Laugardagur 16.04.2011 - 01:00 - Ummæli ()

Þráinn Bertelsson er tilbúinn að verða ráðherra: Við Össur erum bara vinir og frændur, ekki hjón.

Þráinn Bertelsson Mynd: Pressphotos.biz

Hangir líf ríkisstjórnar Samfylkingarinnar og Vinstri grænna ekki á margnefndum bláþræði eftir atburði vikunnar, þar sem enn fækkaði í liði stuðningsmanna stjórnarinnar og vantrausti var afstýrt á þingi?

Nei, aldeilis ekki. Ríkisstjórnir hafa ekki gott af því að hafa öllu rýmri meirihluta en þessi stjórn hefur. Stjórnin er nýbúin að standast með glans ósköp máttlausa vantraustsatlögu, hefur meirihluta og á sér ýmsa velunnara meðal stjórnarandstöðunnar, og síðast en ekki síst eru þeir Bjarni Benediktsson og Sigmundur Davíð ekki orðnir þeir þungaviktarmenn né leiðtogar að Jóhönnu og föruneyti henni stafi nein veruleg hætta af þeim.

Stjórnarandstaðan byggist á afneitun og óánægjusífri en ekki skýrum valkostum og allra síst hefur stjórnarandstaðan lagt fram marktækar lausnir sem þjóðarfylgi er við. Hún hefur hengt sig í Icesave og ESB-tuð þannig að allir eru fá hlustarverk þegar Bjarni Benediktsson eða Sigmundur Davíð byrja að dósera í ræðustól. Hin illa ígrundaða vantrauststillaga og linkulegur og sannfæringarlaus rökstuðningur hefur þjappað stjórnarliðinu saman og það sem meira er, látið það renna upp fyrir stórum hluta þjóðarinnar að núverandi stjórn hefur lyft grettistaki hafandi tekið við samfélagi sem Sjálfstæðisflokkurinn lagði í rjúkandi rúst.

En kallar þetta ástand ekki á alþingiskosningar?

Kosningar og pólitísk upplausn akkúrat núna væru alíka þarflegar og eldgos eða aflabrestur. Nú þarf vinnufrið. Nú þarf kjarasamninga. Nú þarf þjóðin sitt sumarfrí í friði og spekt ótrufluð af lýðskrumi og pólitískum heimsendaspámönnum. Nú skulum við kasta mæðinni á miðju kjörtímabili bestu stjórnar í sögu lýðveldisins og safna kröftum fyrir þá miklu uppbyggingu sem bíður handan við hornið.

Finnst þér ríkisstjórnin hafa staðið sig í að byggja skjaldborg fyrir heimilin eins og lofað var, eða í því að byggja upp atvinnu í landinu?

Þetta eru tvær spurningar. Tökum skuldsettu heimilin fyrst. Stutta svarið er nei. Ég vildi svipað og Framsóknarflokkurinn fara í skuldaleiðréttingu yfir línuna. Það var slegið út af borðinu og mér finnst það hafi verið mistök. Hins vegar hefur óneitanlega ýmislegt verið gert í skuldamálum heimilanna. Konan mín og ég borgum núna um 20 þús. á mánuði lægri afborgun af húsnæðisláni en áður en aðgerðir stjórnarinnar tóku gildi. Lánið okkar var að vísu ekki lækkað en okkur munar um þessa mánaðarlegu upphæð. Margvíslegar aðgerðir hafa hjálpað mörgu fólki. Það var samt alltaf ljóst að hrunið yrði dýrt spaug fyrir þjóðina. [kassi]En Davíð Oddsson er enginn Napóleon og Mogginn er engin Elba þótt hann sé lítill og ömurlegur.[/kassi]

Við Sólveig töpuðum því sem við höfðum lagt fyrir til elliáranna. Margir fóru miklu ver út úr hruninu en við, en engin ríkisstjórn hefði getað komið í veg fyrir að fólk fyndi fyrir því tjóni sem frjálshyggja og einkavinavæðing Davíðs Oddssonar og Sjálfstæðisflokksins hafa kallað yfir þjóðina.

Hvað varðar atvinnuuppbyggingu þá fæ ég gæsahúð þegar yfirlýstir einkaframtakssinnar byrja að væla um fyrirgreiðslu við atvinnurekstur, sérlög og undanþágur í stórum stíl og helst styrki líka. Grundvallarskylda ríkisins við atvinnulífið er að tryggja frið og öryggi og réttláta lagaumgjörð svo að framtaksamir einstaklingar hafi svigrúm til starfa. Ríkisstjórnin á ekki að búa til störf. Það eru nú þegar of margir sem starfa hjá ríkinu. Við þurfum fyrirtæki hérna sem geta borgað öðrum en forstjórunum mannsæmandi laun og við þurfum stórhuga athafnaskáld sem vilja sjá drauma sína rætast – en eru ekki stöðugt að reyna að upphugsa leiðir til að geta tappað af ríkinu.

