Fimmtudagur 5.1.2017 - 10:13 - Ummæli ()

Við förum í róður þótt fleyið sé lekt

bjarnibenOrðið á götunni er að skrítin stemning sé kringum myndun hægri stjórnar Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar.

Flestir eru sammála um að fátt annað sé í stöðunni en að flokkarnir þrír myndi ríkisstjórn, þótt meirihlutinn yrði aðeins einn þingmaður, en sannarlega verður ekki sagt að þingmenn Sjálfstæðisflokksins séu spenntir fyrir verkefninu, eins og Eyjan benti á í fréttaskýringu í gærkvöldi þar sem sagt var frá mjög erfiðum þingflokksfundi.

Í ríflega tvo mánuði hafa Sjálfstæðismenn talað fyrir því að fá Vinstri græn til liðs við sig og Framsóknarflokkinn án árangurs. Það er ekki fyrr en nú á allra síðustu dögum að áhrifafólk innan VG ljær máls á slíku, en vilja þá hafa Samfylkinguna með. Ekki er öllum ljóst hvort hugur fylgir máli, enda skoðanir mjög skiptar innan VG, og þess vegna er langlíklegast að Bjarni Benediktsson verði forsætisráðherra í samstarfi með Benedikt frænda sínum Jóhannessyni og Óttari Proppé — jafnvel fyrir vikulok.

Á lokaðri spjallrás VG hefur mátt lesa undanfarna daga áhyggjur manna af því að flokknum verði kennt um þá stjórn sem er nú verið að mynda og kennd hefur verið við hægri ásinn í stjórnmálunum.

En þetta er ekkert í fyrsta sinn sem stemningin er svona. Það þarf að mynda ríkisstjórn og búið er að reyna marga kosti. Árið 1978 var löng stjórnarkreppa sem endaði með því að Ólafur Jóhannesson myndaði ríkisstjórn sem lítil stemning var um.

Í Völundarhúsi valdsins, þeirri ágætu bók eftir Guðna Th. Jóhannesson, forseta Íslands, sem allir handhafar stjórnarmyndunarumboðs hafa fengið að gjöf, er vitnað í þessa vísu Páls Péturssonar sem hann orti þegar þetta seinna ráðuneyti Óla Jó var myndað:

Við förum í róður, þótt fleyið sé lekt

og fram undan leiðinda starf.

Nú gerum við allt sem er ómögulegt

en ekkert af hinu, sem þarf.

Sú ríkisstjórn lifði ekki nema fáeina mánuði og svo var kosið aftur. Ætli það sama gerist nú?

Ertu með athyglisverða ábendingu?
Sendu okkur póst á ordid@eyjan.is - fyllsta trúnaðar gætt.
Mánudagur 2.1.2017 - 10:33 - Ummæli ()

Hvernig stjórn verður mynduð?

katrinbjarniOrðið á götunni er að Bjarni Benediktsson verði væntanlega forsætisráðherra á allra næstu dögum, en spurningin er: Í hvaða ríkisstjórn? Verður það svokölluð hægristjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar eða það sem kallað hefur verið þjóðleg íhaldsstjórn Vinstri grænna, framsóknar og Sjálfstæðisflokks.

Undir áramót fóru þeir Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, og Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, á fund forseta og lögðu til að Bjarni Benediktsson fengi umboð til að mynda ríkisstjórn flokkanna þriggja. Athygli vekur, að forsetinn varð við beiðninni að nokkru leyti, því hann veitti Bjarna umboðið, en ef rýnt er vandlega í yfirlýsingu hans, kemur fram að það umboð er ekki bundið við ríkisstjórn með Benedikt og Óttari, heldur almennt til að mynda ríkisstjórn.

Orðið á götunni er að forseti Íslands viti eins og margir fleiri, að undanfarið hafa átt sér stað mikil samtöl milli Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokksins annars vegar og VG og framsóknar hins vegar um möguleikana í stöðunni. Framan af hefur innanflokksandstaða í VG ráðið því að ekkert hefur orðið úr samstarfi, en það hefur eitthvað breyst síðustu daga eftir að möguleikinn á hægri stjórn tók að taka á sig fullmótaðri mynd.

Sigurður Ingi JóhannssonHægri stjórnin hefði bara eins manns meirihluta, en hinn stjórnarmöguleikinn mun breiðari skírskotun og fleiri þingmenn á bak við sig.

