Miðvikudagur 21.06.2017 - 11:38 - Ummæli ()

Stofnandinn settur af?

Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra og formaður Viðreisnar.

Orðið á götunni er að sífellt minnkandi fylgi ríkisstjórnarinnar sé forystumönnum stjórnarflokkanna umtalsvert áhyggjuefni, ekki síst formanna Viðreisnar og Bjartrar framtíðar. Ný könnun MMR sýnir ótrúlega lítinn stuðning við stjórn sem er nánast nýtekin við völdum og þá virðast Viðreisn og Björt framtíð hreinlega við það að þurrkast út.

Og það eru sannarlega ekki bara formennirnir Benedikt Jóhannesson og Óttarr Proppé sem hafa áhyggjur. Innan raða beggja flokka ræða menn nú sín á milli hvernig hægt sé að bregðast við. Og í tilfelli Viðreisnar vekur athygli, að spjótin beinast mjög að formanninum Benedikt sem stofnaði þó flokkinn aðeins fyrir fáeinum misserum síðan.

Benedikt hefur átt mjög traust bakland innan tiltekins hluta viðskiptalífsins. Þekkt er að formleg stofnun flokksins drógst mjög á langinn í þeim tilgangi að safna eins miklu fjármagni í sjóði hans og kostur væri, áður en hann yrði formlega að stjórnmálaflokki og lyti þá lögum og reglum um hámarkshæð styrkja. Þetta bakland, sem menn á borð við Helga Magnússon í Málningu, hafa farið fyrir, eru nú orðnir mjög efins um að hægt sé að halda áfram með óbreytta forystu. Fjárfestirinn Jónas Hagan hefur líka verið áberandi í þessum hópi.

Þeir félagar, sem eru snjallir og ákveðnir í allri sinni málafylgju, höfðu sannarlega ekki þau plön fyrir Viðreisn að verða smáflokkur við það að þurrkast út.

Helgi Magnússon.

Innan raða ferðaþjónustunnar ríkir jafnframt gífurleg reiði út í Benedikt vegna áforma um breytingar á virðisaukaskattskerfinu á sama tíma og krónan hefur styrkst mikið.

Sjónvarpsstöðin Hringbraut og samnefndur vefur hefur lengi verið mjög hliðhollur Benedikt og Viðreisn. Svo mjög að orðið á götunni á tímabili var að Benedikt mundaði þar stundum penna sjálfur og frægt er þegar Sigmundur Ernir Rúnarsson, ritstjóri stöðvarinnar, setti óvart á fésbókina spurningu til Benedikts um hvaða fólk væri sniðugt að fá í tiltekinn þátt.

En nú virðist jafnvel Hringbraut búin að snúa baki við velgjörðarmanni sínum.

Þar birtist í gærkvöldi pistill, sem var reyndar tekinn út skömmu síðar, þar sem fullyrt var að Benedikt yrði að hætta strax sem formaður Viðreisnar. Og í eldri pistli, sem Róbert Trausti Árnason, fv. sendiherra og forsetaritari, skrifar, segir meðal annars:

„Hjarta Dagfara tók innstæðulausan gleðikipp um helgina þegar hann sá fyrirsögn í blöðum sem hljóðaði svona: „Benedikt hættir sem formaður.“

Fyrstu viðbrögðin voru þau að trúa því að Benedikt Jóhannesson væri búinn að átta sig á því að hann þyrfti að láta af formennsku í Viðreisn enda er hann búinn að tapa helmingi fylgisins sem flokkurinn hlaut í kosningum fyrir rúmlega hálfu ári.

Hann ræður ekki við formannshlutverkið.

En þetta var því miður tálsýn. Benedikt er einungis að hætta sem formaður í ósköp meinlausum klúbbi sem heitir Hollvinafélag MR.

Því miður fyrir Viðreisn. En vonandi er hann farinn að gera sér ljóst að Viðreisn á sér ekki viðreisnar von nema skipt verði um karlinn í brúnni sem fyrst því karlinn í brúnni verður að fiska. Þessi karl er ekki að fiska eins og allar skoðanakannanir sýna glögglega.“

Og Róbert Trausti heldur áfram:

Benedikt hefur yfirgefið öll helstu hugsjónamál Viðreisnar og selt kosningaloforð fyrir völd fjármálaráðherra.

Hann er uppteknari af því að auka skatta en að auka fylgi Viðreisnar að nýju. Hann er ófær um að leiða flokkinn.

Fái Viðreisn ekki nýjan formann fljótlega þá bíða flokksins þau örlög að verða einnota eins og hent hefur fjölda flokka á Íslandi.

Viðreisn þarf nýjan formann og nýtt upphaf þar sem hugsjónir og grunngildi flokksins yrðu sett í öndvegi að nýju. Þau eru góð og mikilvæg. Viðreisn á erindi við okkur Íslendinga ef hún heldur stefnu sinni.

Til þess þarf nýjan formann.

Svo mörg voru þau orð. Sagt er að óhugsandi sé að slík orð séu skrifuð í orðastað Dagfara á vef Hringbrautar án þess að menn eins og Helgi Magnússon leggi velþóknun sína yfir þau, enda er hann talinn hafa skrifað flesta pistla undir því heiti um langt skeið.

Benedikt Jóhannesson þarf því að hafa góðar gætur á flokki sínum næstu vikur og mánuði, eigi ekki að fara eins fyrir honum og Guðmundi Steingrímssyni, að stofna sinn eigin flokk og vera svo settur þar af síðar. Fyrstu merki þess að hann skynji aðsteðjandi hættu, er ráðning hans á Ólafíu Rafnsdóttur sem aðstoðarmanni, því hún er sannarlega betri en engin þegar kemur að kosningum og því að sigra þær.

Það er nefnilega ekki mikill tími til stefnu. Vika er langur tími í pólitík og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og hennar fólk er í startholunum að taka við.

Ertu með athyglisverða ábendingu?
Sendu okkur póst á ordid@eyjan.is - fyllsta trúnaðar gætt.
«
»

Ummæli ()


Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli. Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is