Miðvikudagur 25.4.2018 - 16:56 - Ummæli ()

Karlaframboð

Orðið á götunni er að nöfn tveggja framboða í Reykjavík séu svo keimlík, að skera verði úr um málið fyrir dómstólum. Annarsvegar er það Karlalistinn, sem stofnaður var af Gunnari Kristni Þórðarsyni, hvers stefna er að berjast fyrir málefnum feðra, en liðsmenn listans virðast einmitt koma úr hinum umdeilda #daddytoo hópi á Facebook, sem barist hefur gegn tálmun, þegar mæður meina feðrum að hitta börn sín. Þá líta margir á framboðið sem and-femínískt.

Hinsvegar er það Kallalistinn. Tilurðarsmiður hans er Karl Th. Birgisson, ritstjóri Herðubreiðar. Helstu stefnumál listans eru gjaldfríir leikskólar og skólamáltíðir, ókeypis í strætó, tímabundið þak á húsaleigu og útrýming plasts. Einhverjir skyldu ætla að þarna sé„grínframboð“ á ferðinni en þá er vert að rifja upp árangur Besta flokksins árið 2010, sem skilaði Jóni Gnarr í borgarstjórastólinn.

Ertu með athyglisverða ábendingu?
Sendu okkur póst á ordid@eyjan.is - fyllsta trúnaðar gætt.
Föstudagur 20.4.2018 - 15:28 - Ummæli ()

Fimmtudagsfríin færð

Orðið á götunni er að senn verði lagt fram frumvarp á Alþingi sem kveði á um að fimmtudagsfríin svokölluðu, líkt og sumardagurinn fyrsti og uppstigningardagur, verði færð að helgum, til föstudags eða mánudags. Fjölmargir frónarbúar eru þreyttir á að þessi fimmtudagsfrí skeri í sundur fríin sín og hafa Samtök atvinnulífsins lengi talað fyrir slíkum breytingum einnig.

Róbert Marshall lagði fram þingsályktunartillögu árið 2013 að í lögum um 40 stunda vinnuviku yrði bætt við eftirfarandi málsgrein: „Veita skal frídaga vegna uppstigningardags og sumardagsins fyrsta næsta föstudag eftir þann dag sem þá ber upp á, nema um annan hátíðisdag sé að ræða og skal þá veita frí miðvikudaginn á undan. Beri jóladag, annan í jólum, nýársdag og 17. júní upp á helgi skal veita frídag næsta virkan dag á eftir. Þá skal halda 1. maí hátíðlegan sem frídag verkamanna fyrsta mánudag í maí, sbr. lög um almennan frídag vegna frídags verkamanna 1. maí.“

Ekki komst málið í gegnum þingið þá. Hinsvegar heyrast nú árlegar óánægjuraddir með þetta fyrirkomulag og eru hjólin víst farin að snúast á þinginu til að finna málinu farveg.

Orðið á götunni er að þungavigtarþingmaður úr Sjálfstæðisflokknum, Páll Magnússon, hafi sagst ætla að „fara í málið“ og megi því búast við að frumvarpið fljúgi í gegnum þingið á þessu kjörtímabili. Líklegt verður að þykja, að Páll fái sérstakan frídag nefndan eftir sér, komist málið í gegn.

Ertu með athyglisverða ábendingu?
Sendu okkur póst á ordid@eyjan.is - fyllsta trúnaðar gætt.
Miðvikudagur 18.4.2018 - 15:46 - Ummæli ()

Katrín í hers höndum

Orðið á götunni er að leiðtogafundur Norðurlanda og Indlands í Svíþjóð, sem Katrín Jakobsdóttir sótti fyrir Íslands hönd, hafi reynst forsætisráðherra vor óþægur ljár í þúfu. Ekki nóg með að Katrín hafi þurft að ferðast í almennu farrými á leiðinni til Stokkhólms, heldur reyndist óvæntur leynigestur um borð, sjálfur Sogns-strokufanginn Sindri Þór Stefánsson. Engum sögum fer þó af samskiptum þeirra um borð, eða hvort þau voru nokkur yfir höfuð.

Eftir leiðtogafundinn sagði Katrín að Norðurlöndin ættu mikil tækifæri í aukinni samvinnu við Indland, ekki síst á sviði nýsköpunar og umhverfismála. Þá tók Katrín fram að ánægjulegt hefði verið að rík áhersla hefði verið lögð á jafnréttismál á fundinum.