Enn sem komið er, virðist líklegra að þeim Benedikt og Óttari takist það ætlunarverk sitt að mynda ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum, en kannski er samningsstaða þeirra ekki jafn sterk og þeir töldu áður þegar þeir töldu þetta eina möguleika Bjarna á að mynda stjórn. Munu þeir ef til vill fallast á að Framsókn verði fjórði flokkurinn í samstarfinu? Er áhugi þar á bæ fyrir áherslum slíkrar ríkisstjórnar?

Spurningin er líka: Hvaða spil er Katrín Jakobsdóttir með á hendi? Í Kryddsíldinni á gamlársdag fór ekki framhjá neinum að góð samskipti eru milli hennar og Bjarna Bendiktssonar.

En eins og stundum var sagt í Alþýðubandalaginu í gamla daga: Hvað segir Svavar Gestsson um þetta? Og dóttir hans Svandís og þeirra stuðningsfólk? Á endanum eru það væntanlega þau sem ráða því hvort VG verður áfram í stjórnarandstöðu eða ekki.

Ertu með athyglisverða ábendingu?
Sendu okkur póst á ordid@eyjan.is - fyllsta trúnaðar gætt.
Fimmtudagur 29.12.2016 - 14:48 - Ummæli ()

Áhrifamikil Liv

livbergthorsOrðið á götunni er að Liv Bergþórsdóttir, forstjóri Nova, hljóti að vera orðin ein áhrifamesta manneskjan í íslensku viðskiptalífi. Árið 2016 hefur verið henni einkar farsælt, enda hefur tímaritið Frjáls verslun útnefnt hana mann ársins í íslensku atvinnulífi.

Ekki aðeins getur Liv státað af góðum rekstri símafélagsins Nova, sem selt var á sextán milljarða króna á árinu, heldur er hún líka stjórnarformaður WOW sem hefur gengið vonum framar á árinu og skilaði forstjóranum og frumkvöðlinum Skúla Mogensen nafnbótinni Viðskiptamaður ársins hjá Fréttablaðinu.

Að vera forstjóri símafélagsins Nova og stjórnarformaður WOW er því ansi magnað og er væntanlega leitun að öðrum eins áhrifum og Liv hefur í íslensku viðskiptalífi nú um stundir.

 

Ertu með athyglisverða ábendingu?
Sendu okkur póst á ordid@eyjan.is - fyllsta trúnaðar gætt.
Föstudagur 23.12.2016 - 10:00 - Ummæli ()

Maður sátta

Haraldur BenediktssonOrðið á götunni er að Haraldur Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hafi ekki unnið lítið afrek sem formaður fjárlaganefndar undanfarnar vikur.

Fjárlög voru afgreidd á Alþingi í gærkvöldi og þing kemur ekki saman aftur fyrr en undir lok janúar, en í fyrsta sinn þurfti að vinna frumvarpið þvert á flokka í þinglegri meðferð. Og það var gert, afgreitt í þverpólitískri sátt út úr nefndinni og loks samþykkt, reyndar með minnihluta atkvæða, þar sem margir sátu hjá.

Það er á stundum sem þessum sem reynir á hve menn eru lausnamiðaðir í störfum sínum og snjallir samningamenn. Haraldur leysti hlutverk sitt með prýði og naut dyggrar aðstoðar hins þingreynda forseta þingsins, Steingríms J. Sigfússonar, sem situr þar á óvæntum friðarstóli og skipar fólki til verka, til hægri og vinstri.

Þótt engin meirihlutastjórn sé starfandi í landinu og stjórnarkreppa ríkjandi, verður að segjast alveg eins og er, að það hefur verið góður bragur á störfum alþingismanna okkar að undanförnu. Þeir hafa fundið til ábyrgðar sinnar, hætt endalausu væli um stjórn- og stjórnarandstöðu og þess í stað gengið í þau verk sem þarf að vinna.

Vonandi veit það á gott upp á framhaldið.

Ertu með athyglisverða ábendingu?
Sendu okkur póst á ordid@eyjan.is - fyllsta trúnaðar gætt.
Föstudagur 16.12.2016 - 21:36 - Ummæli ()

Bústin og sælleg

logieinarssonOrðið á götunni er að Logi Einarsson formaður Samfylkingarinnar hafi afhent Sigurði Inga Jóhannssyni, formanni Framsóknarflokksins og forsætisráðherra, sögu Alþýðuflokksins, Úr fjötrum og rósarvönd, í tilefni af aldarafmæli Framsóknarflokksins í dag.

