Mánudagur 6.2.2017 - 11:32 - Ummæli ()

Titringur

Björgólfur Jóhannsson, nýr formaður Samtaka atvinnulífsins

Björgólfur Jóhannsson forstjóri Icelandair Group og formaður Samtaka atvinnulífsins

Orðið á götunni er að mikill titringur sé í íslensku viðskiptalífi vegna þess hruns sem varð á gengi hlutabréfa í Icelandair í vikunni sem leið.

Óvænt afkomuviðvörun varð til þess að allar flóðgáttir opnuðust og mesta verðlækkun bréfa á einum degi frá hruni varð staðreynd.

Björgólfur Jóhannsson og félagar í yfirstjórn Icelandair hafa verk að vinna, ætli þeir sér að endurheimta traust fjárfesta. Markaðurinn er nefnilega harður húsbóndi, eins og menn þekkja.

Vissulega hafa bréf í Icelandair hækkað mikið á undanförnum árum, en þau hafa nú lækkað mjög mikið og skart og hluthafanir finna illilega fyrir því í bókum sínum.

Ekki síst þeir sem tóku lán fyrir hlutabréfakaupum í félaginu á undanförnum vikum. Veðköll urðu víða í síðustu viku með tilheyrandi aðgerðum og afleiðingum.

Og þótt flestir lífeyrissjóðirnir beri sig enn vel og bendi á að þeir hafi komið inn þegar gengið var lágt og séu enn í góðum plús, er orðið á götunni að víða í hluthafahópi Icelandair kraumi mikil óánægja með þróun mála. Gengishækkun bréfa í Icelandair var víða komið inn í bækur fjárfesta og þeir finna mjög fyrir jafn skarpri lækkun og raun ber vitni.

Capacent sendi skeyti á valda fjárfesta fyrir helgi, sem ekki varð til að róa markaðinn. Capacent lækkaði verðmat sitt niður í 18 úr 29,2 en sagði jafnframt:

Vöxtur félagsins hefur verið ævintýralegur undanfarin ár, í takt við vöxt ferðamanna til Íslands, auk þess sem sífellt fleiri fljúga milli Evrópu og Ameríku. Ekkert bendir sérstaklega til þess að þessi vöxtur muni hætta á næstu árum  Erfitt er að leggja verðmat á félagið að svo stöddu og einhverju leyti óábyrgt því betur þarf að kafa ofan í allar forsendur rekstrarins. Þó má segja að ef forsendur 2017 eru framreiknaðar yfir spátímann fæst verðmatsgengið í kringum 18.

Það er langt frá genginu 38,9 í lok apríl í fyrra. Og lækkunin heldur áfram, því þegar þessi orð eru rituð á mánudagsmorgni, er gengið í Icelandair komið niður í 15,7.

 

 

Ertu með athyglisverða ábendingu?
Sendu okkur póst á ordid@eyjan.is - fyllsta trúnaðar gætt.
Miðvikudagur 1.2.2017 - 09:37 - Ummæli ()

Vestmannaeyingar þurfa sálfræðing!  

ellidiFólk um allt land á það til að slasast og veikjast og þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda. Og það sem meira er, konur á landsbyggðinni verða barnshafandi til jafns á við þær sem búa á höfuðborgarsvæðinu. Náttúran gerir víst engan greinarmun eftir búsetu.

Í ágætri grein eftir bæjarstjórann í Vestmannaeyjum í Fréttablaðinu á dögunum, fer hann yfir það afleita ástand sem skapast hefur í Eyjum vegna takmarkaðrar þjónustu á heilbrigðissviðinu. Konur geti ekki fætt í heimabyggð og loka þurfi veitingastöðum af þeim sökum. Segir svo í lok greinar að „…við [Vestmannaeyingar] trúum því að nýkjörnir þingmenn og nýr ráðherra leggi okkur lið í baráttunni.“

Ný stjórn hefur eiginlega nú þegar svarað bæjarstjóranum. Forsætisráðherra og flokksfélagi bæjarstjórans sagði eftirfarandi í stefnuræðu sinni:

