Þriðjudagur 07.08.2012 - 14:19 - Ummæli ()

Meikar ekki sens

Orðið á götunni er að forsíðufrétt Fréttablaðsins í dag um fjárhagsvandræði tónlistar- og ráðstefnuhússins Hörpu þurfi ekki að koma neinum á óvart; með henni fáist aðeins staðfesting á því sem margir hafa lengi sagt og sumir frá fyrsta degi umræðna um húsið, nefnilega að hús af þessari stærðargráðu geti aldrei borið sig með eðlilegum hætti í svo fámennu samfélagi.

Forsvarsmenn Hörpunnar, sem mörgum finnst furðulega margir, segja nú að tvöfalda verði húsaleigu Sinfóníuhljómsveitarinnar og Íslensku Óperunnar, eigi reksturinn að bera sig. Það myndi þýða, svo dæmi sé tekið, að Sinfónían greiddi um eina milljón króna í húsaleigu í Hörpunni hvern einasta dag ársins, allt árið um kring!

Margir forsvarsmenn í íslensku listalífi hafa lengi kvartað yfir fjárskorti og margir listamenn hafa þurft að lifa spart til að geta sinnt list sinni af fullum krafti. Á listafólkið í Sinfóníunni og Óperunni nú að berjast fyrir tvöföldun framlaga til þessara tveggja mikilvægu menningarstofnana til þess að sjá það allt fara í húsaleigu? Eru slíkar hugmyndir ekki eitthvað grín?

Einn þekktasti tónlistarmaður landsins, orðaði það svo að slíkar hugmyndir meiki engan sens, svo slett sé á ensku og hefur þar sannarlega rétt fyrir sér.

Orðið á götunni er að Harpan verði áfram myllusteinn um háls íslenskra stjórnvalda; ríkis og borgar og þeirra listamanna sem hafi þar fast aðsetur. Fjölmargir listamenn séu þeirrar skoðunar að ef til séu peningar til að stórauka framlög til Sinfóníunnar og Óperunnar eigi þeir að fara til að styrkja listamennina, auka gæðin og setja meiri kraft í uppfærslur og innra starf. Húsaleiga af byggingu sem íslenska þjóðin hafði aldrei efni á að byggja, hvað þá eiga og reka, geti ekki verið þar ofarlega á forgangslistanum…

Ertu með athyglisverða ábendingu?
Sendu okkur póst á ordid@eyjan.is - fyllsta trúnaðar gætt.
«
»

Ummæli ()


Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli. Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is