Mánudagur 11.01.2016 - 10:59 - Ummæli ()

Réttarríkið Ísland

Framkvæmdastjórn Hafskipa á sínum tíma. Frá vinstri: Jón Hákon Magnússon, Björgólfur Guðmundsson, Ragnar Kjartansson og Páll Bragi Kristjónsson.

Framkvæmdastjórn Hafskipa á sínum tíma. Frá vinstri: Jón Hákon Magnússon, Björgólfur Guðmundsson, Ragnar Kjartansson og Páll Bragi Kristjónsson.

Orðið á götunni er að aukinn kraftur hafi nú færst í umræður um réttarfar og dómstóla í landinu, ekki síst í framhaldi af viðtali við Símon Sigvaldason, héraðsdómara og formann dómstólaráðs, sem fjallað var um hér á þessum vettvangi á dögunum, en hann sagði mikilvægt að dómstólar og dómarar endurspegli samfélagsvitundina.

Umboðsmaður Alþingis hefur nú tekið til rannsóknar meðferð fanga sem tengjast bankahruninu á Kvíabryggju og er ljóst af spurningum hans, að hann telur pott brotinn í framkomu við þá. DV hafði áður birt frétt um að ekkert væri hæft í þeim orðum fangelsismálastjóra, að fangar á Kvíabryggju hefðu óskað eftir því að fá að drekka rauðvín með matnum í fangelsinu.

Jón Steinar Gunnlaugsson fyrrverandi hæstaréttardómari hefur fjallað ítrekað um þessi mál í beittum pistlum sínum í Pressunni og á síðum Morgunblaðsins og nú síðast vakti athygli grein Jónasar Sigurgeirssonar bókaútgefanda í Fréttablaðinu, en Jónas var fyrir hrun upplýsingafulltrúi Kaupþings.

Einn þeirra sem fjallað hefur um grein Jónasar á samskiptamiðlum er Páll Bragi Kristjónsson. Hann hefur komið víða við í íslensku viðskiptalífi, en hann er einna þekktastur fyrir að hafa verið einn svokallaðra Hafskipsmanna, var framkvæmdastjóri fjármála- og rekstrar. Sem slíkur sat hann þrjár vikur í gæsluvarðhaldi þegar rannsókn Hafskipsmálsins stóð sem hæst og tók svo þátt sem sakborningur í réttarhöldum og deilum sem skóku íslenskt samfélag í fimm ár samfellt.

Sagt var um Hafskipsmálið, að þar hafi fjallið tekið joðsótt og úr hafi orðið lítil mús, því á endanum urðu dómar lítt í samanburði við það sem ákæruvaldið hafði lagt upp með. Þannig hlaut Páll Bragi á endanum aðeins tveggja mánaða skilorðsbundinn dóm. Varla þarf að taka fram, að slíkur dómur var í engu samræmi við upphaflegar sakargiftir, húsleitir, áralöng réttarhöld og margra vikna gæsluvarðhald, svo dæmi séu tekin.

Fyrirtækinu hrint í gjaldþrot

Í viðtali við Jakob F. Ásgeirsson, blaðamann Morgunblaðsins í nóvember 1998, sagðist Páll Bragi meðal annars fullviss um að Hafskip væri í fullum gangi nú ef ekki hefði verið skrúfað fyrir lánafyrirgreiðslu og fyrirtækinu hrint í gjaldþrot.

„Hafskipsmálið er í raun óuppgert. Þar koma svo margir aðrir við sögu en sakborningar í máli ákæruvaldsins. Á Hafskipsmálinu eru ýmsir fletir – stjórnmálalegir, viðskiptalegir, réttarfarslegir ­ sem ekki hefur verið fjallað um eins og nauðsynlegt verður að teljast í lýðræðisríki. Það er víða þörf á „hundahreinsun“ í okkar fámenna landi. Ein furðulegasta ákvörðunin í Hafskipsmálinu var að siga lögreglunni á yfirmenn Hafskips að næturlagi og hneppa þá í gæsluvarðhald þar sem þeim var haldið í einangrun vikum saman þótt öll gögn málsins lægju fyrir. Rannsóknaraðiljar höfðu bitið í sig fáránlegar samsæriskenningar og ætluðu að nota einangrunina til að þvinga fram „játningar“. Eins og kunnugt er vísuðu dómstólarnir á bug öllum hinum alvarlegri ásökunum ákæruvaldsins, svo sem að hafa vísvitandi blekkt Útvegsbankann, og Hafskipsmenn voru ekki fundnir sekir um annað en smávægilegar tæknilegar misfellur í bókhaldi.“

Og Páll Bragi sagði ennfremur:

Björn Bjarnason var dómsmálaráðherra þegar embætti Sérstaks saksóknara var sett á laggirnar.

