Mánudagur 5.12.2016 - 20:56 - Ummæli ()

Bókstafur laganna

olofogmarkusOrðið á götunni er að íslenskt réttarkerfi sé í uppnámi eftir upplýsingar dagsins um hlutabréfaviðskipti Markúsar Sigurbjörnssonar, forseta Hæstaréttar, á árunum fyrir hrun. Er um að ræða viðskipti upp á tugi milljóna í hlutabréfum og einkabankaþjónustu Glitnis, sem ekki fundust upplýsingar um hjá nefnd um hagsmuni og aukastörf dómara eða hefur verið almenn vitneskja um.

Svo vill til að Eyjan sendi árið 2010 fyrirspurn til dómara við Hæstarétt þar sem spurt var um hagsmuni þeirra og mögulega hlutabréfaeign. Markús svaraði þeirri fyrirspurn ekki. Svo virðist því sem forseti Hæstaréttar dæmi eftir bókstaf laganna í öllum málum nema þeim sem varða hann sjálfan.

Eyjan hefur jafnframt leitað oftar en einu sinni eftir viðbrögðum réttarins og forseta hans við gagnrýni sem sett hefur verið fram á opinberum vettvangi, meðal annars í kjölfarið á greina- og bókaskrifum Jóns Steinars Gunnlaugssonar. Í hvert einasta skipti hefur það svar borist að engin svör verði í boði.

Markús hefur sem forseti Hæstaréttar haft forystu í dómum réttarins í svonefndum hrunmálum. Sum þeirra varða beinlínis Glitni banka, bankann sem hann átti eignarhlut í. Hann hefur aldrei lýst vanhæfi sínu og ekki heldur gert nokkrum grein fyrir þessum miklu hagsmunum sínum, sem hann átti þó að gera grein fyrir.

Harður í horn að taka

haestiretturSem forseti réttarins hefur Markús tekið þátt í að kveða upp þunga dóma yfir bankamönnum, meðal annars á grundvelli þess að þeir hafi brotið reglur innan banka um afgreiðslu lána. Hefur oftar en ekki komið skýrt fram í dómum réttarins að bankamönnunum hafi mátt vera ljóst að þeir væru að brjóta gegn starfsreglum sínum og hefur komið til lítils að flestir bankamennirnir hafa haldið fram sakleysi sínu og lögmenn gagnrýnt skort á sönnunargögnum. Í svonefndum Al-Thani dómi fór Hæstiréttur meðal annars þá óvenjulegu leið að fjalla minnst um niðurstöðu Héraðsdóms, en felldi þess í stað nýjan dóm í málinu — mjög þungan dóm.

Orðið á götunni er að lögmenn fjölmargra bankamanna hljóti nú að velta fyrir sér beiðnum um endurupptöku sinna mála eða að vísa málum til Mannréttindadómstóls Evrópu í ljósi framkominna upplýsinga. Snemma eftir aldamótin síðustu var greint frá því að Guðrún Erlendsdóttir, þáverandi forseti Hæstaréttar, hefði af Mannréttindadómstól Evrópu verið talin vanhæf til að dæma í málum Landsbankans þar sem eiginmaður hennar hefði þá nýlega gengið frá skuldauppgjöri við bankann.

Ef Mannréttindadómstóllinn þá taldi forsetann vanhæfan á grundvelli þess að maki hans hefði átt í viðskiptum við bankann, hvernig halda menn þá að Mannréttindadómstóllinn muni taka á því nú að forseti Hæstaréttar hafi leynt umsvifamiklum hlutabréfaviðskiptum sínum en dæmt samt í málum bankans?

Innanríkisráðherra hlýtur að hlutast til um opinbera rannsókn á þessum málum ekki seinna en strax.

Laugardagur 3.12.2016 - 11:02 - Ummæli ()

Að missa frumkvæðið

katrin-jakobsdottir-menntamalaradherraOrðið á götunni er að skiptar skoðanir séu innan Vinstri grænna með atburði liðinna daga í pólitíkinni og þátt formannsins Katrínar Jakobsdóttur í þeim efnum.

