Þriðjudagur 23.8.2016 - 12:20 - Ummæli ()

Orð í tíma töluð

Hreinn Loftsson, stjórnarformaður og útgefnandi Birtíngs.

Hreinn Loftsson, stjórnarformaður og útgefnandi Birtíngs.

Orðið á götunni er að áskorun forráðamanna Útvarps Sögu, ÍNN, Hringbrautar, Símans og 365 miðla í Fréttablaðinu og Morgunblaðinu í morgun, varðandi samkeppnisstöðu fyrirtækja á íslenskum fjölmiðlamarkaði, séu orð í tíma töluð.

Stjórnmálamenn, hvar í flokki sem þeir eru, hljóta að taka mið af því sem þar kemur fram og því sem forráðamenn íslenskra fjölmiðlafyrirtækja hafa sagt að undanförnu. Það er galið að ætla að setja sérstakar reglur og hömlur á innlenda fjölmiðla á örsmáum markaði meðan erlendir risamiðlar geta farið sínu fram eins og þeim sýnist á sama markaði. Facebook getur boðið íslenskum lesendum sínum upp á íslenskar áfengisauglýsingar og haft miklar tekjur af, en íslenskir fjölmiðlar mega það ekki. Íslenskar sjónvarpsstöðvar þurfa að talsetja eða texta barnaefni, en Netflix ekki. Erlendir miðlar greiða hvorki skatta né hafa skyldur hér, en íslensk fjölmiðlafyrirtæki eru bundin af íslensku lagaumhverfi.

Einn þeirra sem hefur tjáð sig um málið á fésbók í dag er Hreinn Loftsson, útgefandi Birtíngs.

Hann tekur heilshugar undir yfirlýsingu ljósvakafyrirtækjanna, en bætir þó við:

„Ég er þeim þó ósammála um eitt: Komi til þess að RÚV verði tekið af auglýsingamarkaði á ekki að hækka útvarpsgjaldið sem nemur tekjumissi ríkisfyrirtækisins og tryggja þannig óbreytta starfsemi RÚV. Miklu fremur þyrfti að laga starfsemi ríkisfjölmiðilsins að minni tekjum. Slíkt kallar á endurskipulagningu og endurskilgreiningu á hlutverki RÚV.

Með því að taka RÚV af auglýsingamarkaði og afnema virðisaukaskatt af starfsemi fjölmiðla yrði stórt skref stigið til að jafna samkeppnisstöðu sjálfstærða fjölmiðlafyrirtækja gagnvart ríkisrekstrinum og erlendri samkeppni á borð við Netflix, Google og Facebook. En fleira verður að koma til. Bann við áfengisauglýsingum er líka tímaskekkja. Á sama tíma og áfengisauglýsingar flæða um netið á Facebook og víðar er íslenskum fjölmiðlum meinað að nýta sér þessa tekjuleið. Heildsalar og áfengisframleiðendur mega borga Facebook fyrir að kynna vörur sínar gagnvart íslenskum neytendum en ekki íslenskum fjölmiðlum.“

„Fremur en að taka upp styrkjakerfi að sósíalískri fyrirmynd, líkt og gert hefur verið með stjórnmálaflokkana, væri nær að fara framangreinda leið og gera fjölmiðlafyrirtækjum þannig kleift að treysta undirstöður sínar, eflast og dafna,“ segir Hreinn Loftsson.

Fimmtudagur 18.8.2016 - 16:51 - Ummæli ()

Afsögn?

eygloOrðið á götunni er að Eygló Harðardóttir hafi svo gott sem sagt sig úr ríkisstjórninni með hjásetu sinni á Alþingi þegar atkvæði voru greidd um ríkisfjármálaáætlun 2017-2021 í dag.

Ráðherra sem segist ekki styðja ríkisfjármálaáætlun eigin ríkisstjórnar hlýtur að huga að afsögn um leið. Sömuleiðis hljóta forystumenn ríkisstjórnarinnar og aðrir ráðherrar að meta stöðuna upp á nýtt í ljósi þessa.

