Laugardagur 28.5.2011 - 00:20 - Ummæli ()

Þorsteinn Pálsson er ekki á leið aftur í pólitík en er svartsýnn: Þarf hófsemdarstjórn miðju- og hægriafla

Mynd: Pressphotos.biz

Þú varðst ungur maður formaður stærsta stjórnmálaflokks þjóðarinnar og forsætisráðherra, hættir stjórnmálaafskiptum og varðst sendiherra, en ert nú aftur orðinn mjög áberandi í þjóðmálaumræðunni. Ólgar pólitískur eldur enn í þínum æðum?

[kassi]Ég hef frekar hlotið ámæli fyrir að vera rólegur í tíðinni[/kassi] Nei. Ég hef frekar hlotið ámæli fyrir að vera rólegur í tíðinni. Sendiherrastarfið fannst mér um margt gefandi. Það var líka hollt að horfa á íslensk stjórnmál úr fjarlægð um tíma. Hitt er annað að það er erfitt að kenna gömlum hundi að sitja. Embættismennska er mikil list. En fyrir mig var svolítið þrúgandi að hafa ekki sama frelsi og áður til að tjá mínar eigin skoðanir. Það væri ofmælt að tala um eld í æðum en einhvern veginn var betra að losna við bönd embættismennskunnar. Ég sneri heim eftir sex ár. Það má fremur líkja því við óvissuferð en að ég hafi stefnt að einhverju sérstöku markmiði. Skömmu eftir að ég kom heim bauðst mér að ritstýra Fréttablaðinu. Það var einstaklega skemmtilegt að takast á við blaðamennskuna á nýjan leik. Þar byrjaði ég á sínum tíma. Núna er ég með fleiri járn í eldinum eins og ég hafði vonast til að geta gert. En reglubundnum skrifum fylgir að maður verður að hafa skoðanir á því sem er að gerast. Meðan mér finnst ég hafa eitthvað fram að færa og einhverjir nenna að lesa það sem ég skrifa held ég áfram. Þetta er einfaldlega nýr kafli í lífshlaupinu sem ég nýt og hef ánægju af.

Hvers vegna ákvaðstu að láta af störfum sem ritstjóri Fréttablaðsins?

Ég hafði alltaf hugsað þetta sem tímabundið verkefni.

Hvernig þótti þér að sitja undir ásökunum að vera í Baugsliðinu, sem kallað var?

Það snerti mig ekki. Á Fréttablaðinu var ég bara í liði með sjálfum mér og blaðamönnunum eins og blaðið vitnar best um. Annars er þetta gamalt herbragð í pólitískum refskap sem menn læra með því að lesa Furstann. Það felst í því að nota ekki rök heldur aðdróttanir sem andstæðingarnir eða aðrir þeir sem mönnum er í nöp við eiga síðan að afsanna eða þvo hendur sínar af. Jónas frá Hriflu kunni þetta líka.

Bitnaði eignarhaldið á Fréttablaðinu?

Helstu blöðin, Morgunblaðið og Fréttablaðið, hafa verið í eigu umdeildra manna í viðskiptalífinu. Trúnaður og traust blaðanna ræðst hins vegar mest af því sem þau hafa fram að færa. Við sjáum að lestur Morgunblaðsins hefur verið að hrapa upp á síðkastið meðan lestur Fréttablaðsins styrkist. Á hvorugu blaðinu hefur þetta nokkuð með eignarhaldið að gera. Það eru ritstjórnirnar sem gera gæfumuninn. Hitt er annað að fyrir sérhvern fjölmiðil er betra til lengri tíma litið að athygli manna beinist meir að honum sjálfum en eigendunum.

Þú situr í samninganefnd Íslands gagnvart Evrópusambandinu. Hvernig ganga viðræðurnar?