Athygli vekur að Katrín og ráðuneyti hennar hefur hvergi minnst á helstu ástæðu þess að forsætisráðherra Indlands, Narendra Modi, sótti þennan leiðtogafund Norðurlandanna, en það er fyrirhuguð sala Svíþjóðar á 110 herþotum til Indlands fyrir 15-25 milljarða dollara, en tvíhliða yfirlýsing þess efnis var einmitt undirrituð á leiðtogafundinum.

Eflaust hefur Katrínu þótt erfitt að vera einn af miðdeplum athyglinnar í miðri hergagnasölu, enda stríðir slíkt gegn stefnu VG og siðferðisvitund flestra landsmanna, þar sem Ísland hefur fengið góðan díl á vörnum landsins í gegnum tíðina og því ekki þurft að standa í slíkum viðskiptum, ef frá eru taldar fallbyssurnar á skipum landhelgisgæslunnar.

Orðið á götunni er hinsvegar það, að Katrín sé í góðri æfingu við að víkja sér undan grunnstefnumálum síns flokks þegar kemur að öryggismálum, eftir hentugleika, og því muni þetta lítil áhrif hafa.

Ertu með athyglisverða ábendingu?
Sendu okkur póst á ordid@eyjan.is - fyllsta trúnaðar gætt.
Mánudagur 16.4.2018 - 15:58 - Ummæli ()

Af samherjum

Orðið á götunni er að siðferðið í stjórnmálum á Íslandi fari batnandi með degi hverjum. Hvort bankahrun, GRECO skýrsla, eða fjölmiðlar hafi þar eitthvað að segja skal ósagt látið, en gaman er að gleðjast yfir litlum áfangasigrum í þessum efnum.

Líkt og fjallað hefur verið um í fréttum eru tengsl Kristjáns Þórs Júlíussonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við Þorstein Má Baldvinsson, forstjóra Samherja, stærsta sjávarútvegsfyrirtæki landsins, töluverð. Kristján er fyrrum stjórnarformaður fyrirtækisins og hefur tekið nokkra túra fyrir Samherja sem sjómaður, samhliða þingmennsku, líkt og getið er um í hagsmunaskráningu ráðherrans. Þá er þeir Kristján og Þorsteinn sagðir ágætis vinir sem þekkst hafi síðan þeir voru báðir ungir menn. Við það er ekkert að athuga, enda lítið land og viðbúið að ráðherrar þekki áberandi menn úr viðskiptalífinu.

Orðið á götunni er að Kristján Þór hafi ekki sótt glæsilega árshátíð Samherja um helgina, þar sem flogið var með alla starfsmenn fyrirtækisins, til sjós og lands, í fimm flugvélum er fyrirtækið leigði, til Póllands. Einhverjum hefði kannski þótt fréttnæmt ef Kristján hefði sótt árshátíðina og allskyns spurningar vaknað um hver borgaði ferðalagið, skattgreiðendur, Samherji, eða Kristján sjálfur. En sem betur fer þarf ekki að spyrja að slíkum spurningum, þar sem Kristján Þór fór ekki til Póllands.

Ertu með athyglisverða ábendingu?
Sendu okkur póst á ordid@eyjan.is - fyllsta trúnaðar gætt.
Föstudagur 13.4.2018 - 14:36 - Ummæli ()

Ykkur er ekki boðið

Orðið á götunni er að ekki hafi öllum af þeim 14 framboðum sem ætla sér að bjóða fram í Reykjavík í næstu borgarstjórnarkosningum, verið boðið á málþing sem Íbúasamtök Miðborgar Reykjavíkur standa fyrir á laugardaginn í Spennustöðinni, hvar spurningum íbúa verður svarað af frambjóðendum. Alls tíu flokkar hafa boðað komu fulltrúa síns flokks á málþingið, en hvergi bólar á fulltrúum Sósíalistaflokksins, Kvennaframboðsins, Íslensku þjóðfylkingarinnar og Frelsisflokksins.

Fundarstjóra málþingsins, Helga Seljan, fréttamanni á RÚV er þó vorkun, enda vart hægt að hafa undan við að fylgjast með tilurð nýrra framboða, sem spretta upp eins og gorkúlur þessi dægrin.

Orðið á götunni er að hinu nýja femíníska kvennaframboði verði hinsvegar ekki boðið, þar sem engin hefur viljað bera ábyrgð á því, en Sóley Tómasdóttir sór það af sér í færslu á Facebook og mátti ráða í orð hennar að nafnleysi framboðsins væri með ráðum gert, hin breiða kvennafylking myndi stíga fram og kynna sig þegar það hentaði þeim.

