Miðvikudagur 14.2.2018 - 12:12 - Ummæli ()

Titringur

Orðið á götunni er að aldrei sé jafn miklvægt og rétt fyrir kosningar að sýna pólitísk klókindi. Kusk á hvítflibbann er einfaldlega ekki í boði. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri virðist hafa gleymt þessum vísdómi þegar hann vísaði Eyþóri Arnalds á dyr á fundi í Höfða með forystumönnum í borginni með þingmönnum.  Segja má að Dagur hafi gengið í ákveðna gildru en vissulega var hann í fullum rétti að gera athugasemd við viðveru Eyþórs, sem getur vart talist framámaður í borginni á meðan hann hefur ekki náð kjöri.  Skynsamlegra, út frá pólitísku sjónarhorni, hefði hins vegar verið að láta atvikið átölulaust.

Annars birtir Viðskiptablaðið athyglisvert viðtal við Eyþór, sem hafði nokkuð stór orð fyrir prófkjör Sjálfstæðisflokksins að það færi ekki saman að vera í stjórnum stórfyrirtækja og í borgarstjórn. Það er áreiðanlega satt og rétt. Í umræddu viðtali dregur Eyþór hins vegar örlítið í land með fyrri fullyrðingar og segir að það komi vel til greina að hann segi sig úr stjórn Árvakurs, útgáfufélags Morgunblaðsins. Í síðasta mánuði sagði hann afdráttarlaust að  hann teldi það rétt að losa sig út úr fjöl­miðlarekstri ef hann yrði kjör­inn borg­ar­full­trúi.

Sá tími er auðvitað ekki kominn en Eyþór bendir á að hann hafi þegar sagt sig úr stjórnum iðnfyrirtækja. Kröfur á hann séu undarlegar í ljósi þess að sveitarstjórnarmenn hafi verið í alls konar rekstri og þingmenn hafa átt í fjölmiðlum og eigi jafnvel enn.

Orðið á götunni er að Eyþór hafi nokkuð til síns máls. Þingmenn og sveitastjórnarmenn séu oftar en ekki nátengdir fyrirtækjum, auk þess sem a.m.k. tveir þingmenn eru eða hafa verið skráðir í eigendahópi fjölmiðla, Ágúst Ólafur Ágústsson þingmaður Samfylkingar er skráður fyrir eignarhlut í Kjarnanum og Smári McCarthy þingmaður Pítata var alla vega til skamms tíma skráður fyrir hlut í Stundinni.

Lítið hefur verið um hávær mótmæli eða hneykslan vegna þessa.

Ertu með athyglisverða ábendingu?
Sendu okkur póst á ordid@eyjan.is - fyllsta trúnaðar gætt.
Þriðjudagur 13.2.2018 - 08:07 - Ummæli ()

Grjót úr steinhúsi Vigdísar

Orðið á götunni er að líf sé heldur betur farið að færast í borgarstjórnarkosningarnar með tilkomu Vigdísar Hauksdóttur á vígvöllinn. Sjálf segist hún hafa saknað stjórnmálanna og stefnir á að ná inn fjórum fulltrúm fyrir Miðflokkinn. Það hlýtur að teljast metnaðarfullt markmið, ekki síst þar sem flokkurinn mældist með 1,1% fylgi í borginni daginn áður en tilkynnt var um framboð Vigdísar. Það þarf ekki talnaglöggan mann til að sjá að slíkt fylgi fleytir mönnum ekki langt.

Vigdís Hauksdóttir hefur alltaf verið umdeildur stjórnmálamaður sem hikar ekki við að segja sínar skoðanir á mönnum og málefnum. Hún á sinn trausta fylgjendahóp í borginni, en orðið á götunni er að hann sé ekki stór og dugi skammt í harðri kosningabaráttu þar sem hún þarf að kljást við tvo stóra turna, sem eru Dagur B Eggertsson og Eyþór Arnalds. Andstæðingar Vigdísar hafa gjarnan haft hátt á samfélagsmiðlum þar sem hún hefur gjarnan verið hædd fyrir klaufalegt orðfæri. Hver man ekki eftir „að kasta grjóti úr steinhúsi,“ eða „að stinga höfðinu í steininn,“ svo fátt eitt sé nefnt.

