Miðvikudagur 03.08.2016 - 21:17

Goretex á daginn en varalitur og dansskór á kvöldin

8SJ2282

Sandra Ósk Snæbjörnsdóttir, jarðfræðingur


Um verslunarmannahelgina verður skip frá National Geographic ásamt 150 ferðamönnum á siglingu umhverfis Ísland. Um borð verður einnig úrvalslið íslenskra kvenna sem ætlað er að kynna íslenskt samfélag fyrir ferðamönnunum og svara öllum þeim spurningum sem kunna að koma upp. Ein þeirra er jarðfræðingurinn Sandra Ósk Snæbjörnsdóttir.

 

Úrvalslið kvenna um borð

„National Geographic er upprunalega tímarit sem fjallar um náttúrufræði og fjarlægar slóðir og er skreytt með fallegum og oft á tíðum ótrúlegum ljósmyndum. Í dag er fyrirtækið orðið miklu stærra og meira, og auk tímaritsins er það meðal annars virkt á samfélagsmiðlunum, heldur úti frábærri heimasíðu, rekur sjónvarpsstöð og ferðaskrifstofu Ferðaskrifstofan býður uppá ævintýrasiglingar og um helgina verður skip frá þeim á Íslandi. Þau sérhæfa sig í ferðum á óhefðbundnar slóðir til þess að skoða náttúruperlur. Ísland er náttúrulega heimsfrægt fyrir sína náttúru og þessvegna fullkomin áfangastaður á þeirra vegum. Í ferðinni verður m.a. boðið uppá kajakferðir, fuglaskoðun, plöntuskoðun, jarðfræðileiðsögn og fleira. “

En hversvegna verður þú með um borð?

„Lögð er áhersla á að kynna lífið í landi fyrir ferðamönnum. Þó svo að þeim gefist ekki kostur á að kynnast samfélaginu frá fyrstu hendi þá verðum við nokkuð fjölbreytt lið íslenskra kvenna um borð og okkur er ætlað að kynna land og þjóð og geta svarað helstu spurningum. Á kvöldin verða pallborðsumræður þar sem við sitjum fyrir svörum. Auk mín sem er jarðfræðingur verður Silja Bára Ómarsdóttir stjórnmálafræðingur, Ragna Árnadóttir aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar og fyrrverandi dómsmálaráðherra og Hrund Gunnsteinsdóttir frumkvöðull og framkvæmdastjóri Krád consulting. Boðið verður uppá mat úr íslensku hráefni um borð og Sigríður Thorlacius og Valdimar Guðmundsson munu taka lagið fyrir gesti á kvöldin. Það verður sem sagt reynt að varpa ljósi á fjölbreyttar hliðar samfélagsins um borð. “

Spennandi tækifæri

Skipið siglir frá Reykjavíkurhöfn á föstudagseftirmiðdegi og kemur í höfn aftur á þriðjudagsmorgun. Viðkomustaðir í ferðinni eru meðal annars Látrabjarg, Flatey og Hornstrandir. Þetta hlýtur að teljast nokkuð óvenjulegt verkefni fyrir jarðfræðing. Ertu spennt fyrir ferðinni?

„Já mjög! Ég er að prófa eitthvað nýtt því ég hef aldrei verið lengur á bát en nokkra klukkutíma í senn. Ég er þokkalega að stökkva út fyrir þægindarammann en hlakka til að sjá Ísland frá sjó. Svo er þetta fullkomið tækifæri fyrir jarðfræðinginn í mér sem fílar að klæðast Goretex á daginn en vera í hælum með varalit á kvöldin.“

Þarftu að undirbúa þig fyrir ferðina og við hvaða spurningum máttu búast?

„Já, mér bauðst að taka þátt í þessu verkefni í kjölfar umfjöllunar um doktorsverkefnið mitt sem fjallar um kolefnisbindinguna á Hellisheiði. Mín vitneskja ætti að geta bætt einhverju við það sem hinar konurnar um borð geta varpað ljósi á. Ég kem með þennan eiturhressa raunvísindavínkil og býst við spurningum um til dæmis loftlagsmálin og áhrif loftlagsbreytinga sem sjást einna mest í náttúru Íslands. “

En ertu stressuð eða kvíðin fyrir einhverju?

