Föstudagur 29.12.2017 - 12:33 - Ummæli ()

Prinsipp eða peningar

Orðið á götunni er að Frjáls verslun gæti hafa gefið út sitt síðasta tekjublað. Í október síðastliðnum keypti Myllusetur, sem gefur út Viðskiptablaðið og Fiskifréttir, tímaritið af börnum Benedikts Jóhannessonar fyrrverandi fjármálaráðherra sem gaf út tímaritið áður en hann reyndi fyrir sér í stjórnmálum.

Tekjublað Frjálsrar verslunar er án efa það mest lesna af tölublöðum blaðsins þar sem margir þekkja einungis tímaritið vegna árlega tekjublaðsins. Ef ritstjórnarstefna tímaritsins fer að færast í átt að skoðunum Viðskiptablaðsins þá er nánast borðleggjandi að hætt verði útgáfu á tekjublaðinu þar sem margir sem kenna sig við frjálshyggju eru á móti því að upplýsingar um sín persónulegu fjármál séu aðgengileg almenningi.

Segja má að Tekjublað Frjálsrar verlsunar árið 2018 verði prófsteinn á íslenskan kapítalisma, hvort prinsippið um leyndarhyggju verði ofar tekjunum af Tekjublaðinu.

Ertu með athyglisverða ábendingu?
Sendu okkur póst á ordid@eyjan.is - fyllsta trúnaðar gætt.
Miðvikudagur 20.12.2017 - 09:07 - Ummæli ()

Jónshús

Orðið á götunni er að á jólahlaðborði 365 á dögunum, hafi Jón Ásgeir Jóhannesson talað af sér. Forsaga málsins er sú, að á sínum tíma, gaf þáverandi forstjóri Norðurljósa, Jón Ólafsson, starfsmannafélaginu veglegan sumarbústað, starfsmönnum sínum til ánægju og yndisauka. Var húsið nefnt Jónshús og gegnir því nafni enn. Eignarhald hússins við eigendaskipti og alla þá rússíbanareið sem fyrirtækið hefur farið í gegnum á þessum tíma virðist hafa endað með því, að aðeins starfsmenn Fréttablaðsins og Glamour hafa nú afnot af því.

En víkur þá sögunni að jólahlaðborðinu.
Þar var Jón Ásgeir kynntur á svið af eiginkonu sinni og forstjóra fyrirtækisins, Ingibjörgu Pálmadóttur. Jón Ásgeir er sagður hafa talað mikið um eigin ágæti og þegar talið barst að kaupsamningi 365 við Vodafone, hafi Jón ítrekað hversu sniðugur hann hefði nú verið í samningaviðræðunum, því hann hefði sko haldið eftir sumarbústaðnum fyrir sjálfan sig. Kom þá kurr í mannskapinn, sem stóð í þeirri meiningu að sumarbústaðurinn væri þeirra, en ekki Jóns Ásgeirs. Töluðu hinir alræmdu gárungar um, að Jón hefði mögulega eitthvað misskilið nafngift hússins…

Ertu með athyglisverða ábendingu?
Sendu okkur póst á ordid@eyjan.is - fyllsta trúnaðar gætt.
Þriðjudagur 5.12.2017 - 11:53 - Ummæli ()

Orðuveitingar

Orðið á götunni er að Jóhanna Sigurðardóttir, fyrrum forsætisráðherra, muni loksins þiggja Fálkaorðuna um næstu áramót úr hendi Forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessonar. Jóhanna hefur verið mikið í umræðunni undanfarið, gaf nýverið út ævisögu sína auk þess sem heimildarmynd um hana var sýnd á RÚV á dögunum. Jóhanna hefur afþakkað Fálkaorðuna þrívegis og má leiða líkur að því að það hafi nú eitthvað að gera með þáverandi forseta, Ólaf Ragnar Grímsson, en lítill vinskapur er milli þeirra tveggja, líkt og minnst er á í bók Jóhönnu. Auk þess er alþýðlegri konu vart hægt að finna, hún afþakkaði til dæmis á sínum tíma að hafa einkabílstjóra sem ráðherra. Hinsvegar, þar sem hennar pólitíska ferli er nú lokið og nýr bóndi kominn á Bessastaði, getur Jóhanna nú loksins leyft sér að þiggja þennan heiður, sem hún er vel að komin, staðreynd sem jafnvel hennar pólitísku andstæðingar ættu að geta viðurkennt. Þar að auki er hefð fyrir því að forsætisráðherrar fái slíkar viðurkenningar.