Staðreyndin með Vigdísi er að annað hvort líkar fólki mjög vel við hana eða beinlínis hatar hana. Hún er ekki stjórnmálamaður sem læðist með veggjum. Hún hefur mátt sæta harðari gagnrýni en flestir aðrir frá pólitískum andstæðingum og það verður eflaust stutt í þá gagnrýni núna. Hún hefur einstakt lag á að valda pólitísku ójafnvægi hjá mörgum.

Orðið á götunni er að menn ættu ekki að vanmeta Vigdísi Hauksdóttur og hverju hún getur áorkað. Þó að menn brosi út í annað þá mun hún klárlega hrista upp í annars litlausri kosningabaráttu

Kannski er rétt að spyrja að leikslokum.

Ertu með athyglisverða ábendingu?
Sendu okkur póst á ordid@eyjan.is - fyllsta trúnaðar gætt.
Sunnudagur 11.2.2018 - 10:00 - Ummæli ()

Sameinaðir stöndum VR

Ragnar Þór Ingólfsson.

Orðið á götunni er að Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR og Þórarinn Ævarsson, framkvæmdarstjóri Ikea, séu að skoða fleti á mögulegu samstarfi um byggingu leiguhúsnæðis, sem myndi sameina áhugamál þeirra beggja um ódýrt leiguhúsnæði til handa alþýðu landsins. Ragnar Þór hefur talað gegn græðgisvæðingu húsnæðismarkaðarins og vill í krafti VR geta boðið upp á íbúðir undir markaðsvirði. Ikea stefnir að byggingu 36 íbúða blokkar við Urriðaholt í Garðabæ handa starfsfólki sínu, en Þórarinn hefur viðurkennt eftir nánari skoðun að hagkvæmnin sé ekki eins mikil og hann var að vonast eftir, en haldið verði áfram með  verkefnið engu að síður. Innkoma Ragnars Þórs gæti gert gæfumuninn, en sjóðir VR ku vera nógu digrir til þess að fara af stað með slíkt verkefni og sameinaðir gætu þessir kumpánar boðið félögum á borð við GAMMA birginn, ekki síst ef satt reynist að fjársterkur huldumaður standi þeim félögum að baki.

Ertu með athyglisverða ábendingu?
Sendu okkur póst á ordid@eyjan.is - fyllsta trúnaðar gætt.
Föstudagur 9.2.2018 - 12:44 - Ummæli ()

Verst varðveitta leyndarmálið

Orðið á götunni er að aksturspeningamál ónefnda þingmannsins sé eitt verst varðveitta leyndarmálið í dag. Þingmaðurinn sem á í hlut heitir Ásmundur Friðriksson og samkvæmt upplýsingum þingsins fékk hann um 4,6 milljónir í endurgreiðslur á síðasta ári. Margir hafa hneykslast á þessu og benda á að þingmenn fái ýmsar aðrar sporslur, þó ekki sé verið að borga þeim líka fyrir að aka í vinnuna.

Um þetta má segja ýmislegt. Aksturspeningakerfi þingsins er og hefur alltaf verið meingallað. Þannig hafa þingmenn haldið aksturspeningadagbækur þar sem þeir færa akstur sinn sem tengist starfinu. Talið er eðlilegt að þessi kostnaður fáist endurgreiddur. Þetta gildir aðallega um þingmenn utan Reykjavíkur. Þannig fá t.d. þingmenn sem búa á Suðurnesjum greitt fyrir allan akstur til og frá vinnu, auk þess sem þingmenn fá greitt fyrir allan akstur sem tengjast fundum og öðru sem til fellur. Eftirlit með þessu er nánast ekkert. Það er því ekkert því til fyrirstöðu að einstakir þingmenn geti skráð hjá sér ferðir út í búð á kvöldin, eða ef þeir fara í fermingarveislur hjá ættingjum í næsta hreppi. Einstaka sinnum hafa starfsmenn þingsins gert athugasemdir við slíkar skráningar, en það heyrir til undantekninga.