Hafði Logi á orði, er hann afhenti bókina, að bæði Framsóknarflokkurinn og Samfylkingin hafi farið í hraustlegan megrunarkúr í síðustu kosningum, en það væri hans trú að bæði verði orðin bústin og sælleg eftir þær næstu.

Ertu með athyglisverða ábendingu?
Sendu okkur póst á ordid@eyjan.is - fyllsta trúnaðar gætt.
Miðvikudagur 14.12.2016 - 14:29 - Ummæli ()

Alltaf í boltanum

Guðni Bergsson.

Guðni Bergsson.

Orðið á götunni er að framboð lögmannsins og landsliðsfyrirliðans fyrrverandi Guðna Bergssonar hleypi óvæntri spennu í kjörið um formannsembættið í Knattspyrnusambandi Íslands á næsta ári.

Fyrir á fleti er Geir Þorsteinsson sem verið hefur formaður og þar á undan framkvæmdastjóri KSÍ í tuttugu ár, eða frá því hann hætti sem framkvæmdastjóri Knattspyrnudeildar KR.

Bæði Geir og Guðni eiga sér harða stuðningsmenn og því er ekki að leyna að ýmsir telja kominn tíma á breytingar í forystu sambandsins. Á hinn bóginn benda margir réttilega á, að Geir standi nú á hátindi ferils síns, KSÍ sé að ljúka besta ári í sögu sambandsins þar sem landslið karla sló m.a. í gegn í úrslitakeppni EM og að fáránlegt sé við slíkar aðstæður að skipta um mann í brúnni.

Orðið á götunni er að þótt Guðni sé væntanlega mun vinsælli og þekktari meðal þjóðarinnar, eftir farsælan atvinnumannaferil hjá m.a. Tottenham og Bolton og svo mörg ár sem fyrirliði landsins, þá muni slíkt væntanlega duga skammt í kjörinu sjálfu. Þar koma saman fulltrúar aðildarfélaganna innan KSÍ, knattspyrnudeildir af öllu landsins, fólk sem unnið hefur náið með Geir árum og jafnvel áratugum saman.

Aukinheldur hefur nú verið upplýst, að öll knattspyrnusambönd Norðurlandanna hafa ákveðið að tilnefna Geir Þorsteinsson sem sinn fulltrúa í stjórnarkjöri Alþjóða knattspyrnusambandsins FIFA í apríl á næsta ári. Forsenda fyrir því að Geir næði kosningu í slíkt embætti er að hann yrði áfram formaður KSÍ eftir ársþing þess í janúar. Að komast í stjórn FIFA gæti haft mikla þýðingu fyrir íslenska knattspyrnu, eins og Geir mun væntanlega útlista rækilega fyrir íslenskum knattspyrnuforkólfum næstu daga.

Það hangir því margt á spýtunni og verður spennandi að sjá hver framvindan verður næstu vikurnar.

Ertu með athyglisverða ábendingu?
Sendu okkur póst á ordid@eyjan.is - fyllsta trúnaðar gætt.
Mánudagur 12.12.2016 - 16:56 - Ummæli ()

Tveir flokkar

katrin-jakobsdottir-menntamalaradherraOrðið á götunni er að eitt sé öðru fremur ljóst eftir vendingar síðustu daga í íslenskum stjórnmálum og það er sú staðreynd, að Vinstri grænir eru sem stjórnmálaflokkur klofinn í herðar niður. Katrín Jakobsdóttir er í reynd formaður yfir tveimur flokkum, íhaldsömum landsbyggðarflokki og róttækum þéttbýlisflokki.

