Þriðjudagur 07.06.2016 - 11:47

Skilur ekki hvernig tónlistin fannst

ASDFHG

Orri og Steinunn

Hljómsveitina Asdfhg skipa þau Steinunn Jónsdóttir og Orri Úlfarsson. Samstarf þeirra hófst eftir að hljómsveitin hafði þegar unnið til verðlauna og hið undarlega nafn hljómsveitarinnar er tilkomið af einskærri tilviljun. Orri sagði blaðamanni betur frá hljómsveitinni sem er að slá rækilega í gegn hjá tónlistarsenunni hérlendis.

Steinunn og Orri eru nemendur við Menntaskólann í Hamrahlíð en þau hafa bæði lagt stund á tónlistarnám og grúskað ýmislegt í tengslum við tónsmíði. Þrátt fyrir áralanga vináttu vissu þau ekki að bæði voru að búa til svipaða tónlist í sitthvoru horninu.

„Við erum tiltölulega nýmynduð elektrónísk hljómsveit sem byggir á starfi sem Steinunn vann Kraumsverðlaunin fyrir á síðasta ári. Fyrst var hún sem sagt ein í hljómsveitinni en eftir að ég vissi af tilvist hennar fékk ég að vera með. Síðan þá höfum við unnið sjúklega mikið í þessari tónlist og gengið alveg rosalega vel.“

Þrátt fyrir stutt samstarf hafa viðtökurnar verið rosalega góðar en hljómsveitin spilaði á tónlistarhátíðinni Sónar og er bókuð í allskyns gigg í sumar. En hverskonar hljómsveit er þetta og hvurslags tónlist spilar hún?

„Við spilum svokallaða „low fi“ mínímalíska raftónlist. Ég veit ekki til þess að þetta sé heitt í dag en okkur finnst skemmtilegt að gera þessa tónlist og erum meira að vinna þetta fyrir okkur sjálf þó það sé virkilega ánægjulegt að aðrir vilji hlusta. “

„Low fi“ stendur fyrir low fidelity og er formerki tónlistar sem tekin er upp í minni gæðum en annars tíðkast við upptökur á nútíma tónlist. Því er oft um að ræða tónlist sem er tekin upp í heimahúsi við minni tækni en annars gengur og gerist.

Orri segir þau Steinunni vinna og semja tónlistina jafnt. Þegar þau spila á tónleikum tekur Steinunn að sér sönginn en sjálfur sér hann tæknilegu hlið tónlistarinnar.

„Við vinnum þetta að mestu leyti saman en oftast gerist það þannig að annaðhvort okkar er andvaka og fer þessvegna að búa til eitthvað sem það sýnir svo hinu daginn eftir. Við eigum bæði við töluverð svefnvandamál að stríða sem nýtist okkur blessunarlega vel í tónlistinni“ Segir Orri og hlær að óförm og vinnuaðferðum þeirra samstarfsfélaganna.

Tilviljanir ráða för

Það virðist margt vera tilviljunum háð í tengslum við hljómsveitina Asdfhg. Vinirnir voru óaðvitandi að gera eins tónlist sem þau vissu ekki til þess að aðrir væru að fíla sem kom svo í ljós að væri að falla vel í landann. En hvaða merkingu hefur nafnið Asdfhg, var hljómsveitinni gefið nafnið af einhverri ástæðu?

„Nafnið hefur enga merkingu og hljómsveitin heitir þessu nafni óvart. Steinunn gerði fyrstu plötuna, Steingervingur. Hún setti hana á netið en vildi ekki að neinn myndi finna hana og þessvegna setti hún þetta inn undir þessu bullnafni. Fólkið sem stóð að Kraumsverðlaununum fann plötuna fyrir tilviljun og hélt að þarna væri á ferðinni hljómsveit sem héti þessu nafni. Í kjölfarið vann Steinunn Kraumsverðlaunin og hefur furðað sig mikið á því hvernig tónlistin fannst. Hún hefur ekki komist til botns í þessu máli ennþá. Tónlistin var ekki einu sinni skráð hérlendis heldur á einhverjum sveitabæ í Póllandi. Þetta er því hið undarlegasta mál en fínasta nafn.“

Með allt á netinu

Asdfhg hefur gefið út tvær plötur þ.e. Steingervingur eftir Steinunni sem hún setti í sakleysi sínu á internetið síðastliðið haust og svo plötuna Skammdegi sem þau gáfu nýlega út saman. Báðar plöturnar eru aðgengilegar öllum á heimasíðunni www.asdfhg.bandcamp.com