Sterkar vísbendingar eru um að niðurskurður eftir hrun hafi kallað fram hughrif hjá stórum hluta þjóðarinnar um að samfélagssáttmáli um tryggt aðgengi að heilbrigðisþjónustu hafi brostið. Aukin útgjöld til heilbrigðismála á síðustu árum hafa ekki náð að lækna þessi hughrif.“ 

Bæjarstjórinn ætti því að líta í eigin barm og hugsa sinn gang. Þessi skortur á heilbrigðisþjónustu í Vestmannaeyjum er ekki raunverulegur. Hann grundvallast á ímyndun bæjarstjórans; hughrifum.

Orðið á götunni er að í raun þurfi Vestmannaeyingar ekkert á aukinni læknisþjónustu að halda, heldur miklu frekar sálfræðingi til að leiðrétta þessi hughrif.

Ertu með athyglisverða ábendingu?
Sendu okkur póst á ordid@eyjan.is - fyllsta trúnaðar gætt.
Fimmtudagur 26.1.2017 - 17:33 - Ummæli ()

Det danske kongehus

Benedikt Jóhannesson.

Benedikt Jóhannesson.

Orðið á götunni er að ef Benedikt Jóhannesson formaður Viðreisnar hefði orðið utanríkisráðherra, gætu danskir fjölmiðlar hafa spurt hann heldur óvenjulegra spurninga þessa dagana í tengslum við opinbera heimsókn forseta Íslands.

Höfðingslund Dana er nefnilega ekki sjálfgefin, segir í fyrirsögn á mbl.is, miðvikudaginn 25. janúar. Er þar vísað til orða forseta Íslands þegar hann minntist á að Danir hefðu, á sínum tíma, skilað handritunum. Guðni var gestur í ríki drottningar og þau forsetahjón; aufúsugestir eins og vera ber og flottir fulltrúar þjóðar sinnar. Á myndum með forseta er hinn glaðhlakkalegi utanríkisráðherra Guðlaugur Þór Þórðarson ásamt sinni glæsilegu konu.

Gárungarnir telja að það hefði getað verið óheppilegt ef Benedikt (stundum kallaður Bensi frændi) Jóhannesson fjármálaráðherra hefði verið með forseta í för. Honum þykir afar lítið til konungsríkisins koma, eins og lesa má úr pistli sem hann skrifaði á sínum tíma (uppfærður í nóvember 06, 2014). Þar veltir nýskipaður fjármálaráðherra vöngum yfir breytingum á stjórnarskrá danskra, þar sem hann hvetur Dani til að losa sig við konungdæmið.

Ráðherra minnist á ýmislegt annað í framhjáhlaupi, eins og „…einhverjar íslenskar konur sem vilja að stjórnarskráin verði kynvillt,…“. Þá finnst honum tillaga um kynjakvóta ekki góð regla.

En höldum aftur til Danmerkur í ríki drottningar og hleypum fjármálaráðherranum að í eigin persónu:

„Ég er ekki í Hinu konunglega fjelagi og hef sáralítinn áhuga á kóngafólki, en þó nógan til þess að vita að danski prinsinn Hinrik er eitthvað brenglaður, sömuleiðis Jóakim sonur hans og að Margrét drottning er rúmlega sextug, en lítur út fyrir að vera áttræð, ef maður nær að sjá hana gegnum sígarettureykinn. Hvers vegna vilja menn þetta fólk? (Að vísu finnst mér svolítið flott hjá Margréti að skíra son sinn upp úr Andrésblaði, en Frikki hefði átt að heita Mikki).“

Tveir í konungsfjölskyldunni brenglaðir, drottningin hulin sígarettureyk og skýrði barnið sitt eftir persónu í Andrés blaði.

Orðið á götunni er að spurningin sem Benni frændi hefði getað fengið, til dæmis frá Ekstra blaðinu er: Hvad synes du om det danske kongehus, Johannesson?

Þess má geta í lokin að drottningin í Danmörku og hennar fólk, er með fádæmum vinsælt.