Þetta kemur ef til vill ýmsum nokkuð á óvart, því fram að þessu hefur athygli fjölmiðla einkum beinst að innanflokksátökum í Framsóknarflokki, klofningi innan Sjálfstæðisflokks með stofnun Viðreisnar, hjaðningavígum innan Samfylkingar og deilum innan Pírata, en svo kemur þessa klofningur innan Vinstri grænna óvænt í ljós í tilraunum til stjórnarmyndunar eftir kosningar.

svavar-gestssonLengi hefur reyndar verið vitað að grunnt væri á því góða innan þingflokksins (millum Steingríms J. Sigfússonar og Ögmundar Jónassonar voru til dæmis oft deilur og Katrín í hlutverki hins þolinmóða sáttasemjara, auk þess sem stór hluti þingflokks VG hætti í flokknum síðast þegar hann var í ríkisstjórn út af margvíslegum málefnaágreiningi) en undanfarna daga hefur þetta komið berlega í ljós, svo ekki er lengur unnt að þræta fyrir það.

Og öðlast þá kannski fleiri skilning á þeim ummælum Katrínar fyrir tíu dögum, að forystufólk flokkanna væri orðið mjög þreitt eftir stífar viðræður og þyrfti á hvíld að halda. Menn áttuðu sig bara ekki á því að hún væri líka í stífum samningaviðræðum innahúss!

Áhrifamaðurinn Björn Valur

Samskiptamiðlar loga nú stafna á milli og kenna Vinstri grænum um að upp úr slitnaði milli flokkanna fimm. Katrín fær þó líklega ekki jafn vonda útreið og Benedikt Jóhannesson síðast, því heilu myndböndin voru gerð um hann sem fóru eins og eldur í sinu á Netinu, þegar Viðreisn dró sig út út viðræðunum í fyrra sinnið.

bvgSvo merkilegt sem það var, hætti sú rógsherferð algjörlega um leið og Viðreisn fór aftur í viðræðurnar.

Jón Steinsson hagfræðingur hrósar þó hinum flokkunum fjórum fyrir að vilja markaðsleiðir í sjávarútvegi og landbúnaði:

„Á þessum vonbrigðisdegi í íslenskri pólitík þá er kannski gott að líta á þá björtu hlið að fjórir flokkar með samtals 24 þingmenn hafa sýnt fádæma staðfestu varðandi kerfisbreytingar í sjávarútvegs- og landbúnaðarmálum. Það er öðruvísi en áður var og veit vonandi á gott í framtíðinni. Takk fyrir CAPS!,“ segir hann.

Orðið á götunni er að mönnum sé orðið ljóst að Björn Valur Gíslason er miklu meiri áhrifamaður innan VG sem varaformaður, en margir höfðu talið. Andstæðingar hans innan flokksins höfðu furðað sig á skrifum hans og sagt hann einangraðan, en ekki er annað að sjá en áherslur hans og áhyggjuefni hafi vegið þungt á metunum.

En Birni til varnar, veit hann að stuðningsmenn Vinstri grænna víða á landsbyggðinni voru mjög stressaðir yfir tillögum Viðreisnar um hreinar markaðslausnir í sjávarútvegi, nokkuð sem gæti leitt til mjög óvinsælla afleiðinga fyrir hinar dreifðu byggðir. Það er vafalaust rétt hjá honum að slíkar tillögur hefðu getað reynst hrein lífgjöf fyrir stjórnarandstöðuna og þá mest á kostnað VG.

Benedikt Jóhannesson.

Þetta vissu hann og Steingrímur J. Sigfússon vel. Auk þess höfðu þeir og fjölmargir aðrir miklar áhyggjur af hægri sinnuðum áherslum þingmanna Viðreisnar, sem erfitt yrði fyrir stuðningsmenn VG að kyngja. Og upplifðu VG í málefnalegum minnihluta í viðræðunum gegn hinum flokkunum fjórum, enda þótt hann væri stærsti flokkurinn samkvæmt niðurstöðum kosninganna.

Og raunar má tíðindum sæta, að ekki hafi verið meiri stemning hjá hinum flokkunum fjórum fyrir velferðaráherslum Vinstri grænna, því í kosningabaráttunni töluðu þeir allir fyrir því að stórefla velferðar- og heilbrigðiskerfið.

VG er ekki hægrisinnaður flokkur

liljarafneyLilja Rafney Magnúsdóttir, þingkona flokksins í Norðvesturkjördæmi, segir ekki hafa strandað á sjávarútvegsmálunum:

„Það reyndi ekkert á sjávarútvegsmálin í raun það voru allir sammála um innköllun aflaheimilda en ekki var komin niðurstaða um útfærslu. VG er ekki hægrisinnaður flokkur sem lítur á markaðslausnir sem einhver trúarbrögð og ígildi frelsis við tökum alltaf félags,byggða og samfélags þættina inn í og teljum að fjármagnið eigi ekki eitt að ráða för um hvernig samfélagið þróast,“ segir hún á fésbókinni.