Mynd: Pressphotos.biz

Fram til þessa hafa þær gengið vel. Utanríkisráðherrann og aðalsamningamaður hafa stýrt þessu yfrgripsmikla ferli af röggsemi og skynsemi. Nú er hins vegar komið að vatnaskilum þegar tæknilega hluta viðræðnanna lýkur. Á fyrsta fundi samninganefndarinnar á sínum tíma lét ég bóka andstöðu mína við þau áform ríkisstjórnarinnar að ætla að ljúka málinu og koma samningi í þjóðaratkvæðagreiðslu án tillits til þess hvort meirihluti væri á Alþingi fyrir samningi. Ástæðan var sú að ég sá ekki hvernig unnt var að fara í efnislegar umræður í andstöðu við einstaka ráðherra. Hvað þá heldur að unnt væri að ljúka samningum. Jafnframt lét ég bóka það álit mitt að stefna ríkisstjórnarinnar í sjávarútvegsmálum myndi veikja samningsstöðu Íslands. Áður en ég tók sæti í nefndinni hafði ég gert utanríkisráðherra grein fyrir þessum fyrirvörum mínum. Það er nú að koma á daginn eins og sjá mátti fyrir að þessi ágreiningur stjórnarflokkanna torveldar framgang málsins þegar kemur að því að taka efnislega afstöðu til hlutanna sem gera þarf smám saman. Þessi kaka lýtur sama náttúrulögmáli og aðrar að það er ekki hægt að gera hvort tveggja að geyma hana og éta. Eini málamiðlunarmöguleikinn í stöðunni er að annar hvor stjórnarflokkanna gefi eftir grundvallarafstöðu sína eins og VG gerir í varnarmálum.

En getur Samfylkingin ekki eins gefið eftir?

Jú. Reynslan sýnir að hún er málefnalega veikari aðilinn í samstarfinu og hefur gefið meira eftir á öllum sviðum. Það var auðvitað uppgjöf af hálfu Samfylkingarinnar að fallast á að hefja þessa vegferð án efnislegs stuðnings við málið því að hún hafði í upphafi ríkisstjórnarmöguleika VG í hendi sér. Þá stöðu hefur Samfylkingin hins vegar misst. Mesta hættan núna er að stjórnarflokkarnir sammælist um að ýta málinu á undan sér í ágreiningi inn á næsta kjörtímabil og láti sem ekkert sé að. Gerist það grefur það bæði undan trausti gagnvart fólkinu í landinu og viðmælendunum. Það er slæmt frá sjónarhóli þeirra sem vilja verja íslenska hagsmuni með aðild. Það lýsir veikleika ríkisstjórnarinnar að geta ekki látið atkvæði ganga um tillögur sem mæla fyrir um að stöðva viðræðurnar. Það er brýnt til að eyða óvissu. Þessi veikleiki fer ekki framhjá viðmælendum okkar. Aðgerðir ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum eru einnig að færa okkur fjær því að uppfylla þau efnahagslegu- og fjármálalegu skilyrði sem eru forsenda aðildar. Það sýnir að Samfylkingin virðist meta önnur pólitísk viðfangsefni meira en aðildina.

Er í gangi aðlögunarferli eins og sumir Vinstri grænir og raunar fleiri vilja vera láta? Ögmundur Jónasson hefur m.a. viðurkennt hér í viðtali við mig að hann hafi gert mistök með því að styðja málið þannig.

Ég ætla engum þingmanni að vita ekki hvað felst í því að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Ákvörðun Alþingis felur í sér að Ísland stefnir að aðild. Jafnframt er lýst mikilvægum sérhagsmunum sem þarf að verja. Það er unnt innan ákveðinna marka ekki síst þegar þjóðarhagsmunir eru í húfi. En það gengur enginn í stúku nema vilji hans standi til þess að vera í félagi við aðra sem ekki neyta áfengis. Að sama skapi óskar engin þjóð eftir aðild að Evrópusambandinu nema vilji hennar standi til að vera í þeim félagsskap á grundvelli þeirra meginreglna sem um hann gilda. Heimssýn bjó til þessa kenningu fyrir þingmenn VG að þeir hefðu samþykkt aðildarumsókn en ekki aðlögun að aðild. Það var gert í þeim tilgangi að fá meirihluta á Alþingi fyrir tillögum um stöðvun viðræðna. Það liggur hins vegar í augum uppi að viðræðurnar eru ferli sem miðar að aðild. Umsóknarríkið þarf á þeim tíma að sýna að það fullnægi þeim kröfum sem aðildin lýtur og semja um sína sérhagsmuni. Það er óheiðarlegt að draga fjöður yfir þessa staðreynd. Þeir sem ekki eru reiðbúnir að axla ábyrgð á viðræðum á þessum grundvelli eiga að koma heiðarlega fram með því að láta athafnir fylgja orðum. Sú tvöfeldni sem kemur fram í orðum og gerðum ríkisstjórnarflokkanna grefur undan trúverðugleika Íslands, ekki bara á þessu sviði heldur í víðari skilningi.

