Þriðjudagur 25.4.2017 - 15:38 - Ummæli ()

Yfirlögregluþjónn í stjórn RÚV

Orðið á götunni er að innanflokksátökin í Framsóknarflokknum haldi áfram, nú síðast með kosningu Alþingis í dag á nýrri stjórn Ríkisútvarpsins ohf.

Guðlaugur Sverrisson, sem verið hefur formaður stjórnar undanfarin ár, var ekki endurkjörinn en í hans stað kemur yfirlögregluþjónninn á Sauðárkróki, Stefán Vagn Stefánsson (Guðmundssonar fv. alþingismanns) sem fulltrúi Framsóknarflokksins.

Stefán Vagn er vinsæll mjög í héraði og öflugur maður. Hann leysir af hólmi Guðlaug, sem hefur verið í svonefndum Sigmundararmi Framsóknarflokksins, en Stefán Vagn beitti sér mjög fyrir formannsskiptum  í aðdraganda síðasta flokksþing flokksins sem endaði með því að Sigurður Ingi Jóhannsson bar sigur úr býtum í formannskjöri.

Aðalmenn voru kosnir í stjórn Ríkisútvarpsins ohf til eins árs í dag eru annars þau: Ragnheiður Ríkharðsdóttir fv alþingismaður, Brynjólfur Stefánsson, Jón Jónsson, Kristín María Birgisdóttir, Friðrik Rafnsson, Jón Ólafsson, Lára Hanna Einarsdóttir, Stefán Vagn Stefánsson og Mörður Árnason.

Ertu með athyglisverða ábendingu?
Sendu okkur póst á ordid@eyjan.is - fyllsta trúnaðar gætt.
Sunnudagur 23.4.2017 - 12:44 - Ummæli ()

Raðast í bankaráð

Orðið á götunni er að nokkur slagur sé innan stjórnarflokkanna um formennsku í bankaráði Seðlabankans, sem kosið verður fljótlega. Forsætisráðuneytið hefur meira um Seðlabankann að segja en fjármálaráðuneytinu þykir skemmtilegt og auðveldar það ekki lausn mála.

Inn í þetta blandast hefðbundnar hrókeringar innan stjórnmálaflokkanna, sem gerir dæmið enn flóknara. Þannig vill Sigurður Ingi Jóhannsson, nýr formaður Framsóknarflokksins, skipta út lögmanninum Ingibjörgu Ingvadóttur fyrir þingmanninn fyrrverandi Frosta Sigurjónsson.

Björn Valur Gíslason, varaformaður Vinstri grænna, verður áfram fulltrúi flokksins í bankaráðinu, enda í sterkri stöðu innan flokksins, og Bjarni Benediktsson forsætisráðherra er sagður leggja áherslu á að Þórunn Guðmundsdóttir gegni áfram formennsku í ráðinu.

Þór Saari var orðaður við setu í bankaráðinu fyrir hönd Pírata, en babb er komið í bátinn þar sem hann hefur skráð sig sem stofnfélaga í Sósílistaflokk Gunnars Smára Egilssonar.

Auður Hermannsdóttir verður að líkindum áfram fulltrúi Bjartrar framtíðar og þá er eftir spursmálið hvort Ragnar Árnason verður áfram hinn fulltrúi Sjálfstæðisflokksins.

Hver tekur sæti Viðreisnar liggur ekki enn fyrir, en þar á bæ hafa menn sagt skýrt að þeir vilji formennsku í bankaráðinu eða tvo fulltrúa. Slíkar kröfur vekja eftirtekt hjá flokki sem er við það að hverfa í skoðanakönnunum.

Ertu með athyglisverða ábendingu?
Sendu okkur póst á ordid@eyjan.is - fyllsta trúnaðar gætt.
Þriðjudagur 18.4.2017 - 12:32 - Ummæli ()

Flokkur í krísu

Oddný Harðardóttir, formaður Samfylkingarinnar.

Orðið á götunni er að tilvistarvandi Samfylkingarinnar sé flestum kunnur, enda hefur flokkurinn beðið afhroð tvennar kosningar í röð og þurrkaðist út á Suðvesturhorninu sl. haust — fékk engan þingmann kjörinn í Kraganum eða höfuðborginni.