Andlegur leiðtogi Reykjavíkurarms Vinstri grænna, Svavar Gestsson, er reiður og sár á sama vettvangi og vill fá að vita hvers vegna slitnaði upp úr viðræðunum.

Svavar skrifar:

Sjávarútvegsmál og útgjaldahlið ríkissjóðs? Ha? Vildu flokkarnir ekki standa við stóru kosningaloforðin um innviðina? Heilbrigðismál? Menntamál? Vegamál? Hvaða flokkar vildu ekki standa við kosningafyrirheitin? Og sjávarútvegsmálin? Hverjir vilji ekki taka peninga af sjávarútveginum til að fjármagna velferðina. Kjósendur verða að fá að vita þetta.

Orðið á götunni er að Framsóknarflokkurinn sé allt í einu kominn í lykilstöðu. Verði mynduð minnihlutastjórn Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokks — svonefnd þjóðleg íhaldsstjórn — gæti lendingin orðið sú að biðja framsókn að verja hana vantrausti, gegn því að nýr kjördagur yrði ákveðinn fljótlega eftir áramót. Hinn möguleikinn er að fjórflokkurinn myndi slíka starfsstjórn, þ.e. Framsókn og Samfylkingin með Vinstri grænum og Sjálfstæðisflokki.

Að minnsta kosti er líklegt að Benedikt Jóhannesson og Óttarr Proppé fái frí í þessari lotu viðræðna, því þeir hafa setið samfellt í viðræðum við hina ýmsu flokka í 44 daga og alltaf hefur niðurstaðan orðið sú að ekki væri unnt að halda þeim áfram.

Nema Benedikt dragi til baka stóru orðin og fallist á að Viðreisn gangi til liðs við núverandi stjórnarflokka. Vitað er að ýmsir innan Viðreisnar eru komnir á þá línu, eftir allt sem á undan er gengið.

Ertu með athyglisverða ábendingu?
Sendu okkur póst á ordid@eyjan.is - fyllsta trúnaðar gætt.
Föstudagur 9.12.2016 - 18:18 - Ummæli ()

Sannleikanum verður hver sárreiðastur

Helgi Hrafn Gunnarsson er nýjasta stjarnan í íslenskum stjórnmálum.

Helgi Hrafn Gunnarsson.

Orðið á götunni er að uppi hafi orðið fótur og fit meðal Pírata í gærkvöldi þegar Eyjan birti frétt þess efnis að Píratar geri í stjórnarmyndunarviðræðum ekki lengur kröfu um að Nýja stjórnarskráin, sem Stjórnlagaráð samdi, verði eitt og sér grunnur að nýrri stjórnarskrá. Það plagg verði þess í stað tekið til þinglegrar meðferðar og unnið á kjörtímabilinu með það að markmiði að breytingar á stjórnarskrá verði samþykktar undir lok kjörtímabilsins.

Í frétt Eyjunnar sagði að líklegt væri að Stjórnarskrá stjórnlagaráðs muni taka miklum breytingum í þinglegri meðferð, því mjög skiptar skoðanir hafi verið meðal þingmanna um plaggið eins og það leit út þegar Jóhanna Sigurðardóttir, þáverandi forsætisráðherra, varð að játa sig sigraða í þeirri viðleitni sinni að fá það samþykkt fyrir kosningarnar 2013.

Eyjan stendur vitaskuld við þessa frétt sína, enda er hún rétt í einu og öllu. Það sem Píratar leggja nú til er það sem Árni Páll Árnason hafði áður lagt sem nýr formaður Samfylkingarinnar skömmu fyrir kosningar árið 2013 og verið úthrópaður sem svikari fyrir, jafnt af samherjum í pólitík sem öðrum, til dæmis Pírötum.

Þarf að leita til Morgunblaðsins eftir samanburði

Helgi Hrafn Gunnarsson, fv. þingmaður Pírata, sparar ekki stóru orðin í garð Eyjunnar í dag á Pírataspjallinu og segir það skína svo bersýnilega í gegn „að þetta er pólitískt málgagn að maður þarf að leita til Morgunblaðsins til að finna samanburð.“

Hann hafnar því alfarið að Píratar séu að leggja fram málamiðlun með því að frumvarp stjórnlagaráðs fái þinglega meðferð.

