Mánudagur 19.3.2018 - 15:01 - Ummæli ()

Rússneskar kosningar

Orðið á götunni er að rússneskar kosningar séu víðar að finna en í Rússlandi. Þannig eru þær nefndar kosningarnar, þar sem enginn mótframbjóðandi er og/eða víst þykir hver kosinn verður, vegna væntanlegra yfirburða, líkt og tíðkaðist í gömlu Sovétríkjunum þar sem enginn dirfðist að fara gegn foringjanum, hvort sem hann hét Stalín eða Khrushchev. Nú er það Pútín.

Því þykir það í frásögur færandi þegar stjórnmálaflokkar á Íslandi, sem allir kenna sig við lýðræði, fá ekki mótframbjóðanda í tiltekin embætti innan flokksins.

Fjórir íslenskir stjórnmálaflokkar hafa nú haldið landsfundi eða flokksþing á síðustu vikum og hafa engir mótframbjóðendur verið um æðstu embætti þeirra. Samfylkingin, Framsóknarflokkurinn, Viðreisn og Sjálfstæðisflokkurinn eru allt flokkar sem hafa boðið upp á rússneskar kosningar um æðstu embættin.

Sögulega séð getur jafnvel Sjálfstæðisflokkurinn, sem talinn er með foringjahollari hagsmunahópum landsins, státað af þremur framboðum gegn sitjandi formanni í seinni tíð. Davíð Oddson gegn Þorsteini Pálssyni, Hanna Birna gegn Bjarna Ben og auðvitað Pétur heitinn Blöndal, sem fór fram gegn Bjarna Ben árið 2010, aðeins til þess að lýðræðið fengi að njóta sín, líkt og hann komst að orði.

Þetta er því vert umhugsunarefni fyrir fólk í flokkum sem kenna sig við lýðræði, hvort það væri nokkuð úr vegi að bjóða upp á það í meiri mæli ?

Ertu með athyglisverða ábendingu?
Sendu okkur póst á ordid@eyjan.is - fyllsta trúnaðar gætt.
Föstudagur 16.3.2018 - 15:00 - Ummæli ()

Tan á Tene

Orðið á götunni er að Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hafi skroppið í sólina á Tenerife. Það er hollt og nauðsynlegt hverjum þingmanni að taka sér hvíld frá amstri dagsins og hlaða rafhlöðurnar fyrir átökin framundan. Svokölluð nefndarvika er ágæt til þess fallin að kúpla sig út og njóta lífsins, en Brynjar er ekki formaður neinnar nefndar og getur því legið áhyggjulaus í sólinni, á fullum launum, þar sem hann kallaði ekki eftir varamanni.

Hver veit nema Brynjar taki við keflinu sem Árni Páll Árnason skildi eftir sig á þinginu, en hann þótti jafnan vera hörundsdekkri en almennt gengur og gerist og eðlilegt þykir, meðal bleiknefja á Alþingi. Var gjarnan talað um dökkbrúna Chesterfield sófa í því sambandi. Hvort brúnka Brynjars komist á sama stall og Árna Páls verður þó að teljast ólíklegt, þar sem Árni Páll útskýrði sjálfur að hann væri einfaldlega þannig af guði gerður, meðan Brynjar þarf að treysta á sællega sólbrúnku, eða tvöfaldan túrbótíma í ljósabekk. Með nýjum perum.

 

Ertu með athyglisverða ábendingu?
Sendu okkur póst á ordid@eyjan.is - fyllsta trúnaðar gætt.
Miðvikudagur 14.3.2018 - 14:10 - Ummæli ()

Þegar Ragnar bjargaði lífi heimsfrægs boltasparkara

Orðið á götunni er að Ragnar Önundarson, viðskiptafræðingur, sem þekktur er fyrir útlitsgagnrýni sína í garð Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, ritara Sjálfstæðisflokksins, hafi fyrir mörgum árum bjargað lífi heimsfrægrar knattspyrnukempu. Ku Ragnar hafa verið við golfiðkun í Portúgal árið 2004, degi eftir að heimamenn höfðu lotið í gras fyrir Grikkjum, sem urðu Evrópumeistarar í knattspyrnu, mörgum til vonbrigða.