Ertu með athyglisverða ábendingu?
Sendu okkur póst á ordid@eyjan.is - fyllsta trúnaðar gætt.
Miðvikudagur 11.4.2018 - 14:49 - Ummæli ()

Minnisblað á morðfjár

Orðið á götunni er að samningurinn sem Fjármála- og efnahagsráðuneytið gerði við Íslandsvininn Michael Ridley, fyrrum yfirmann fjárfestingabankastarfssemi JP Morgan, sé afar hagkvæmur, þó aðallega fyrir Michael Ridley. Tilkynningin um störf hans var birt þann 3. apríl og eru áætluð starfslok 15. maí.

Ridley mun sinna ráðgjafastörfum sem tengjast endurskipulagningu fjármálakerfisins, efndum stöðuleikasamkomulaga og öðrum tilfallandi verkefnum. Fyrir viðvikið fær hann 14.5 milljónir króna, sem verður að teljast nokkuð gott fyrir ekki lengri vinnutíma.

Ridley þessi kom hingað til lands þann 5. október 2008 ásamt tveimur öðrum starfsmönnum JP Morgan, að ósk Seðlabanka Íslands til ráðgjafar, en þetta var rétt áður en bankakerfið hér fór á hliðina í hinu svokallaða hruni. Samkvæmt framburði Össurar Skarphéðinssonar, Árna G. Mathiesen og Björgvins G. Sigurðssonar í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, er Ridley maðurinn sem kom íslensku ráðherrunum í skilning um að bankarnir væru fallnir og að grípa þyrfti til neyðarlaga. Er það orðað sem svo, að hann hafi verið sá sem vakti þá af værum blundi og það hafi verið stund sannleikans er hann kom þeim í skilning um hvað þyrfti að gera.

Daginn eftir flutti Geir H. Haarde sögufrægt sjónvarpsávarp, hvar hann bað sjálfan guð almáttugan um að blessa Ísland.

Orðið á götunni er að hlutskipti og mikilvægi Ridley sé annað og minna nú en þá og að ráðuneytið sé einungis að skreyta sig með fjöðrum „erlends sérfræðings“ sem baktryggingu fyrir væntanlegri gagnrýni á störf ráðuneytisins.  Á endunum muni hinn virti erlendi sérfræðingur aðeins skila af sér ómerkilegu minnisblaði, hvers vægi verður ávallt mælt í milljónunum sem það kostaði, í stað þeirra niðurstaðna sem pantaðar voru.

 

Ertu með athyglisverða ábendingu?
Sendu okkur póst á ordid@eyjan.is - fyllsta trúnaðar gætt.
Þriðjudagur 10.4.2018 - 10:38 - Ummæli ()

Og fussum svei

Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir borgarfulltrúi.

Orðið á götunni er að Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, óháður borgarfulltrúi, áður Framsóknar- og flugvallarvinur, leiti nú leiða til þess að framlengja starfsferil sinn í borginni. Sveinbjörg skrifaði grein í lok mars er bar heitið „Þörf á Soffíu frænku“. Þar gagnrýndi hún fjármálastjórn meirihlutans og sagði Dag borgarstjóra vera „bíræfinn“ stjórnmálamann. Sagði hún þörf á Soffíu frænku í borgarstjórn, en Soffía er reiða konan í Kardimommubænum, hinu ódauðlega meistarastykki Thorbjörns Egner, sem skammast í sífellu yfir ræningjunum Kasper Jesper og Jónatan. Hún var kannski aldrei eins vinsæl og ræningjarnir, en náði góðum árangri í að skúra, skrúbba og bóna, sem Sveinbjörg telur einmitt þörf á í borginni.
Sagt er að Sveinbjörg hafi biðlað til Ingu Sæland, formanns Flokks fólksins, um að verða oddviti flokksins í Reykjavík, en fengið þvert nei.
Orðið á götunni segir að þá hyggist Sveinbjörg Birna stefna að nýju framboði ásamt Margréti Friðriksdóttur, frumkvöðlafræðingi, sem hefur verið nokkuð áberandi í þjóðmálaumræðunni fyrir skoðanir sínar og ótakmarkaða ást sína á frelsara vor, Jesú Kristi. Ku framboðið eiga að heita Fram fram fylking.

