Mánudagur 5.6.2017 - 19:08 - Ummæli ()

Kosningaútspil

Halldór Halldórsson er oddviti sjálfstæðismanna í borgarstjórn.

Orðið á götunni er að kurr sé í sjálfstæðismönnum með blaðamannafund Dags B. Eggertssonar borgarstjóra og þriggja ráðherra ríkisstjórnarinnar fyrir helgi, þar sem kynnt var útspil ríkis og borgar í húsnæðismálum.

Meirihlutinn í borginni hefur verið í töluverðri vörn í húsnæðismálunum og sjálfstæðismenn í borgarstjórn sótt nokkuð í sig veðrið að undanförnu. Það kom því mörgum á óvart að ríkisstjórnin skyldi óvænt kynna samstarf við borgarstjórn á þessum tímapunkti.

Athygli vakti að enginn ráðherra úr Sjálfstæðisflokknum var á staðnum, en þeir Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra og Þorsteinn Víglundsson úr Viðreisn voru mættir ásamt Björt Ólafsdóttur úr Bjartri framtíð.

Ekki er enn ljóst hvort Viðreisn og Björt framtíð bjóða fram í næstu borgarstjórnarkosningum. Björt framtíð tilheyrir nú meirihlutanum að baki borgarstjóra, en Viðreisn var ekki til þegar síðast var boðið fram.

Innan Sjálfstæðisflokksins telja margir að útspilið fyrir helgi tengist mögulega sameiginlegu framboði Samfylkingar, Bjartrar framtíðar og Viðreisnar í komandi kosningum eða kosningabandalagi þessara þriggja flokka.

Innan Samfylkingarinnar hafa menn hins vegar áhyggjur af því að óvinsældir ríkisstjórnarinnar smitist yfir á meirihlutann í borginni, ekki síst vegna stöðunnar í heilbrigðismálum þar sem borgarfulltrúinn fyrrverandi, Óttarr Proppé, ræður ríkjum. Jafnframt er bent á að Benedikt Jóhannesson leggi sem formaður Viðreisnar og fjármálaráðherra sín fyrstu fjárlög í haust og þau verði að líkindum harkalega gagnrýnd á kosningavetri.

Orðið á götunni er að Halldór hafi átt sterkan leik í kvöldfréttum RÚV í gær, þar sem hann var spurður um þessi tíðindi.

Halldór svaraði:

„Það er verið að tala um 2.000 íbúðir þarna, þær bætast þá við allar þúsundirnar sem eru í glærunum hans Dags B. Eggertssonar, borgarstjóra. Fólk hefur ekki getað flutt inn í þær glærur ennþá þannig að því miður bætist þetta bara þar við.“

Ertu með athyglisverða ábendingu?
Sendu okkur póst á ordid@eyjan.is - fyllsta trúnaðar gætt.
Fimmtudagur 1.6.2017 - 10:12 - Ummæli ()

Í alvöru Finnur?

Orðið á götunni er að Finnur Árnason, forstjóri Haga, hljóti að bregðast við fréttaflutningi Viðskiptablaðsins í dag og varpa ljósi á ásakanir sem þar koma fram, um að nokkrum íslenskum framleiðendum hafi borist þau skilaboð frá Högum að ef þeir hyggist selja vörur sínar í Costco þá verði þær teknar úr hillum verslana Bónuss og Hagkaupa.

Hagar er stærsta verslunarfyrirtæki landsins, stærstu eigendur þess eru lífeyrissjóðirnir — okkar sameiginlegu sjóðir. Innkoma Costco er gríðarleg kjarabót fyrir almenning í landinu og það er algjörlega óásættanlegt að stærsti verslunarrisinn sem fyrir er, beiti hótunum þegar hann stendur loksins frammi fyrir alvöru samkeppni.

Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, getur ekki látið sem ekkert sé yfir svona fréttaflutningi. Hann hlýtur að setja þegar í stað rannsókn í gang á viðskiptaháttum Haga.

Það er svo kaldhæðnislegt, að Finnur Árnason hefur árum saman talað fyrir auknu viðskiptafrelsi á opinberum vettvangi og kallað eftir margskonar breytingum. Einkum hefur Finnur verið duglegur að kenna bændum um hátt vöruverð og landbúnaðarkerfinu. Aukin umsvif fyrirtækisins sem hann stjórnar, hafa orðið til þess að ýmsir minni aðilar hafa lagt upp laupana.