Þennan dag var óvenju heitt í borginni Sintra. Ragnar og félagar hans tóku því nóg af vatni með sér á golfvöllinn, þar sem bleiknefjar slíkir eiga oft bágt í sólinni. Þegar Ragnar og fylgisveinar hans voru hálfnaðir með hringinn, drógu tveir ungir heimamenn þá félaga uppi við 9. holuna. Voru þeir aðframkomnir af þorsta og urðu því fyrir miklum vonbrigðum með að sjálf sjoppan var lokuð. Reyndust þá góð ráð dýr. Annar þessara heimamanna reyndist vera heimsfrægur tuðrusparkari, sem látið hafði í minni pokann daginn áður fyrir Grikkjum. Ragnar sá aumur á tvíeykinu og  bauðst vitanlega til að brynna boltasparkaranum og vini hans, enda nóg af vatni til á þeim bænum. Ragnar hefur sjálfur sagt, að það hafi reynst gaman að hafa náð að bjarga mannslífi, en þessi boltasparkari reyndist vera sjálfur Loðvík Fíkja, eða Louis Figo, þá fyrirliði Portúgals og eitt sinn dýrasti knattspyrnukappi heims og ein stærsta stjarna knattspyrnustórveldisins  spænska, Real Madrid.

Ertu með athyglisverða ábendingu?
Sendu okkur póst á ordid@eyjan.is - fyllsta trúnaðar gætt.
Þriðjudagur 13.3.2018 - 16:43 - Ummæli ()

Prestapönk í hönk

Orðið á götunni er að vegir guðs séu órannsakanlegir um þessar mundir, sem sjáist best á fréttum af útvarpi Sögu og séra Davíð Þór Jónssyni, þjóðkirkjupresti, sem ort hefur ansi harðort erindi um ljósvakamiðilinn fyrir væntanlega plötu pönkhljómsveitarinnar Austurvígstöðvarnar. Eru andans menn ekki allir vissir um hvort Jesú myndi samþykkja slíka hegðun hans þjóns á jörðu niðri, meðan aðrir segja allt leyfilegt þegar pönk er annarsvegar. Útvarp Saga hefur brugðist við, meðal annars með því að grafa upp gömul ummæli Davíðs þar sem hann á að hafa úthúðað þeim sem börðust gegn unglingadrykkju á útihátíðinni Uxa´95. Já langt er seilst í kristnum kærleik.

Svo eru þeir sem segja þetta öfugsnúið pönk hjá prestinum. Orðið á götunni er að einn varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, sem teljist almennt listhneigður og frjálslyndur, sé hreint ekki ánægður með framlag prestsins. Hann telji það öfugsnúið pönk þegar það sé notað af valdsmanni, sem þiggi góð laun frá ríkinu, í að níða niður fólk sem er að berjast í bökkum í einkageiranum. Það er, þeir sem eru innangarðs hjá valdinu noti pönk til að níðast á þeim sem eru utangarðs. Þess ber þó að geta, að umræddur varaborgarfulltrúi hefur áður gert tilraunir með kaldhæðni og meining hans því óljós þegar þetta er ritað.

 

Ertu með athyglisverða ábendingu?
Sendu okkur póst á ordid@eyjan.is - fyllsta trúnaðar gætt.
Mánudagur 12.3.2018 - 10:57 - Ummæli ()

Fýlupúkafélagið fékk ekki framgöngu í fimmtugsafmæli

Orðið á götunni er að fimmtugsafmæli Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, utanríkisráðherra Sjálfstæðisflokksins, sem haldið var í Hvalasafninu um helgina, hafi heppnast vel. Að vísu varð Guðlaugur fimmtugur þann 19. desember síðastliðinn, en kaus að halda upp á það nú, sökum anna. Fjölmargir sóttu veisluna, sem var hin glæsilegasta og héldu til dæmis Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, tölu í tilefni dagsins og enn fleiri mærðu gestgjafann á góðri stund.