Ertu með ábendingu eða innlegg í Orðið á götunni? Sendu þá tölvupóst á ordid@eyjan.is

Ertu með athyglisverða ábendingu?
Sendu okkur póst á ordid@eyjan.is - fyllsta trúnaðar gætt.
Þriðjudagur 24.1.2017 - 14:06 - Ummæli ()

Fagmaður á ferð

SigurdurMarJonssonOrðið á götunni er að ekki hefði getað fengið betri staðfesting á fagmennsku Sigurðar Más Jónssonar, blaðafulltrúa ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og síðar Sigurðar Inga Jóhannessonar, en með tilkynningu forsætisráðuneytisins í morgun.

Hún hljóðaði svo:

„Ríkisstjórnin samþykki í morgun tillögu forsætisráðherra um að Sigurður Már Jónsson, blaðamaður, gegni áfram stöðu fjölmiðlafulltrúa ríkisstjórnarinnar. Sigurður Már er ráðinn til starfans á grundvelli 1. mgr. 22. gr. laga um Stjórnarráð Íslands og hefur aðsetur í forsætisráðuneytinu.“

Sigurður Már, sem er einn reyndasti blaðamaður landsins og fv. varaformaður Blaðamannafélagsins,  naut þannig ekki einungis trausts Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks í störfum sínum, heldur einnig nýrrar ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks, Bjartrar framtíðar og Viðreisnar.

Það verður að teljast nokkuð vel af sér vikið, á þessum síðustu og verstu tímum.

Ertu með athyglisverða ábendingu?
Sendu okkur póst á ordid@eyjan.is - fyllsta trúnaðar gætt.
Mánudagur 23.1.2017 - 11:04 - Ummæli ()

„Með tilheyrandi plotti“

Guðni Th Jóhannesson, sagnfræðingur og forsetaframbjóðandi, nýtur mikils fylgis skv skoðanakönnunum.

Guðni Th Jóhannesson, forseti Íslands.

Orðið á götunni er að Benedikt Jóhannesson nýr fjármálaráðherra hafi ekki gert forseta Íslands neinn greiða með því að skýra frá einkafundi þeirra fyrir átta mánuðum á vefsíðu sinni.

Eins og Eyjan segir frá í frétt í dag, fjallar Benedikt um fyrsta ríkisráðsfund sinn á vefsvæði sínu og segir meðal annars:

„Mér varð hugsað til þess hvort maður væri ekki lentur í vitlausu leikriti. Nú sátum við þarna við endann, Guðni Th. og ég, rúmlega átta mánuðum eftir að ég spjallaði við hann og hvatti til forsetaframboðs með tilheyrandi plotti. Þá hafði hvorugur okkar nokkru sinni boðið sig fram til opinbers embættis. Svona er þetta líf skrítið.“

Guðni Th. Jóhannesson vann hug og hjörtu þjóðarinnar í kosningabaráttunni og enn frekar með framgöngu sinni fyrstu vikur og mánuðina í embætti.

Hann er hreinn og beinn, einlægur í tilsvörum og leysti ágætlega úr flókinni stöðu sem kom upp í stjórnarkreppunni að afloknum kosningum.

VigdisHauksdottir-150x150Þess vegna kemur mjög á óvart að hann hafi setið fyrir einhverjum mánuðum og plottað með formanni Viðreisnar um framboð sitt.

Því að Guðni hefur alls ekki ímynd plottarans í huga þjóðar sinnar.

Vigdís Hauksdóttir, fv. þingmaður og formaður fjárlaganefndar, deilir Eyjufréttinni á fésbók og segir:

– nú nú – Viðreisn á forsetann með húð og hári
Gott að formaðurinn kjaftaði af sér – þá getum við fylgst með lagasetningunni með gagnrýnum augum
Ég tel þessar fréttir rosalegt áfall fyrir lýðræðið í landinu – þið verðið að fyrirgefa: „með tilheyrandi plotti“

Orðið á götunni er að best væri fyrir fjármálaráðherrann og forsetann að leggja spilin sem fyrst á borðið og útskýra í hverju þetta plott fólst.