En svo kemur stór erlendur aðili inn á íslenska fákeppnismarkaðinn. Og eru viðbrögð stjórnenda Haga þá í alvöru þau að hóta innlendum framleiðendum og birgjum?

Í alvöru Finnur?

 

Ertu með athyglisverða ábendingu?
Sendu okkur póst á ordid@eyjan.is - fyllsta trúnaðar gætt.
Föstudagur 26.5.2017 - 11:09 - Ummæli ()

Kosningabaráttan er hafin

Borgar Þór Einarsson lögmaður. Er hann á leið í borgarstjórn?

Orðið á götunni er að mikill hugur sé í herbúðum sjálfstæðismanna um þessar mundir. Reykjavíkurþingið um liðna helgi er til marks um það, en andrúmsloftið einkenndist af baráttuvilja, jákvæðni og hugmyndaauðgi.

Brúnaþungir Sjálfstæðismenn vegna ástandsins í Reykjavík hafa nú fyllst vonarneista. Merkja má á mörgum málsmetandi mönnum innan úr herbúðum flokksins að „Reykjavíkurþingið geti verið byrjun á endurheimt meirihluta í borgarstjórn,“ eins og Styrmir Gunnarsson fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins orðaði það á vef sínum, og bætti við: „Það vekur hinum almenna flokksmanni bjartsýni að sjá athafnasemi á borð við þessa í Valhöll.“

Orðið á götunni er að þessi athafnasemi sem Styrmir talar um sé engin tilviljun og að þingið hafi sérstaklega verið haldið til þess að skapa samheldni sem tilfinnanlega hefur skort undanfarin ár. Að skipulagningu þingsins komu mjög svo athafnasamir einstaklingar sem hafa unnið hverjar kosningarnar á fætur annari.

Í því samhengi hafa heyrst nöfn á borð við miðstjórnarmennina Ísak Rúnarsson og Þengil Björnsson. Einnig hefur verið rætt um Sigurð Helga Birgisson, sem nýverið sigraði formannskosningar í félagi sjálfstæðismanna í Nes- og Melahverfi með afgerandi hætti. Þá minntist Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, sérstaklega á Janus Arn Guðmundsson, miðstjórnarmann í Sjálfstæðisflokknum, í ræðu sinni.

Allir eru þessir menn úr innsta hring stuðningskjarna Guðlaugs Þórs, en þær sögusagnir heyrast æ oftar að aðstoðarmaður utanríkisráðherra, Borgar Þór Einarsson lögmaður muni gefa kost á sér í oddvitasætið í Reykjavík á móti Halldóri Halldórssyni, en Halldór hefur átt erfitt uppdráttar meðal sjálfstæðismanna í borginni.

Önnur nöfn sem hafa verið nefnd í því tilliti, eru Gunnar Einarsson bæjarstjóri í Garðabæ og Eyþór Arnalds, fv. borgarfulltrúi.

Borgar Þór er margreyndur í pólitík, leiðtogi Deiglu-armsins svonefnda sem lengi hefur verið ein virkasta hugmyndaveitan, hægra megin við miðju í íslenskum stjórnmálum, og á nú þingmenn bæði úr röðum Sjálfstæðisflokks og Viðreisnar. Þá er hann sonur Ingu Jónu Þórðardóttur fv. oddvita Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn og stjúpsonur Geirs H. Haarde fv. forsætisráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins.

Orðið á götunni er að kosningabarátta Sjálfstæðisflokksins sé hafin. Ljóst þykir að Sjálfstæðisflokkurinn muni láta sverfa til stáls í komandi sveitarstjórnarkosningum og sjái nú meiri tækifæri á sigri en áður í ljósi vandræða á húsnæðismarkaði.

Spurningin stendur þó enn eftir: Hver mun leiða Sjálfstæðisflokkinn í borgarstjórn?

Ertu með athyglisverða ábendingu?
Sendu okkur póst á ordid@eyjan.is - fyllsta trúnaðar gætt.
Þriðjudagur 9.5.2017 - 14:14 - Ummæli ()

Höskuldur aftur í lögmennsku

Höskuldur Þórhallsson fv. alþingismaður.