Þú hefur sagt að þingmeirihluti þyrfti að vera á bak við umsóknarferli Íslands. Sú er varla staðan nú, eða hvað?

Í mínum huga hefur alltaf verið ljóst að samningar við erlend ríki og alþjóðastofnanir takast ekki nema að baki standi traustur meirihluti á Alþingi. Sá stóri minnihluti kjósenda Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins sem styður aðildarumsóknina á ekki fulltrúa á Alþingi í réttu hlutfalli við stærð sína. Það er pólitískt vandamál að Alþingi endurspeglar ekki með réttum hætti vilja fólksins í þessum efnum. Þetta er lýðræðislegt viðfangsefni sem stjórnmálaflokkarnir sem í hlut eiga þurfa að leysa. Hugsun VG er sú að ábyrgjast efnislega mögulegan aðildarsamning sem utanríkisráðherra undirritar með fyrirvara en snúast síðan gegn honum í þjóðaratkvæði. Þeir reyna að selja þetta sem hástig lýðræðislegrar hugsunar. Í reynd er þetta bara tvöfalt siðgæði eða pólitískur loddaraskapur.

Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra sagði í viðtali við mig hér á þessum vettvangi í síðustu viku að með þessu værir þú ekki að taka inn í myndina stöðuna innan Sjálfstæðisflokksins þar sem Hádegismóri, væntanlega Davíð Oddsson ritstjóri Morgunblaðsins, réði í raun ríkjum. Hvað viltu segja um þetta?

Mér er mætavel ljóst að mín sjónarmið eru í minnihluta í Sjálfstæðisflokknum, að vísu er það nokkuð öflugur minnihluti. Sú staða breytir hins vegar ekki þeirri sannfæringu minni að aðild er rökrétt framhald af þeirri grundvallarstefnu í utanríkismálum sem forystumenn Sjálfstæðisflokksins mótuðu með inngöngunni í NATO á sínum tíma og hefur þróast síðan til enn víðtækari samvinnu með Evrópuþjóðunum. Þessi tilvísun utanríkisráðherra í stöðuna í Sjálfstæðisflokknum er á hinn bóginn vísbending um að það sé ekki alls kostar rétt sem forystumenn Samfylkingarinnar hafa haldið fram að aðildarmálið sé skilyrði þeirra fyrir stjórnarþátttöku. Það má skilja þetta sem svo að þeir geti hugsað sér að nota það sem afsökun fyrir eftirgjöf gagnvart VG að um málið er ekki eining í Sjálfstæðisflokknum. Það er nýtt fyrir mér að Sjálfstæðisflokkurinn geti þannig haft áhrif á stefnu Samfylkingarinnar.

Þú hefur verið sakaður um að hafa brugðist Sjálfstæðisflokknum ásamt fleiri aðilum þegar þið tókuð þátt í auglýsingaherferð fyrir ESB-aðild fyrir síðustu kosningar, undir merkjum sammala.is. Varstu að bregðast þínum gamla flokki á ögundurstundu eða koma í veg fyrir að stuðningsmenn aðildar hyrfu frá stuðningi við flokkinn?

Allir sem til þekkja vita að þátttaka margra þekktra sjálfstæðismanna í þessari aðgerð fékk fjölda Evrópusinnaðra kjósenda til að treysta því að flokkurinn myndi taka á þessum málum af yfirvegun. Þetta stöðvaði meira atkvæðatap en ella hefði orðið. Kosningarnar voru fyrst og fremst uppgjör við gjaldmiðilshrunið og bankahrunið. Þetta voru aðstæður sem núverandi forysta flokksins bar ekki ábyrgð á.

