Föstudagur 11.07.2008 - 15:37 - Ummæli ()

Forsetinn með bandarísku áhrifafólki í Vatnsdalsá

Orðið á götunni er að brúnum sé eitthvað lyft innan stjórnsýlsunnar yfir fundi Ólafs Ragnars Grímssonar forseta Íslands með bandarísku áhrifafólki í Vatnsdalsá í vikunni þar sem umræðuefnið var baráttan gegn loftslagsbreytingum. Ólafur fór til fundarins að beiðni hins heimsþekkta arkitekts Williams McDonoughs, sem hefur komið hingað árlega hin síðari ár og þá gjarnan með Orra Vigfússyni.

Meðal annarra fundargesta sem jafnframt voru við laxveiðar í Vatnsdalnum voru Laurie David, framleiðandi óskarsverðlaunamyndar Als Gore „An Inconvenient Truth„, stjúpsonur Johns Kerry fyrrum forsetaframbjóðanda og eitthvað af fjölmiðlafólki í viðbót. Laurie David bloggaði um stíft prógram Íslandsferðarinnar á Huffinton Post.

Leiðir McDonoughs og Ólafs munu hafa legið saman nokkrum sinnum að undanförnu þar sem þeir hafa verið ræðumenn á loftslagsþingum, m.a. á hjá Clinton Global Initiative í New York í fyrra og World Future Energy Summit í Abu Dhabi  í vetur. McDonough hefur í fyrri Íslandsferðum m.a. haft með sér kvikmyndastjörnur á borð við Darryl Hannah og Cameron Diaz.

McDonough er jafnframt ráðgjafi bandaríska fjárfestingafélagsins VantagePointVenture Partners, sem er afar vel tengt. Meðal annarra helstu ráðgjafa þar á bæ eru James Woolsey, fyrrum forstjóri CIA og Robert F. Kennedy, Jr. sem starfar sem lögmaður á sviði umhverfismála.

Orðið á götunni er að innan stjórnsýslunnar hafi einhverjir jafnan vakandi auga með fundum Ólafs og fjárfestingaraðilum. Fjárfestingar á Íslandi hafi þó ekki verið umræðuefni Vatnsdalsfundarins.

Á síðu Forseta Íslands segir eftirfarandi um fundinn: „Forseti á viðræður við hóp bandarískra áhrifamanna í byggingarlist, orkunýtingu og fjölmiðlun um baráttuna gegn loftslagsbreytingum, hvernig framganga háskóla, rannsóknarstofnana og fyrirtækja í Bandaríkjunum á undanförnum árum muni gera nýjum valdhöfum í Washington kleift að skipa Bandaríkjunum á skömmum tíma í forystu baráttunnar gegn loftslagsbreytingum.“

Og á vef Vatnsdalsár segir að hópnum hafi gengið vel í veiðinni: „misst um það bil 16 laxa en náð að landa 20 á 3 dögum og er það mjög ásættanlegt.“

Ertu með athyglisverða ábendingu?
Sendu okkur póst á ordid@eyjan.is - fyllsta trúnaðar gætt.
«
»

Ummæli ()


Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli. Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is