Ýmsir innan flokks og utan hafa komið með skýringar á fylgisleysi Samfylkingarinnar, staðnæmast þar margir við eilíf innanhússátök. Aðrir segja að flokkurinn hafi færst allt of langt til vinstri. Stærstur hluti kjósenda sé á miðjunni.

Það varð líklega til að staðfesta endanlega þessa kenningu, að Oddný Harðardóttir, fv. formaður Samfylkingarinnar, biðlaði fyrir páska til Gunnars Smára Egilssonar og Mikaels Torfasonar um að stofna ekki Sósíalistaflokk Íslands, enn einn vinstri flokkinn. Þeir ættu frekar að finna kröftum sínum viðnám innan Samfylkingarinnar.

Orðrétt sagði Oddný:

Samfylkingin er með góða innviði út um allt land þar sem borin er uppi nákvæmlega sama stefna og þið boðið. Ekki skemmta skrattanum enn einu sinni með stofnun flokks á vinstrivængnum. Sameinuð erum við sterk en sundruð höfum við lítil áhrif og höfum ekki afl til að hreyfa við stóru málunum sem hugsjónir okkar brenna fyrir. Verum skynsöm, verum saman og göngum skipulögð til verka!

Það var og. Orðið á götunni er að margir óánægðir Samfylkingarinnar hafi orðið niðurlútir yfir þeim ummælum formannsins fyrrverandi, að stefna Samfylkingarinnar sé nákvæmlega sú sama og nýs Sósíalistaflokks. Þannig að Samfylkingin er sósíalistaflokkur? Kannski er þar komin skýring á hinu mikla fylgistapi flokksins. Hann hætti að verða breið regnhlíf á miðjunni og fór þess í stað í keppni við VG um að vera mesti vinstriflokkurinn á jaðrinum.

Það var svo til að kóróna niðurlæginguna, að Gunnar Smári svaraði Oddnýju strax og vildi ekkert með hana hafa:

Samfylkingin er mesta eyðingarafl vinstursins og varð völd að stórkostlegum skaða. Fólk á ekki að tala sameiningu fram yfir baráttuna, moðið í staðinn fyrir stefnuna og undanhaldið í staðinn fyrir sóknina. Auðvitað má fólk gera það, það fer þá bara í Samfylkinguna. En Sósíalistaflokkurinn verður fyrir hitt fólkið.

Og meðan þá öllu þessu stóð heyrðist ekki bofs í formanni Samfylkingarinnar, Loga Einarssyni.

Ertu með athyglisverða ábendingu?
Sendu okkur póst á ordid@eyjan.is - fyllsta trúnaðar gætt.
Þriðjudagur 14.3.2017 - 17:23 - Ummæli ()

Titringur í verkalýðshreyfingunni

Ragnar Þór Ingólfsson.

Orðið á götunni er að verkalýðshreyfingin leiki á reiðiskjálfi eftir tíðindi dagsins þar sem Ragnar Þór Ingólfsson bar sigur úr býtum í kosningu til formanns Verslunarmannafélags Reykjavíkur.

Sitjandi formaður, Ólafía B. Rafnsdóttir, beið afgerandi ósigur og segir nýr formaður í fjölmiðlum fram­boð sitt hafa verið van­trausts­yf­ir­lýs­ingu á for­ystu ASÍ. Ekki ríki  traust í sam­fé­lag­inu til að byggja upp nor­rænt salek-samn­inga­mód­el á vinnu­markaði og hann muni leggjast gegn slíkri vinnu.

Alls hlaut Ragnar Þór 63% greiddra at­kvæða, en sam­tals voru greidd 5.706 at­kvæði af 33.383 sem eru á kjör­skrá. Verður kosningaþátttakan að teljast ótrúlega lítil í svo stóru og öflugu stéttarfélagi.

Orðið á götunni er að nýr formaður VR skeri upp herör gegn öllu því kerfi sem er á bak við verkalýðshreyfinguna og lífeyrissjóðina hér á landi. Svo dæmi sé tekið vill hann banna verðtryggingu, nokkuð sem verkalýðsforkólfar hafa hingað til ekki viljað heyra á minnst. Já, eða allir nema Vilhjálmur Birgisson á Akranesi.

