í dag.

Ráðherra sem segist ekki styðja ríkisfjármálaáætlun eigin ríkisstjórnar hlýtur að huga að afsögn um leið. Sömuleiðis hljóta forystumenn ríkisstjórnarinnar og aðrir ráðherrar að meta stöðuna upp á nýtt í ljósi þessa.

Þorsteinn Sæmundsson þingmaður Framsóknarflokksins sat sömuleiðis hjá í atkvæðagreiðslunni í dag. Orðið á götunni er að margir fleiri framsóknarmenn líti svo á að núverandi stjórnarsamstarf sé í reynd að niðurlotum komið.

Í því ljósi má búast við minniháttar og meiriháttar upphlaupum hjá stjórnarflokkunum næstu daga og vikur fram að kosningum. Og einstakir þingmenn beggja flokka munu spila sóló í auknum mæli.

 

Föstudagur 12.8.2016 - 20:08 - Ummæli ()

Línur skýrast

GudlaugurOrðið á götunni er að línur séu teknar að skýrast fyrir væntanleg prófkjör sjálfstæðismanna sem haldin verða í fyrri hluta septembermánaðar. Páll Magnússon, sem hefur nokkuð mátað sig fyrir framboð fyrir Framsóknarflokkinn, skráði sig loks í Sjálfstæðisflokkinn og skorar á hólm ráðherrann Ragnheiði Elínu Árnadóttur. Er sagt að hann hafi hlotið mikla hvatningu í þeim efnum frá Bjarna Benediktssyni formanni flokksins og nánum samstarfsmönnum hans.

Í Suðurkjördæmi berjast líka um efstu sæti þau Ásmundur Friðriksson, Unnur Brá Konráðsdóttir og Árni Johnsen auk Vilhjálms Árnasonar.

Orðið á götunni er að baráttan verði ekki síður hörð í Reykjavík. Almenn sátt virðist ríkja um Ólöfu Nordal innanríkisráðherra í 1. sæti en ljóst er að baráttan um 2. sætið verður mikil. Margir telja þó líklegt að Guðlaugur Þór Þórðarson alþingismaður eigi eftir að hreppa sætið en hann hefur þótt standa sig vel á yfirstandi kjörtímabili, ekki hvað síst sem varaformaður bæði fjárlaganefndar og þingflokks Sjálfstæðismanna, og þykir með vinnusömustu þingmönnum. Mjög styrkir stöðu Guðlaugs Þórs, að Illugi Gunnarsson hefur ákveðið að draga sig í hlé, en hann er pólitískt særður eftir ýmis mál á kjörtímabilinu.

Staða Brynjars Níelssonar er einnig afar sterk og þá ætti ritari flokksins, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir einnig að eiga ágæta möguleika. Birgir Ármannsson sækist jafnframt eftir endurkjöri sem og Sigríður Andersen, en mörg ný og athyglisverð nöfn er að finna í hópi þeirra sem gefa kost á sér, t.d. Albert Guðmundson laganemi og formaður Heimdallar, Guðmundur Franklín Jónsson, hótelstjóri, Herdís Anna Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri, Ingibjörg Óðinsdóttir, mannauðsstjóri, Jón Ragnar Ríkharðsson, sjómaður, Kristjana G. Kristjánsson, Cabin crew / flugliði hjá WOW Air og Hildur Sverrisdóttir borgarfulltrúi.

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is