Fyrstu dagana eftir kosningar höfðu Vinstri grænir sterka stöðu, enda meðal sigurvegara kosninganna, en þetta hefur verið að breytast eftir því sem hinni pólitísku atburðarás hefur undið fram.

Þannig hafa Vinstri græn á stuttum tíma lýst yfir miklum efasemdum um að hægt sé að ná saman fimm flokka vinstri stjórn á málefnalegum grunni og jafnframt hafa þeir aftekið að fara í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum.

Og allrasíðustu daga hafa komið fram mjög óvenjuleg skilaboð frá formanninum Katrínu Jakobsdóttir og misvísandi. Þannig setti hún fram hugmyndir um þjóðstjórn í gær sem engir aðrir stjórnmálaleiðtogar tóku undir og kvartaði líka yfir þreytu á endalausum fundahöldum og kvaðst vilja frið fram yfir þingsetningu og umræður um fjárlögin.

Niðurstaðan varð að Birgitta Jónsdóttir fékk umboð til stjórnarmyndunar, meðal annars á þeim grundvelli að líklegra sé að aðrir en Vinstri grænir geti miðlað málum í vinstrabandalagi svo að árangur náist og ríkisstjórn verði til.

Tvær stríðandi fylkingar

Orðið á götunni er að deilur innan Vinstri grænna undir yfirborðinu séu miklu meiri en fólk geri sér almennt grein fyrir. Landsbyggðararmur flokksins (sem kenndur er við Steingrím J. Sigfússon) er lítt hrifinn af hugmyndum um endurræsingu Íslands og uppstokkun í landbúnaðar- og sjávarútvegsmálunum. Þetta fólk á óskaplega lítið sameiginlegt með hugmyndafræði Viðreisnar, svo dæmi sé tekið. En þéttbýlisarmur flokksins (sem kenna má við Svandísi Svavarsdóttir og föður hennar Gestsson) var með böggum hildar þegar viðræður stóðu yfir við Sjálfstæðisflokkinn og vakti sérstaka athygli, að Svandís fagnaði því á samskiptamiðlum þegar tilkynnt var að þeim viðræðum hefði verið slitið.

katabjarniTöldu sumir flokksmenn það til marks um að aldrei hefði verið meiningin að ná árangri í viðræðunum.

Einhvers staðar þarna á milli þessara tveggja fylkinga hefur Katrín setið sem friðarhöfðingi undanfarin ár. Og notið þess að vera ekki hluti af innanflokksdeilum. En fyrr eða síðar þarf hún að taka ákvörðun sem getur orðið til þess að annar armur flokksins verði mjög óánægður. Og þá gæti friðurinn endanlega verið úti.

Landsbyggð og þéttbýli

Innan VG heyrast líka þær raddir, að staða hinna flokkanna fjögurra sé að mörgu leyti óviss og erfitt geti reynst að vinna með þeim í ríkisstjórn gegn harðvítugri stjórnarandstöðu Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks.

Viðreisn, Björt framtíð og Píratar hafi lítið eiginlegt bakland til þess að stóla á í erfiðum málum. Samfylkingin sé í pólitískri líknandi meðferð. Af 24 þingmönnum þessara flokka búa fjórir á landsbyggðinni, þar af þrír af Reykjanesi og einn frá Akureyri. Hinir eru allir Reykvíkingar þótt þeir hafi verið í framboði annarsstaðar.

„Slík ríkisstjórn gæti reynst hrein líflína fyrir menn eins og Sigmund Davíð Gunnlaugsson,“ sagði áhrifamaður í Vinstri grænum í umræðum á samskiptamiðlum í vikunni. „Sá myndi halda veislu á okkar kostnað á hverjum degi,“ bætti hann við.

