Svamlað í tímans þunga straumi
Ritstjóri: Illugi Jökulsson
03.11 2011

Afmælisbarnið

  • María Antonetta

    María Antonetta, eða Marie Antoinette, fæddist 2. nóvember 1755. Hún var fimmtánda og næstyngsta barn Maríu Teresu keisaraynju af Austurríki og eiginmanns hennar, Frans I. Árið 1770, er hún var tæplega 15 ára, gekk hún að eiga krónprins Frakklands sem varð 1774 konungur undir nafninu Loðvík sextándi. María var upphaflega vinsæl en eftir því sem hagur landsmanna versnaði jukust óvinsældir hennar, þar eð hún þótti eyðslusöm og hirðulaus um hag almennings. Það er hins vegar eintóm lygi að hún hafi spurt í forundran: “Af hverju éta þau ekki kökur?” þegar henni var sagt að þjóðin ætti ekki brauð að borða. Við frönsku byltinguna 1789 gerði hún heiðarlega en misheppnaða tilraun til að bregðast við af virðingu við alþýðuna, og brást hetjulega við dauða sínum þegar hún var leidd undir fallöxina 1793.

Sögulegar bækur

  • Ný útgáfa Eddukvæða

    Andy Orchard er fræðimaður í engilsaxnesku, forníslensku, keltnesku og skyldum greinum. Hann er nú prófessor við háskólann í Toronto og nýlega kom út hjá Penguin Classics útgáfunni þýðing hans á Eddukvæðum. Skemmst er frá því að segja að þetta er bók sem allir Íslendingar ættu að gefa öllum þeim útlensku vinum, sem þeir ímynda sér að hafi áhuga á fornri menningu íslenskri – og raunar norrænni og germanskri, ef út í það er farið. Umsjónarmaður Tímans rásar ætlar ekki að þykjast hafa borið saman á vísindalegan hátt þýðingar Orchards og annarra sem fyrr hafa spreytt sig á kvæðunum, en þýðingar hans eru svo glöggar og skýrar að vart hefur betur verið gert – auk þess sem maður fær góða hugmynd um bókmenntalegt gildi kvæðanna. Þá eru í bókinni afar greinargóðar skýringar, og í heild er þessi nýja útgáfa Penguin Classics til verulegs sóma. Hér er þýðing Orchards á hinni frægu 76. vísu Hávamála: “Cattle die, kinsmen die, / oneself dies just the same. / But words of glory never die / for the one who gets a good name.”


Tímans rás á enda runnin

Tímans rás hefur prýtt Eyjuna frá því í mars á þessu ári, og hefur verið höfundi sínum og vonandi fleirum ósvikin skemmtun. Síðan hefur að vísu kostað mun meiri tíma en til stóð í upphafi, og tekur sér nú ótímabundið leyfi frá störfum, meðan skrifari hennar snýr sér að öðrum verkefnum. Lesendum síðunnar skal þökkuð samfylgdin þessa átta mánuði, og hver veit nema síðan birtist aftur þegar minnst varir!

Orð dagsins

Það gerðist ...

  • Balfour-yfirlýsingin

    Þann 2. nóvember 1917 var utanríkisráðherra Bretlands, James Arthur Balfour, út yfirlýsingu um málefni Palestínu, en breskar hersveitir voru einmitt þá í óða önn að leggja svæðið undir sig og hrekja Ottómana-Tyrki burt. Gyðingar höfðu í vaxandi mæli flust til Palestínu og sóttust eftir því að fá að ráða þar ráðum, en fyrir voru að sjálfsögðu arabískir íbúar. Þessi stefna Gyðinga kallaðist Zíonismi, og höfðu zíonistar leitað mjög eftir stuðningi Breta. Balfour gaf að lokum út yfirlýsingu sem hljóðaði svo: “Ríkisstjórn hans hátignar líta með velþóknun á að í Palestínu verði komið á fót þjóðarheimili Gyðingaþjóðarinnar og mun leggja sig alla fram um að af því geti orðið, enda liggi ljóst fyrir að ekkert verði gert sem leggi stein í götu borgaralegra og trúarlegra réttinda þeirra íbúa sem fyrir eru í Palestínu og tilheyra ekki Gyðingum …” Þessa yfirlýsingu notuðu zíonistar síðan sem réttlætingu þess að færa sig æ meira upp á skaftið í Palestínu. Þeir litu þó fyrst og fremst til fyrri hluta yfirlýsingarinnar, en hneigðust til að gleyma seinni hlutanum.