Þriðjudagur 17.10.2017 - 13:47 - Ummæli ()

Spádómurinn

Orðið á götunni er að Sjálfstæðisflokkur hljóti nú að koma fram með afgerandi viðbrögð sem allir flokksmenn geti tekið undir varðandi lögbannið á fréttaflutning Stundarinnar. Stjórnmálamenn úr Vinstri grænum, Pírötum og Bjartri framtíð hafa stigið fram og mótmælt lögbanninu harðlega.  Lögbannið kemur verst út fyrir Sjálfstæðisflokkinn og best út fyrir Stundina sama hvernig sem á það er litið. Þó svo að það Glitnir sem fari fram á lögbannið þá hafði umfjöllunin fram að lögbanninu snúið að viðskiptum Bjarna Benediktssonar formanns Sjálfstæðisflokksins þegar hann var þingmaður flokksins fyrir hrun.

Vissulega telja margir það kjánalegt að grafa upp áratugagömul og margrannsökuð viðskipti korter í kosningar, en á sama tíma er erfitt að halda því fram að gögn innan úr Glitni sem hrekja staðhæfingar Bjarna frá því í desember eigi ekki erindi við almenning. Þó það til séu þeir sem telji margar milljónir ekki vera neitt sem skipti máli, þá sagði meira að segja Bjarni sjálfur að hann hefði skilning á að 50 milljónir séu risavaxin fjárhæð.

Viðbrögð Sjálfstæðismanna verða einhver, hjá því verður ekki komist. Brynjar Níelsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins þvoði hendur flokksins af lögbanninu á Fésbókarsíðu sinni í gær, sagði hann með sinni þjóðþekktu hótfyndni að Sjálfstæðisflokkurinn hefði ekkert að gera með lögbannið.

Illugi Jökulsson rithöfundur og þekktur andstæðingur Bjarna og Sjálfstæðisflokksins, kom fram með athylgisverðan spádóm í morgun:

Þegar loks verður búið að meika Bjarna nóg og skipuleggja „blaðamannafund“ með klappliðinu, þá mun málflutningur hans ganga út á að lögbannskrafa kröfuhafanna í Glitni – sem alltaf vilji gera Íslendingum allt illt – hafi verið rangur og óþarfur gjörningur, enda hafi ekkert nýtt verið í gögnum Stundarinnar. Það verður semsagt Hneykslaði Bjarni sem birtast mun fjölmiðlum í þetta sinn. En um leið er tryggt að engar nýjar upplýsingar birtast fram að kosningum. Sanniði til, þannig verður þetta.

Illugi bætti svo við á Fésbókarvegg Gunnars Smára Egilssonar:

Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins hímir undir vegg, tilbúinn til að vera smalað inn á til að klappa fyrir Bjarna þegar verður búið að þaulæfa handahreyfingar hans fyrir „blaðamannafundinn“ væntanlega. Það er sérstakur maður í því. Þegar Bjarni verður búinn að fara með þrautæfða þuluna sína, þá mun þingflokkurinn opna munninn og mæla einum rómi. Þetta er frekar illa komið, kannski ekki síst fyrir þingmenn sem maður ímyndaði sér að hefðu sjálfstæða lund eins og gamlir jaxlar eins og Vilhjálmur Bjarnason eða Brynjar Níelsson eða ungu konurnar Hildur Sverrisdóttir eða Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir en sannleikurinn virðist sá að öll séu þau jafn sjálfstæð og þægu róbótarnir í Blade Runner.

Nú er bara að sjá hvað gerist.

Ertu með athyglisverða ábendingu?
Sendu okkur póst á ordid@eyjan.is - fyllsta trúnaðar gætt.
«
»

Ummæli ()


Vinsamlegast athugið:
Ummæli eru á ábyrgð þeirra sem þau skrifa. Eyjan áskilur sér þó rétt til að fjarlægja óviðeigandi og meiðandi ummæli. Tilkynna má óviðeigandi ummæli í netfangið ritstjorn@eyjan.is

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is