 

Sunnudagur 27.11.2016 - 21:36 - Ummæli ()

Benedikt og umræðuhefðin

Benedikt Jóhannesson.Orðið á götunni er að spjótin hafi beinst að Benedikt Jóhannessyni, formanni Viðreisnar, undanfarna daga eftir að slitnaði upp úr stjórnarmyndunarviðræðum flokkanna fimm undir forystu Katrínar Jakobsdóttur.

Ýmsir af vinstri vængnum höfðu bundið miklar vonir við að slík ríkisstjórn gæti dæmt bæði Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk til stjórnarandstöðu, en svo fór að ekki náðist saman um skattamál eða breytingar á sjávarútvegskerfinu og því taldi Katrín Jakobsdóttir rétt að skila umboðinu til forseta Íslands.

Og Benedikt var kennt um allt saman. Meira að segja innan Viðreisnar heyrðust raddir um að ekki hefði nægilega vel verið haldið á málum.

Myndband Jæja-hópsins

Síðan tóku að birtast á samfélagsmiðlum neikvæðar færslur um Benedikt og svonefndur Jæja-hópur, sem tengdur er Pírötum, útbjó myndband þar sem rifjaður er upp ferill Benedikts í viðskiptum og settur í ansi neikvætt ljós, svo ekki sé fastar að orði kveðið.

Má raunar tíðindum sæta að fyrst nú sé margt sem þar kemur fram rifjað upp, því Benedikt hefur verið afar áberandi sem viðskiptajöfur á undanförnum árum og tengdur við Engeyjarættarveldi sitt og svonefndan Kolbrabba, en birtist svo hvítþveginn í kosningabaráttunni  með boðskap um breytt vinnubrögð og hófstilltan málflutning.

Sem von er, ber Benedikt sig aumlega undan myndbandinu sem 120 þúsund manns hafa horft á á Netinu og skrifar pistil á vefsvæði útgáfufyrirtækis síns, þar sem hann svarar fyrir sumt af því sem þar kemur fram.

Þar segir Benedikt meðal annars:

Ein meginástæðan fyrir því að ég lagði fyrir mig stjórnmál var að mig langaði til þess að breyta stjórnmálaumræðunni. Búa til umræðu þar sem menn rökræddu málefni en níddu ekki niður pólitíska andstæðinga.

Tölum öðruvísi en hefðbundnir stjórnmálamenn

Og svo rifjar hann upp orðræðu Viðreisnar, sem boðar breytta umræðuhefð í íslenskum stjórnmálum:

„Við í Viðreisn bjuggum okkur meira að segja til reglur um orðræðu þar sem segir meðal annars:

„Við skulum taka höndum saman og tala öðruvísi en hefðbundnir stjórnmálamenn. Góð orðræða er hluti af grunngildum okkar.

Mikilvægt er að við temjum okkur gott orðfæri á netinu sem og annars staðar og hafa í huga að orð eru til alls fyrst og þeim fylgir ábyrgð.

Óvönduð orðræða getur valdið skaða og þjáningu og í sumum tilfellum varðar hún við lög. Hugsum áður en við tölum eða sendum skilaboð frá okkur.“

Þetta er gott og blessað. Og hægt að taka undir þetta allt saman.

En orðið á götunni er að þetta hljóti að koma álitsgjafanum Benedikt Jóhannessyni spánskt fyrir sjónir, því sá hefur á undanförnum árum mundað sinn penna af miklu miskunnarleysi gagnvart pólitískum andstæðingum. Benedikt hefur skrifað leikþætti, uppnefnt stjórnmálamenn (Hanna Birna Kristjánsdóttir hét í pistlum hans „Ísdrottningin“), verið dómharður álitsgjafi sem beitir fyrir sig nöpru háði, en um leið og hann fer sjálfur í pólitík verður hann skyndilega mjög hófsamur og vill að fólk tali vel um hvert annað og fari ekki í manninn heldur málefnið.

Hver segir svo að pólitíkin breyti ekki fólki.

Fimmtudagur 24.11.2016 - 10:07 - Ummæli ()

Sögulegar sættir?

vg-logo-kosn09Orðið á götunni er að vaxandi áhugi sé innan raða Vinstri grænna á samstarfi við Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk í nýrri ríkisstjórn á breiðum grunni. Jafnvel hefur verið til skoðunar að bjóða Samfylkingunni upp í þennan dans.