Oft er farið á fundi úti á landi og þá hefur borið á því að menn hafi ekki viljað sameinast um bíla í sparnaðarskyni, heldur notað eigin bíl til að geta skráð aksturskostnað.  Auðvitað gildir þetta ekki um alla þingmenn, flestir fara eftir þeim reglum sem settar eru. Staðreyndin er hins vegar sú að þetta kerfi er aksturshvetjandi.

Ásmundur Friðriksson má þó eiga eitt. Fáir þingmenn hafa verið í betri tengslum við sína kjósendur en einmitt hann. Þannig hefur Ási gjarnan vaknað fyrr en flestir aðrir á morgnana og brunað um hið víðfeðma Suðurkjördæmi að hitta sjálfstæðismenn. Það virðist ekki hafa haft neikvæð áhrif á mætingu hans í þinginu. Og það sem meira er – þessi elja hefur tryggt Ásmundi góða kosningu oftar en einu sinni í prófkjörum Sjálfstæðisflokksins.

Ertu með athyglisverða ábendingu?
Sendu okkur póst á ordid@eyjan.is - fyllsta trúnaðar gætt.
Þriðjudagur 6.2.2018 - 11:55 - Ummæli ()

Sjálfkjörinn sagnfræðingur

Orðið á götunni er að lítið sem ekkert verði barist bak við tjöldin hjá innstu koppum í búri Vinstri grænna á næstunni, þegar valinn verður af ritnefnd, sagnfræðingur til að rita sögu hreyfingarinnar sem verður 20 ára á næsta ári. Fjölmargir rithöfundar og sagnfræðingar hafa lagt baráttunni lið á þessum árum og því hefðu margir haldið að margir væru hituna og heiðurinn. Óvenju hátt brottfall sagnfræðinga hefur þó verið úr flokknum á liðnum árum. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, fyrrum þingmaður VG, sem og Anna Björnsson, gengu til dæmis báðar úr flokknum á sínum tíma, en báðar eru þær sagnfræðingar. Varla mun VG fara óhefðbundnar leiðir og fá sagnfræðing af hægri vængnum til verksins, eins og Þór Whitehead, eða Hannes Hólmstein Gissurason, enda er Hannes upptekinn við skýrslugerð. Er því mál manna að hinn sérlegi sagnfræðingur VG, Stefán Pálsson, sé sjálfkjörinn til verksins.

Ertu með athyglisverða ábendingu?
Sendu okkur póst á ordid@eyjan.is - fyllsta trúnaðar gætt.
Fimmtudagur 25.1.2018 - 13:34 - Ummæli ()

Oddvitaorðrómur

Orðið á götunni er að Miðflokkurinn leiti nú logandi ljósi að verðugum oddvita og öðrum frambjóðendum í Reykjavík fyrir komandi borgarstjórnarkosningar. Flokkurinn stofnaði nýlega félag í borginni og ætlar sér stóra hluti þar, enda Miðflokksformaðurinn mikill áhugamaður um borgarmenningu og borgarskipulag. Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir, sem er borgarfulltrúi fyrir Framsókn og flugvallarvini, þrátt fyrir að hafa sagt sig úr Framsókn og skráð sig í Miðflokkinn, ætlar sér ekki í framboð, heldur mun hún snúa sér alfarið að lögmennsku. Þá hefur Eyjan heimildir fyrir því að Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, sem er óháður borgarfulltrúi en var áður í Framsókn, hafi ekki mætt á stofnfund Miðflokksins í Reykjavík, þrátt fyrir boð um slíkt. Frosti Sigurjónsson hefur einnig verið orðaður við Miðflokkinn, en Framsóknarræturnar eru sagðar of sterkar í Frosta til að slitna. Nægur tími er enn til stefnu, en raddirnar um að Sigmundur Davíð sjálfur ætli sér í borgarstjórastólinn gerast æ háværari…

Ertu með athyglisverða ábendingu?
Sendu okkur póst á ordid@eyjan.is - fyllsta trúnaðar gætt.
Miðvikudagur 17.1.2018 - 14:58 - Ummæli ()

Borgarfulltrúablús

Orðið á götunni er að kjör borgarfulltrúa séu ekki jafn slæm og sumir vilja af láta. Hefur það verið nefnt sem ástæða fyrir því að ekki nógu margir frambærilegir einstaklingar séu í boði í komandi borgarstjórnarkosningum.