Ertu með athyglisverða ábendingu?
Sendu okkur póst á ordid@eyjan.is - fyllsta trúnaðar gætt.
Sunnudagur 8.4.2018 - 10:02 - Ummæli ()

Brýtur þjóðkirkjan á börnum ?

Orðið á götunni er að árlega brjóti prestar landslög, gagnvart fermingarbörnum. Í tilskipun um ferminguna, frá árinu 1759 segir:

„Það skal vera aðalregla, að prestar megi eigi taka börn til fermingar, þau er fermast eiga, fyrr en þau eru orðin fullra 14 eða 15 ára, með því að börn, sem yngri eru, kunna sjaldan að meta rétt, eða hafa hugsun á að færa sér í nyt það er kennarar þeirra leiða þeim fyrir sjónir og brýna fyrir þeim, og skynja eigi, hve þýðingarmikill sáttmáli sá er, er þau í fermingunni endurnýja og staðfesta.“

Sumsé, börn mega ekki fermast fyrr en þau eru orðin 14 ára, samkvæmt lögum, en um 2/3 hvers árgangs er aðeins 13 ára við fermingu, að meðaltali.

Hvort fjöldamálshöfðanir fylgi í kjölfarið skal ósagt látið, en orðið á götunni er að ríkisvaldið muni styðja Þjóðkirkjuna og vernda.

 

Ertu með athyglisverða ábendingu?
Sendu okkur póst á ordid@eyjan.is - fyllsta trúnaðar gætt.
Föstudagur 6.4.2018 - 16:21 - Ummæli ()

Fjármálaáætlun full af villum

Orðið á götunni er að prenta þurfi annað eintak af fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar, þar sem það séu svo margar villur í henni. Nefndarritarar í fjárlaganefnd hafa enn ekki fengið eintak af fjármálaáætluninni, né fengu þeir boð á kynningarfund um hana, líkt og þeir fengu í fyrra, en þeir eru jafnan prófarkalesarar slíkra áætlana.

Sem dæmi um villur er að 10 milljarða munur er á málefnasviðinu um fjármagnskostnað og lífeyrisskuldbindingar. Billjón króna munur er í áætluðum markmiðum um útflutningstekjur. Þá eru markmiðin sögð vera á árinu 2018, en ekki 2019.

Villurnar eru víst svo margar og alvarlegar að nýrrar prentunar er þörf.

Orðið á götunni er að fljótlega komi fyrirspurn frá Birni Leví Gunnarssyni, Pírata á þingi, um hvernig þessi mistök komu til.

Ertu með athyglisverða ábendingu?
Sendu okkur póst á ordid@eyjan.is - fyllsta trúnaðar gætt.
Þriðjudagur 3.4.2018 - 14:45 - Ummæli ()

Sjómannsins saknað

Orðið á götunni er að ekki séu allir á eitt sáttir við þá niðurstöðu sem hlutskörpust var í listaverkasamkeppninni um arftaka „Sjómannsins“ er prýddi vegg Sjávarútvegshússins frá 2015 til 2017. Hjörleifur Guttormsson, fyrrum iðnaðarráðherra, var á sínum tíma andvígur tilurð sjómannsins og varð úr nokkuð fréttamál sökum þess.

Verkið „Glitur hafsins“ vann listaverkasamkeppnina nýverið og mun prýða vegginn næstu þrjú árin.

Í umsögn um verkið er sagt: „Þarna bregður fyrir eða mótar fyrir fiski og hval, neti og öldum en allt er þetta samofið í eitt form sem umvefur sjálft sig og skapar eitthvað nýtt og óráðið. Formið er á hreyfingu, virðist skjótast upp úr jörðinni eða hafinu í átt að himninum, í átt að framtíðinni. Á efri part myndar eru litlir speglar bróderaðir inn í myndefnið. Speglarnir munu grípa ljósið og gefa verkinu tilbreytingu, endurvarpa umhverfinu og skjóta ljósgeislum því sólin skín beint á efri part gaflsins á ákveðnum tíma dags. Ljósgeislarnir vísa beint í glitur hafsins, í glerhjúp Hörpu en einnig vonarneistana sem við leitum að til að halda áfram að þróast og þroskast.“

Sérfræðingarnir segja verkið falla vel að umhverfi sínu og hafa rómantíska skírskotun til sögu sjávarútvegs á Íslandi.

Orðið á götunni er að Hjörleifur sakni sjómannsins nú þegar.

Ertu með athyglisverða ábendingu?
Sendu okkur póst á ordid@eyjan.is - fyllsta trúnaðar gætt.

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is