Þriðjudagur 14.03.2017 - 17:23 - Ummæli ()

Titringur í verkalýðshreyfingunni

Ragnar Þór Ingólfsson.

Orðið á götunni er að verkalýðshreyfingin leiki á reiðiskjálfi eftir tíðindi dagsins þar sem Ragnar Þór Ingólfsson bar sigur úr býtum í kosningu til formanns Verslunarmannafélags Reykjavíkur.

Sitjandi formaður, Ólafía B. Rafnsdóttir, beið afgerandi ósigur og segir nýr formaður í fjölmiðlum fram­boð sitt hafa verið van­trausts­yf­ir­lýs­ingu á for­ystu ASÍ. Ekki ríki  traust í sam­fé­lag­inu til að byggja upp nor­rænt salek-samn­inga­mód­el á vinnu­markaði og hann muni leggjast gegn slíkri vinnu.

Alls hlaut Ragnar Þór 63% greiddra at­kvæða, en sam­tals voru greidd 5.706 at­kvæði af 33.383 sem eru á kjör­skrá. Verður kosningaþátttakan að teljast ótrúlega lítil í svo stóru og öflugu stéttarfélagi.

Orðið á götunni er að nýr formaður VR skeri upp herör gegn öllu því kerfi sem er á bak við verkalýðshreyfinguna og lífeyrissjóðina hér á landi. Svo dæmi sé tekið vill hann banna verðtryggingu, nokkuð sem verkalýðsforkólfar hafa hingað til ekki viljað heyra á minnst. Já, eða allir nema Vilhjálmur Birgisson á Akranesi.

Þá vekur ekki síður athygli að hann vill nota iðgjöld lífeyrissjóðsfélaga í margskonar sam­fé­lags­lega upp­bygg­ingu, „í stað þess að þurfa að græða á öllu og vera í miklu áhættu­braski,“ eins og hann orðar það í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins.

VR er stærsta verkalýðsfélag landsins. Það hefur mikil áhrif um allt samfélagið, innan ASÍ og gegnum lífeyrissjóði. Orðið á götunni er að nú þegar Ragnar Þór og félagar hafa tekið yfir VR sé komið að ASÍ. Þar er fyrir forsetinn Gylfi Arnbjörnsson og sá er efstur á lista byltingarsinna yfir þá sem þarf að velta úr sessi.

Ballið er því rétt að byrja.

Ertu með athyglisverða ábendingu?
Sendu okkur póst á ordid@eyjan.is - fyllsta trúnaðar gætt.
«
»

Ummæli ()


Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli. Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is