Svamlað í tímans þunga straumi
Ritstjóri: Illugi Jökulsson
01.09 2011

Ný útgáfa Eddukvæða

Andy Orchard er fræðimaður í engilsaxnesku, forníslensku, keltnesku og skyldum greinum. Hann er nú prófessor við háskólann í Toronto og nýlega kom út hjá Penguin Classics útgáfunni þýðing hans á Eddukvæðum. Skemmst er frá því að segja að þetta er bók sem allir Íslendingar ættu að gefa öllum þeim útlensku vinum, sem þeir ímynda sér að hafi áhuga á fornri menningu íslenskri - og raunar norrænni og germanskri, ef út í það er farið. Umsjónarmaður Tímans rásar ætlar ekki að þykjast hafa borið saman á vísindalegan hátt þýðingar Orchards og annarra sem fyrr hafa spreytt sig á kvæðunum, en þýðingar hans eru svo glöggar og skýrar að vart hefur betur verið gert - auk þess sem maður fær góða hugmynd um bókmenntalegt gildi kvæðanna. Þá eru í bókinni afar greinargóðar skýringar, og í heild er þessi nýja útgáfa Penguin Classics til verulegs sóma. Hér er þýðing Orchards á hinni frægu 76. vísu Hávamála: "Cattle die, kinsmen die, / oneself dies just the same. / But words of glory never die / for the one who gets a good name."