Föstudagur 23.12.2016 - 10:00 - Ummæli ()

Maður sátta

Haraldur BenediktssonOrðið á götunni er að Haraldur Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hafi ekki unnið lítið afrek sem formaður fjárlaganefndar undanfarnar vikur.

Fjárlög voru afgreidd á Alþingi í gærkvöldi og þing kemur ekki saman aftur fyrr en undir lok janúar, en í fyrsta sinn þurfti að vinna frumvarpið þvert á flokka í þinglegri meðferð. Og það var gert, afgreitt í þverpólitískri sátt út úr nefndinni og loks samþykkt, reyndar með minnihluta atkvæða, þar sem margir sátu hjá.

Það er á stundum sem þessum sem reynir á hve menn eru lausnamiðaðir í störfum sínum og snjallir samningamenn. Haraldur leysti hlutverk sitt með prýði og naut dyggrar aðstoðar hins þingreynda forseta þingsins, Steingríms J. Sigfússonar, sem situr þar á óvæntum friðarstóli og skipar fólki til verka, til hægri og vinstri.

Þótt engin meirihlutastjórn sé starfandi í landinu og stjórnarkreppa ríkjandi, verður að segjast alveg eins og er, að það hefur verið góður bragur á störfum alþingismanna okkar að undanförnu. Þeir hafa fundið til ábyrgðar sinnar, hætt endalausu væli um stjórn- og stjórnarandstöðu og þess í stað gengið í þau verk sem þarf að vinna.

Vonandi veit það á gott upp á framhaldið.

Ertu með athyglisverða ábendingu?
Sendu okkur póst á ordid@eyjan.is - fyllsta trúnaðar gætt.
«
»

Ummæli ()


Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli. Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is