 

Það var því nokkuð stór skugginn sem féll á veisluna, þegar ljóst var að það skemmtiatriði sem allir biðu eftir, með öndina í hálsinum, fékk ekki að fara á svið. Því þegar kom að æðstastrumpi hins svokallaða Fýlupúkafélags að segja gamansögur af afmælisbarninu, væntanlega á kostnað ráðherrans, var skyndilega lokað fyrir öll ræðuhöld ! Höfðu menn á orði, að vantrauststillögur hefðu verið lagðar fram til höfuðs ráðherra af minna tilefni. Stór orð eins og „leyndahyggja“ og „þöggun“ eru sögð hafa flogið um salinn einnig. Fýlupúkafélagið er félagsskapur þingmanna Sjálfstæðisflokksins þar sem Brynjar Níelsson er sagður nokkuð fyrirferðarmikill, enda annálaður húmoristi, en félagið var stofnað snemma á síðasta ári.

Orðið á götunni er að skýringin fyrir þessari skyndilokun á ræðuhöld Fýlupúkafélagsins hafi verið sú, að utanríkisráðherra hafi talið það stjórnarskrárvarinn rétt veislugesta, að þurfa ekki að hlýða á Brynjar Níelsson…

Ertu með athyglisverða ábendingu?
Sendu okkur póst á ordid@eyjan.is - fyllsta trúnaðar gætt.
Fimmtudagur 8.3.2018 - 12:00 - Ummæli ()

Bévítans gleymskan

Orðið á götunni er að gleymska geti oft komið mönnum í koll. Almenna kenningin er sú að mun meiri líkur séu á að viðkomandi gleymi því hvað hann sagði, eftir því sem lengri tími líður frá því að hann sagði það.

Þetta virðist sérstaklega áberandi hjá þaulsetnum stjórnmálamönnum. Þeim er að vísu vorkunn, enda þurfa þeir að tala meira en almennt gengur og gerist, bæði í pontu, við fjölmiðla og á samfélagsmiðlum, enda vilja þeir koma skoðunum sínum á framfæri, sem er eðli stjórnmálanna.

Þetta getur þó reynst þeim hvimleitt. Allir vita að það getur reynst stjórnmálamönnum erfitt að fara eftir eigin samvisku í pólitík og því er gleymskunni ekki á það bætandi.

Gömul ummæli geta reynst óþægileg, þar sem þau eru gjarnan á skjön við gjörðirnar. Ekki síst ef þau beinast að kollegum á þingi, sem síðar þarf að vinna með í ríkisstjórn.

Dæmi um slík ummæli er eftirfarandi:

„Nú hefur æðsti dómstóll landsins talað-ráðherrann braut landslög. Afleiðing af slíkum embættisafglöpum(sem margir reyndu að benda ráðherranum á í tíma)- afleiðingin hlýtur að verða afsögn ráðherrans. Annað væri staðfesting á því að við höfum ekkert lært af Rannsóknarskýrslu Alþingis. Því vil ég ekki trúa.“

 

Merkilegt nokk, hér er ekki verið að tala um Sigríði Á. Andersen dómsmálaráðherra, heldur Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra. Það er Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, sem skrifaði ummælin á bloggsíðu sinni í febrúar 2011, eftir að Hæstiréttur staðfesti dóm Héraðsdóms Reykjavíkur um að Svandís hefði sem umhverfisráðherra ekki mátt synja aðalskipulagi Flóahrepps er varðar Urriðafossvirkjun. Sigurður Ingi var þá óbreyttur þingmaður.