Þorsteinn Sæmundsson þingmaður Framsóknarflokksins sat sömuleiðis hjá í atkvæðagreiðslunni í dag. Orðið á götunni er að margir fleiri framsóknarmenn líti svo á að núverandi stjórnarsamstarf sé í reynd að niðurlotum komið.

Í því ljósi má búast við minniháttar og meiriháttar upphlaupum hjá stjórnarflokkunum næstu daga og vikur fram að kosningum. Og einstakir þingmenn beggja flokka munu spila sóló í auknum mæli.

 

Föstudagur 12.8.2016 - 20:08 - Ummæli ()

Línur skýrast

GudlaugurOrðið á götunni er að línur séu teknar að skýrast fyrir væntanleg prófkjör sjálfstæðismanna sem haldin verða í fyrri hluta septembermánaðar. Páll Magnússon, sem hefur nokkuð mátað sig fyrir framboð fyrir Framsóknarflokkinn, skráði sig loks í Sjálfstæðisflokkinn og skorar á hólm ráðherrann Ragnheiði Elínu Árnadóttur. Er sagt að hann hafi hlotið mikla hvatningu í þeim efnum frá Bjarna Benediktssyni formanni flokksins og nánum samstarfsmönnum hans.

Í Suðurkjördæmi berjast líka um efstu sæti þau Ásmundur Friðriksson, Unnur Brá Konráðsdóttir og Árni Johnsen auk Vilhjálms Árnasonar.

Orðið á götunni er að baráttan verði ekki síður hörð í Reykjavík. Almenn sátt virðist ríkja um Ólöfu Nordal innanríkisráðherra í 1. sæti en ljóst er að baráttan um 2. sætið verður mikil. Margir telja þó líklegt að Guðlaugur Þór Þórðarson alþingismaður eigi eftir að hreppa sætið en hann hefur þótt standa sig vel á yfirstandi kjörtímabili, ekki hvað síst sem varaformaður bæði fjárlaganefndar og þingflokks Sjálfstæðismanna, og þykir með vinnusömustu þingmönnum. Mjög styrkir stöðu Guðlaugs Þórs, að Illugi Gunnarsson hefur ákveðið að draga sig í hlé, en hann er pólitískt særður eftir ýmis mál á kjörtímabilinu.

Staða Brynjars Níelssonar er einnig afar sterk og þá ætti ritari flokksins, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir einnig að eiga ágæta möguleika. Birgir Ármannsson sækist jafnframt eftir endurkjöri sem og Sigríður Andersen, en mörg ný og athyglisverð nöfn er að finna í hópi þeirra sem gefa kost á sér, t.d. Albert Guðmundson laganemi og formaður Heimdallar, Guðmundur Franklín Jónsson, hótelstjóri, Herdís Anna Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri, Ingibjörg Óðinsdóttir, mannauðsstjóri, Jón Ragnar Ríkharðsson, sjómaður, Kristjana G. Kristjánsson, Cabin crew / flugliði hjá WOW Air og Hildur Sverrisdóttir borgarfulltrúi.

Fimmtudagur 11.8.2016 - 11:05 - Ummæli ()

Krati í Framsókn

stefan_johann_558049Orðið á götunni er að Stefán Jóhann Stefánsson ritstjóri hjá Seðlabanka Íslands sé á leið í forval hjá Framsóknarflokknum í Reykjavík fyrir komandi kosningar.

Stefán Jóhann hefur verið áberandi í starfi íslenskra jafnaðarmanna um langt árabil, hefur gengt mörgum trúnaðarstörfum fyrir Samfylkinguna, til dæmis verið varaborgarfulltrúi og setið í ótal ráðum og nefndum innan borgarkerfisins.

Hann hefur verið náinn samstarfsmaður Más Guðmundssonar seðlabankastjóra undanfarin ár og er hagfræðingur að mennt.

Stefán Jóhann bætist þar með í hóp fjölmargra krata sem sagt hafa skilið við Samfylkinguna að undanförnu, eða dregið sig í hlé úr störfum fyrir flokkinn.

