Mánudagur 06.02.2017 - 11:32 - Ummæli ()

Titringur

Björgólfur Jóhannsson, nýr formaður Samtaka atvinnulífsins

Björgólfur Jóhannsson forstjóri Icelandair Group og formaður Samtaka atvinnulífsins

Orðið á götunni er að mikill titringur sé í íslensku viðskiptalífi vegna þess hruns sem varð á gengi hlutabréfa í Icelandair í vikunni sem leið.

Óvænt afkomuviðvörun varð til þess að allar flóðgáttir opnuðust og mesta verðlækkun bréfa á einum degi frá hruni varð staðreynd.

Björgólfur Jóhannsson og félagar í yfirstjórn Icelandair hafa verk að vinna, ætli þeir sér að endurheimta traust fjárfesta. Markaðurinn er nefnilega harður húsbóndi, eins og menn þekkja.

Vissulega hafa bréf í Icelandair hækkað mikið á undanförnum árum, en þau hafa nú lækkað mjög mikið og skart og hluthafanir finna illilega fyrir því í bókum sínum.

Ekki síst þeir sem tóku lán fyrir hlutabréfakaupum í félaginu á undanförnum vikum. Veðköll urðu víða í síðustu viku með tilheyrandi aðgerðum og afleiðingum.

Og þótt flestir lífeyrissjóðirnir beri sig enn vel og bendi á að þeir hafi komið inn þegar gengið var lágt og séu enn í góðum plús, er orðið á götunni að víða í hluthafahópi Icelandair kraumi mikil óánægja með þróun mála. Gengishækkun bréfa í Icelandair var víða komið inn í bækur fjárfesta og þeir finna mjög fyrir jafn skarpri lækkun og raun ber vitni.

Capacent sendi skeyti á valda fjárfesta fyrir helgi, sem ekki varð til að róa markaðinn. Capacent lækkaði verðmat sitt niður í 18 úr 29,2 en sagði jafnframt:

Vöxtur félagsins hefur verið ævintýralegur undanfarin ár, í takt við vöxt ferðamanna til Íslands, auk þess sem sífellt fleiri fljúga milli Evrópu og Ameríku. Ekkert bendir sérstaklega til þess að þessi vöxtur muni hætta á næstu árum  Erfitt er að leggja verðmat á félagið að svo stöddu og einhverju leyti óábyrgt því betur þarf að kafa ofan í allar forsendur rekstrarins. Þó má segja að ef forsendur 2017 eru framreiknaðar yfir spátímann fæst verðmatsgengið í kringum 18.

Það er langt frá genginu 38,9 í lok apríl í fyrra. Og lækkunin heldur áfram, því þegar þessi orð eru rituð á mánudagsmorgni, er gengið í Icelandair komið niður í 15,7.

 

 

Ertu með athyglisverða ábendingu?
Sendu okkur póst á ordid@eyjan.is - fyllsta trúnaðar gætt.
«
»

Ummæli ()


Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli. Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is