Ertu með athyglisverða ábendingu?
Sendu okkur póst á ordid@eyjan.is - fyllsta trúnaðar gætt.
Fimmtudagur 30.11.2017 - 16:27 - Ummæli ()

Hrókeringar

Orðið á götunni er að til greina komi að hrókera ráðherrastólum á kjörtímabilinu. Ljóst er að ákvörðunin um að fá Guðmund Inga Guðbrandsson í umhverfisráðuneytið var tekin í flýti til að lægja öldurnar í þingflokki Vinstri grænna. Ef Mummi, eins og hann er kallaður, verður til vandræða verður því hæglega hægt að fjarlægja hann úr ríkisstjórninni án mikilla eftirmála. Bæði Lilja Rafney Magnúsdóttir og Ari Trausti Guðmundsson tækju embættinu fagnandi.

Svandísar Svavarsdóttur bíður erfitt verkefni í heilbrigðisráðuneytinu og ef óánægjan með heilbrigðiskerfið meðal landsmanna og starfsmanna LSH heldur áfram að aukast gæti þurft að hrókera til í ráðuneytinu til að minnka þrýstinginn. Ef enginn vill taka verkefnið að sér er alltaf hægt að finna utanþingsráðherra.

Það er heldur ekkert launungarmál að Páll Magnússon vill ólmur frá ráðherrastól og ekki er útilokað að hann geti talað þingflokkinn til að hrókera sér inn í ríkisstjórnina ef Vinstri græn ákveða að breyta sinni uppröðun. Vandinn er hins vegar sá að ef Páll fær sínu fram er erfitt að ganga framhjá Brynjari Níelssyni og Jóni Gunnarssyni. Því er hægt að horfa fram á miklar hrókeringar eða pattstöðu til næstu fjögurra ára.

Ertu með athyglisverða ábendingu?
Sendu okkur póst á ordid@eyjan.is - fyllsta trúnaðar gætt.
Miðvikudagur 29.11.2017 - 10:33 - Ummæli ()

Fórnað á altari heilbrigðismálanna

Orðið á götunni er að ráðherrakapall Sjálfstæðisflokks, Framsóknar og Vinstri grænna sé um það bil að ganga upp. Miðað við nýjustu upplýsingar fær Katrín Jakobsdóttir forsætisráðuneytið og Bjarni Benediktsson fjármálaráðuneytið. Sjálfstæðisflokkurinn mun þurfa að losa sig við einn ráðherra til að koma Vinstri grænum og Framsóknarflokknum fyrir, mun því annað hvort Kristján Þór Júlíusson eða Jón Gunnarsson þurfa að víkja. Páll Magnússon, Brynjar Níelsson og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir þurfa einnig að kyngja þeim erfiða bita að þurfa að bíða lengur eftir ráðherraembætti. Birgir Ármannsson sömuleiðis.

Líklegast er að Guðlaugur Þór Þórðarson haldi utanríkisráðuneytinu, Sigríður Andersen dómsmálaráðuneytinu og Þórdís K.R. Gylfadóttir iðnaðar- og ferðamálaráðuneytinu. Líklegast þykir að Kristján Þór verði samgönguráðherra.