Þriðjudagur 2.8.2016 - 15:34 - Ummæli ()

Vandræðaleg staða

Sigurður Ingi JóhannssonOrðið á götunni er að afstaða Framsóknarflokksins til kosninga í haust sé orðin býsna vandræðaleg fyrir flokkinn. Nýtur forsætisráðherrann stuðnings þingflokksins, eða ekki? Og hvert er vægi flokksformanns sem ekki situr í ríkisstjórn? Getur hann bundið hendur ríkisstjórnarinnar með yfirlýsingum sínum?

Þegar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson baðst lausnar fyrir sig og ráðuneyti sitt og Sigurður Ingi Jóhannsson myndaði sitt fyrsta ráðuneyti, kom hann í tröppur alþingisskálans ásamt Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins, og tilkynnti að kosningum hefði verið flýtt og þær yrðu nú í haust, þegar búið væri að ljúka nokkrum mikilvægum stjórnarmálum.

Þetta ítrekaði forsætisráðherra á fundi með forystumönnum stjórnarandstöðunnar. Og Bjarni Benediktsson hefur lengi talað með afdráttarlausum hætti um það að kjörtímabilið hafi verið stytt um eitt löggjafarþing.

Í þessu ljósi talaði nýr forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, um að „kosningar yrðu haldnar í haust“ í innsetningarræðu sinni í gær, en upplýst var að hann hefði rætt þessi mál fyrirfram við Sigurð Inga Jóhannsson forsætisráðherra.

Þegar allt þetta er dregið saman, gengur auðvitað ekki að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson komi fram sem formaður Framsóknarflokksins og slái úr og í með þingkosningar í haust og ræði þann möguleika sem eitthvert sérstakt áhugamál Sjálfstæðisflokksins.

Forsætisráðherrann úr hans eigin flokki hefur staðfest að það verði kosið í haust. Formaður hins stjórnarflokksins líka. Og nú forseti Íslands.

Vitaskuld má vel deila um skynsemi þess að kjósa í haust. Margar mjög góðar röksemdir má færa fyrir því að virða eigi lengd kjörtímabila samkvæmt stjórnarskrá. Jafnvel er hægt að halda því fram að þeir Sigurður Ingi og Bjarni Benediktsson hafi samið af sér með því að samþykkja það að kosningum yrði flýtt. En eins og Brynjar Níelsson hefur bent á, er þetta búið og gert. Búið er að ná saman um að flýta kosningum og við það á að standa. Það verður að vera eitthvað að marka slíkar yfirlýsingar forystumanna þjóðarinnar.

Það er nógu lítið traust á stjórnmálunum í þessu landi og stjórnmálamönnum almennt. Ekki á að vera markmiðið að draga enn frekar úr því trausti.

Miðvikudagur 27.7.2016 - 16:48 - Ummæli ()

Verður stjórnarkreppa?

Oddný Harðardóttir, formaður Samfylkingarinnar.

Oddný Harðardóttir, formaður Samfylkingarinnar.

Orðið á götunni er að útspil þriggja forystukvenna í íslenskum stjórnmálum í vikunni gæti haft meiriháttar pólitískar afleiðingar og verið fyrirboði þess að framundan geti verið stjórnarkreppa að afloknum næstu alþingiskosningum, hvenær sem þær svosem verða.

Oddný Harðardóttir, formaður Samfylkingarinnar, Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, og Birgitta Jónsdóttir, þingkona Pírata, útilokuðu allar að flokkar þeirra geti myndað ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum að afloknum kosningum.

Þetta voru vitaskuld mikil pólitísk tíðindi. Í þeim felst mikið áfall og áhætta fyrir Sjálfstæðisflokkinn sem á nú mun færri möguleika til myndunar ríkisstjórnar en áður og sömuleiðis getur þessi yfirlýsing leitt til þess að ekki náist að mynda starfhæfa meirihlutastjórn eftir kosningar, verði úrslit þeirra í samræmi við skoðanakannanir sem birst hafa að undanförnu.