Þá vekur ekki síður athygli að hann vill nota iðgjöld lífeyrissjóðsfélaga í margskonar sam­fé­lags­lega upp­bygg­ingu, „í stað þess að þurfa að græða á öllu og vera í miklu áhættu­braski,“ eins og hann orðar það í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins.

VR er stærsta verkalýðsfélag landsins. Það hefur mikil áhrif um allt samfélagið, innan ASÍ og gegnum lífeyrissjóði. Orðið á götunni er að nú þegar Ragnar Þór og félagar hafa tekið yfir VR sé komið að ASÍ. Þar er fyrir forsetinn Gylfi Arnbjörnsson og sá er efstur á lista byltingarsinna yfir þá sem þarf að velta úr sessi.

Ballið er því rétt að byrja.

Ertu með athyglisverða ábendingu?
Sendu okkur póst á ordid@eyjan.is - fyllsta trúnaðar gætt.
Föstudagur 3.3.2017 - 08:42 - Ummæli ()

Fer Gunnar í borgina?

Gunnar bæjarstjóri Einarsson.

Orðið á götunni er að sjálfstæðismenn í Reykjavík séu farnir að setja sig í stellingar fyrir komandi borgarstjórnarkosningar. Núverandi minnihluti Sjálfstæðisflokks og framsóknar og flugvallarvina hefur ekki náð vopnum sínum í stjórnarandstöðu gegn fjögurra flokka meirihluta Dags B. Eggertssonar og félaga og hafa áhrifamenn í Valhöll miklar áhyggjur af því að Dagur geti setið áhyggjulaus á friðarstóli út þetta kjörtímabil og jafnvel það næsta, ef spilin verða ekki stokkuð hressilega og gefið upp á nýtt.

Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, varð oddviti sjálfstæðismanna fyrir síðustu kosningar og hefur leitt minnihlutann á kjörtímabili. Halldór nýtur virðingar og þykir vandaður maður, en vandséð er að hann sé sá baráttumaður sem þarf til að hefja Sjálfstæðisflokkinn til fyrri metorða í borgarpólitíkinni.

Orðið á götunni er að sífellt fleiri sjálfstæðismenn í borginni staðnæmist við nafn Gunnars Einarssonar bæjarstjóra í Garðabæ þegar talið berst að mögulegum kandídat til að leiða lista flokksins fyrir næstu kosningar. Gunnar hefur verið einkar vinsæll bæjarstjóri og farsæll, hann ber með sér sjálfstraust bæjarstjórnarmanns úr Sjálfstæðisflokknum sem sættir sig ekki við annað en hreinan meirihluta og þekkir sveitarstjórnarpólitíkina á höfuðborgarsvæðinu eins og lófann á sér.

Gunnar er hámenntaður, með doktorsgráðu í stjórnun frá Háskólanum í Reading í Englandi. Hann var atvinnumaður í handknattleik og leikmaður og þjálfari meistaraflokks karla hjá Stjörnunni í Garðabæ og hefur kennt stjórnun við Kennaraháskóla Íslands og Endurmenntunarstofnun Háskóla Íslands.

Líklegt þykir að þrýstingur muni aukast á Gunnar á næstu mánuðum og misserum að gefa kost á sér í þetta hlutverk, sem verður að teljast eitt það mikilvægasta í flokksstarfi Sjálfstæðisflokksins. Ljóst er að Garðbæingar verða lítt hrifnir, en margir í Valhöll telja að horfa verði til meiri hagsmuna en minni í þessum efnum. Sjálfstæðisflokkurinn hafi einfaldlega ekki efni á vondri úrkomu í næstu kosningum í höfuðborginni. Málið sé ekki flóknara en það.

Ertu með athyglisverða ábendingu?
Sendu okkur póst á ordid@eyjan.is - fyllsta trúnaðar gætt.
Miðvikudagur 1.3.2017 - 12:59 - Ummæli ()

Stefnubreyting nýs ráðherra

Benedikt Jóhannesson.