 

Nú sitja þau Svandís og Sigurður Ingi saman í ríkisstjórn, sem ver Sigríði Á. Andersen vantrausti, en Hæstiréttur komst að því að hún hefði brotið stjórnsýslulög. Sumir myndu segja að mál Sigríðar sé alvarlegra í eðli sínu en mál Svandísar, en Sigurður Ingi greiddi atkvæði gegn tillögunni um vantraust á Sigríði í vikunni og missti þar af gullnu tækifæri til þess að standa við orð sín frá 2011, enda ljóst að fleiri þingmenn Framsóknar hefðu fylgt formanni sínum í kosningunni, hefði hann óskað eftir því.

Bévítans gleymskan.

Ertu með athyglisverða ábendingu?
Sendu okkur póst á ordid@eyjan.is - fyllsta trúnaðar gætt.
Þriðjudagur 6.3.2018 - 10:00 - Ummæli ()

Einfaldur smekkur

Orðið á götunni er að Páll Magnússon, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, muni skarta glænýjum, Sjálfstæðisbláum jakkafötum á næstu dögum í þinginu, jafnvel með nýjum vasaklúti í brjóstvasanum. Sást til Páls í versluninni Kultur Menn í Kringlunni á dögunum, hvar hann fékk jakkafötin afhent. Páll hefur þótt einn best klæddi maður landsins um árabil og þykir standa í framvarðarsveit snyrtipinna á þingi hvað tísku varðar, ekki síst ef miðað er við karlkyns kollega hans hjá Pírötum, til dæmis. Páll var áður einn dyggasti viðskiptavinur Sævars Karls Ólasonar, eins þekktasta klæðskera landsins, meðan verslun hans var og hét.

Þeir sem eru röngu megin við þrítugt muna kannski eftir landsfrægum orðum Páls í auglýsingum frá Sævari Karli frá árinu 1985:

„Ég hef mjög einfaldan smekk. Ég vel aðeins það besta, fötin frá Sævari Karli, Bankastræti 9.“ Þá var Páll fréttamaður ríkissjónvarpsins og vakti auglýsingin deilur, þar sem fréttamenn máttu ekki koma fram í auglýsingum samkvæmt reglum RÚV. Sama kvöld og auglýsingin birtist fyrst á skjánum, stjórnaði Páll umræðuþætti þar sem þáverandi fjármálaráðherra, Albert Guðmundsson, var tekinn á beinið af afskaplega snyrtilega klæddum fréttamanni sjónvarpsins, prúðbúnum í nýtísku jakkafötum.

Páll skar niður jakkafatastyrk fréttamanna og fréttalesara RÚV skömmu eftir hrun, í starfi sínu sem útvarpsstjóri. Páll var þá einnig fréttalesari, en fatastyrkur RÚV nam 80-300 þúsund krónum á ári. Páll hefur ekki þótt neitt sérstaklega púkó síðan.

Af gefnu tilefni skal tekið fram að Alþingi endurgreiðir ekki jakkafatakaup, svo vitað sé.

Ertu með athyglisverða ábendingu?
Sendu okkur póst á ordid@eyjan.is - fyllsta trúnaðar gætt.
Mánudagur 5.3.2018 - 11:35 - Ummæli ()

Stigið í VænGinn

Orðið á götunni er að Samfylkingin sé hrædd um að missa spón úr aski sínum í borginni þegar kemur að áframhaldandi meirihlutasamstarfi við VG. Óttast Samfylkingin að VG vilji samstarf með Sjálfstæðisflokknum að loknum borgarstjórnarkosningum, þar sem það virðist ganga ágætlega innan ríkisstjórnarinnar. Samkvæmt nýjustu könnun fengi það nauma meirihlutasamstarf 12 borgarfulltrúa af 23.