Enginn flokkur mælist nú með yfir 30% fylgi. Píratar mælast efstir, svo kemur Sjálfstæðisflokkurinn. Í einum hnapp virðast síðan vera Framsóknarflokkur, Samfylking, Vinstri græn og Viðreisn. Viðreisn sækir í sig veðrið, Vinstri græn tapa nokkru af fylgisaukningunni sem kom í vor, en staðan er erfið hjá Framsókn og Samfylkingu, hvað þá Bjartri framtíð.

En gerðu þær Oddný, Birgitta og Katrín mistök með þessari yfirlýsingu?

Gunnar Gunnarsson, ritstjóri Austurgluggans/Austurfréttar, telur að svo sé.

Hann skrifar á fésbók:

a) Framsóknarflokkurinn sjálfur hefði trúlega ekki með nokkru móti getað komið með betra útspil til að komast í oddastöðu við myndun næstu ríkisstjórnar.

b) Í ljósi tals um víðsýni, umburðarlyndi, samvinnu í stjórnmálum er rosalega viðeigandi að útiloka stærsta stjórnmálaflokk landsins?

c) Hafa þessi mál verið rædd innan Pírata? Hefur þingflokksformaðurinn umboð til að tjá sig með þessum hætti?

d) Þetta verður annað hvort algjör snilld eða algjör sturlun (og ég set mína peninga á seinni kostinn…)

Fimmtudagur 21.7.2016 - 11:51 - Ummæli ()

Ari og frelsiskreddukjaftæðið

Ari Edwald, forstjóri MS.

Ari Edwald, forstjóri MS.

Orðið á götunni er að margir hægrir menn  hafi sopið hveljur þegar þeir opnuðu Fésbók sína í gær og sáu hvar Ari Edwald, fulltrúi í atvinnuveganefnd Sjálfstæðisflokksins og fyrrum stjórnarmaður í SUS og Heimdalli, jós grein Ögmundar Jónassonar í Fréttablaðinu í gær lofi. Ari lét sér ekki nægja að taka undir málflutning þessa leiðtoga sósíalista til áratuga, heldur lýsti því yfir að grein Ögmundar væri einhver allra besta blaðagrein sem hann hafi lesið lengi.

ariommi

Í stjórnmálafræðinni er til þekkt hugtak sem kallast lögmál Miles og útlistast sem svo: „Where you stand depends where you sit“ sem má útlista sem svo að afstaða manna til málefna mótast af því hvar hagsmunir þeirra liggja. Afstaða Ara til greinar Ögmundar endurspeglar þetta því greinin er ein stór varnarræða fyrir MS, sem vill svo til að Ari stýrir.

Ekki bara færir Ögmundur rök fyrir áframhaldandi miðstýringu og einokunarstöðu Mjólkursamsölunnar, heldur afgreiðir rök þeirra sem vilja breytingar sem „frelsiskreddukjaftæði“. Það hefði verið áhugavert að heyra hvaða afstöðu Ari hefði tekið til greinar Ögmundar þegar hann sat í stjórn SUS eða gegndi stöðu framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins.

Fimmtudagur 7.7.2016 - 15:21 - Ummæli ()

Finnst fólki þetta í lagi?

13568912_156402998103435_7959556078028740086_oOrðið á götunni er að margir hafi orðið hvumsa yfir skýringamynd sem Sigurður Einarsson, fyrrverandi formaður stjórnar Kaupþings, birti á fésbókarsíðu sinni í gær í tilefni af fréttum um að aldrei hafi jafn mörg mál gegn verið til rannsóknar hjá Mannréttindadómstóli Evrópu gagnvart íslenska ríkinu og réttarfarinu hér og nú.

Nýlega var upplýst að Mannréttindadómstóllinn hafi tekið ýmsa þætti Al-Thani málsins svonefnda til efnislegrar meðferðar og spurt ríkið nokkurra spurninga af því tilefni. Fjallar MDE sérstaklega um hæfi Árna Kolbeinssonar sem hæstaréttardómara, en sakborningar höfðu fært fyrir því rök að hann væri vanhæfur til að dæma í málinu við litlar undirtektir.