Orðið á götunni er að Höskuldur Þór Þórhallsson, fyrrverandi alþingismaður, sé genginn til liðs við Íslensku lögfræðistofuna. Fyrir á stofunni eru Haukur Örn Birgisson hrl., Arnar Kormákur Friðriksson hdl., Eggert Páll Ólason hdl. og Ómar Örn Bjarnþórsson hdl. sem eru eigendur stofunnar.

Höskuldur Þór útskrifaðist sem lögfræðingur frá Háskóla Íslands árið 2003 og hlaut réttindi til starfa sem héraðsdómslögmaður árið 2005.

Höskuldur stundaði nám í Evrópurétti og alþjóðlegum einkamálarétti við Háskólann í Lundi í Svíþjóð árið 2001. Hann var aðstoðarmaður dómara við Héraðsdóm Reykjavíkur á árunum 2003 til 2005 og sat í stjórn Stéttarfélags lögfræðinga frá 2004 til 2006. Hann starfaði sem lögmaður á Mörkinni lögmannstofu hf. frá 2005 til 2007 þar sem hann öðlaðist mikla reynslu af málflutningsstörfum og hagsmunagæslu fyrir einstaklinga, fyrirtæki, opinberar stofnanir og sveitarfélög. Höskuldur var einnig stundakennari í viðskiptarétti við Háskólann í Reykjavík frá 2005 til 2007.

Höskuldur sat á Alþingi frá 2007 til 2016 fyrir Norðausturkjördæmi. Á þeim árum sat Höskuldur í fjölmörgum nefndum Alþingis, svo sem menntamálanefnd, umhverfisnefnd, viðskiptanefnd, fjárlaganefnd og svo umhverfis- og samgöngunefnd þar sem hann var formaður. Hann átti einnig sæti í Þingvallanefnd og kjörbréfanefnd Alþingis ásamt stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þingsins. Hann var jafnframt formaður Íslandsdeildar Norðurlandaráðs frá 2013 til 2016 og gegndi stöðu forseta Norðurlandaráðs árið 2015. Undanfarna mánuði hefur Höskuldur starfað sem formaður nefndar á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar sem hefur það verkefni að móta stefnu fyrir Norður-Atlantshafssvæðið. Höskuldur situr jafnframt í eftirlitsnefnd Norræna fjárfestingarbankans (NIB).

 

Ertu með athyglisverða ábendingu?
Sendu okkur póst á ordid@eyjan.is - fyllsta trúnaðar gætt.
Föstudagur 5.5.2017 - 14:37 - Ummæli ()

Lífið er dásamlegt

Orðið á götunni er að lífið sé dásamlegt í pólitíkinni á landi hér. Nú klóra þingmenn og stjórn þingsins sér í höfðinu yfir kosningu í bankaráð Seðlabankans sem Þorsteinn Víglundsson jafnréttisráðherra hefur sagt að eigi að kjósa í aftur vegna kynjamála.

Það verður snúið. Kosningin er gild samkvæmt lögum sem gilda um Seðlabanka Íslands. Því verður bankaráðið hreinlega að segja af sér ef kjósa á nýtt.

Það eru ekki margir leikir í stöðunni, þessir þó helstir verið nefndir:

1) einn karl segi af sér og þingið kjósi konu í hans stað. Þetta er ekki talið hafa á sér nægilega góðan brag, hvorki fyrir ráðið né konuna sem kæmi í karls stað.

2) bankaráð segi allt af sér og verði kosið að nýju, óbreytt nema kona komi inn fyrir einhvern karl. Þetta lúkkar heldur ekki vel sbr. hér að ofan auk þess sem það yrði öðrum bankaráðsmönnum og þinginu til lítils sóma. Þar fyrir utan er ólíklegt að allir bankaráðsmenn séu til í þennan díl. Því er m.a. haldið fram að eini landsbyggðarmaðurinn í bankaráði sé ekki á þeim buxunum að segja af sér til að kona verði kosin í hans stað auk þess sem það yrði einnig til þess að Frosti Sigurjónsson héldi sínu sæti og væri þá nánast bankaráðsmaður í boði Vinstri grænna.