„Við erum með allt á netinu. Það geta allir hlaðið niður plötunum okkar en svo er hægt að kaupa þær ef einhver hefur hug á að styrkja hljómsveitina. Okkur finnst mikilvægt að tónlistin sé aðgengileg því við teljum það líklegra að fólk vilji hlusta á okkur ef við erum ekki að neyða það til þess að borga okkur pening fyrir. Okkur finnst gamaldags að hugsa um tónlist sem einhverskonar neysluvöru og teljum mikilvægara að fólk geti fengið að njóta tónlistarinnar af vild.“

Það er greinilegt að hér eru á ferðinni metnaðarfullt tónlistarfólk með miklar hugsjónir og því viðeigandi að spyrja að lokum, hvert stefnir hljómsveitin Asdfhg?

„Við erum hvorugt búin að ákveða hvað við viljum gera í framtíðinni. Í augnablikinu fílum við þetta vel og ætlum bara að leyfa þessu að spilast. Við stefnum ekkert heldur sjáum bara hvert þetta leiðir okkur.„

 
Þriðjudagur 11.10.2016 - 11:40

„Ekkert gaman ef værum alltaf tvö ein!“

Leikararnir Sólveig Guðmundsdóttir og Sveinn Ólafur Gunnarsson leika um þessar mundir hjón í sýningunni „Sóley Rós ræstitæknir“ sem sýnd er í Tjarnabíó og hefur fengið frábæra dóma og góða aðsókn. Sagan er áhrifarík og fjallar um foreldra sem missa barnið sitt í fæðingu. Samstarf Sólveigar og Sveins er þó ekki nýtt á nálinni því þau hafa á undanförnum árum leikið saman í 10 uppfærslum bæði á sviði, í sjónvarpi og […]

Þriðjudagur 11.10.2016 - 11:38

Heimilisvörur sem skapa hughrif

Erla Gísladóttir, er með grunn úr snyrti- og listfræði. Hún hefur alltaf haft þörf fyrir að skapa og búa til eitthvað í höndunum. Í dag freistar hún þess að lifa af sköpunarkraftinum og framleiðir heimilislínu sem ætlað er að skapa góð hughrif. Að baki hverju smáatriði í vörum hennar eru miklar pælingar þar sem hún byrjar oftast nær vöruþróunina í eldhúsinu heima hjá sér hvort sem er að blanda ilmi […]

Miðvikudagur 14.09.2016 - 14:07

Flatey er ávanabindandi

Vinkonurnar Jóhanna Friðrika Sæmundsdóttir (Jósa) og Hera Sigurðardóttir hafa verið samstarfsfélagar til margra ára á sumrin við Hótel Flatey. Þær segja Flatey vera orkustöð sem endurnýjar þær á hverju sumri og að þær séu orðnar háðar samlífinu þar við menn og dýr. Í gær lokuðu þær hótelinu að sinni og náðist tal af þeim á leið til Reykjavíkur. Blaðamaður spyr: Hversvegna Flatey stelpur? Þær svara í kór: „Hefur þú ekki […]

Mánudagur 22.08.2016 - 18:40

Skautabani í hjólaskautaati

 Fyrir fjórum árum fékk Eyrún Þóra Guðmundsdóttir í hendur kynningarefni um Hjólaskautaat (Roller derby)á Íslandi. Hjólaskautaat er jaðaríþrótt sem hefur á undanförnum áratugum verið að ryðja sér til rúms úti í heimi. Eyrún Þóra ákvað að slá til og mætti á æfingu ásamt vinkonum sínum. Hún kolféll fyrir sportinu og hefur stundað það af kappi síðan. Eyrún Þóra Guðmundsdóttir er 25 ára þjóðfræðinemi og starfar sem landvörður í Skaftafelli í […]

Föstudagur 19.08.2016 - 22:33

Íslandsmeistari sem var aldrei mikið fyrir íþróttir

Fyrir fjórum árum stefndi Leifur Leifsson á jöklaferð á heimagerðum sleða. Undirbúningsferlið krafðist styrktarþjálfunar og hóf hann þá að æfa hjá Crossfit Reykjavík. Í dag er hann sterkasti fatlaði maður Íslands í sitjandi flokki og síðar í mánuðinum keppir hann fyrir Íslands hönd á heimsmeistaramótinu fyrir fatlaða í aflraunum sem haldið verður á Englandi.  Crossfit heimurinn heillaði „Þetta byrjaði upphaflega á því að ég ætlaði uppá Hvannadalshnjúk á handknúnum sleða […]