Sigurður Ingi Jóhannsson fer þá ýmist aftur í sjávarútvegsráðuneytið nema hann verði  landbúnaðarráðherra. Lilja Alfreðsdóttir verður þá menntamálaráðherra. Þá er spurningin hver þriðji Framsóknarmaðurinn verður ráðherra, hvort það verði Willum Þór Þórsson, Þórunn Egilsdóttir eða þá Ásmundur Einar Daðason. Ef marka má samsæriskenningar Miðflokksmanna þá yrðu jól alla daga í Skagafirði ef Ásmundur Einar fær landbúnaðarráðuneytið.

Líklegt er að Ari Trausti Guðmundsson oddviti VG í Suðurkjördæmi verði ráðherra, þá líklegast umhverfisráðherra nema Svandís Svavarsdóttir fari aftur þangað. Eftir situr þá spurningin, hverjum verður fórnað á altari heilbrigðismálanna? Verður það Svandís, verður það Ari Trausti, verður það Lilja Rafney eða verður það villikötturinn Rósa Björk?

Ertu með athyglisverða ábendingu?
Sendu okkur póst á ordid@eyjan.is - fyllsta trúnaðar gætt.
Miðvikudagur 22.11.2017 - 13:45 - Ummæli ()

Skjálfa á beinunum

Orðið á götunni er að margir valdamenn skjálfi nú á beinunum í kjölfar þess að stjórnmálakonur í hundraða tali stigu fram gegn kynferðislegu ofbeldi og áreitni. Krafan er hávær um að nafngreina menn sem hafa áreitt konur og telja því margir aðeins tímaspursmál þangað til einstaka menn verða dregnir fram í sviðljósið, sakaðir um óeðlilega háttsemi.

Miðað við umfangið þá mun þetta mál verða lengi í umræðunni og óhjákvæmilegt að nýjar upplýsingar og frásagnir komi fram. Með áskorun kvennanna í gær voru birtar reynslusögur þar sem í sumum tilvikum er hægt að bera kennsl á viðkomandi. Til að mynda getur hver sem er flett upp hvaða karlmenn hafa gegnt embætti borgarstjóra á 21. öldinni, koma þar aðeins fimm menn til greina. Þar að auki átti atvikið sér stað í fjölmennri veislu í Viðey.

Í þessu tilviki veit gerandinn upp á sig sökina. Hann hefur því um tvennt að velja. Að bíða þangað til fjölmiðlar sem rætt hafa við vitni hafi samband og biðji hann um viðbrögð eða að stíga fram af fyrra bragði og biðjast afsökunar.

Fyrir valdamann í stjórnmálum eða stjórnsýslunni þýðir lítið að bera fyrir sig tjáningarfrelsi enda er enginn að tala um að hegna viðkomandi, aðeins að upplýsa um háttalag.

Ólíkt því sem margir halda fram skiptir ekki máli hvort lög hafi verið brotin í öllum tilvikum enda yrði samfélagsumræðan ansi rýr ef það mætti bara fjalla um háttalag sem tekið hefur verið fyrir af dómstólum. Fyrir utan að mörg atvikanna áttu sér stað fyrir mörgum árum jafnvel áratugum, þá fyrnast aldrei orð konu sem stígur fram. Stjórnmál snúast heldur ekki að öllu leyti um stefnu og skoðanir heldur um ímynd. Enginn frambjóðandi, forstjóri, forstöðumaður, deildarstjóri, sviðsstjóri, ráðherra eða framkvæmdastjóri vill vera sakaður um kynferðisofbeldi eða kynferðislega áreitni. Þó ekki komi til neinna eftirmála þá er skaðinn skeður.

Eru því margir valdamenn nú að renna yfir það í kollinum hvort þeir hafi á einhverjum tímapunkti brotið gegn einhverjum, sagt eitthvað eða klipið einhvern. Tíminn þar sem slíkt var talið í lagi bak við luktar dyr er kominn á enda. Við vitum það. Þeir vita það. Og skjálfa á beinunum.