Þegar umrædd skýringamynd er skoðuð, (smella má tvisvar á hana til að stækka) þarf kannski ekki að koma á óvart að Mannréttindadómstóllinn hafi ákveðið að spyrja alvarlegra spurninga. Það verður nefnilega að teljast með algjörum ólíkindum að Árni Kolbeinsson skuli ekki hafa úrskurðað sig vanhæfan í málinu. Eða finnst fólki þetta í lagi?

Sjálfur segir Sigurður á síðu sinni:

„Það hafa aldrei verið eins mörg mál til rannsóknar hjá Mannréttindadómstóli Evrópu gagnvart íslenska ríkinu og réttarkerfinu hér eins og nú. Flest málin tengjast bankahruninu þar sem ýmislegt bendir til að rannsóknaraðilar og dómstólar hafi farið útaf sporinu til að knýja fram dóma í umdeildum og umsvifamiklum málum eins og Al Thani málinu.

Sigurður Einarsson.

Sigurður Einarsson.

Það verður áhugavert að fylgjast með því hvernig innanríkisráðherra ætlar aðbregðast við þessum málafjölda og auknu álagi á starfsmenn ráðaneytisins vegna þeirra. Maður veltir því fyrir sér hvort hún hafi áhyggjur af meðferð mála tengdum bankahruninu í dómskerfinu í þessu ljósi? Má ekki örugglega búast við því að hún muni skilyrðislaust senda forseta hæstarréttar og héraðssaksóknara í leyfi á meðan þessi mál eru í rannsókn hjá Mannréttindadómstólnum? Bera ríkisstarfsmenn aldrei ábyrgð? Bankamaður sem er til skoðunar hjá eftirlitsstofnunum yrði umsvifalaust settur í leyfi. Það eru miklir brestir í kerfinu hér á þessu litla landi ef þessir menn verða ekki sendir í leyfi í ljósi þeirrar stöðu sem nú er komin upp.

Mannréttindadómstóllinn hefur aldrei haft eins mörg mál til skoðunar gagnvart íslenska ríkinu og flest tengjast þau bankahruninu þar sem dómstólar virðast hafa farið offari og brotið alvarlega á mannréttindum samkvæmt þessu.

Málin sem eru í rannsókn:
1) Styrmir Bragason – Exeter málið
2) Gestur Jónsson – Al Thani
3) Ragnar Hall – Al Thani
4) Jón Ásgeir Jóhannesson – skattamál Baugs Tryggvi Jónsson – skattamál Baugs
5) Geir H Haarde vegna landsdóms.
6) Al Thani málið

Merkilegt er hve forseti hæstarréttar ber ábyrgð á mörgum málum og í raun ótrúlegt að hann skuli ekki vera settur í leyfi frá störfum miðað við fjölda mála sem hann hefur dæmt í og eru nú hugsanlega talin til mannréttindabrota.“

Orðið á götunni er að það sé í raun ótrúlegt að fyrst nú skuli fjallað um hæfi eða vanhæfi Árna Kolbeinssonar í málinu í fjölmiðlum. Sjálfur hefur Sigurður bent á að sakborningar og lögmenn þeirra hafi oft bent á þetta, en enginn hafi hlustað. Fyrr en nú að Mannréttindadómstóllinn er kominn í málið.

Fimmtudagur 30.6.2016 - 16:31 - Ummæli ()

Friðjón forsetaritari?

Friðjón Friðjónsson.

Friðjón Friðjónsson.

Orðið á götunni er að tekist sé á að tjaldabaki í baklandi nýs forseta, Guðna Th. Jóhannessonar, um það hverjir skipi starfslið hans á Bessastöðum og við Sóleyjargötu.

Örnólfur Thorsson hefur gegnt því hlutverki um árabil í forsetatíð Ólafs Ragnars Grímssonar, en ýmsir aðrir hafa sett svip sinn á embættið í gegnum tíðina. Örnólfur var reyndar fyrst ráðinn eftir auglýsingu sem sérfræðingur á skrifstofu forseta, varð svo skrifstofustjóri og forsetaritari mörg undanfarin ár og öllum hnútum kunnugur, eins og sagt er.