Orðið á götunni er að mörgum hafi bruðið í brún þegar fréttir birtust um viðræður erlendis milli fulltrúa íslenskra stjórnvalda og nokkurra vogunarsjóða. Eftir mörg ár hafta bíða landsmenn þess óþreyjufullir að losna við höftin. Þau skerða lífsgæði til lengri tíma litið og draga úr tækifærum.

Vel tókst að leysa úr málum slitabúa og aflandskróna án þess að stefna stöðugleika í voða. Það var síður en svo sjálfsögð niðurstaða.

Stjórnvöld hafa fylgt áætlun sem kynnt var til sögunnar í júní 2015. Sú áætlun hefur skapað trúverðugleika og skila árangri. Til marks um trúverðugleikann hafa öll matsfyrirtækin hækkað lánshæfi Íslands og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur fjallað á jákvæðan hátt um árangurinn í skýrslum sínum. Jafnvel hefur verið talað um íslensku leiðina í þessu samhengi.

Auglýsing frá Áfram-hópnum í miðri Icesave-deilunni.

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri hjá Kviku og fyrrum formaður framkvæmdahóps stjórnvalda um losun fjármagnshafta skrifaði grein sem birtist í Fréttablaðinu í gær.

„Stjórnvöld hafa nú gefið í skyn að hleypa ætti aflandskrónueigendum með eignir sínar úr landi á þessu ári, þvert á þær áætlanir sem hafa skapað trúverðugleika fyrir land og þjóð. Með slíkri stefnubreytingu væru hagsmunir kröfuhafa teknir fram fyrir hagsmuni landsmanna. Hið gagnstæða á ávallt að vera í forgrunni enda er það frumskylda stjórnvalda að standa vörð um hagsmuni Íslands,“ sagði Sigurður í grein sinni.

Sigurður Hannesson.

Nú eru hins vegar vísbendingar um að hverfa eigi frá áætluninni og forgangsraða í þágu kröfuhafa.

Stjórnvöld hafa sent fulltrúa sína til fundar við vogunarsjóðina sem eiga samanlagt vel á annað hundrað milljarða í aflandskrónum og neituðu að taka þátt í gjaldeyrisútboði Seðlabankans árið 2016. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í morgun.

Orðið á götunni er að stefnubreyting Benedikts Jóhannessonar, fjármála- og efnahagsráðherra komi ekki á óvart. Benedikt var virkur meðlimur Áfram hópsins svokallaða sem hvatti til þess að Icesave samningurinn yrði samþykktur í þjóðaratkvæðagreiðslu árið 2011. Hann taldi ekki rétt að reyna á lögmæti Iesave-málsins, slíkt gæti orðið skaðlegt landi og þjóð og miklu betra væri að semja, þótt það gæti þýtt skuldaklafa fyrir komandi kynslóðir.

Benedikt hafði ekki mikið álit á þeim sem vildu reyna á dómstólaleiðina.  Í samtali við fréttastofu Stöðvar 2, sagði hann hinn 24. mars 2011:

„Þeir sem vilja láta reyna á þessa svonefndu dómstólaleið þeir hugsa alveg eins og útrásarvíkingarnir, við getum ekki tapað. Þess vegna var áhættan alltaf aukin meira og meira og á endanum var það þannig að við töpuðum svo miklu að þjóðfélagið hrundi.“

Sá sem mælti þessi orð er orðinn fjármálaráðherra í dag. Í þessu ljósi þarf stefnubreyting stjórnvalda því ef til vill ekki að koma á óvart.

Ertu með athyglisverða ábendingu?
Sendu okkur póst á ordid@eyjan.is - fyllsta trúnaðar gætt.
Mánudagur 27.2.2017 - 17:03 - Ummæli ()

Úlfar næsti stjórnarformaður

Úlfar Steindórsson í Toyota.

Orðið á götunni er að Úlfar Steindórsson, aðaleigandi og forstjóri Toyota á Íslandi, verði að líkindum næsti stjórnarformaður Icelandair Group, en aðalfundur félagsins verður haldinn á næstunni.