Ertu með athyglisverða ábendingu?
Sendu okkur póst á ordid@eyjan.is - fyllsta trúnaðar gætt.
Miðvikudagur 11.1.2017 - 10:53 - Ummæli ()

Samfelldur lífróður

Valholl2009Orðið á götunni er að samfelldur lífróður blasi við hjá ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar sem tekur formlega við völdum á ríkisráðsfundi á Bessastöðum í dag. Það er vægast sagt óvenjuleg staða, því oftast fá nýir stjórnarherrar einhverjar vikur í hveitibrauðsdaga til að koma sér inn í hlutina áður en fjölmiðlar og stjórnarandstaðan byrja með sitt aðhald.

Hin nýja ríkisstjórn styðst aðeins við eins manns meirihluta og í valdakjarna Sjálfstæðisflokksins eru margir mjög ánægðir með útkomuna úr samningaviðræðum við Bjarta framtíð og Viðreisn, að því er varðar stjórnarsáttmálann og fjölda ráðherrastóla. En í þingflokki Sjálfstæðisflokksins logar allt stafnanna á milli út af niðurstöðu um ráðherraskipan sem kynnt var í gærkvöldi.

bjarnibenVenjulega fer hljótt um slíkt innan valdaflokks eins og Sjálfstæðisflokksins, en með yfirlýsingu Páls Magnússonar, oddvita flokksins í Suðurkjördæmi, um að hann hefði ekki stutt tillögu formanns um ráðherraskipan, má ljóst vera að friðurinn er úti. Margir fleiri en Páll eru hundóánægðir og það eru vond tíðindi fyrir ríkisstjórn með eins manns meirihluta.

Páll vann stórsigur í Suðurkjördæmi, er oddviti og fær ekki ráðherrastól. Á sama tíma er Unnur Brá Konráðsdóttir gerð að forseta Alþingis, en henni var afdráttarlaust hafnað í prófkjöri flokksins sl. haust og hún uppskar mikla reiði flokkssystkina sinna með því að kjósa með þingrofi í tengslum við átökin um afsögn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar.

Unnur Brá Konráðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

Unnur Brá Konráðsdóttir, nýr forseti Alþingis.

Verðlaun hennar eru ígildi ráðherrastóls og skilaboðin til annarra þingmanna hljóta að vera þau að það borgi sig að berja í borðið og skapa sér sérstöðu. Viðbúið er að ýmsir þingmenn láti ekki segja sér slíkt tvisvar.

Vitaskuld þurfti formaður Sjálfstæðisflokksins að horfa til kynjasjónarmiða við ákvörðun sína, en þau virðast ekki hafa vafist fyrir honum einmitt í hans eigin kjördæmi, er hann valdi annan karlmann, Jón Gunnarsson, til að verða ráðherra.

Haraldur Benediktsson var oddviti Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi og hann verður ekki heldur ráðherra, þótt flokkurinn hafi unnið stórsigur og hann sé fyrsti þingmaður kjördæmisins.

Brynjar Níelsson er starfandi oddviti í sínu Reykjavíkurkjördæmi, þar sem Ólöf Nordal situr ekki á þingi af heilsufarsástæðum. Brynjar er ekki ráðherra, heldur Sigríður Andersen, þingmaður sem var mun neðar á lista en hann.

Þá er ritari Sjálfstæðisflokksins, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, ekki ráðherra heldur.

Orðið á götunni er að fullt starf og rúmlega það verði á næstunni að halda þingflokki Sjálfstæðismanna í lagi gagnvart hinni nýju ríkisstjórn. Vitað mál er að ýmsir eru hundfúlir og líklegir til að spila sóló. Hvort stjórnarsamstarfið lifir það af, á eftir að koma í ljós.

Ertu með athyglisverða ábendingu?
Sendu okkur póst á ordid@eyjan.is - fyllsta trúnaðar gætt.
Fimmtudagur 5.1.2017 - 10:13 - Ummæli ()

Við förum í róður þótt fleyið sé lekt

bjarnibenOrðið á götunni er að skrítin stemning sé kringum myndun hægri stjórnar Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar.