3) samkvæmt lögum um Seðlabankann skal kjósa nýtt bankaráð að loknum kosningum og það sitji þar til nýtt ráð verði kosið, þ.e. að loknum næstu kosningum.

Vænlegasta leiðin til að redda málinu er því að boða til þingskosninga og kjósa svo aftur í bankaráð líkt og kveðið er á um í lögunum.

Síðastnefndi möguleikinn er alls ekki sá ólíklegasti í stöðunni miðað við stemninguna í stjórnarliðinu!

Ertu með athyglisverða ábendingu?
Sendu okkur póst á ordid@eyjan.is - fyllsta trúnaðar gætt.
Þriðjudagur 25.4.2017 - 15:38 - Ummæli ()

Yfirlögregluþjónn í stjórn RÚV

Orðið á götunni er að innanflokksátökin í Framsóknarflokknum haldi áfram, nú síðast með kosningu Alþingis í dag á nýrri stjórn Ríkisútvarpsins ohf.

Guðlaugur Sverrisson, sem verið hefur formaður stjórnar undanfarin ár, var ekki endurkjörinn en í hans stað kemur yfirlögregluþjónninn á Sauðárkróki, Stefán Vagn Stefánsson (Guðmundssonar fv. alþingismanns) sem fulltrúi Framsóknarflokksins.

Stefán Vagn er vinsæll mjög í héraði og öflugur maður. Hann leysir af hólmi Guðlaug, sem hefur verið í svonefndum Sigmundararmi Framsóknarflokksins, en Stefán Vagn beitti sér mjög fyrir formannsskiptum  í aðdraganda síðasta flokksþing flokksins sem endaði með því að Sigurður Ingi Jóhannsson bar sigur úr býtum í formannskjöri.

Aðalmenn voru kosnir í stjórn Ríkisútvarpsins ohf til eins árs í dag eru annars þau: Ragnheiður Ríkharðsdóttir fv alþingismaður, Brynjólfur Stefánsson, Jón Jónsson, Kristín María Birgisdóttir, Friðrik Rafnsson, Jón Ólafsson, Lára Hanna Einarsdóttir, Stefán Vagn Stefánsson og Mörður Árnason.

Ertu með athyglisverða ábendingu?
Sendu okkur póst á ordid@eyjan.is - fyllsta trúnaðar gætt.
Sunnudagur 23.4.2017 - 12:44 - Ummæli ()

Raðast í bankaráð

Orðið á götunni er að nokkur slagur sé innan stjórnarflokkanna um formennsku í bankaráði Seðlabankans, sem kosið verður fljótlega. Forsætisráðuneytið hefur meira um Seðlabankann að segja en fjármálaráðuneytinu þykir skemmtilegt og auðveldar það ekki lausn mála.

Inn í þetta blandast hefðbundnar hrókeringar innan stjórnmálaflokkanna, sem gerir dæmið enn flóknara. Þannig vill Sigurður Ingi Jóhannsson, nýr formaður Framsóknarflokksins, skipta út lögmanninum Ingibjörgu Ingvadóttur fyrir þingmanninn fyrrverandi Frosta Sigurjónsson.

Björn Valur Gíslason, varaformaður Vinstri grænna, verður áfram fulltrúi flokksins í bankaráðinu, enda í sterkri stöðu innan flokksins, og Bjarni Benediktsson forsætisráðherra er sagður leggja áherslu á að Þórunn Guðmundsdóttir gegni áfram formennsku í ráðinu.

Þór Saari var orðaður við setu í bankaráðinu fyrir hönd Pírata, en babb er komið í bátinn þar sem hann hefur skráð sig sem stofnfélaga í Sósílistaflokk Gunnars Smára Egilssonar.

Auður Hermannsdóttir verður að líkindum áfram fulltrúi Bjartrar framtíðar og þá er eftir spursmálið hvort Ragnar Árnason verður áfram hinn fulltrúi Sjálfstæðisflokksins.

Hver tekur sæti Viðreisnar liggur ekki enn fyrir, en þar á bæ hafa menn sagt skýrt að þeir vilji formennsku í bankaráðinu eða tvo fulltrúa. Slíkar kröfur vekja eftirtekt hjá flokki sem er við það að hverfa í skoðanakönnunum.

