Mánudagur 12.12.2016 - 16:56 - Ummæli ()

Tveir flokkar

katrin-jakobsdottir-menntamalaradherraOrðið á götunni er að eitt sé öðru fremur ljóst eftir vendingar síðustu daga í íslenskum stjórnmálum og það er sú staðreynd, að Vinstri grænir eru sem stjórnmálaflokkur klofinn í herðar niður. Katrín Jakobsdóttir er í reynd formaður yfir tveimur flokkum, íhaldsömum landsbyggðarflokki og róttækum þéttbýlisflokki.

Þetta kemur ef til vill ýmsum nokkuð á óvart, því fram að þessu hefur athygli fjölmiðla einkum beinst að innanflokksátökum í Framsóknarflokki, klofningi innan Sjálfstæðisflokks með stofnun Viðreisnar, hjaðningavígum innan Samfylkingar og deilum innan Pírata, en svo kemur þessa klofningur innan Vinstri grænna óvænt í ljós í tilraunum til stjórnarmyndunar eftir kosningar.

svavar-gestssonLengi hefur reyndar verið vitað að grunnt væri á því góða innan þingflokksins (millum Steingríms J. Sigfússonar og Ögmundar Jónassonar voru til dæmis oft deilur og Katrín í hlutverki hins þolinmóða sáttasemjara, auk þess sem stór hluti þingflokks VG hætti í flokknum síðast þegar hann var í ríkisstjórn út af margvíslegum málefnaágreiningi) en undanfarna daga hefur þetta komið berlega í ljós, svo ekki er lengur unnt að þræta fyrir það.

Og öðlast þá kannski fleiri skilning á þeim ummælum Katrínar fyrir tíu dögum, að forystufólk flokkanna væri orðið mjög þreitt eftir stífar viðræður og þyrfti á hvíld að halda. Menn áttuðu sig bara ekki á því að hún væri líka í stífum samningaviðræðum innahúss!

Áhrifamaðurinn Björn Valur

Samskiptamiðlar loga nú stafna á milli og kenna Vinstri grænum um að upp úr slitnaði milli flokkanna fimm. Katrín fær þó líklega ekki jafn vonda útreið og Benedikt Jóhannesson síðast, því heilu myndböndin voru gerð um hann sem fóru eins og eldur í sinu á Netinu, þegar Viðreisn dró sig út út viðræðunum í fyrra sinnið.

bvgSvo merkilegt sem það var, hætti sú rógsherferð algjörlega um leið og Viðreisn fór aftur í viðræðurnar.

Jón Steinsson hagfræðingur hrósar þó hinum flokkunum fjórum fyrir að vilja markaðsleiðir í sjávarútvegi og landbúnaði:

„Á þessum vonbrigðisdegi í íslenskri pólitík þá er kannski gott að líta á þá björtu hlið að fjórir flokkar með samtals 24 þingmenn hafa sýnt fádæma staðfestu varðandi kerfisbreytingar í sjávarútvegs- og landbúnaðarmálum. Það er öðruvísi en áður var og veit vonandi á gott í framtíðinni. Takk fyrir CAPS!,“ segir hann.

Orðið á götunni er að mönnum sé orðið ljóst að Björn Valur Gíslason er miklu meiri áhrifamaður innan VG sem varaformaður, en margir höfðu talið. Andstæðingar hans innan flokksins höfðu furðað sig á skrifum hans og sagt hann einangraðan, en ekki er annað að sjá en áherslur hans og áhyggjuefni hafi vegið þungt á metunum.

En Birni til varnar, veit hann að stuðningsmenn Vinstri grænna víða á landsbyggðinni voru mjög stressaðir yfir tillögum Viðreisnar um hreinar markaðslausnir í sjávarútvegi, nokkuð sem gæti leitt til mjög óvinsælla afleiðinga fyrir hinar dreifðu byggðir. Það er vafalaust rétt hjá honum að slíkar tillögur hefðu getað reynst hrein lífgjöf fyrir stjórnarandstöðuna og þá mest á kostnað VG.

Benedikt Jóhannesson.

Þetta vissu hann og Steingrímur J. Sigfússon vel. Auk þess höfðu þeir og fjölmargir aðrir miklar áhyggjur af hægri sinnuðum áherslum þingmanna Viðreisnar, sem erfitt yrði fyrir stuðningsmenn VG að kyngja. Og upplifðu VG í málefnalegum minnihluta í viðræðunum gegn hinum flokkunum fjórum, enda þótt hann væri stærsti flokkurinn samkvæmt niðurstöðum kosninganna.

Og raunar má tíðindum sæta, að ekki hafi verið meiri stemning hjá hinum flokkunum fjórum fyrir velferðaráherslum Vinstri grænna, því í kosningabaráttunni töluðu þeir allir fyrir því að stórefla velferðar- og heilbrigðiskerfið.

VG er ekki hægrisinnaður flokkur

liljarafneyLilja Rafney Magnúsdóttir, þingkona flokksins í Norðvesturkjördæmi, segir ekki hafa strandað á sjávarútvegsmálunum:

„Það reyndi ekkert á sjávarútvegsmálin í raun það voru allir sammála um innköllun aflaheimilda en ekki var komin niðurstaða um útfærslu. VG er ekki hægrisinnaður flokkur sem lítur á markaðslausnir sem einhver trúarbrögð og ígildi frelsis við tökum alltaf félags,byggða og samfélags þættina inn í og teljum að fjármagnið eigi ekki eitt að ráða för um hvernig samfélagið þróast,“ segir hún á fésbókinni.

Andlegur leiðtogi Reykjavíkurarms Vinstri grænna, Svavar Gestsson, er reiður og sár á sama vettvangi og vill fá að vita hvers vegna slitnaði upp úr viðræðunum.

Svavar skrifar:

Sjávarútvegsmál og útgjaldahlið ríkissjóðs? Ha? Vildu flokkarnir ekki standa við stóru kosningaloforðin um innviðina? Heilbrigðismál? Menntamál? Vegamál? Hvaða flokkar vildu ekki standa við kosningafyrirheitin? Og sjávarútvegsmálin? Hverjir vilji ekki taka peninga af sjávarútveginum til að fjármagna velferðina. Kjósendur verða að fá að vita þetta.

Orðið á götunni er að Framsóknarflokkurinn sé allt í einu kominn í lykilstöðu. Verði mynduð minnihlutastjórn Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokks — svonefnd þjóðleg íhaldsstjórn — gæti lendingin orðið sú að biðja framsókn að verja hana vantrausti, gegn því að nýr kjördagur yrði ákveðinn fljótlega eftir áramót. Hinn möguleikinn er að fjórflokkurinn myndi slíka starfsstjórn, þ.e. Framsókn og Samfylkingin með Vinstri grænum og Sjálfstæðisflokki.

Að minnsta kosti er líklegt að Benedikt Jóhannesson og Óttarr Proppé fái frí í þessari lotu viðræðna, því þeir hafa setið samfellt í viðræðum við hina ýmsu flokka í 44 daga og alltaf hefur niðurstaðan orðið sú að ekki væri unnt að halda þeim áfram.

Nema Benedikt dragi til baka stóru orðin og fallist á að Viðreisn gangi til liðs við núverandi stjórnarflokka. Vitað er að ýmsir innan Viðreisnar eru komnir á þá línu, eftir allt sem á undan er gengið.

Ertu með athyglisverða ábendingu?
Sendu okkur póst á ordid@eyjan.is - fyllsta trúnaðar gætt.
«
»

Ummæli ()


Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli. Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is