Flestir eru sammála um að fátt annað sé í stöðunni en að flokkarnir þrír myndi ríkisstjórn, þótt meirihlutinn yrði aðeins einn þingmaður, en sannarlega verður ekki sagt að þingmenn Sjálfstæðisflokksins séu spenntir fyrir verkefninu, eins og Eyjan benti á í fréttaskýringu í gærkvöldi þar sem sagt var frá mjög erfiðum þingflokksfundi.

Í ríflega tvo mánuði hafa Sjálfstæðismenn talað fyrir því að fá Vinstri græn til liðs við sig og Framsóknarflokkinn án árangurs. Það er ekki fyrr en nú á allra síðustu dögum að áhrifafólk innan VG ljær máls á slíku, en vilja þá hafa Samfylkinguna með. Ekki er öllum ljóst hvort hugur fylgir máli, enda skoðanir mjög skiptar innan VG, og þess vegna er langlíklegast að Bjarni Benediktsson verði forsætisráðherra í samstarfi með Benedikt frænda sínum Jóhannessyni og Óttari Proppé — jafnvel fyrir vikulok.

Á lokaðri spjallrás VG hefur mátt lesa undanfarna daga áhyggjur manna af því að flokknum verði kennt um þá stjórn sem er nú verið að mynda og kennd hefur verið við hægri ásinn í stjórnmálunum.

En þetta er ekkert í fyrsta sinn sem stemningin er svona. Það þarf að mynda ríkisstjórn og búið er að reyna marga kosti. Árið 1978 var löng stjórnarkreppa sem endaði með því að Ólafur Jóhannesson myndaði ríkisstjórn sem lítil stemning var um.

Í Völundarhúsi valdsins, þeirri ágætu bók eftir Guðna Th. Jóhannesson, forseta Íslands, sem allir handhafar stjórnarmyndunarumboðs hafa fengið að gjöf, er vitnað í þessa vísu Páls Péturssonar sem hann orti þegar þetta seinna ráðuneyti Óla Jó var myndað:

Við förum í róður, þótt fleyið sé lekt

og fram undan leiðinda starf.

Nú gerum við allt sem er ómögulegt

en ekkert af hinu, sem þarf.

Sú ríkisstjórn lifði ekki nema fáeina mánuði og svo var kosið aftur. Ætli það sama gerist nú?

Ertu með athyglisverða ábendingu?
Sendu okkur póst á ordid@eyjan.is - fyllsta trúnaðar gætt.
Mánudagur 2.1.2017 - 10:33 - Ummæli ()

Hvernig stjórn verður mynduð?

katrinbjarniOrðið á götunni er að Bjarni Benediktsson verði væntanlega forsætisráðherra á allra næstu dögum, en spurningin er: Í hvaða ríkisstjórn? Verður það svokölluð hægristjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar eða það sem kallað hefur verið þjóðleg íhaldsstjórn Vinstri grænna, framsóknar og Sjálfstæðisflokks.

Undir áramót fóru þeir Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, og Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, á fund forseta og lögðu til að Bjarni Benediktsson fengi umboð til að mynda ríkisstjórn flokkanna þriggja. Athygli vekur, að forsetinn varð við beiðninni að nokkru leyti, því hann veitti Bjarna umboðið, en ef rýnt er vandlega í yfirlýsingu hans, kemur fram að það umboð er ekki bundið við ríkisstjórn með Benedikt og Óttari, heldur almennt til að mynda ríkisstjórn.

Orðið á götunni er að forseti Íslands viti eins og margir fleiri, að undanfarið hafa átt sér stað mikil samtöl milli Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokksins annars vegar og VG og framsóknar hins vegar um möguleikana í stöðunni. Framan af hefur innanflokksandstaða í VG ráðið því að ekkert hefur orðið úr samstarfi, en það hefur eitthvað breyst síðustu daga eftir að möguleikinn á hægri stjórn tók að taka á sig fullmótaðri mynd.

Sigurður Ingi JóhannssonHægri stjórnin hefði bara eins manns meirihluta, en hinn stjórnarmöguleikinn mun breiðari skírskotun og fleiri þingmenn á bak við sig.