Blásið hefur um félagið á markaði að undanförnu og Sigurður Helgason tilkynnti í dag að hann sækist ekki eftir endurkjöri í stjórn. Sigurður hefur verið formaður stjórnar Icelandair frá árinu 2009, en var auðvitað forstjóri félagsins um langt árabil.

Í tilkynningu til Kauphallarinnar í gær kom fram að sex gefi kost á sér til setu í stjórn Icelandair. Auk Sigurðar ákvað Magnús Magnússon að gefa ekki áfram kost á sér.

Þau eru Ásthildur Margrét Otharsdóttir, Georg Lúðvíksson, Katrín Olga Jóhannesdóttir, Ómar Benediktsson, Tómas A. Tómasson og Úlfar Steindórsson.

Af þessum sex nöfnum eru möguleikar Tómasar (Tomma í Búllunni, áður Tommaborgurum) taldir langsóttastir. Georg, frumkvöðull í Meniga, nýtur stuðnings Stefnis og lífeyrissjóða og ýmsir hluthafar hafa teflt fram Ómari með sína reynslu af flugrekstri til að taka til hendinni. Lífeyrissjóður verslunarmanna leggur áherslu á að Úlfar verði stjórnarformaður og verður að teljast líklegt að það gangi eftir. Hann er núverandi varaformaður og hefur mikla reynslu af stjórnarstörfum, auk þess sem hann á sæti í stjórn Lífeyrissjóðs verslunarmanna.

 

Ertu með athyglisverða ábendingu?
Sendu okkur póst á ordid@eyjan.is - fyllsta trúnaðar gætt.
Sunnudagur 19.2.2017 - 21:46 - Ummæli ()

„Ótrúleg atburðarás“

Orðið á götunni er að margir í hópi sjómanna og samningamanna þeirra kunni Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur litlar þakkir fyrir framgöngu hennar undanfarna daga. Sagt er að ráðherrann hafi veifað frumvarpi að lögum á verkfallið fyrir framan samninganefndir sjómanna og útgerðarmanna og þannig neytt menn til samninga.

Verkalýðsfrömuðurinn Vilhjálmur Birgisson á Akranesi var í samninganefnd sjómanna og hann er ómyrkur í máli á fésbókinni í kvöld:

„Á virkilega góðum og fjölmennum kynningarfundi um kjarasamningum í gær með sjómönnum sem tilheyra Verkalýðsfélagi Akraness var farið ítarlega yfir innihald samningsins og ótrúlega framkomu sjávarútvegsráðherra í garð íslenskra sjómanna.

Ég ætla í þessari færslu ekki að fara yfir efnisatriði samningsins enda hef ég þegar gert það með mínum sjómönnum. Hins vegar ætla ég að upplýsa um þá ótrúlegu atburðarás sem átti sér stað vegna aðkomu sjávarútvegsráðherra að þessari deilu.

Eins og margoft hefur komið fram þá óskuðu sjómenn eftir því við stjórnvöld að dagpeningar sjómanna vegna fæðiskostnaðar yrðu meðhöndlaðir í skattlegu tilliti eins og hjá öðru launafólki sem þarf starfs síns vegna að starfa fjarri sínu heimili. Sjómenn voru búnir að semja við útvegsmenn um 2.350 kr. í dagpeninga til greiðslu á fæðiskostnaði og eina atriðið sem stóð eftir var vilyrði frá stjórnvöldum um að sjómenn yrðu meðhöndlaðir eins og annað launafólk hvað það varðar. Þetta höfðu stjórnvöld vitað í marga daga og það var komin pólitískur þrýstingur á þetta réttlætismál og til dæmis hafa þau Páll Magnússon, formaður Atvinnumálanefndar Alþingis, og Lilja Alfreðsdóttir, fyrrverandi utanríkisráðherra, tekið undir þessi sjónarmið sjómanna.

Hins vegar hefur sjávarútvegsráðherra sagt skýrt í fréttum slag í slag að slíkt kæmi ekki til greina enda væri þá um sértæka aðgerð að ræða. Þetta telja sjómenn vera rangt, enda alþekkt bæði á opinberum og almennum vinnumarkaði að dagpeningar vegna fæðiskostnaðar séu undanþegnir skatti. Enda áttu sjómenn að greiða fyrir fæðið sitt að fullu sjálfir.

