Mánudagur 22.08.2016 - 18:40

Skautabani í hjólaskautaati

Eyrún Þóra Guðmundsdóttir

Eyrún Þóra Guðmundsdóttir

 Fyrir fjórum árum fékk Eyrún Þóra Guðmundsdóttir í hendur kynningarefni um Hjólaskautaat (Roller derby)á Íslandi. Hjólaskautaat er jaðaríþrótt sem hefur á undanförnum áratugum verið að ryðja sér til rúms úti í heimi. Eyrún Þóra ákvað að slá til og mætti á æfingu ásamt vinkonum sínum. Hún kolféll fyrir sportinu og hefur stundað það af kappi síðan.

Eyrún Þóra Guðmundsdóttir er 25 ára þjóðfræðinemi og starfar sem landvörður í Skaftafelli í sumar. Áður en hún byrjaði í hjólaskautaati hafði hún ekki æft íþróttir af ráði en hafði hug á að byrja að stunda einhverskonar hreyfingu. Hana grunaði þó ekki að jaðaríþróttagrein ætti eftir að spila stóra rullu í lífi hennar né að hjólaskautaat yrði hennar helsta áhugamál og ástríða.

„Fyrir fjórum árum síðan fór ég í Hinseigingönguna með vinkonum mínum. Þar voru stelpur að dreifa kynningarefni um Roller derby á Íslandi og vinkonur mínar urðu mega spenntar fyrir þessu. Ég var meira að hugsa að mig langaði til þess að fara að æfa eitthvað og ákvað að slá til vegna þess að vinkonur mínar voru svona áhugasamar. Í dag eru þær allar hættar og ég er komin á fullt í þetta“

Hjólaskautaat er nýyrði yfir Roller derby á íslensku. Hingað til hefur félagsskapurinn kallað sig Roller derby Ísland en nú verður breyting þar á.

„Já það er gaman að segja frá því að íþróttin er það ný hérlendis að við vorum bara að taka upp þetta nafn „hjólaskautaat“. Innganga í ÍSÍ (Íþróttasamband Íslands) hefur meðal annars strandað á því að ekki var til íslenskt heiti yfir íþróttagreinina. Við óskuðum þessvegna eftir áliti frá Árnastofnun sem komst að þeirri niðurstöðu að þetta væri besta orðið. Nú heitir þetta ekki lengur Roller Derby Iceland heldur hjólaskautaat.“

Lítið hefur borið á hjólaskautaati eða keppnum því tengdu á Íslandi og fáir sem kannski átta sig á því út á hvað þetta gengur. Er hægt að segja frá því í einföldu máli?

„Já, þetta er svokölluð jaðaríþrótt þar sem leikmenn spila á hjólaskautum. Hópíþrótt þar sem fimm skautarar spila saman í einu og keppt er á sporöskjulaga braut. Einn í liðinu er kallaður „Jammer“ og svo eru fjórir svokallaðir „Blokkerar“. Jammerinn er með stóra stjörnu á hjálminum og skorar stig fyrir liðið sitt með því að hringa (innskot blaðamanns: skauta einum hring meira en hinir í brautinni) aðra skautara úr hinu liðinu. Blokkerarnir mynda veggi á brautinni til að koma í veg fyrir að Jammerinn úr hinu liðinu nái að komast að þeim og hringa þá. Svo er þetta sýning sem gaman er að fylgjast með því hver spilari á sitt keppnisnafn og margir spila með einkennsimálingu í andliti. Áður fyrr var keppt í kjólum, tjútjúpilsum, netasokkabuxum, hnéháum sokkum og stuttum stuttbuxum. Undanfarin ár hefur þetta verið að færast í íþróttamanslegri klæðnað og er það liður í því að fá viðurkenningu á sportinu.„

Eyrún Þóra segir menninguna í kringum hjólaskautaatið einstaka og sérlega skemmtilega. Þá koma liðsfélagarnir að öllum hliðum er tengjast sportinu sem framkallar mikla ástríðu.

„Þetta er ólíkt öllum öðrum íþróttum enda erum við að gera allt sjálf. Ég hef til dæmis verið að skipuleggja það að fá lið frá útlöndum til Íslands því við höfum enga til að keppa við. Sem betur fer er Ísland í tísku svo allir vilja koma hingað. Svo hefur þetta hingað til fyrst og fremst verið kvennasport og aðallega konur sem keppa í því. Það er þó eitthvað að breytast og karlar farnir að sýna þessu meiri áhuga. “

Eyrún Þóra talar af mikilli innlifun og augljóst að áhuginn er mikill. Hún hvetur alla forvitna til þess að kynna sér byrjendanámskeið haustins og kýla á þetta.