Hófst nýr skipunartími hans til fimm ára um síðustu áramót, en embætti forsetaritara er sambærilegt stöðum ráðuneytisstjóra að tign innan stjórnkerfisins og forsetaritarar hafa sumir hverjir síðar orðið sendiherrar.

Ekki liggur fyrir hvort Örnólfur sækist eftir embættinu áfram, eða hvort nýr forseti vill gera breytingar, sem þýddu þá væntanlega að Örnólfur yrði ráðuneytisstjóri eða sendiherra. Fullvíst er talið að hann verði áfram í sínu starfi, kjósi hann svo. En nafn Friðjóns Friðjónssonar almannatengils og eiganda KOM hefur heyrst þegar rætt er um nýjan forsetaritara.

Magnús Lyngdal Magnússon aðstoðarmaður rektors, stýrir kosningabaráttu Guðna Th.

Magnús Lyngdal Magnússon aðstoðarmaður rektors og kosningastjóri Guðna Th.

Ekki eru allir sáttir við slíkan ráðahag og benda á að Friðjón hafi verið aðstoðarmaður Bjarna Benediktssonar formanns Sjálfstæðisflokksins og því augljós pólitískt tengsl við forystu ríkisstjórnarinnar og Valhöll, en þessu og fleiru veltir Guðni Th. Jóhannesson fyrir sér þessa dagana.

Millum hans og Friðjóns er mikil vinátta og þá eru eiginkonur þeirra einnig nánar vinkonur. Friðjón vann sér ekki sérstakar vinsældir hjá Davíðsarminum í Sjálfstæðisflokknum með stuðningi sínum við Guðna í kosningunum á dögunum.

Orðið á götunni er að kosningastjóri Guðna, Magnús Lyngdal Magnússon, sem gegnir nú starfi aðstoðarmanns rektors Háskóla Íslands, hljóti einnig að koma til greina í embætti á forsetaskrifstofunni. Hann þykir hafa rekið afar snjalla kosningabaráttu og laðað til sín fólk úr öllum flokkum og ýmsum áttum.

Miðvikudagur 29.6.2016 - 16:23 - Ummæli ()

Yfirburðamanni hafnað

Björn ÞorlákssonOrðið á götunni er að kostulegt sé að fylgjast með viðbrögðum Björns Þorlákssonar við því að hafa verið rækilega hafnað í fyrsta prófkjöri Pírata fyrir komandi alþingiskosningar, nánar tiltekið í Norðausturkjördæmi.

Björn tilkynnti óvænt um framboð á dögunum eftir að hafa verið sagt upp sem ritstjóri á vefsíðunni Hringbraut og frá þeim degi var eins og hann liti á það sem nokkurs konar formsatriði að rúlla þessu prófkjöri upp. Hafði hann þó ekki áður tekið þátt í innra starfi Pírata, síðast tekið þátt í störfum Vinstri grænna og virðist hafa náð upp á móti sér ýmsum frammámönnum Pírata í héraði.

Alls tóku 78 þátt í prófkjöri þessa flokks, sem mælist stærstur flokka hér á landi, og verður það að teljast heldur lítið. En þeir sem tóku þátt höfðu nákvæmlega engan áhuga á Birni sem forystumanni og settu hann í sjöunda sætið. Það sæti ætlar hann ekki að taka og er hættur. Farinn og í fýlu.

Hlýtur þetta að teljast nokkuð áfall fyrir mann sem talar um sjálfan sig í þriðju persónu sem yfirburðamann og vandar öðrum ekki kveðjurnar. En líklega einnig skýrt merki þess að Píratar ætli að hafna lukkuruddurum sem dúkka óvænt upp og vilja ná sér í þingsæti nú þegar flokkurinn fer með himinskautum í könnunum og halda sig við það grasrótarfólk sem kom flokknum á kortið.

Á Pírataspjallinu má lesa að fólk hefur ekki mikið álit á viðbrögðum Björns og segja hann hann tapsáran. Orðið á götunni er að það lýsi ekki miklum skilningi á stöðu yfirburðamanna í þjóðfélaginu. Það hlýtur að vera erfitt fyrir slíka menn að melta svona úrslit.

 

 

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is