633 þúsund krónur kunna ekki að hljóma mjög há tala en þá er ekki tekið með í reikninginn 25% álagsgreiðslur fyrir að gegna formennsku í fagráði eða í borgarstjórnarflokki. Þar að auki er 25% álag fyrir að sitja í borgarráði og 40% fyrir formann borgarráðs. Forseti borgarstjórnar fær svo 25% álag og afnot af bifreið með bílstjóra.

Þar að auki þurfa borgarfulltrúar ekki að kaupa sér fartölvu né standa staum af því að hafa nettengingu á heimili sínu. Ef borgarfulltrúi veikist fær viðkomandi full laun í heilt ár og ef viðkomandi hættir þá gefst alltaf kostur á nokkurra mánaða biðlaunum.

Fyrir þá sem finnst það ekki nóg gefst alltaf kostur á að taka sæti í stjórn Faxaflóahafna eða Orkuveitu Reykjavíkur þar sem við bætast allt að 150 þúsund krónur á mánuði.

Miðað við að helmingur landsmanna er með minna en 583 þúsund krónur á mánuði þá hljómar alls ekki illa að fá 633 þúsund krónur á mánuði, sem geta farið upp í 950, ásamt ýmsum fríðindum

Ertu með athyglisverða ábendingu?
Sendu okkur póst á ordid@eyjan.is - fyllsta trúnaðar gætt.
Laugardagur 13.1.2018 - 07:32 - Ummæli ()

Klofningur í Vestmannaeyjum

Orðið á götunni er að hluti Sjálfstæðismanna í Vestmannaeyjum sé að íhuga sérframboð gegn Elliða Vignissyni bæjarstjóra og samherjum hans. Vakin hefur verið athygli á því að Elliði beitti sér ekki fyrir því að það yrði haldið prófkjör í Vestmannaeyjum í fyrsta sinn í 28 ár, þvert á móti er segja andstæðingar hans að Elliði hafi beitt sér gegn prófkjöri og smalað á fund fulltrúaráðs í vikunni til að koma í veg fyrir að almennir Sjálfstæðismenn í bænum gætu kosið á lista flokksins. En eins og flestir vita þá er oddvitasæti Sjálfstæðisflokksins í þessu 4.200 manna bæjarfélagi ígildi bæjarstjóra.

56 sitja í fulltrúaráði Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum og helmingur þeirra kaus gegn prófkjöri. Elís Jónsson, sem ætlaði að taka þátt í prófkjöri í Vestmannaeyjum, benti á í útvarpsviðtali í gær að þegar skoðað væri hverjir þessir 28 eru þá væru það ættingjar og samstarfsfólk bæjarstjórans, hafði Elís það á orði að Elliði væri búinn að reisa múr í kringum sig og þeir sem færu gegn honum væru settir úr af sakramentinu.

Ef þetta kemur allt heim og saman þá er stór hluti bæjarbúa tilbúinn að losa sig við Elliða og fólkið í kringum hann. Hefur þar nafn Írisar Róbertsdóttur grunnskólakennara helst verið nefnt sem hugsanlegur bæjarstjóraframbjóðandi gegn Elliða. Í könnun MMR frá því í nóvember síðastliðnum vildu 34,9% kjósa Sjálfstæðisflokkinn, 7,7% Eyjalistann, 14,9% eitthvað annað og heil 39,5% voru óákveðnir. Ef lagðar eru saman prósentutölurnar þá eru heil 54,4% tilbúin að kjósa eitthvað annað en Sjálfstæðisflokk Elliða og Eyjalista félagshyggjumanna. Stofnað hefur verið til framboð af mun minna tilefni og því er ekki skrýtið að hluti Sjálfstæðismanna sé að íhuga sérframboð.