„Það hefur aldrei verið útrætt hvernig nákvæmlega eigi að halda áfram með málið, ýmsar hugmyndir hafa verið á lofti, en það er ekki, hefur aldrei verið og verður aldrei í boði að ný stjórnarskrá fái ekki þinglega meðferð,“ segir hann.

Og Helgi Hrafn bætir við:

„Það er greinilegt að þetta er sett svona fram einungis til þess að blanda saman hugtakinu „ófrávíkjanleg krafa“ við allt sem Píratar ákveða að gera, til að láta það líta út eins og að allt sem Píratar samþykki sé 180 gráðu beygja frá því sem þeir hafi sagt hingað til. Eyjan ætti að íhuga að notast við áreiðanlegri heimildamenn en þetta. Það er greinilegt að fullyrðingagleðin er sterkari sannleiksþorstanum, sem maður hefði haldið að væri fjölmiðli til einhvers ama.“

Ömurlegt að horfa upp á Helga grafa undan fjölmiðli

Það var og. Það eina sem er að fullyrðingum Helga Hrafns, er að þær eru rangar. Hann er að verða enn einn stjórmálamaðurinn sem reynir að skjóta sendiboðann í stað þess að horfast í augu við stöðuna eins og hún er.

Erna Ýr Öldudóttir.

Erna Ýr Öldudóttir.

Svo vill til að manneskja sem veit upp á hár hver afstaða Pírata hefur verið til þessara mála á umliðnum árum er Erna Ýr Öldudóttir, sem var um skeið formaður framkvæmdaráðs Pírata.

Hún svarar Helga Hrafni fullum hálsi á fésbókinni og segir:

„Ömurlegt að horfa upp á Helga Hrafn grafa undan fjölmiðli á þennan hátt. Málflutningur hans virkar beinlínis óheiðarlegur á mig.

1. Krafan um stutt kjörtímabil hefur verið gefin eftir.

2. Krafan um aðskilnað framkvæmda- og löggjafarvalds hefur verið gefin eftir.

3. Stefnan um að tillögur stjórnlagaráðs skuli liggja til grundvallar nýrri stjórnarskrá í öllum efnisatriðum er horfin af heimasíðu Pírata.

Það að málið fái þinglega meðferð hefur alltaf legið fyrir, en Píratar leyfðu t.d. ekki þinglega meðferð á þeim tillögum sem lágu fyrir eftir sl. vetur með þeim rökum að þingið mætti ekki fikta í því sem stjórnlagaráð var búið að gera og kosið var um af þjóðinni.“

Svo mörg voru þau orð. Ætli sé ekki best að leyfa lesendum að draga sínar eigin ályktanir. Helgi Hrafn og aðrir Píratar geta vel verið skúffaðir út í Eyjuna fyrir að segja sannleikann um eftirgjöf þeirra í stórum málum. Og það er alveg rétt hjá honum að frumvarp Stjórnlagaráðs þarf alltaf að fara í þinglega meðferð. Málið er bara að hingað til hafa Píratar haldið öðru fram; sagt að enginn ætti að fikta í texta Stjórnlagaráðs. Þess vegna var lögð áhersla á stutt kjörtímabil.

Nú hafa Píratar fallið frá öllum þessum prinsippum sínum. Það er hins vegar ekki Eyjunni að kenna.

Ertu með athyglisverða ábendingu?
Sendu okkur póst á ordid@eyjan.is - fyllsta trúnaðar gætt.
Miðvikudagur 7.12.2016 - 09:08 - Ummæli ()

Kosið aftur

Lilja Alfreðsdóttir

Lilja Alfreðsdóttir: Verður hún utanríkisráðherra í starfsstjórn?

Orðið á götunni er að með hverjum deginum sem líður, án þess að sjáist til lands í stjórnarmyndunarviðræðum, aukist líkur til þess að kosið verði aftur til alþingis snemma í vor, jafnvel í mars, apríl eða maí á næsta ári.