Enn sem komið er, virðist líklegra að þeim Benedikt og Óttari takist það ætlunarverk sitt að mynda ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum, en kannski er samningsstaða þeirra ekki jafn sterk og þeir töldu áður þegar þeir töldu þetta eina möguleika Bjarna á að mynda stjórn. Munu þeir ef til vill fallast á að Framsókn verði fjórði flokkurinn í samstarfinu? Er áhugi þar á bæ fyrir áherslum slíkrar ríkisstjórnar?

Spurningin er líka: Hvaða spil er Katrín Jakobsdóttir með á hendi? Í Kryddsíldinni á gamlársdag fór ekki framhjá neinum að góð samskipti eru milli hennar og Bjarna Bendiktssonar.

En eins og stundum var sagt í Alþýðubandalaginu í gamla daga: Hvað segir Svavar Gestsson um þetta? Og dóttir hans Svandís og þeirra stuðningsfólk? Á endanum eru það væntanlega þau sem ráða því hvort VG verður áfram í stjórnarandstöðu eða ekki.

Ertu með athyglisverða ábendingu?
Sendu okkur póst á ordid@eyjan.is - fyllsta trúnaðar gætt.
Fimmtudagur 29.12.2016 - 14:48 - Ummæli ()

Áhrifamikil Liv

livbergthorsOrðið á götunni er að Liv Bergþórsdóttir, forstjóri Nova, hljóti að vera orðin ein áhrifamesta manneskjan í íslensku viðskiptalífi. Árið 2016 hefur verið henni einkar farsælt, enda hefur tímaritið Frjáls verslun útnefnt hana mann ársins í íslensku atvinnulífi.

Ekki aðeins getur Liv státað af góðum rekstri símafélagsins Nova, sem selt var á sextán milljarða króna á árinu, heldur er hún líka stjórnarformaður WOW sem hefur gengið vonum framar á árinu og skilaði forstjóranum og frumkvöðlinum Skúla Mogensen nafnbótinni Viðskiptamaður ársins hjá Fréttablaðinu.

Að vera forstjóri símafélagsins Nova og stjórnarformaður WOW er því ansi magnað og er væntanlega leitun að öðrum eins áhrifum og Liv hefur í íslensku viðskiptalífi nú um stundir.

 

Ertu með athyglisverða ábendingu?
Sendu okkur póst á ordid@eyjan.is - fyllsta trúnaðar gætt.
Föstudagur 23.12.2016 - 10:00 - Ummæli ()

Maður sátta

Haraldur BenediktssonOrðið á götunni er að Haraldur Benediktsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hafi ekki unnið lítið afrek sem formaður fjárlaganefndar undanfarnar vikur.

Fjárlög voru afgreidd á Alþingi í gærkvöldi og þing kemur ekki saman aftur fyrr en undir lok janúar, en í fyrsta sinn þurfti að vinna frumvarpið þvert á flokka í þinglegri meðferð. Og það var gert, afgreitt í þverpólitískri sátt út úr nefndinni og loks samþykkt, reyndar með minnihluta atkvæða, þar sem margir sátu hjá.

Það er á stundum sem þessum sem reynir á hve menn eru lausnamiðaðir í störfum sínum og snjallir samningamenn. Haraldur leysti hlutverk sitt með prýði og naut dyggrar aðstoðar hins þingreynda forseta þingsins, Steingríms J. Sigfússonar, sem situr þar á óvæntum friðarstóli og skipar fólki til verka, til hægri og vinstri.

Þótt engin meirihlutastjórn sé starfandi í landinu og stjórnarkreppa ríkjandi, verður að segjast alveg eins og er, að það hefur verið góður bragur á störfum alþingismanna okkar að undanförnu. Þeir hafa fundið til ábyrgðar sinnar, hætt endalausu væli um stjórn- og stjórnarandstöðu og þess í stað gengið í þau verk sem þarf að vinna.

Vonandi veit það á gott upp á framhaldið.

Ertu með athyglisverða ábendingu?
Sendu okkur póst á ordid@eyjan.is - fyllsta trúnaðar gætt.

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is