Staðan í íslenskum stjórnmálum er orðin afar snúin og allir óskakostir í raun komnir út af borðinu. Ef ekki á að boða hreinlega til nýrra kosninga þarf að kanna af alvöru hvort hægt er að mynda sterka meirihlutastjórn sem líkleg er til þess að lægja öldur í samfélaginu og höfða til breiðs hóps kjósenda.

katrinbjarniVinstri grænir ættu erfitt með að sætta sig við Bjarna Benediktsson sem forsætisráðherra í slíkri stjórn. Sjálfstæðismenn telja á hinn bóginn sjálfgefið að Bjarni fái það embætti. Einhverjir leggja til þá málamiðlun að núverandi forsætisráðherra haldi embættinu sem málamiðlun, nú eða að Lilja Alfreðsdóttir varaformaður Framsóknarflokksins verði málamiðlunin sem allir geta sætt sig við. Líklegast verður þó að telja, að annað hvort Bjarni eða Katrín leiði slíka stjórn.

Hugmyndalega út í hött

Hjörleifur Guttormsson fv. ráðherra.

Hjörleifur Guttormsson fv. ráðherra.

Hjör­leif­ur Gutt­orms­son, nátt­úru­fræðing­ur og fyrr­ver­andi ráðherra, legg­ur til að Vinstri græn­ir, Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn og Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn myndi rík­is­stjórn. Þetta kem­ur fram í aðsendri grein sem hann rit­ar í Morg­un­blaðið í dag. Hjörleifur hefur verið virkur innan raða Vinstri grænna í mörg ár og hann segir Katrínu Jakobsdóttur hafa gert mistök með því að reyna myndun fimm flokka stjórnarinnar.

„Allt tal nú um mynd­un fimm flokka rík­is­stjórn­ar frá miðju til vinstri, m.a. með þátt­töku Viðreisn­ar og Pírata, er hug­mynda­lega út í hött. Viðreisn er frjáls­hyggju­fram­boð til hægri við Sjálf­stæðis­flokk­inn og Pírat­ar eru markaðssinnuð hreyf­ing sem leit­ar ein­faldra lausna í net­heim­um. Það er ráðgáta hvernig flokki eins og VG kom til hug­ar að reyna að klastra sam­an rík­is­stjórn úr slík­um efnivið,“ segir Hjörleifur í grein sinni.

Hann seg­ir að kost­um um mynd­un meiri­hluta­stjórn­ar fari fækk­andi, fyrst og fremst vegna hiks VG við að láta reyna á stjórn­ar­mynd­un með Sjálf­stæðis­flokki.

„Kost­ur við hugs­an­legt sam­starf þess­ara þriggja flokka er jafn­framt að þeir hafa góðan stuðning og þingstyrk víðast hvar á land­inu. Lát­um því á þetta reyna sem fyrst,“ skrif­ar Hjör­leif­ur.

Miðvikudagur 23.11.2016 - 11:00 - Ummæli ()

Að tjaldabaki

Jón Þorvaldsson.

Jón Þorvaldsson.

Orðið á götunni er að tekist sé á að tjaldabaki í stjórnarmyndunarviðræðum flokkanna fimm, einkum um augljós ágreiningsefni eins og skattamál og sjávarútvegsmál, en einnig mál sem líklegra er að hægt sé að ná niðurstöðu um.

Stuðningsmenn Viðreisnar brugðust illa við fregnum gærdagsins um að stjórnin myndi hækka ýmsa skatta og er ljóst að þar á bæ geta slíkar aðgerðir orðið afar óvinsælar.

