Föstudagur 03.03.2017 - 08:42 - Ummæli ()

Fer Gunnar í borgina?

Gunnar bæjarstjóri Einarsson.

Orðið á götunni er að sjálfstæðismenn í Reykjavík séu farnir að setja sig í stellingar fyrir komandi borgarstjórnarkosningar. Núverandi minnihluti Sjálfstæðisflokks og framsóknar og flugvallarvina hefur ekki náð vopnum sínum í stjórnarandstöðu gegn fjögurra flokka meirihluta Dags B. Eggertssonar og félaga og hafa áhrifamenn í Valhöll miklar áhyggjur af því að Dagur geti setið áhyggjulaus á friðarstóli út þetta kjörtímabil og jafnvel það næsta, ef spilin verða ekki stokkuð hressilega og gefið upp á nýtt.

Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, varð oddviti sjálfstæðismanna fyrir síðustu kosningar og hefur leitt minnihlutann á kjörtímabili. Halldór nýtur virðingar og þykir vandaður maður, en vandséð er að hann sé sá baráttumaður sem þarf til að hefja Sjálfstæðisflokkinn til fyrri metorða í borgarpólitíkinni.

Orðið á götunni er að sífellt fleiri sjálfstæðismenn í borginni staðnæmist við nafn Gunnars Einarssonar bæjarstjóra í Garðabæ þegar talið berst að mögulegum kandídat til að leiða lista flokksins fyrir næstu kosningar. Gunnar hefur verið einkar vinsæll bæjarstjóri og farsæll, hann ber með sér sjálfstraust bæjarstjórnarmanns úr Sjálfstæðisflokknum sem sættir sig ekki við annað en hreinan meirihluta og þekkir sveitarstjórnarpólitíkina á höfuðborgarsvæðinu eins og lófann á sér.

Gunnar er hámenntaður, með doktorsgráðu í stjórnun frá Háskólanum í Reading í Englandi. Hann var atvinnumaður í handknattleik og leikmaður og þjálfari meistaraflokks karla hjá Stjörnunni í Garðabæ og hefur kennt stjórnun við Kennaraháskóla Íslands og Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands.

Líklegt þykir að þrýstingur muni aukast á Gunnar á næstu mánuðum og misserum að gefa kost á sér í þetta hlutverk, sem verður að teljast eitt það mikilvægasta í flokksstarfi Sjálfstæðisflokksins. Ljóst er að Garðbæingar verða lítt hrifnir, en margir í Valhöll telja að horfa verði til meiri hagsmuna en minni í þessum efnum. Sjálfstæðisflokkurinn hafi einfaldlega ekki efni á vondri úrkomu í næstu kosningum í höfuðborginni. Málið sé ekki flóknara en það.

Ertu með athyglisverða ábendingu?
Sendu okkur póst á ordid@eyjan.is - fyllsta trúnaðar gætt.
«
»

Ummæli ()


Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli. Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is