Fimmtudagur 12.10.2017 - 20:47 - Ummæli ()

Feluleikur

Orðið á götunni er að sumir stjórnmálaflokkar séu í feluleik með ákveðna stjórnmálamenn til að koma sér ekki í klandur fyrir kosningar. Töldu margir víst að Vinstri græn myndu fela Steingrím J. Sigfússon, oddvita sinn til áratuga í Norðausturkjördæmi, fram yfir kosningar. Svo var ekki og mætti hann, eins og frægt er orðið, í pallborðsumræður fyrir hönd flokksins í Menntaskólanum á Akureyri í vikunni og gerði flokknum engan greiða. Verður Steingrímur því líklega í felum til 29. október næstkomandi.

Brynjar Níelsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins sagði nýverið að hann hefði verið beðinn um að fara í felur og einbeita sér að kökuskreytingum. Það varði ekki lengi og lætur Brynjar eins og ekkert hafi í skorist á Fésbók. Enda er um að ræða mann sem er ekki þekktur fyrir að liggja á skoðunum sínum.

Enn á eftir að koma í ljós hvort Miðflokkurinn fari í feluleik. Gunnar Bragi Sveinsson fékk ekki oddvitasæti í Norðvesturkjördæmi en það á eftir að koma í ljós hvort hann dúkki upp annarsstaðar á landinu. Svo er alltaf spurningin hvort Miðflokkurinn tefli fram frambjóðendum úr Samvinnuflokknum eða hvort allir þaðan verði faldir fyrir kjósendum.

Svo er spurning hvort Viðreisn sé í feluleik. Benedikt Jóhannesson stofnandi flokksins verður ekki formaður flokksins þar sem flokkurinn telur vænlegra að tefla fram Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur sem formanni í stað Benedikts. Athygli vekur að varaformaðurinn, Jóna Sólveig Elínardóttir, varð ekki formaður eins og venja er með varaformenn. Einnig er það orðið á götunni að flokkurinn hafi farið gegn eigin reglum um að einstaklingar af gagnstæðu kyni séu í formanns og varaformannsembætti. Það á nú eftir að koma í ljós hvort Benedikt verði falinn fram að kosningum og hvort Viðreisn fái fleiri atkvæði með Þorgerði Katrínu í brúnni eða ekki.

Ertu með athyglisverða ábendingu?
Sendu okkur póst á ordid@eyjan.is - fyllsta trúnaðar gætt.
«
»

Ummæli ()


Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli. Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is