Ómar R. Valdimarsson blaðamaður spurði þannig á fésbók:

„Gerðu kjósendur Viðreisnar almennt ráð fyrir því að þeir myndu standa fyrir skattahækkanum í ríkisstjórn?“

Margrét Ágústsdóttir, frambjóðandi Viðreisnar í Suðvesturkjördæmi, svarar Ómari og segir:

„Nei en möguleikar á stjórnarmyndun eru ekki miklir og við slíkar aðstæður þarf hugsanlega að gefa eitthvað eftir. Þannig gerast kaupin á eyrinni. Held að allir geri sér grein fyrir því. Nú er ég ekki að segja að þetta verði útkoman en möguleikinn er vissulega fyrir hendi.“

Hámarksþrýstingur á viðsemjendurna

Ýmsir bakhjarlar Viðreisnar, menn eins og Þórður Magnússon og Helgi Magnússon, eru sömuleiðis þekktir fyrir allt annað en vinstri stefnu í pólitík. Þeirra hugmynd var að veita Sjálfstæðisflokknum frjálslynt og hægrisinnað aðhald, en ekki að búa til vinstri stjórn með tilheyrandi skattahækkunum.

Jón Þorvaldsson, einn reyndasti almannatengill landsins og áhrifamaður innan Viðreisnar, setti fram athyglisverða tilgátu á fésbók í gær, sem kannski sýnir vel tortryggnina sem ríkir milli svo ólíkra flokka og gefur innsýn í það sem er í gangi að tjaldabaki.

Jón skrifar:

Nú heyrist víða hvíslað að ákveðin öfl innan VG hafi mun meiri áhuga á að starfa með D og B en með þessum fjórum flokkum og beiti sér því fyrir hámarksþrýstingi á viðsemjendurna, m.a. skattamálum, til að sprengja viðræðurnar. Þetta er auðvitað bara tilgáta, og kannski tóm vitleysa, en það verður vissulega áhugavert, ef þessar viðræður fara út um þúfur, að sjá hvað Sjálfstæðisflokkurinn verður tilbúinn til að gefa eftir í skattamálum í viðræðum við VG.

Svo mörg voru þau orð.

Sunnudagur 20.11.2016 - 15:25 - Ummæli ()

Blendin viðbrögð VG

Steingrimur-JOrðið á götunni er að söguleg tíðindi gætu verið í uppsiglingu ef Katrínu Jakobsdóttur tekst að mynda fimm flokka ríkisstjórn í þeim formlegu stjórnarmyndunarviðræðum sem nú eru að hefjast.

Innan raða Vinstri grænna heyrast þó talsverðar efasemdir með hugmyndina, einkum meðal áhrifafólks úti á landi. Þar hræðast menn að flokkurinn sé í minnihluta gagnvart samstarfsflokkunum fjórum í stórum málum eins og landbúnaðarmálum og sjávarútvegsmálum og það geti reynst flokknum þungbært heima í héraði, þar sem allt önnur sjónarmið ríkja en á mölinni.

Orðið á götunni er að forvitnilegt verði að fylgjast með því hvernig viðræðunum vindur fram. Landsbyggðararmur Vinstri grænna myndi allt eins vilja vinna með Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki í þjóðlegri íhaldsstjórn, en á það vilja vinstri græn í borginni ekki heyra á minnst.

Steingrímur J. Sigfússon, Björn Valur Gíslason og fleiri áhrifamenn Vinstri grænna á landsbyggðinni óttast að Sjálfstæðisflokkur og Framsókn efni til veislu, ef ný ríkisstjórn ræðst í grundvallarbreytingar á stórum málum. Að sama skapi vona margir kjósendur í þéttbýlinu að sú verði einmitt raunin.

Að Katrínar Jakobsdóttir bíði vandasamt verk er því ansi vægt til orða tekið. En hún gæti líka staðið með pálmann í höndunum. Stjórnmál eru jú list hins mögulega, eins og Bismarck sagði.

Miðvikudagur 16.11.2016 - 14:17 - Ummæli ()

Þarf ekkert nema bíða…

ossurskarpOrðið á götunni er að Katrínar Jakobsdóttir bíði flókið og viðurhlutamikið verkefni að gera tilraun til að mynda ríkisstjórn úr samstarfi Vinstri grænna, Viðreisn, Pírata, Bjartrar framtíðar og Samfylkingarinnar.