„Í dag æfum við í Kórnum í Kópavogi tvisvar sinnum í viku og það eru 14 keppendur í liðinu, allt stelpur. En það er stefnan að stofna fleiri lið, við erum til dæmis búnar að stofna lið sem keppir á Eurocup í spemtember en þar keppa íslenskar stelpur sem æfa og keppa erlendis fyrir okkar hönd. Svo er hugmyndin að stofna fljótlega blandað lið sem getur þá keppt á móti öðrum blönduðum liðum. “

Að lokum bendir Eyrún Þóra á að hægt sé að nálgast frekari upplýsingar á facebook síðunni Roller Derby Iceland og á heimasíðunni rollerderby.is. Byrjendanámskeið hefjast í september.

 

 
Þriðjudagur 11.10.2016 - 11:40

„Ekkert gaman ef værum alltaf tvö ein!“

Leikararnir Sólveig Guðmundsdóttir og Sveinn Ólafur Gunnarsson leika um þessar mundir hjón í sýningunni „Sóley Rós ræstitæknir“ sem sýnd er í Tjarnabíó og hefur fengið frábæra dóma og góða aðsókn. Sagan er áhrifarík og fjallar um foreldra sem missa barnið sitt í fæðingu. Samstarf Sólveigar og Sveins er þó ekki nýtt á nálinni því þau hafa á undanförnum árum leikið saman í 10 uppfærslum bæði á sviði, í sjónvarpi og […]

Þriðjudagur 11.10.2016 - 11:38

Heimilisvörur sem skapa hughrif

Erla Gísladóttir, er með grunn úr snyrti- og listfræði. Hún hefur alltaf haft þörf fyrir að skapa og búa til eitthvað í höndunum. Í dag freistar hún þess að lifa af sköpunarkraftinum og framleiðir heimilislínu sem ætlað er að skapa góð hughrif. Að baki hverju smáatriði í vörum hennar eru miklar pælingar þar sem hún byrjar oftast nær vöruþróunina í eldhúsinu heima hjá sér hvort sem er að blanda ilmi […]

Miðvikudagur 14.09.2016 - 14:07

Flatey er ávanabindandi

Vinkonurnar Jóhanna Friðrika Sæmundsdóttir (Jósa) og Hera Sigurðardóttir hafa verið samstarfsfélagar til margra ára á sumrin við Hótel Flatey. Þær segja Flatey vera orkustöð sem endurnýjar þær á hverju sumri og að þær séu orðnar háðar samlífinu þar við menn og dýr. Í gær lokuðu þær hótelinu að sinni og náðist tal af þeim á leið til Reykjavíkur. Blaðamaður spyr: Hversvegna Flatey stelpur? Þær svara í kór: „Hefur þú ekki […]

Mánudagur 22.08.2016 - 18:40

Skautabani í hjólaskautaati

 Fyrir fjórum árum fékk Eyrún Þóra Guðmundsdóttir í hendur kynningarefni um Hjólaskautaat (Roller derby)á Íslandi. Hjólaskautaat er jaðaríþrótt sem hefur á undanförnum áratugum verið að ryðja sér til rúms úti í heimi. Eyrún Þóra ákvað að slá til og mætti á æfingu ásamt vinkonum sínum. Hún kolféll fyrir sportinu og hefur stundað það af kappi síðan. Eyrún Þóra Guðmundsdóttir er 25 ára þjóðfræðinemi og starfar sem landvörður í Skaftafelli í […]

Föstudagur 19.08.2016 - 22:33

Íslandsmeistari sem var aldrei mikið fyrir íþróttir

Fyrir fjórum árum stefndi Leifur Leifsson á jöklaferð á heimagerðum sleða. Undirbúningsferlið krafðist styrktarþjálfunar og hóf hann þá að æfa hjá Crossfit Reykjavík. Í dag er hann sterkasti fatlaði maður Íslands í sitjandi flokki og síðar í mánuðinum keppir hann fyrir Íslands hönd á heimsmeistaramótinu fyrir fatlaða í aflraunum sem haldið verður á Englandi.  Crossfit heimurinn heillaði „Þetta byrjaði upphaflega á því að ég ætlaði uppá Hvannadalshnjúk á handknúnum sleða […]