Þriðjudagur 22.08.2017 - 12:03 - Ummæli ()

Hætta á að flokkurinn þurrkist út

Gísli Kr. Björnsson, formaður Varðar.

Orðið á götunni er að hart sé tekist á innan Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík um fyrirkomulag á vali á framboðslista flokksins fyrir komandi borgarstjórnarkosningar. Vörður, full­trúaráð sjálf­stæðis­fé­lag­anna í Reykja­vík, hef­ur samþykkt til­lögu um val á fram­boðslista flokks­ins í Reykja­vík til borg­ar­stjórn­ar­kosn­ing­anna næsta vor.

Til­lag­an kveður á um að haldið sé opið próf­kjör um odd­vita list­ans, en upp­still­ing­ar­nefnd, kjör­in af tæp­lega tvö þúsund meðlim­um full­trúaráðsins, ákveði aðra fram­bjóðend­ur.

Fyrir Verði fer Gísli Kr. Björnsson lögmaður. Í stjórninni, sem hann veitir forystu, sitja for­menn allra sjálf­stæðis­fé­lag­anna í Reykja­vík auk annarra sem kjörn­ir eru á aðal­fundi Varðar. Til­lag­an var samþykkt með 19 at­kvæðum, án mót­atkvæða, á stjórnarfundi á dögunum.

Helstu rökin fyrir henni eru þau, að erfiðlega gangi að fá nýtt hæfileikafólk til að taka þátt í prófkjöri, auka þurfi breidd á framboðslistanum, þar sem hann geti meðal annars endurspeglað búsetu í ólíkum hverfum borgarinnar og tryggt ákveðna endurnýjun. Undirliggjandi er ótti margra sjálfstæðismanna við enn eitt kjörtímabilið í minnihluta, ef ekki verði gripið til róttækra aðgerða.

Bessí Jóhannsdóttir.

Athygli vekur að félag sjálfstæðiskvenna er ósátt við tillöguna nú, enda þótt Hvöt hafi jafnframt harmað niðurstöðu undanfarinna ára í prófkjörum og farið fram á breytingar á framboðslistum eftir á.

En Gísli Kr. Björnsson fær þungavigtarstuðning í grein í Morgunblaðinu í dag, þar sem Bessí Jóhannsdóttir stingur niður penna, en hún hefur verið áhrifakona í Sjálfstæðisflokknum í borginni um áratugaskeið; formaður Hvatar lengi vel og varaþingmaður, svo dæmi séu tekin.

Bessí hjólar í grein sinni í Arndísi Kristjánsdóttur, formann sjálfstæðiskvennafélagsins Hvatar, og skrifar:

Ef full­trúaráðið samþykk­ir ekki til­lög­una er veru­leg hætta á því að Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn þurrk­ist út í Reykja­vík í kosn­ing­um í vor eða í þar næstu borg­ar­stjórn­ar­kosn­ing­um, þótt höfuðborg­in hafi á árum áður verið höfuðvígi flokks­ins í meira en sex ára­tugi.

Og hún bætir við:

„Finnst Arn­dísi lýðræðis­legt að Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn í Reykja­vík bjóði fram lista þar sem kannski ein eða eng­in kona verður í fyrstu fimm efstu sæt­un­um, eng­inn full­trúi ungs fólks né eldri borg­ara og eng­inn full­trúi efri byggða borg­ar­inn­ar, sem þó eru í mikl­um meiri­hluta borg­ar­búa, s.s. Breiðholts, Árbæj­ar­hverf­is, Sel­ás­hverf­is, Norðlinga­holts, Grafar­vogs, Grafar­holts eða Úlfarsár­dals, ef niðurstaða próf­kjörs verður sú? Ætlar hún þá að una sínu beina lýðræði, eða ætl­ar hún að heimta það aft­ur að kjör­nefnd „leiðrétti“ list­ann, eins og hún og Hvöt gerðu eft­ir opið próf­kjör til alþing­is­kosn­ing­anna í fyrra?“

Og lokaorð Bessíar eru þessi:

Ætlar nú Arn­dís að bjóða ein­stak­ling­um að eyða millj­ón­um í próf­kjör og breyta síðan regl­un­um eft­ir á? Já, reynd­ar! Því ef þú hleyp­ur eft­ir duttl­ung­um fjöld­ans og breyt­ir stjórn­mála­skoðunum þínum eins og Par­ís­ar­tísk­an breyt­ist, frá vori til hausts, þá fyrst ertu kom­inn út á veru­lega hálan ís.

Ertu með athyglisverða ábendingu?
Sendu okkur póst á ordid@eyjan.is - fyllsta trúnaðar gætt.
«
»

Ummæli ()


Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli. Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is