Ekki aðeins er erfitt að sjá fyrir sér lífvænlegt samstarf svo margra og ólíkra flokka, heldur gengur nú þegar á með skeytasendingum milli þeirra sem benda ekki til þess að öll dýrin í skóginum séu vinir.

Satt að segja eru þeir ekki mjög margir sem telja gerlegt að mynda starfhæfan meirihluta úr þessum efnivið, en Katrínar er auðvitað að þagga niður í slíkum efasemdaröddum með því að láta verkin tala.

Þeir eru samt margir sem horfa til þess að áður en yfir lýkur muni Vinstri græn þurfa að spyrja sig þeirrar spurningar hvort ekki sé nauðsynlegt að byggja brú yfir til Sjálfstæðisflokksins. Og jafnvel framsóknar líka í þjóðlegri íhaldsstjórn með breiða skírskotun og mikinn þingmeirihluta.

Össur Skarphéðinsson, sá gamli pólitíski refur, sleikir nú sín pólitísku sár eftir útreið Samfylkingarinnar í kosningunum, en það stoppar hann ekki frá því að setja fram eitraðar skýringar á fésbókinni um stjórnmálalandslagið.

Hann segir í dag:

„Björt kallar Birgittu lygara. Birgitta hjólar í Viðreisn. – Þetta gerist allt áður en Katrín er komin með umboðið.- Á meðan hallar Bjarni sér makindalega aftur og skoðar rissið sem hann lýsti fyrir forsetanum í gær. Hann þarf ekkert nema bíða. Segðu mér hverjir vinir þínir eru…“

Sunnudagur 13.11.2016 - 10:27 - Ummæli ()

Stórmerk pólitísk yfirlýsing

bvgOrðið á götunni er að þótt að ýmsir stjórnarandstæðingar hafi hnýtt í Óttarr Proppé, formann Bjartrar framtíðar, síðustu daga hafi þeir ekki allir talað illa til hans.
Þannig var sérstaklega tekið eftir grein, sem Björn Valur Gíslason, varaformaður Vinstri grænna, skrifaði á heimasíðu sína í gær. Þar bar hann blak af Óttarri, sagði hann vitaskuld reyna að hafa áhrif í stjórnmálum með ríkisstjórnarsamstarfi, þó auðvitað kostaði það málamiðlanir eins og ævinlega í samstarfi.
„Í því felast engin svik heldur undirstrikar það vilja og getu þeirra sem stýra flokkunum til að miðla málum og hafa áhrif á stjórn landsins. Stjórnmálamenn sem ekki eru reiðubúnir að miðla málum komast aldrei til áhrifa. Þeir láta hinum eftir völdin.“

Þessi síðasta setning er stórmerkileg pólitísk yfirlýsing. Sérstaklega eftir að lesandinn áttar sig á því að hún er ekki um Óttarr Proppé, heldur um Katrínu Jakobsdóttur formann Vinstri grænna…

Föstudagur 11.11.2016 - 19:43 - Ummæli ()

Áfram-hópurinn sækir í sig veðrið

_fram-hopur

Frá blaðamannafundi Áfram-hópsins þegar Icesave-deilan stóð sem hæst.

Orðið á götunni er að margir hafi orðið hvumsa nú síðdegis þegar tilkynnt var að hafnar væri formlegar viðræður milli Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar um myndun nýrrar ríkisstjórnar undir forsæti Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins.

Tíðindin komu á óvart, því úr herbúðum allra flokka höfðu margir lýst efasemdum um slíkt samstarf, með minnsta mögulega meirihluta. Sjálfstæðismenn sögðu flokknum stillt upp við vegg í Evrópumálum og báru sig þunglega. Sagt var að Björt framtíð væri óráðið spil. Og Viðreisn full frek til fjörsins.