Eins og áður sagði hafði myndast gríðarlegur pólitískur þrýstingur um að stjórnvöld myndu taka á þessu sanngirnismáli sjómanna, enda var kjarasamningur milli deiluaðila tilbúinn að öðru leyti og klár til undirritunar.

Á föstudagskvöld kemur tilkynning frá sjávarútvegsráðuneytinu að verið sé að vinna að sáttatillögu til lausnar á þessu máli. Klukkan 21:30 á föstudagskvöld eru fulltrúar sjómanna kallaðir í hús sjávarútvegsráðuneytisins þar sem þeim er kynnt svokölluð sáttatillaga og innihald hennar. Í þessari sáttatillögu kom fram að um almenna aðgerð væri að ræða sem væri fólgin í því að allir sem störfuðu fjarri sínu heimili ættu rétt á frádrætti á fæðishlunnindum uppá 1.327 kr. á dag. Það þýddi að ávinningur sjómanna myndi vera um 610 kr. á lögskráningardag. En inní þessari svokölluðu sáttatillögu var einnig kveðið á um að allir sem eru skemmur en 48 tíma frá heimili sínu áttu ekki rétt á þessari fæðishlunnindagreiðslu. Með öðrum orðum, tillagan gekk útá að við í sjómannaforystunni áttum að skilja um 40% okkar félaga eftir án þess að þeir ættu neinn rétt. Engin greiðsla átti að ná til þeirra.

Á þessum fundi með hluta af sjómannaforystunni var þeim einnig tilkynnt að búið væri að gera klár lög á deiluna en ráðherrann sagði „þetta er ekki hótun“! Jafnframt sagði hún að sjómannaforystan hefði til miðnættis að svara þessu sáttatilboði, því ef tilboðinu yrði ekki tekið og deilan myndi ekki leysast þá þyrfti hún að hringja í forseta Alþings til að kalla Alþingi saman og setja lög á sjómenn!

Já, sjávarútvegsráðherra stillti sjómönnum upp gegn hver öðrum með því að segja: ef þið samþykkið ekki þetta sáttatilboð, tilboð sem náði ekki til 40% sjómanna þá verður hringt í forseta Alþingis á miðnætti til að setja af stað lagasetningu á sjómenn!

Hugsið ykkur í hvaða viðbjóðslegu stöðu ráðherrann setti samninganefnd sjómanna, svíkið 40% af ykkar sjómönnum eða þið fáið lög á deiluna. Fulltrúar sjómanna óskuðu eftir því við sjávarútvegsráðherrann að þessi 48 tíma fjarveruregla færi út og að þetta myndi ná til allra sjómanna, en því var snarlega hafnað af ráðherranum!

Nei Þorgerður Katrín, íslenskir sjómenn standa saman og þeir láta ekki pólitískan valdhroka reka fleyg í raðir sínar. Á þessari forsendu ákvað samninganefnd sjómanna að hafna þessu ógeðfellda sáttatilboði þar sem ætlast var til þess að 40% sjómanna yrði skildir eftir á köldum klaka vegna þess að þeir uppfylla ekki 48 tíma fjarverureglu frá heimili, reglu sem ráðherrann ákvað einhliða og hugsanlega án aðkomu þingflokka ríkisstjórnarinnar.

Það voru þung skref fyrir mig sem forystumann í stéttarfélagi að þurfa að tilkynna mínum félagsmönnum á kynningarfundinum í gær að ég hafi hafnað 18.300 kr. á mánuði í frádrátt á fæðishlunnindaskatti vegna þess að það var ætlast til þess að við myndum svíkja 40% af íslenskum sjómönnum sem ekki ná þessari 48 tíma fjarveru frá heimili sínu.