Mynd: Pressphotos.biz

Það er löng saga á bak við samskipti og baráttu ykkar Davíðs Oddssonar. Hann felldi þig á sínum tíma í formannskjöri á landsfundi, en síðar sastu í ríkisstjórnum hans sem ráðherra. Nú hafið þið báðir gerst ritstjórar og tekið virkan þátt í þjóðmálaumræðunni, en virðist oft á algjörlega öndverðum meiði. Eimir enn eftir af landsfundinum?

Þetta er svolítið þreytt spurning þótt hún sé skiljanleg. Eru ekki tveir áratugir frá þessum átakafundi? Það er heil kynslóð vaxin úr grasi síðan sem kærir sig kollótta um pólitískar fornsögur af þessu tagi. Ef ég á að segja þér eins og er hef ég aldrei lagst til hvílu með ólund í garð annarra manna og aldrei vaknað til nýs dags með slíkan hugsanahnút í kollinum. Satt best að segja hef ég alltaf staðið í þeirri trú að það væri óhollt fyrir sálina.

Davíð hefur sem ritstjóri gagnrýnt Bjarna Benediktsson eftirmann ykkar í formannsstóli harðlega, m.a. fyrir stuðning hans við Icesave-samkomulagið. Gerði Bjarni mistök í því máli?

[kassi]Forsetinn hefur með samþykki þingflokkanna breytt stjórnskipaninni á þann veg að ábyrgðarleysi borgar sig.[/kassi] Ég ákvað að styðja flokksformanninn í þessu máli. Mér fannst hann rökstyðja mál sitt vel og umfram annað sýna mikla ábyrgð. Árásirnar á hann fyrir þessar sakir hafa verið ómálefnalegar og ósanngjarnar. Hitt er svo annað mál að þjóðaratkvæðagreiðslan markar nokkur þáttaskil í íslenskri stjórnskipun. Ríkisstjórnin og stjórnarandstöðuflokkarnir tóku í sameiningu þátt í því með forseta Íslands að víkja til hliðar þeim siðferðilegu hugmyndum um ábyrgð sem menn voru lengst af sammála um að gilti þegar forseti beitti valdi sínu. Ábyrgðin felst í því að forsetinn víki ef hann tapar, ella ríkisstjórnin. Að víkja siðferðilegum undirstöðum stjórnskipunarinnar til hliðar með þessum hætti er í meira lagi varasamt að mínu áliti. Í framtíðinni mun enginn stjórnarandstöðuflokkur axla ábyrgð með ríkisstjórn í erfiðum málum. Forsetinn hefur með samþykki þingflokkanna breytt stjórnskipaninni á þann veg að ábyrgðarleysi borgar sig. Það er ekki til auðnubótar.

Þú varst sjávarútvegsráðherra á fyrri tíð. Nú er stjórnkerfi fiskveiða enn til umræðu og LÍÚ segir ríkisstjórnina ætla að leggja atvinnugreinina í rúst með þjóðnýtingu. Hvernig líst þér á frumvarpið eins og það hefur verið kynnt?

Við höfum rekið sjávarútveginn í tvo áratugi á markaðsforsendum. Ríkisstjórnin hefur nú ákveðið að hverfa til miðstýringar- og millifærsluskipulags með félagsleg markmið að leiðarljósi. Það á að fjölga störfum og auka fjárfestingu til að veiða og vinna sama magn af fiski og áður. Þetta er sérhagsmunagæsla fyrir þá sem ríkisstjórnin vill að komi nýir inn í greinina. Ég efa ekki að ríkisstjórnin muni tryggja rekstraröryggi allra þrátt fyrir óhagkvæmnina. Hún mun flytja peninga frá almenningi til útgerðanna með gengislækkunum eins og áður var. Þó að útgerðarmennirnir geti treyst pólitískri fyrirgreiðslu af þessu tagi er þetta öndvert við hagsmuni almennings, sem þarf að borga brúsann. Um leið færir þetta okkur fjær því að uppfylla skilyrði um lága verðbólgu og samkeppnishæfa vexti. Ríkisstjórn undir forystu Samfylkingarinnar er vitandi vits með þessum aðgerðum að færa okkur fjær aðild að Evrópusambandinu. Það segir sína sögu. Á næstu tíu árum eða svo mun þetta rýra efnahag þjóðarinnar meira en hrunið. Munurinn er hins vegar sá að þetta er ásetningsverk.