Ertu með athyglisverða ábendingu?
Sendu okkur póst á ordid@eyjan.is - fyllsta trúnaðar gætt.
Þriðjudagur 18.4.2017 - 12:32 - Ummæli ()

Flokkur í krísu

Oddný Harðardóttir, formaður Samfylkingarinnar.

Orðið á götunni er að tilvistarvandi Samfylkingarinnar sé flestum kunnur, enda hefur flokkurinn beðið afhroð tvennar kosningar í röð og þurrkaðist út á Suðvesturhorninu sl. haust — fékk engan þingmann kjörinn í Kraganum eða höfuðborginni.

Ýmsir innan flokks og utan hafa komið með skýringar á fylgisleysi Samfylkingarinnar, staðnæmast þar margir við eilíf innanhússátök. Aðrir segja að flokkurinn hafi færst allt of langt til vinstri. Stærstur hluti kjósenda sé á miðjunni.

Það varð líklega til að staðfesta endanlega þessa kenningu, að Oddný Harðardóttir, fv. formaður Samfylkingarinnar, biðlaði fyrir páska til Gunnars Smára Egilssonar og Mikaels Torfasonar um að stofna ekki Sósíalistaflokk Íslands, enn einn vinstri flokkinn. Þeir ættu frekar að finna kröftum sínum viðnám innan Samfylkingarinnar.

Orðrétt sagði Oddný:

Samfylkingin er með góða innviði út um allt land þar sem borin er uppi nákvæmlega sama stefna og þið boðið. Ekki skemmta skrattanum enn einu sinni með stofnun flokks á vinstrivængnum. Sameinuð erum við sterk en sundruð höfum við lítil áhrif og höfum ekki afl til að hreyfa við stóru málunum sem hugsjónir okkar brenna fyrir. Verum skynsöm, verum saman og göngum skipulögð til verka!

Það var og. Orðið á götunni er að margir óánægðir Samfylkingarinnar hafi orðið niðurlútir yfir þeim ummælum formannsins fyrrverandi, að stefna Samfylkingarinnar sé nákvæmlega sú sama og nýs Sósíalistaflokks. Þannig að Samfylkingin er sósíalistaflokkur? Kannski er þar komin skýring á hinu mikla fylgistapi flokksins. Hann hætti að verða breið regnhlíf á miðjunni og fór þess í stað í keppni við VG um að vera mesti vinstriflokkurinn á jaðrinum.

Það var svo til að kóróna niðurlæginguna, að Gunnar Smári svaraði Oddnýju strax og vildi ekkert með hana hafa:

Samfylkingin er mesta eyðingarafl vinstursins og varð völd að stórkostlegum skaða. Fólk á ekki að tala sameiningu fram yfir baráttuna, moðið í staðinn fyrir stefnuna og undanhaldið í staðinn fyrir sóknina. Auðvitað má fólk gera það, það fer þá bara í Samfylkinguna. En Sósíalistaflokkurinn verður fyrir hitt fólkið.

Og meðan þá öllu þessu stóð heyrðist ekki bofs í formanni Samfylkingarinnar, Loga Einarssyni.

Ertu með athyglisverða ábendingu?
Sendu okkur póst á ordid@eyjan.is - fyllsta trúnaðar gætt.
Þriðjudagur 14.3.2017 - 17:23 - Ummæli ()

Titringur í verkalýðshreyfingunni

Ragnar Þór Ingólfsson.

Orðið á götunni er að verkalýðshreyfingin leiki á reiðiskjálfi eftir tíðindi dagsins þar sem Ragnar Þór Ingólfsson bar sigur úr býtum í kosningu til formanns Verslunarmannafélags Reykjavíkur.

Sitjandi formaður, Ólafía B. Rafnsdóttir, beið afgerandi ósigur og segir nýr formaður í fjölmiðlum fram­boð sitt hafa verið van­trausts­yf­ir­lýs­ingu á for­ystu ASÍ. Ekki ríki  traust í sam­fé­lag­inu til að byggja upp nor­rænt salek-samn­inga­mód­el á vinnu­markaði og hann muni leggjast gegn slíkri vinnu.

Alls hlaut Ragnar Þór 63% greiddra at­kvæða, en sam­tals voru greidd 5.706 at­kvæði af 33.383 sem eru á kjör­skrá. Verður kosningaþátttakan að teljast ótrúlega lítil í svo stóru og öflugu stéttarfélagi.