Birgitta Jónsdóttir fer nú með stjórnarmyndunarumboðið fyrir hönd Pírata og hefur gert frá því á föstudag, en samt eru formlegar viðræður ekki enn hafnar. Fyrst fóru þrír dagar hjá Pírötum í að skilgreina verklag og undirbúa málamiðlunartillögur, enda ekki létt verk að samræma stefnu og áherslur fimm ólíkra flokka, og svo hefur verið fundað með óformlegum hætti á mánudag og þriðjudag án þess að línur hafi skýrst.

Á mánudag kom berlega í ljós að Viðreisn reyndist ekki tilbúin að leggja út í formlegar viðræður nema fyrir lægi að líklegt væri að þær skiluðu einhverju og þar á bæ er satt að segja ekki mikil bjartsýni á það.

Og hjá Vinstri grænum er vilji til þess að reyna og ræða málin í alvöru, en innan flokksins er þó nánast engin tiltrú á því að leiðangur Pírata leiði til ríkisstjórnar. Hins vegar er sagt mikilvægt að Birgitta fái tækifæri til að reyna, úr því hún hafi gefið í skyn að verkstjórn Katrínar Jakobsdóttur hafi ef til vill ekki verið nógu góð eða diplómatísk.

Pattstaða

Þeim fer fjölgandi innan raða Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokks sem telja að íslensk stjórnmál séu komin í hálfgerða pattstöðu og líklega þurfi að kjósa aftur. Horfa þeir þá á að flokkarnir tveir þurfi að koma sér saman um ríkisstjórn sem verði þá nokkurs konar starfsstjórn í nokkra mánuði um nokkur fá tiltekin viðfangsefni og festi dagsetningu fyrir nýjar alþingiskosningar. Jafnvel sé hægt að bjóða framsókn aðild að slíku bandalagi með einum ráðherrastól (Lilja Alfreðsdóttir sem utanríkisráðherra?) og embætti forseta Alþingis (Sigurður Ingi Jóhannsson?), eða að flokkurinn verji starfsstjórnina hreinlega vantrausti á þessu tímabili.

Birgitta Jónsdóttir þingkona Pírata.

Innan framsóknar er vaxandi áhugi á nýjum kosningum (enda telja menn að flokkurinn muni aldrei gera verr en síðast) og jafnframt er sú skoðun ríkjandi, að líklega verði erfitt að mynda stjórn án aðkomu Framsóknarflokksins. Því sé best að bíða áfram og sjá hverju fram vindur og horfa á aðra flokka stranda í sínum viðræðum, hvern á fætur öðrum.

Hvað gerir Viðreisn?

Innan Viðreisnar er staðan aðeins að verða snúnari. Hingað til hefur formaðurinn Benedikt Jóhannesson verið nær einráður í nálgun sinni eftir kosningar, en sumir þingmenn segja það litlum árangri hafa skilað. Þeir telja flokkinn þurfa að komast í ríkisstjórn og vilja síður sjá nýjar kosningar. Horfa þurfi til lausna á borðinu eigi árangur að nást og líklega sé ekki nóg að mynda eins manns meirihluta með Sjálfstæðisflokki og Bjartri framtíð.

Benedikt hefur sagt sínu fólk að brátt komi röðin að þeim í stjórnarmyndunarviðræðum og enn geti áhugaverðir kostir verið í boði. Hann hefur aftekið með öllu að mynda nýja stjórn með Framsóknarflokknum og Sjálfstæðisflokknum og þar hefur hnífurinn staðið í kúnni, því þingmenn Viðreisnar eru ekki mjög vinstri sinnaðir almennt og hugnast ekki skattahækkanir, eins og fram hefur komið.

Benedikt Jóhannesson.

Forseti Íslands rifjaði upp í þingsetningarávarpi sínu í gær, að árin 1978‒1980 hafi þáverandi forseti, Kristján Eldjárn, staðið í ströngu, enda samfelld stjórnarkreppa í nálega tvö ár.

„Í tíð Kristjáns virtist sumum stjórnmálaleiðtogum, sem stóðu í stjórnarmyndunarviðræðum, ósárt um að enginn árangur næðist því að þá kæmi röðin um síðir að þeim sjálfum að leiða þær. Heiðurinn yrði svo þeirra ef vel tækist til,“ sagði forsetinn.

Og hann bætti við:

„Á Alþingi Íslendinga eiga allir þingmenn og þingflokkar að vera jafnréttháir.“

Með þessum orðum færði Guðni Th. Jóhannesson rök fyrir því að Píratar hefðu átt að fá umboðið sl. föstudag, en um leið að Framsókn og Viðreisn geti fengið það næst með jafngildum rökum. Og að einstakir foringjar bíði ef til vill fremur síns tækifæris fremur en að leita allra leiða til að ná lendingu.