Ertu með athyglisverða ábendingu?
Sendu okkur póst á ordid@eyjan.is - fyllsta trúnaðar gætt.
Mánudagur 20.11.2017 - 16:39 - Ummæli ()

Milli steins og sleggju

Orðið á götunni er að það sem helst standi í vegi fyrir stjórnarsáttmála Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks sé orðalagið, en vanda þarf orðavalið vel til að fá þingflokkana þrjá til að ekki aðeins styðja myndun ríkisstjórnarinnar, heldur til að halda henni á lífi til ársins 2021.

Þeir sem þekkja til segja að Katrín hafi verið treg til þess að ræða ríkisstjórnarsamstarf með þessum flokkum, sérstaklega þar sem þetta hafa fram að þessu verið höfuðandstæðingar Vinstri grænna, bæði þegar VG sat í ríkisstjórn frá 2009 til 2013 og þegar VG var í stjórnarandstöðu í stjórnartíð Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks 2013 til 2016. Stríðsöxin hafi hins vegar verið grafin þegar Bjarni og Sigurður Ingi voru tilbúnir til að samþykkja þau helstu atriði sem Katrín kom með að samningaborðinu.

Þó að Katrín nái að koma öllum áhersluatriðum Vinstri grænna í stjórnarsáttmálann þá er ekki þar með sagt að friður muni ríkja innan flokksins enda margir þar innandyra sem sjá rautt þegar minnst er á Sjálfstæðisflokkinn. Svipað er uppi á teningnum í Valhöll en í minna mæli miðað við grein Þórs Whitehead í Morgunblaðinu í dag þar sem hann sagði ótækt að borgaralegur flokkur færi í ríkisstjórn undir forystu róttæks vinstriflokks. Er strax farið að bera á fylgishruni VG í skoðanakönnunum þar sem á vinstri vængnum er um auðugan garð að gresja þegar kemur að stjórnmálaflokkum.

Í núverandi stjórnmálaástandi er ekki endilega best að mynda ríkisstjórn út frá því hversu mörgum atriðum flokkurinn nær fram í stjórnarsáttmála þó að á blaði sé það einmitt hlutverk formanns í stjórnarmyndunarviðræðum. Má því segja að Katrín sé milli steins og sleggju þegar kemur að því að mynda ríkisstjórn.

Ertu með athyglisverða ábendingu?
Sendu okkur póst á ordid@eyjan.is - fyllsta trúnaðar gætt.
Fimmtudagur 9.11.2017 - 15:27 - Ummæli ()

Stólaleikurinn að hefjast

Orðið á götunni er að nú þegar Sjálfstæðisflokkurinn stefnir í viðræður með VG og Framsókn, muni Bjarni Benediktsson vera tilbúinn til þess að láta Katrínu Jakobsdóttur eftir forsætisráðuneytið.
Hinsvegar geri hann kröfu um að Sjálfstæðisflokkurinn fái þá þeim mun fleiri ráðuneyti önnur og líklegt telst að hann ásælist fjármála- og efnahagsráðuneytið, innanríkisráðuneytið, atvinnuvega og nýsköpunarráðuneytið, en láti VG og Framsókn eftir velferðaráðuneytið, mennta- og menningarmálaráðuneytið, umhverfis- og auðlindarráðuneytið og utanríkisráðuneytið, sem er líklegt að fari til Framsóknar.

Það er mál manna að þetta gæti verið klókur leikur hjá Bjarna, þar sem almennari sátt gæti náðst um Katrínu Jakobsdóttur meðal almennings og þingsins, en líka vegna þess að Katrín þyrfti þá að taka hitann og þungann ef illa fer, sem virðast örlög flokka sem starfa með Sjálfstæðisflokki í ríkisstjórn.