Orðið á götunni er að nýr formaður VR skeri upp herör gegn öllu því kerfi sem er á bak við verkalýðshreyfinguna og lífeyrissjóðina hér á landi. Svo dæmi sé tekið vill hann banna verðtryggingu, nokkuð sem verkalýðsforkólfar hafa hingað til ekki viljað heyra á minnst. Já, eða allir nema Vilhjálmur Birgisson á Akranesi.

Þá vekur ekki síður athygli að hann vill nota iðgjöld lífeyrissjóðsfélaga í margskonar sam­fé­lags­lega upp­bygg­ingu, „í stað þess að þurfa að græða á öllu og vera í miklu áhættu­braski,“ eins og hann orðar það í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins.

VR er stærsta verkalýðsfélag landsins. Það hefur mikil áhrif um allt samfélagið, innan ASÍ og gegnum lífeyrissjóði. Orðið á götunni er að nú þegar Ragnar Þór og félagar hafa tekið yfir VR sé komið að ASÍ. Þar er fyrir forsetinn Gylfi Arnbjörnsson og sá er efstur á lista byltingarsinna yfir þá sem þarf að velta úr sessi.

Ballið er því rétt að byrja.

Ertu með athyglisverða ábendingu?
Sendu okkur póst á ordid@eyjan.is - fyllsta trúnaðar gætt.
Föstudagur 3.3.2017 - 08:42 - Ummæli ()

Fer Gunnar í borgina?

Gunnar bæjarstjóri Einarsson.

Orðið á götunni er að sjálfstæðismenn í Reykjavík séu farnir að setja sig í stellingar fyrir komandi borgarstjórnarkosningar. Núverandi minnihluti Sjálfstæðisflokks og framsóknar og flugvallarvina hefur ekki náð vopnum sínum í stjórnarandstöðu gegn fjögurra flokka meirihluta Dags B. Eggertssonar og félaga og hafa áhrifamenn í Valhöll miklar áhyggjur af því að Dagur geti setið áhyggjulaus á friðarstóli út þetta kjörtímabil og jafnvel það næsta, ef spilin verða ekki stokkuð hressilega og gefið upp á nýtt.

Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, varð oddviti sjálfstæðismanna fyrir síðustu kosningar og hefur leitt minnihlutann á kjörtímabili. Halldór nýtur virðingar og þykir vandaður maður, en vandséð er að hann sé sá baráttumaður sem þarf til að hefja Sjálfstæðisflokkinn til fyrri metorða í borgarpólitíkinni.

Orðið á götunni er að sífellt fleiri sjálfstæðismenn í borginni staðnæmist við nafn Gunnars Einarssonar bæjarstjóra í Garðabæ þegar talið berst að mögulegum kandídat til að leiða lista flokksins fyrir næstu kosningar. Gunnar hefur verið einkar vinsæll bæjarstjóri og farsæll, hann ber með sér sjálfstraust bæjarstjórnarmanns úr Sjálfstæðisflokknum sem sættir sig ekki við annað en hreinan meirihluta og þekkir sveitarstjórnarpólitíkina á höfuðborgarsvæðinu eins og lófann á sér.

Gunnar er hámenntaður, með doktorsgráðu í stjórnun frá Háskólanum í Reading í Englandi. Hann var atvinnumaður í handknattleik og leikmaður og þjálfari meistaraflokks karla hjá Stjörnunni í Garðabæ og hefur kennt stjórnun við Kennaraháskóla Íslands og Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands.

Líklegt þykir að þrýstingur muni aukast á Gunnar á næstu mánuðum og misserum að gefa kost á sér í þetta hlutverk, sem verður að teljast eitt það mikilvægasta í flokksstarfi Sjálfstæðisflokksins. Ljóst er að Garðbæingar verða lítt hrifnir, en margir í Valhöll telja að horfa verði til meiri hagsmuna en minni í þessum efnum. Sjálfstæðisflokkurinn hafi einfaldlega ekki efni á vondri úrkomu í næstu kosningum í höfuðborginni. Málið sé ekki flóknara en það.

Ertu með athyglisverða ábendingu?
Sendu okkur póst á ordid@eyjan.is - fyllsta trúnaðar gætt.

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is