Enga sérfræðinga í millilínulestri þarf til að greina ræðu Jóhönnu Sigurðardóttur á landsfundi Samfylkingarinnar um helgina. Jóhanna sagði að spjót Samfylkingarinnar ættu helst að beinast að „spillingarflokkunum“ Framsókn og Sjálfstæðisflokki, en í minna mæli að VG, sem hefði villst tímabundið af leið. Og þar sem hún hefði enga trú á að ríkisstjórnin héldi út kjörtímabilið, gæti VG orðið samherji Samfylkingarinnar fyrr en marga grunaði. Með öðrum orðum, látum VG í friði, við gætum þurft á þeim að halda bráðlega í borginni. 

Ertu með athyglisverða ábendingu?
Sendu okkur póst á ordid@eyjan.is - fyllsta trúnaðar gætt.
Sunnudagur 4.3.2018 - 09:25 - Ummæli ()

Framtíðarhækkanirnar

Orðið á götunni er að prósentureikningur geti verið ansi skemmtilegur þegar tölurnar eru settar í samhengi. Ennþá skemmtilegra þegar tölurnar eru ákvarðanir kjararáðs.

Þingfararkaupið og laun héraðsdómara hækkuðu um 45% í október 2016, fóru grunnlaunin þá úr 766 þúsund krónum í 1,1 milljón króna. Ef launin hækka aftur um 45% fara þau upp í 1,5 milljónir. Þrjár aðrar eins hækkanir upp á 45% þarf þá til að þingfararkaupið fari upp í heilar 4,8 milljónir á mánuði.

Enn skemmtilegri tölur má sjá þegar litið er til launahækkana ráðherra og forseta Íslands, en þess má geta að forseti Íslands gefur hálfu milljónina sem hann fær mánaðarlega frá kjararáði. Laun forsætisráðherra hækkuðu síðast um rúm 34%, úr 1.490 þúsund í rúmar 2 milljónir. Ein slík hækkun í viðbót og forsætisráðherrann er kominn í 2,7 milljónir. Þrjár slíkar hækkanir til viðbótar og forsætisráðherra er kominn upp í 6,4 milljónir í grunnlaun.

Ef kjararáð heldur aftur af sér eins var gert á milli mars 2015 til júní 2016 þegar þingfararkaupið hækkaði um 7,5% myndu launin fara upp í 1,2 milljónir, eftir þrjár aðrar eins hækkanir til viðbótar væru launin búin að hækka um rúmlega 370 þúsund krónur. Eftir þrjár slíkar hækkanir fyrir forsætisráðherra væru launin búin að hækka um rúmlega 500 þúsund.

Svona getur prósentureikningur verið skemmtilegur.

Ertu með athyglisverða ábendingu?
Sendu okkur póst á ordid@eyjan.is - fyllsta trúnaðar gætt.
Fimmtudagur 1.3.2018 - 12:23 - Ummæli ()

Kvenmannsleysi

Orðið á götunni er að verkalýðshreyfingin þurfi að taka sig á þegar kemur að hlutfalli kynjanna innan æðstu raða ASÍ. Eftir að tillaga um að segja upp kjarasamningum var felld í gær, kom bersýnilega í ljós að baráttuöskur verkalýðsbaráttunnar er 100% bassarödd.

Myndir af fundinum hafa vakið upp viðbrögð jafnréttissinna, þar sem allir talsmenn aðildarfélaga ASÍ eru karlar. Er því nema von að spurt sé hvar konurnar séu ?

Framboð Sólveigar Önnu Jónsdóttur til formanns Eflingar ætti því að teljast heillspor í kvennabaráttunni, en framganga hennar hefur vakið athygli fyrir margra hluta sakir og er væntanlega innblástur fyrir vísuna birtist í bakgrunni myndarinnar hér við færsluna, en höfundurinn er Anton Helgi Jónsson rithöfundur sem skeytti vísunni við myndina:

 

Fátt er það sem hræðist her,

hraustra verkakalla.

Kannski helst að kvennager,

kjósi burt þá alla.

Ertu með athyglisverða ábendingu?
Sendu okkur póst á ordid@eyjan.is - fyllsta trúnaðar gætt.

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is