Aðrir benda á að þarna sé Áfram-hópurinn sem varð til í Icesave-málinu einfaldlega búinn að mynda ríkisstjórn. Fólkið sem vildi semja um Icesave og gekk hart fram eftir hrun í baráttu fyrir Evrópusambandsaðild. Þeir hafi nú allt í einu öll tromp á hendi og ætli sér ekki að klúðra þessu einstaka tækifæri.

Á samskiptamiðlum nú síðdegis eru mjög skiptar skoðanir um þessa nýju stjórn. Ýmsir hræðast að hún verði hægri sinnuð og taki speki sína úr bæklingum Viðskiptaráðs og kenna Vinstri grænum um að þetta verði líklega niðustaðan. Með því að hafna alfarið möguleika á samstjórn með Sjálfstæðisflokknum hafi þeir þröngvað Bjarna Benediktssyni til að fara þessa leið.

En svo er spurt: Geta þessir flokkar náð saman um erfið deilumál eins og þjóðaratkvæði um ESB eða breytingar á sjávarútvegsstefnunni? Einhverjir telja það torsótt, en aðrir benda á að freistingin að komast í valdastóla sé allt of mikil til að láta slíkt hafa áhrif á sig.

Illugi Jökulsson setur fram líklega málamiðlun í þeim efnum í léttum dúr á fésbók:

„Með tilliti til þess að nokkur óvissa er uppi í Evrópu, ekki síst vegna Brexit og kjörs Trumps, þá hefur verið ákveðið að skipa þverpólitíska nefnd sem skila skuli niðurstöðu um hugsanlegt framhald viðræðna við ESB. Nefndinni ber að skila niðurstöðu sinni innan tveggja ára. Með tilliti til þess að búvörusamningur hefur nú nýlega verið samþykktur, þá þykir ekki vert að rugga þeim báti um of á þessari stundu, og því hefur verið ákveðið að skipa þverpólitíska nefnd sem skila skal niðurstöðu um framtíðarskipulag landbúnaðarmála innan tveggja ára. Með tilliti til þess að óvissa er uppi í sjávarútvegsmálum, þá skal nú skipuð þverpólitísk nefnd sem skila skal niðurstöðu um hvernig framtíðarskipulagi sjávarútvegsmála verður háttað og skoða reynslu annarra þjóða af uppboðsmálum. Nefndinni ber að skila niðurstöðu innan tveggja ára.“

Úr væntanlegum stjórnarsáttmála Bjarna Benediktssonar, Benedikts Jóhannssonar og Óttars Proppé. Þið lásuð það fyrst hér!!“

afram

Fimmtudagur 3.11.2016 - 17:04 - Ummæli ()

Stjórnarkreppa

BjarniBen0310Orðið á götunni er að vandséð sé hvernig eigi að koma saman nýrri ríkisstjórn í landinu á næstunni.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, fékk umboð til stjórnarmyndunar í gær og hefur nú rætt formlega við leiðtoga allra flokka sem sæti eiga á Alþingi og ljóst er að línur hafa lítið skýrst við það.

Viðreisn og Björt framtíð koma saman til viðræðnanna og segir sagan að til standi að sameina flokkanna með formlegum hætti. Píratar eru með tíu þingmenn, en fæstir gera ráð fyrir þeim við ríkisstjórnarborðið. Framsókn er hálflömuð eftir innanflokksátök og Samfylkingin í sárum eftir útreiðina á laugardag.

Bjarni Benediktsson á ekki marga kosti í stöðunni. Draumur margra sjálfstæðismanna er að semja við Vinstri græn og Framsókn um nýja stjórn, en það tekur VG ekki í mál. Orðið á götunni er að stjórnarkreppan þurfi að versna mjög, eigi slíkur möguleiki að koma til álita í alvörunni.

Reyndir spekúlantar innan flokkanna eiga allt eins von á því að Bjarni skili umboði sínu eftir helgi og Katrín Jakobsdóttir fái tækifæri til að mynda stjórn. Fátt bendir í stöðunni til að henni muni ganga betur, en það veltur svolítið á Framsóknarflokknum.

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is