Ætli það eigi við um þá Sigurð Inga Jóhannsson og Benedikt Jóhannesson?

Ertu með athyglisverða ábendingu?
Sendu okkur póst á ordid@eyjan.is - fyllsta trúnaðar gætt.
Mánudagur 5.12.2016 - 20:56 - Ummæli ()

Bókstafur laganna

olofogmarkusOrðið á götunni er að íslenskt réttarkerfi sé í uppnámi eftir upplýsingar dagsins um hlutabréfaviðskipti Markúsar Sigurbjörnssonar, forseta Hæstaréttar, á árunum fyrir hrun. Er um að ræða viðskipti upp á tugi milljóna í hlutabréfum og einkabankaþjónustu Glitnis, sem ekki fundust upplýsingar um hjá nefnd um hagsmuni og aukastörf dómara eða hefur verið almenn vitneskja um.

Svo vill til að Eyjan sendi árið 2010 fyrirspurn til dómara við Hæstarétt þar sem spurt var um hagsmuni þeirra og mögulega hlutabréfaeign. Markús svaraði þeirri fyrirspurn ekki. Svo virðist því sem forseti Hæstaréttar dæmi eftir bókstaf laganna í öllum málum nema þeim sem varða hann sjálfan.

Eyjan hefur jafnframt leitað oftar en einu sinni eftir viðbrögðum réttarins og forseta hans við gagnrýni sem sett hefur verið fram á opinberum vettvangi, meðal annars í kjölfarið á greina- og bókaskrifum Jóns Steinars Gunnlaugssonar. Í hvert einasta skipti hefur það svar borist að engin svör verði í boði.

Markús hefur sem forseti Hæstaréttar haft forystu í dómum réttarins í svonefndum hrunmálum. Sum þeirra varða beinlínis Glitni banka, bankann sem hann átti eignarhlut í. Hann hefur aldrei lýst vanhæfi sínu og ekki heldur gert nokkrum grein fyrir þessum miklu hagsmunum sínum, sem hann átti þó að gera grein fyrir.

Harður í horn að taka

haestiretturSem forseti réttarins hefur Markús tekið þátt í að kveða upp þunga dóma yfir bankamönnum, meðal annars á grundvelli þess að þeir hafi brotið reglur innan banka um afgreiðslu lána. Hefur oftar en ekki komið skýrt fram í dómum réttarins að bankamönnunum hafi mátt vera ljóst að þeir væru að brjóta gegn starfsreglum sínum og hefur komið til lítils að flestir bankamennirnir hafa haldið fram sakleysi sínu og lögmenn gagnrýnt skort á sönnunargögnum. Í svonefndum Al-Thani dómi fór Hæstiréttur meðal annars þá óvenjulegu leið að fjalla minnst um niðurstöðu Héraðsdóms, en felldi þess í stað nýjan dóm í málinu — mjög þungan dóm.

Orðið á götunni er að lögmenn fjölmargra bankamanna hljóti nú að velta fyrir sér beiðnum um endurupptöku sinna mála eða að vísa málum til Mannréttindadómstóls Evrópu í ljósi framkominna upplýsinga. Snemma eftir aldamótin síðustu var greint frá því að Guðrún Erlendsdóttir, þáverandi forseti Hæstaréttar, hefði af Mannréttindadómstól Evrópu verið talin vanhæf til að dæma í málum Landsbankans þar sem eiginmaður hennar hefði þá nýlega gengið frá skuldauppgjöri við bankann.

Ef Mannréttindadómstóllinn þá taldi forsetann vanhæfan á grundvelli þess að maki hans hefði átt í viðskiptum við bankann, hvernig halda menn þá að Mannréttindadómstóllinn muni taka á því nú að forseti Hæstaréttar hafi leynt umsvifamiklum hlutabréfaviðskiptum sínum en dæmt samt í málum bankans?

Innanríkisráðherra hlýtur að hlutast til um opinbera rannsókn á þessum málum ekki seinna en strax.

Ertu með athyglisverða ábendingu?
Sendu okkur póst á ordid@eyjan.is - fyllsta trúnaðar gætt.

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is