Miðvikudagur 07.12.2016 - 09:08 - Ummæli ()

Kosið aftur

Lilja Alfreðsdóttir

Lilja Alfreðsdóttir: Verður hún utanríkisráðherra í starfsstjórn?

Orðið á götunni er að með hverjum deginum sem líður, án þess að sjáist til lands í stjórnarmyndunarviðræðum, aukist líkur til þess að kosið verði aftur til alþingis snemma í vor, jafnvel í mars, apríl eða maí á næsta ári.

Birgitta Jónsdóttir fer nú með stjórnarmyndunarumboðið fyrir hönd Pírata og hefur gert frá því á föstudag, en samt eru formlegar viðræður ekki enn hafnar. Fyrst fóru þrír dagar hjá Pírötum í að skilgreina verklag og undirbúa málamiðlunartillögur, enda ekki létt verk að samræma stefnu og áherslur fimm ólíkra flokka, og svo hefur verið fundað með óformlegum hætti á mánudag og þriðjudag án þess að línur hafi skýrst.

Á mánudag kom berlega í ljós að Viðreisn reyndist ekki tilbúin að leggja út í formlegar viðræður nema fyrir lægi að líklegt væri að þær skiluðu einhverju og þar á bæ er satt að segja ekki mikil bjartsýni á það.

Og hjá Vinstri grænum er vilji til þess að reyna og ræða málin í alvöru, en innan flokksins er þó nánast engin tiltrú á því að leiðangur Pírata leiði til ríkisstjórnar. Hins vegar er sagt mikilvægt að Birgitta fái tækifæri til að reyna, úr því hún hafi gefið í skyn að verkstjórn Katrínar Jakobsdóttur hafi ef til vill ekki verið nógu góð eða diplómatísk.

Pattstaða

Þeim fer fjölgandi innan raða Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokks sem telja að íslensk stjórnmál séu komin í hálfgerða pattstöðu og líklega þurfi að kjósa aftur. Horfa þeir þá á að flokkarnir tveir þurfi að koma sér saman um ríkisstjórn sem verði þá nokkurs konar starfsstjórn í nokkra mánuði um nokkur fá tiltekin viðfangsefni og festi dagsetningu fyrir nýjar alþingiskosningar. Jafnvel sé hægt að bjóða framsókn aðild að slíku bandalagi með einum ráðherrastól (Lilja Alfreðsdóttir sem utanríkisráðherra?) og embætti forseta Alþingis (Sigurður Ingi Jóhannsson?), eða að flokkurinn verji starfsstjórnina hreinlega vantrausti á þessu tímabili.

Birgitta Jónsdóttir þingkona Pírata.

Innan framsóknar er vaxandi áhugi á nýjum kosningum (enda telja menn að flokkurinn muni aldrei gera verr en síðast) og jafnframt er sú skoðun ríkjandi, að líklega verði erfitt að mynda stjórn án aðkomu Framsóknarflokksins. Því sé best að bíða áfram og sjá hverju fram vindur og horfa á aðra flokka stranda í sínum viðræðum, hvern á fætur öðrum.

Hvað gerir Viðreisn?

Innan Viðreisnar er staðan aðeins að verða snúnari. Hingað til hefur formaðurinn Benedikt Jóhannesson verið nær einráður í nálgun sinni eftir kosningar, en sumir þingmenn segja það litlum árangri hafa skilað. Þeir telja flokkinn þurfa að komast í ríkisstjórn og vilja síður sjá nýjar kosningar. Horfa þurfi til lausna á borðinu eigi árangur að nást og líklega sé ekki nóg að mynda eins manns meirihluta með Sjálfstæðisflokki og Bjartri framtíð.

Benedikt hefur sagt sínu fólk að brátt komi röðin að þeim í stjórnarmyndunarviðræðum og enn geti áhugaverðir kostir verið í boði. Hann hefur aftekið með öllu að mynda nýja stjórn með Framsóknarflokknum og Sjálfstæðisflokknum og þar hefur hnífurinn staðið í kúnni, því þingmenn Viðreisnar eru ekki mjög vinstri sinnaðir almennt og hugnast ekki skattahækkanir, eins og fram hefur komið.

Benedikt Jóhannesson.

Forseti Íslands rifjaði upp í þingsetningarávarpi sínu í gær, að árin 1978‒1980 hafi þáverandi forseti, Kristján Eldjárn, staðið í ströngu, enda samfelld stjórnarkreppa í nálega tvö ár.

„Í tíð Kristjáns virtist sumum stjórnmálaleiðtogum, sem stóðu í stjórnarmyndunarviðræðum, ósárt um að enginn árangur næðist því að þá kæmi röðin um síðir að þeim sjálfum að leiða þær. Heiðurinn yrði svo þeirra ef vel tækist til,“ sagði forsetinn.

Og hann bætti við:

„Á Alþingi Íslendinga eiga allir þingmenn og þingflokkar að vera jafnréttháir.“

Með þessum orðum færði Guðni Th. Jóhannesson rök fyrir því að Píratar hefðu átt að fá umboðið sl. föstudag, en um leið að Framsókn og Viðreisn geti fengið það næst með jafngildum rökum. Og að einstakir foringjar bíði ef til vill fremur síns tækifæris fremur en að leita allra leiða til að ná lendingu.

Ætli það eigi við um þá Sigurð Inga Jóhannsson og Benedikt Jóhannesson?

Ertu með athyglisverða ábendingu?
Sendu okkur póst á ordid@eyjan.is - fyllsta trúnaðar gætt.
«
»

Ummæli ()


Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli. Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is