Ég skal fúslega viðurkenna að ég varð hálf klökkur yfir viðbrögðum minna félagsmanna sem tilheyra sjómannadeild Verkalýðsfélags Akraness þegar ég fór yfir þetta með þeim á fundinum í gær. Allir sjómenn í VLFA hefðu fengið þennan frádrátt á fæðishlunnindunum og ég bað þá með auðmýkt að fyrirgefa mér en ég vil og vildi ekki svíkja 40% af sjómönnum þrátt fyrir að mínir félagsmenn hefðu fengið sitt í þessu máli.

Sjómenn eru hetjur og standa saman á ögurstundum, enda kom fram á fundinum „þér er svo sannarlega fyrirgefið“, enda stöndum allir saman eða eins og einn fundarmaður sagði „einn fyrir alla, allir fyrir einn“.

Þetta er sagan af samskiptum stjórnvalda við sjómenn í þessari deilu og menn verða að fyrirgefa mér að mér finnst þessi pólitíski skollaleikur sem þarna var ástundaður ekki boðlegur í ljósi þess að gríðarlegir hagsmunir eru hér í húfi fyrir þjóðina alla. Ég hef upplýst þó nokkra þingmenn um þessa atburðarás, m.a. Pál Magnússon formann atvinnumálanefndar Alþingis með von um að svona vinnubrögð verði ekki ástunduð framar í stjórnsýslunni og líka í þeirri von að þetta réttlætismál nái fram að ganga og íslenskir sjómenn njóti sömu réttinda þegar kemur að dagpeningum vegna fæðiskostnaðar og aðrar starfsstéttir.“

Svo mörg voru þau orð.

Ertu með athyglisverða ábendingu?
Sendu okkur póst á ordid@eyjan.is - fyllsta trúnaðar gætt.
Sunnudagur 19.2.2017 - 09:18 - Ummæli ()

Hvað gera nú sjómenn?

Orðið á götunni er að þótt samkomulag hafi náðst í deilu sjómanna og útvegsmanna fari því fjarri að málið hafi endanlega verið til lykta leitt. Eftir er að sjá úrslit úr atkvæðagreiðslu sjómanna og að fenginni reynslu er betra að fagna ekki um of fyrirfram.

Kostirnir í stöðunni eru tveir:

A.    Sjómenn samþykkja samninga í atkvæðagreiðslu, verkfallinu lýkur í kvöld og flotinn fer á sjó. Reynt verður að bjarga loðnuvertíðinni fyrir horn og veiða íslenska kvótann. Lítill tími er til stefnu en gríðarmikið í húfi.

B.    Sjómenn fella samninginn. Ef þeir gera það þá verður  það mikill áfellisdómur fyrir sjómannaforystuna sem verður gerð afturreka með kjarasamning þriðja sinni af sínum eigin mönnum. Þar mun væntanlega koma til uppgjörs og forystumenn geta ekki farið að kemba hærurnar í stólum sínum.

Með því að fella samninginn skilja sjómenn einnig pólitíska sprengju eftir í fangi ríkissjórnar sem mörgum þeirra þykir hafa sýnt kjaramálum sjómannastéttarinnar kaldlyndi og afar lítinn áhuga. Ýmsir stjórnarþingmenn hafi sjálfir gagnrýnt framgöngu sjávarútvegsráðherra, t.d. Brynjar Níelsson, Ásmundur Friðriksson og Páll Magnússon.

Það getur orðið mjög afdrifaríkt fyrir stjórnmálamennina og ríkisstjórnarliðana sérstaklega, og kennt þeim að sjómannastéttin er nokkuð sem menn ættu að forðast að fá upp á móti sér. Sjómenn sem margir hverjir virðast afar óánægðir með samninginn gætu hugsað sem svo að þarna komi vel á vonda. Betra sé að láta stjórnmálamennina setja lög á verkfallið og láta þá sitja þannig uppi með skömmina, heldur en að samþykkja vondan kjarasamning.

Hvað mun gerast ef samningarnir verða felldir? Orðið á götunni er að lagasetning verði þá ekki umflúin. Ríkisstjórnin leggur fram lög á verkfallið á Alþingi á mánudag. Lagasetningin verður væntanlega umdeilt hitamál í þingsalnum og stjórnarmeirihlutinn er afar naumur. Búast má við umræðum þar sem stjórnarandstaðan notar tækifæri til að koma höggi á stjórnina.