Með því að bjóða Katrínu forsætisráðherrastólinn gæti Bjarni einnig komist hjá erfiðum málamiðlunum varðandi skattamál og auðlindagjald, nokkuð sem sjálfstæðismönnum hrýs hugur við, en mun vafalaust vera eitt af forgangsmálum VG í stjórnarmyndunarviðræðum.

Líklegt verður að teljast að Sigurður Ingi, formaður Framsóknarflokksins, sætti sig fyllilega við tvö ráðuneyti í besta falli, þó líklegra þyki að flokkurinn fái aðeins eitt ráðuneyti, í ljósi úrslita kosninganna. Þá má heyra á tali Sigurðar Inga, að hann vilji frekar hafa Katrínu sem forsætisráðherra heldur en Bjarna Ben.

Ljóst er þó að hinn sígildi stólaleikur fer senn að hefjast.

Ertu með athyglisverða ábendingu?
Sendu okkur póst á ordid@eyjan.is - fyllsta trúnaðar gætt.
Fimmtudagur 26.10.2017 - 17:50 - Ummæli ()

Lokaskotin

Orðið á götunni er að nú séu í gangi lokaskotin fyrir kosningarnar á laugardag. Stór hluti kjósenda svarar ekki könnunum eða hefur ekki ákveðið hvað á að kjósa. Enn fleiri kjósendur eru svo á báðum áttum með hvað þeir eigi að kjósa, hvort þeir eigi að kjósa taktískt til að koma í veg fyrir að atkvæði sitt falli niður dautt eða til að koma í veg fyrir líklegt ríkisstjórnarsamstarf með einhverjum tilteknum flokki.

Lokaskot rétt fyrir kosningar einkennast helst af því þegar frambjóðandi kemur fram og segir eitthvað nýtt til þess að reyna að sannfæra einhvern tiltekinn hóp.

Birgir Ármannsson í Sjálfstæðisflokki skaut einu slíku lokaskoti í Morgunblaðinu í dag þegar hann biðlaði til þeirra sem hallast að Miðflokknum, Viðreisn, Framsókn eða Flokki fólksins að kjósa frekar Sjálfstæðisflokkinn til þess að tryggja hægristjórn í landinu.

Logi Einarsson í Samfylkingunni skaut á Sjálfstæðisflokkinn og biðlaði til milli- og lágtekjuhópa með tölum um skattaáform Sjálfstæðisflokksins.

Óttarr Proppé í Bjartri framtíð skaut á Sigmund Davíð Gunnlaugsson og Miðflokkinn vegna kunnuglegra loforða Sigmundar um að gefa landsmönnum pening, eða í þessu tilviki eignarhlut í banka.

Sigmundur Davíð í Miðflokknum skaut óbeint á Flokk fólksins með því að ræða um útlendingamálin og biðlaði til kjósenda sem vilja hörð útlendingalög. Skaut hann einnig á Sjálfstæðisflokkinn og Framsóknarflokkinn fyrir að hafa samþykkt núverandi útlendingalög.

Viðskiptablaðið, sem hefur hingað til beint spjótum sínum að vinstrimönnum, skaut svo í dag á Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur formann Viðreisnar og minnti lesendur á kúlulánið sem hrakti hana úr stjórnmálum á sínum tíma. Er þetta skot ekki síst áhugavert þar sem Viðskiptablaðið sjálft hefur kvartað undan því að atburðir frá 2008 séu rifjaðir upp, en ólíkt umfjöllun Stundarinnar sem byggir á áður óbirtum gögnum þá virðist tilgangur Viðskiptablaðsins aðeins vera að rifja upp kúlulánið, sem er sjálfsagt að gera fyrst að um er að ræða stjórnmálamann sem hafnar leyndarhyggju. Hver veit nema Stundin og Reykjavík Media fjalli um mál Þorgerðar Katrínar og eiginmanns hennar ef það leka einhver gögn úr Kaupþingi einn góðan veðurdag.