„Ég vona að ég verði ekki mjög sjóveik og að ég geti svarað flestum þeim spurningum sem ég fæ. Nú svo er ég með einn lítinn brjóstamjólkurdreng heima og vona að ég tryllist ekki úr söknuði í hans garð. En fyrst og fremst hlakka ég ótrúlega mikið til. Þetta verður bara spennandi„

Segir Sandra að lokum og það leynir sér ekki að þarna býður National Geographic íslenska jarðfræðingnum uppá ótrúlega spennandi og skemmtilegt tækifæri.

 
Þriðjudagur 11.10.2016 - 11:40

„Ekkert gaman ef værum alltaf tvö ein!“

Leikararnir Sólveig Guðmundsdóttir og Sveinn Ólafur Gunnarsson leika um þessar mundir hjón í sýningunni „Sóley Rós ræstitæknir“ sem sýnd er í Tjarnabíó og hefur fengið frábæra dóma og góða aðsókn. Sagan er áhrifarík og fjallar um foreldra sem missa barnið sitt í fæðingu. Samstarf Sólveigar og Sveins er þó ekki nýtt á nálinni því þau hafa á undanförnum árum leikið saman í 10 uppfærslum bæði á sviði, í sjónvarpi og […]

Þriðjudagur 11.10.2016 - 11:38

Heimilisvörur sem skapa hughrif

Erla Gísladóttir, er með grunn úr snyrti- og listfræði. Hún hefur alltaf haft þörf fyrir að skapa og búa til eitthvað í höndunum. Í dag freistar hún þess að lifa af sköpunarkraftinum og framleiðir heimilislínu sem ætlað er að skapa góð hughrif. Að baki hverju smáatriði í vörum hennar eru miklar pælingar þar sem hún byrjar oftast nær vöruþróunina í eldhúsinu heima hjá sér hvort sem er að blanda ilmi […]

Miðvikudagur 14.09.2016 - 14:07

Flatey er ávanabindandi

Vinkonurnar Jóhanna Friðrika Sæmundsdóttir (Jósa) og Hera Sigurðardóttir hafa verið samstarfsfélagar til margra ára á sumrin við Hótel Flatey. Þær segja Flatey vera orkustöð sem endurnýjar þær á hverju sumri og að þær séu orðnar háðar samlífinu þar við menn og dýr. Í gær lokuðu þær hótelinu að sinni og náðist tal af þeim á leið til Reykjavíkur. Blaðamaður spyr: Hversvegna Flatey stelpur? Þær svara í kór: „Hefur þú ekki […]

Mánudagur 22.08.2016 - 18:40

Skautabani í hjólaskautaati

 Fyrir fjórum árum fékk Eyrún Þóra Guðmundsdóttir í hendur kynningarefni um Hjólaskautaat (Roller derby)á Íslandi. Hjólaskautaat er jaðaríþrótt sem hefur á undanförnum áratugum verið að ryðja sér til rúms úti í heimi. Eyrún Þóra ákvað að slá til og mætti á æfingu ásamt vinkonum sínum. Hún kolféll fyrir sportinu og hefur stundað það af kappi síðan. Eyrún Þóra Guðmundsdóttir er 25 ára þjóðfræðinemi og starfar sem landvörður í Skaftafelli í […]

Föstudagur 19.08.2016 - 22:33

Íslandsmeistari sem var aldrei mikið fyrir íþróttir

Fyrir fjórum árum stefndi Leifur Leifsson á jöklaferð á heimagerðum sleða. Undirbúningsferlið krafðist styrktarþjálfunar og hóf hann þá að æfa hjá Crossfit Reykjavík. Í dag er hann sterkasti fatlaði maður Íslands í sitjandi flokki og síðar í mánuðinum keppir hann fyrir Íslands hönd á heimsmeistaramótinu fyrir fatlaða í aflraunum sem haldið verður á Englandi.  Crossfit heimurinn heillaði „Þetta byrjaði upphaflega á því að ég ætlaði uppá Hvannadalshnjúk á handknúnum sleða […]