Föstudagur 05.05.2017 - 14:37 - Ummæli ()

Lífið er dásamlegt

Orðið á götunni er að lífið sé dásamlegt í pólitíkinni á landi hér. Nú klóra þingmenn og stjórn þingsins sér í höfðinu yfir kosningu í bankaráð Seðlabankans sem Þorsteinn Víglundsson jafnréttisráðherra hefur sagt að eigi að kjósa í aftur vegna kynjamála.

Það verður snúið. Kosningin er gild samkvæmt lögum sem gilda um Seðlabanka Íslands. Því verður bankaráðið hreinlega að segja af sér ef kjósa á nýtt.

Það eru ekki margir leikir í stöðunni, þessir þó helstir verið nefndir:

1) einn karl segi af sér og þingið kjósi konu í hans stað. Þetta er ekki talið hafa á sér nægilega góðan brag, hvorki fyrir ráðið né konuna sem kæmi í karls stað.

2) bankaráð segi allt af sér og verði kosið að nýju, óbreytt nema kona komi inn fyrir einhvern karl. Þetta lúkkar heldur ekki vel sbr. hér að ofan auk þess sem það yrði öðrum bankaráðsmönnum og þinginu til lítils sóma. Þar fyrir utan er ólíklegt að allir bankaráðsmenn séu til í þennan díl. Því er m.a. haldið fram að eini landsbyggðarmaðurinn í bankaráði sé ekki á þeim buxunum að segja af sér til að kona verði kosin í hans stað auk þess sem það yrði einnig til þess að Frosti Sigurjónsson héldi sínu sæti og væri þá nánast bankaráðsmaður í boði Vinstri grænna.

3) samkvæmt lögum um Seðlabankann skal kjósa nýtt bankaráð að loknum kosningum og það sitji þar til nýtt ráð verði kosið, þ.e. að loknum næstu kosningum.

Vænlegasta leiðin til að redda málinu er því að boða til þingskosninga og kjósa svo aftur í bankaráð líkt og kveðið er á um í lögunum.

Síðastnefndi möguleikinn er alls ekki sá ólíklegasti í stöðunni miðað við stemninguna í stjórnarliðinu!

Ertu með athyglisverða ábendingu?
Sendu okkur póst á ordid@eyjan.is - fyllsta trúnaðar gætt.
«
»

Ummæli ()


Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli. Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is