Sjávarútvegsráðherra og ríkisstjórnin hafa þegar sætt gagnrýni fyrir að hafa staðið sig slælega í kjaradeilunni . Stjórnin þykir hafa mætt illa undirbúin til leiks þegar kallað var eftir því að ríkið liðkaði til í samningum meðal annars með því að gera breytingar í skattamálum. Ráðherrar stjórnarinnar hafa reynt að spila á það kort að ríkisvaldið eigi ekki að blanda sér í kjaradeilur en myndu samt gera það hér með því að leggja fram frumvarp um lög á sjómenn í stað þess að deiluaðilar færu aftur að samingaborðinu.

Það hefur líka eflaust þegar hleypt illu blóði í marga að sjávarútvegsráðherra hefur sagt skýrt að hún sé með lögin tilbúin í ráðuneyti sínu. Þetta þýðir að gengið var til samninga undir hótunum um lög.

Búast má við því að krafist verði nafnakalls við atkvæðagreiðslu um lögin í þinginu. Þá mun koma skýrt fram hvernig einstakir þingmenn greiddu atkvæði í málinu.

Náist ekki meirihluti fyrir lögum í þinginu þá eru dagar ríkisstjórnar Bjarna Benediktssonar væntanlega taldir. Samþykki þingið hins vegar lög á sjómenn þá verður brunað með þau á Bessastaði til að láta forsetann undirrita svo þau taki gildi strax svo flotinn fari til veiða.

Sjötti forseti lýðveldisins hefur hingað til setið átakalaust á stóli forseta í rúma sex mánuði og fengið á sig yfirbragð „Guðna hins góða. “ Með lögum á kjaradeilu sjómanna og útvegsfyrirtækja mun Guðni Th. Jóhannesson þar með verða að gera upp hug sinn um það hvort hann sé reiðubúinn að skrifa undir lög á vinnandi menn sem hafa ítrekað fengið slíkan gjörning á sig, setið án kjarasamninga árum saman en eygja nú von til þeirra sjálfsögðu mannréttinda.

Verði lög sett á sjómenn munu margir líta á það sem illvirki gegn hetjum hafsins. Reiði og fordæming stórs hluta þjóðarinnar vofir yfir. Margir munu eflaust skora á forsetann að neita því að skrifa undir lög á sjómenn. Mun forsetinn með Bjarna Benediktsson að baki sér fallast á að halda um sverðið þegar það fellur á háls sjómannastéttarinnar?

Ertu með athyglisverða ábendingu?
Sendu okkur póst á ordid@eyjan.is - fyllsta trúnaðar gætt.
Miðvikudagur 15.2.2017 - 14:13 - Ummæli ()

Engin bréf að fá

Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair og formaður Samtaka atvinnulífsins

Orðið á götunni er að staðan sé nokkuð undarleg þegar kemur að hlutabréfum í Icelandair Group og gengi þeirra í Kauphöll Íslands.

Kunnara er en frá þurfi að segja, að bréf í Icelandair hafi fallið mikið í verði upp á síðkastið og spenna fyrir komandi aðalfundi félagsins, þar sem líklegt er að einhverjir stjórnarmenn yfirgefi sviðið og aðrir komi í þeirra stað.

Skýrt hefur verið frá ýmsum aðilum sem eru að safna bréfum í aðdraganda fundarins. En nú ber svo við, að fáir eru á seljendahliðinni. Ekki virðast margir tilbúnir að selja á núverandi gengi og alls ekki þeir sem eiga stórar stöður í félaginu.

Sérfróður aðili á markaðnum sagði í gær, að afkomuviðvörun á dögunum hafi réttlætt ákveðna verðlækkun á bréfum í félaginu, en ekki núverandi gengi. Félagið sé gríðarlega fjársterkt og eigi miklar eignir. Það skýri þá stöðu sem komin er upp, að hluthafar haldi nú að sér höndum og vonist eftir því að landið fari að rísa á ný.

Ertu með athyglisverða ábendingu?
Sendu okkur póst á ordid@eyjan.is - fyllsta trúnaðar gætt.

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is