Nær ríkisstjórnin að koma þessu máli gegnum þingið?

Það er ekki óhætt að reikna með öðru. Eina málið sem hún sýnist vera sammála um er andstaðan við núverandi markaðskerfi. Hún er hins vegar svo ósammála um hvað á að koma í staðinn að hún hefur lagt fram tvö frumvörp, eitt fyrir hvorn stjórnarflokkinn. Af hverju ekki eitt frumvarp fyrir hvern stjórnarþingmann?

Hvernig meturðu stöðu stjórnarinnar, sem sumir segja að neiti hreinlega að falla þótt flest gangi henni í mót og deilur innan VG setji mark sitt á stöðuna?

Í byrjun virtist vera hik á Samfylkingunni að ganga jafn langt til vinstri og samstarf við VG útheimtir. Þær efasemdir virðast vera úr sögunni. Samfylkingin virðist vera hætt að höfða til kjósenda næst miðjunni. Ef þetta er rétt mat situr stjórnin út kjörtímabilið. Þó að ætla megi að hún falli í kosningum er sennilegast að hún verði endurvakin með þátttöku Framsóknarflokksins ef allt verður þá að öðru leyti óbreytt.

Þú tókst nýlega við sem formaður bankaráðs MP Banka. Hvernig kom það til?

Þú ættir að spyrja hluthafana að því. Þeir fóru fram á það við mig að ég tæki að mér að vera stjórnarformaður óháður hluthöfum. Eftir allmikla íhugun fannst mér freistandi að takast á við þetta spennandi verkefni sem er ný áskorun fyrir mig. Ég hef enn gaman af að takast á við ný verkefni.

Hefur þú kynnt þér nýtt eignarhald bankans og telurðu hann í stakk búinn fyrir samkeppni gegn ríkisbanka og tveimur bönkum í eigu skilanefnda?

Þetta er eini bankinn sem er í eigu þeirra sem af fúsum og frjálsum vilja hafa það að markmiði að reka og byggja upp samkeppnishæfan viðskiptabanka án annarra markmiða en að þjóna viðskiptavinunum. Bankinn er mun minni en gömlu bankarnir sem eru í eigu kröfuhafanna og ríkisins en sérstaða hans gefur honum sóknarfæri. Aðalatriðið er að fara fram af ábyrgð og hyggindum.

Af og til heyrast þær raddir að þú ættir að snúa aftur í íslensk stjórnmál. Er slíkt tal raunhæft?

Nei.

Hvernig finnst gömlum forsætisráðherra komið fyrir landinu sínu og íslenskum stjórnmálum?

[kassi]Ég tel að það þurfi hófsemdarstjórn miðju- og hægriafla með skýra framtíðarsýn um stöðu Íslands í alþjóðasamfélaginu[/kassi] Fremur illa. En tækifærin eru hérna á þessu landi ef menn geta unnið saman af heilindum. Ég tel að það þurfi hófsemdarstjórn miðju- og hægriafla með skýra framtíðarsýn um stöðu Íslands í alþjóðasamfélaginu, markaðsbúskap og vöxt, stjórn sem gerir sér grein fyrir því að það þarf verðmætasköpun til að verja velferðina. Gallinn er sá að enginn flokkanna hefur lýst áhuga á að miðla málum með þessum hætti á miðju stjórnmálanna. Svo einkennilegt sem það er sýnist mér að VG sé óskasamstarfsflokkur allra hinna. Sumir vilja VG Steingríms en aðrir VG Ögmundar. Meðan við svo búið situr er ég fremur svartsýnn á framhaldið.

Nýtt laugardagsviðtal með Birni Inga birtist vikulega á Eyjunni.