Björn Bjarnason var dómsmálaráðherra þegar embætti Sérstaks saksóknara var sett á laggirnar.

„Ég var vakinn upp ásamt fyrrverandi félögum mínum í Hafskip 20. maí 1986 og stungið í svartholið. Ég sat þrjár vikur í gæsluvarðhaldi. Það var óhugnanleg lífsreynsla og ekki síst sjálf handtakan. Maður hættir einhvern veginn að vera manneskja þegar ráðin eru tekin svona af manni. Það væri e.t.v. öðruvísi ef maður vissi upp á sig sök, vissi að það væri að komast upp um strákinn Tuma. En þegar maður telur sig hafa lifað heiðvirðu lífi er það óbærileg reynsla að vera kippt svona fyrirvaralaust út úr lífinu með lögregluvaldi og vera læstur inni í fjögurra fermetra klefa í þriggja vikna einangrun. Þessi martröð breytti náttúrlega öllum forsendum í lífi mínu. … Þá lenti ég dálítið úti á klakanum ­ eftir að hafa nánast verið tekinn af lífi frammi fyrir alþjóð. Sjálfstraustið var ekki upp á marga fiska. Fólk ber almennt traust til réttarkerfisins og það á erfitt með að trúa því að menn séu hafðir fyrir rangri sök. Þetta var mjög erfiður tími. … Líf mitt var allt á hverfandi hveli. Það fór allur manns tími í að verja sig og sanna sakleysi sitt, maður var langtímum saman í dómssölunum. Það eru rúm fimm ár frá því við erum handteknir og þar til endanlegur dómur fellur í Hæstarétti. Þegar upp er staðið blasir því við fimm ára eyða í lífi manns og starfi.“

Einnota réttarfar sem leggur réttarríkið Ísland í rúst

Páll Bragi Kristjónsson.

Páll Bragi Kristjónsson.

Orðið á götunni er að hollt sé að rifja upp þessi ummæli úr einhverju frægasta dómsmáli seinni tíma sögu á Íslandi. Og í ljósi þessarar reynslu Páls Braga af Hafskipsmálinu er ástæða til að leggja við eyrun þegar hann víkur orðum að því sem hæst ber í réttarfarinu nú á tímum.

Páll Bragi lét nefnilega svofelld orð falla á dögunum á fésbókinni:

„Íslendingar munu því miður vakna upp einn góðan veðurdag við vonda drauminn um einnota réttarfarið, sem lagt hefur réttarríkið Ísland í rúst. Líta má á sem einhverskonar gráglettni örlaganna hlutskipti Björns Bjarnasonar, þáverandi dómsmálaráðherra, að standa fyrir lagasetningunni á Alþingi um Sérstakan saksóknara með það markmið að elta svokallaða útrásarvíkinga og bankamenn til að sefa reiði almennings. Einmitt hann, sem taldi réttarkerfið hafa verið svo sárt leikið í Baugsréttarhöldunum sbr. bók hans Rosabaugur yfir Íslandi. Hann áttaði sig ekki á því, að sömu mennirnir sátu áfram í dómarasætunum og þeir virðast geta skipt um skoðun og liðsskipan eftir andrúmsloftinu hjá almenningi hverju sinni. Þetta verður að líkindum einn stærsti samfélagsskaðinn í eftirmálum hrunsins, þegar upp verður staðið til framtíðar.“

Svo mörg voru þau orð frá gömlum samstarfsmanni Björns Bjarnasonar í Almenna bókafélaginu…

Ertu með athyglisverða ábendingu?
Sendu okkur póst á ordid@eyjan.is - fyllsta trúnaðar gætt.
«
»

Ummæli ()


Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli. Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is