Magnús Þór Hafsteinsson í Flokki fólksins svaraði skoti Sigmundar Davíðs og biðlaði til þeirra sem vilja hert útlendingalög og talaði um stjórnleysi og „glæpalýð“ sem kæmi hingað undir formerkjum hælisumsókna.

Vésteinn Valgarðsson í Alþýðufylkingunni skýtur á þá sem standa fyrir skoðanakönnunum en Alþýðufylkingin er iðulega flokkuð sem „aðrir flokkar“, það er ekki oft sem það sést stjórnmálamaður sem vill að greint sé frá pilsnerfylgi flokksins síns í fjölmiðlum.

Enn eiga eftir að berast lokaskot frá Viðreisn og Framsóknarflokki en það er heill dagur eftir, fyrir utan þetta myndband frá Framsóknarflokknum sem virðist eiga að höfða til þeirra sem höfðu gaman af kökuskreytingum Bjarna Benediktssonar:

Ertu með athyglisverða ábendingu?
Sendu okkur póst á ordid@eyjan.is - fyllsta trúnaðar gætt.
Þriðjudagur 24.10.2017 - 06:49 - Ummæli ()

Aftur í borgina?

Orðið á götunni er að frambjóðendur Bjartrar framtíðar séu þegar byrjaðir að uppfæra ferilskrána fyrir komandi afhroð á laugardaginn. Flokkurinn mælist varla með fylgi og í nýjustu könnun Félagsvísindastofnunar mældist flokkurinn með fordæmalaust 0,0% fylgi í einu kjördæmi. Þó að könnunin sé ekki fullkomlega marktæk þá eru skilaboðin frá kjósendum alveg skýr.

Það er áhugavert að skoða feril Bjartrar framtíðar síðastliðna 12 mánuði, flokkurinn náði inn á þing í síðustu kosningum með því að hjóla í búvörusamninginn og sameinaðist nánast Viðreisn í stjórnarsamsstarfi við Sjálfstæðisflokkinn. Í ríkisstjórn týndust þingmenn flokksins í ráðuneytunum  á meðan grasrótin hélt heim í sína gömlu flokka. Hrokafull viðbrögð ráðherra flokksins í kjólamálinu alræmda, sem var klæðskerasniðið að Áramótaskaupinu, komu síðan í veg fyrir að Björt framtíð gæti talist trúverðugur flokkur þegar kemur að siðbótum ráðamanna. Flokkurinn reyndi vissulega að endurheimta trúverðugleikann í augum stuðningsmanna sinna með því að slíta stjórnarsamstarfinu en það var einfaldlega of seint, grasrótin og stuðningsfólk Besta flokksins var þegar farið annað. Meira að segja Jón Gnarr sjálfur.

Þó að Björt framtíð hverfi af þingi á laugardaginn þá verður flokkurinn áfram til, a.m.k. fram á næsta vor. Flokkurinn er hluti af meirihluta bæjarstjórna og í borgarstjórn Reykjavíkur. Í viðtali í þættinum Harmageddon ræddi Óttar Proppé formaður Bjartrar framtíðar um stjórnmálin, vakti athygli margra hlustenda þegar hann var spurður um sveitarstjórnarmálin og Óttarr gat hreinlega ekki hamið sig í að ræða málefni Reykjavíkurborgar. Óttarr var hluti af hallarbyltingu Besta flokksins  í ráðhúsinu á sínum tíma og þekkir vel til málefna borgarinnar. Ef Óttarr dettur af þingi á laugardaginn og situr í starfsstjórn fram á næsta ár á meðan greitt er úr yfirvofandi stjórnarkreppu, hver veit nema hann freisti þess þá að fara bara aftur í borgina.

Ertu með athyglisverða ábendingu?
Sendu okkur póst á ordid@eyjan.is - fyllsta trúnaðar gætt.

Eyjan Media ehf. - Kringlunni 4-12, Reykjavík - eyjan(hjá)eyjan.is