Miðvikudagur 01.03.2017 - 12:59 - Ummæli ()

Stefnubreyting nýs ráðherra

Benedikt Jóhannesson.

Orðið á götunni er að mörgum hafi bruðið í brún þegar fréttir birtust um viðræður erlendis milli fulltrúa íslenskra stjórnvalda og nokkurra vogunarsjóða. Eftir mörg ár hafta bíða landsmenn þess óþreyjufullir að losna við höftin. Þau skerða lífsgæði til lengri tíma litið og draga úr tækifærum.

Vel tókst að leysa úr málum slitabúa og aflandskróna án þess að stefna stöðugleika í voða. Það var síður en svo sjálfsögð niðurstaða.

Stjórnvöld hafa fylgt áætlun sem kynnt var til sögunnar í júní 2015. Sú áætlun hefur skapað trúverðugleika og skila árangri. Til marks um trúverðugleikann hafa öll matsfyrirtækin hækkað lánshæfi Íslands og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur fjallað á jákvæðan hátt um árangurinn í skýrslum sínum. Jafnvel hefur verið talað um íslensku leiðina í þessu samhengi.

Auglýsing frá Áfram-hópnum í miðri Icesave-deilunni.

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri hjá Kviku og fyrrum formaður framkvæmdahóps stjórnvalda um losun fjármagnshafta skrifaði grein sem birtist í Fréttablaðinu í gær.

„Stjórnvöld hafa nú gefið í skyn að hleypa ætti aflandskrónueigendum með eignir sínar úr landi á þessu ári, þvert á þær áætlanir sem hafa skapað trúverðugleika fyrir land og þjóð. Með slíkri stefnubreytingu væru hagsmunir kröfuhafa teknir fram fyrir hagsmuni landsmanna. Hið gagnstæða á ávallt að vera í forgrunni enda er það frumskylda stjórnvalda að standa vörð um hagsmuni Íslands,“ sagði Sigurður í grein sinni.

Sigurður Hannesson.

Nú eru hins vegar vísbendingar um að hverfa eigi frá áætluninni og forgangsraða í þágu kröfuhafa.

Stjórnvöld hafa sent fulltrúa sína til fundar við vogunarsjóðina sem eiga samanlagt vel á annað hundrað milljarða í aflandskrónum og neituðu að taka þátt í gjaldeyrisútboði Seðlabankans árið 2016. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í morgun.

Orðið á götunni er að stefnubreyting Benedikts Jóhannessonar, fjármála- og efnahagsráðherra komi ekki á óvart. Benedikt var virkur meðlimur Áfram hópsins svokallaða sem hvatti til þess að Icesave samningurinn yrði samþykktur í þjóðaratkvæðagreiðslu árið 2011. Hann taldi ekki rétt að reyna á lögmæti Iesave-málsins, slíkt gæti orðið skaðlegt landi og þjóð og miklu betra væri að semja, þótt það gæti þýtt skuldaklafa fyrir komandi kynslóðir.

Benedikt hafði ekki mikið álit á þeim sem vildu reyna á dómstólaleiðina.  Í samtali við fréttastofu Stöðvar 2, sagði hann hinn 24. mars 2011:

„Þeir sem vilja láta reyna á þessa svonefndu dómstólaleið þeir hugsa alveg eins og útrásarvíkingarnir, við getum ekki tapað. Þess vegna var áhættan alltaf aukin meira og meira og á endanum var það þannig að við töpuðum svo miklu að þjóðfélagið hrundi.“

Sá sem mælti þessi orð er orðinn fjármálaráðherra í dag. Í þessu ljósi þarf stefnubreyting stjórnvalda því ef til vill ekki að koma á óvart.

Ertu með athyglisverða ábendingu?
Sendu okkur póst á ordid@eyjan.is - fyllsta trúnaðar gætt.
«
»

Ummæli ()


Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli. Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is