Ertu með athyglisverða ábendingu?
Sendu okkur póst á ordid@eyjan.is - fyllsta trúnaðar gætt.
Fimmtudagur 11.1.2018 - 15:18 - Ummæli ()

Prótókollstjórinn Hanna Birna

Orðið á götunni er að þörfin á samskiptareglustjóra hafi verið áþreifanleg á dögunum. Samskiptareglustjóri er annað orð yfir starfsheitið prótókollstjóri, en einn slíkur starfar í utanríkisráðuneytinu. Hann sér meðal annars um að halda í heiðri allskyns venjum og samskiptareglum og er sérfræðingur í að raða háttsettum gestum til borðs.
Haldið var veglegt heimsþing WPL samtakanna hér á landi í lok nóvember, en um 400 konur mættu á viðburðinn, þar af um 100 konur í valdastöðum, svo sem forsetar og forsætisráðherrar. Hanna Birna Kristjánsdóttir er stjórnarformaður samtakanna og hafði umsjón með skipulagningunni, ásamt Alþingi og utanríkisráðuneytinu. Prótókollstjórinn var þó upptekinn við önnur störf.

Eftir stíf fundar- og ræðuhöld í Hörpu, var blásið til veislu í Menningarhúsinu, þar sem boðið var upp á dýrindis mat og drykk gestum til mikillar ánægju. Setið var við nokkur langborð sem náðu þvert yfir allan salinn, en við enda eins langborðsins var háborðið, þar sem merkilegustu gestirnir sitja. Um klukkutíma áður en gestum var hleypt inn í salinn, hófst hópur opinberra starfsmanna við að raða hvítum A4 blöðum á háborðið, með nöfnum merkisgestanna.

Að sögn viðstaddra var þetta nokkuð skondin sjón, því enginn virtist vita hvernig best væri að raða þessum tignargestum, sem samanstóð af forseta Íslands, forsætisráðherra, forseta Alþingis, Hönnu Birnu, nokkrum ráðherrum og mökum þeirra allra, ásamt frú Vigdísi Finnbogadóttur.
Þegar um ein mínúta var eftir þangað til að gestunum var hleypt inn, virtist sem að niðurstaða hefði fengist í málið. Konurnar þustu inn og heiðursgestirnir gengu að háborðinu. Hanna Birna var fyrst á svæðið og leit yfir háborðið. Leiftursnöggt færði hún til nokkur blöð án þess að mikið bæri á, enda gestir uppteknir við að heilsast og skiptast á ljúfyrðum. Virtist enginn taka eftir neinu og settust allir glaðir á svip, ánægðir með sína sessunauta.

Í hamaganginum hafði gleymst að gera ráð fyrir frú Vigdísi, en Hanna Birna reddaði málunum.

 

Ertu með athyglisverða ábendingu?
Sendu okkur póst á ordid@eyjan.is - fyllsta trúnaðar gætt.
Miðvikudagur 3.1.2018 - 15:35 - Ummæli ()

Möguleg magalending

Orðið á götunni er að Björgólfur Thor Björgólfsson, fyrrum eigandi Landsbankans, muni taka yfir flugfélagið WOW fyrr en síðar á þessu ári. Björgúlfur er sagður hafa ábyrgst 10 milljarða króna lán til Skúla Mogensen, en flugfélag hans er sagt standa á brauðfótum vegna fjárfestinga undanfarið, bæði á nýjum flugvélum sem og uppbyggingu hótels á Kársnesi í Kópavogi. Þá hefur gengið treglega að semja við flugfreyjur- og þjóna, sem neituðu að samþykkja kjarasamning í atkvæðagreiðslu. Háflug WOW undanfarið gæti því skilað sér í harkalegri magalendingu.

Ertu með athyglisverða ábendingu?
Sendu okkur póst á ordid@eyjan.is - fyllsta trúnaðar gætt.

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is