Burtséð frá þessu þá eru einhverjar framkvæmdir í öllum landsfjórðungum sem ríkið kemur að með einum eða öðrum hætti, kjarasamningar eru í sjónmáli og SA fara vonandi bráðum að gera einhverjar kröfur líka til sjálfra sín.

En nær þessi stjórn að klára sín stærstu stefnumál? Er ekki til dæmis orðið ljóst, að lítið verður úr áformum um breytingar á kvótakerfinu þar sem Samtök atvinnulífsins telja það koma kjarasamningum í uppnám?

Ég veit að frumvarp um breytingar á kvótakerfinu er í pípunum þótt Jón Bjarnason hafi klikkað á að leggja það fram á áætluðum tíma í vor. Það bíður væntanlega haustsins. SA verða að gera sér það að góðu að skilja að það er Alþingi sem ræður aðgangi að auðlindum þjóðarinnar og kjarasamningarnir núna eru ekki rétti tíminn til að kúga þá sem hafa umboð fólksins í landinu.  Ég veit ekki hvort þessi stjórn nær að ná fram öllum sínum stærstu stefnumálum. Ef það tekst ekki á þessu kjörtímabili þá höldum við félagshyggjufólk bara áfram næstu kjörtímabil svo lengi sem þörf gerist. Þessi langpínda þjóð á núna umfram allt skilið nokkur góð ár án Davíðs og Sjálfstæðisflokksins.

Þú átt rætur í Alþýðubandalaginu og síðar Framsókn. Varst kosinn fyrir Borgarahreyfinguna en sagðir þig úr þingflokki þeirra og gekkst til liðs við þingflokk VG. Nú er þar allt orðið brjálað innandyra, að því er virðist. Sýnist þér að forysta Vinstri grænna hafi misst tiltrú sinna flokksmanna, eða hvernig má skýra illdeildur og brotthvarf þriggja þingmanna á skömmum tíma og andóf tveggja ráðherra flokksins?

Þetta er í megindráttum rétt, nema hvað meðan ég var ungur og vitlaus voru fyrstu stjórnmálafskipti mín þau að ég lét narra mig í Heimdall, og þingflokkur Borgarahreyfingarinnar liðaðist sundur, þannig að ég gerðist óháður þingmaður uns ég gekk til liðs við Vg. Ég er nú ekki búinn að vera það lengi í Vg að ég sé orðinn sérfræðingur í sögu flokksins og núverandi innviðum hans, en ég held að umsókn að Evrópusambandinu hafi komið of snemma í stjórnarsamstarfinu. Það var of mikill bægslagangur að afgreiða þetta mál á fyrstu dögum stjórnarinnar, og það ferli að sækja um aðild og leggja síðan aðildarsamninginn í dóm þjóðarinnar virðist að mínu mati ekki hafa verið nógu vel kynnt og rætt meðal flokksmanna og í stofnunum og deildum flokksins.

[kassi]Ég er varkárari og reyni að halda mig nær miðjunni. Ég sé fyrir mér Vg sem stóran stjórnmálaflokk með víða og almenna skírskotun.[/kassi]

Hvers vegna ganga sögusagnir um ósætti Steingríms J. Sigfússonar og Ögmundar? Ætlar Ögmundur sér að verða formaður Vg?

Ekki segir hann sjálfur, enda tel ég að möguleikar hans á að sameina flokkinn á bakvið sig séu vægast sagt takmarkaðir. Mér finnst Ögmundur mjög skemmtileg persóna og ég efast ekki um góðan vilja hans til að hugsa um hag þeirra sem helst eru hjálpar þurfi. Hins vegar held ég að við hugsum á dáldið ólíkan hátt. Mér finnst hann helst vilja halda sig á jaðrinum þar sem ísinn getur brotnað hvenær sem er. Ég er varkárari og reyni að halda mig nær miðjunni. Ég sé fyrir mér Vg sem stóran stjórnmálaflokk með víða og almenna skírskotun.

Nú gengu þær sögur, sem ekki voru dregnar til baka, að Ögmundur og Jón Bjarnason hefðu báðir sagt nei við Icesave-samningnum í atkvæðagreiðslunni, jafnvel þótt þeir hafi stutt málið við framlagningu þess og í atkvæðagreiðslu á þingi. Var þetta rætt í þingflokknum?

Já, ég held ég megi segja að þeir hafi verið inntir eftir því af hverju þeir hafi kosið að bera ekki til baka sögusagnir í fjölmiðlum um að þeir hafa sagt nei í kosningunum, hins vegar man ég ekki hvaða svör þeir hafa gefið en það eru hæg heimatökin að spyrja þá sjálfa.

Mynd: Pressphotos.biz

Telurðu að endurtekin upphlaup af þessu tagi séu eðlilegur þáttur í stjórnmálastarfi, eða renni stoðum undir fullyrðingar um að Vg sé ekki stjórntækur flokkur, eins og gagnrýnendur halda fram?

Ég held að Vg sé ekki einungis stjórntækur flokkur heldur lífsnauðsynlegur við endurreisn þjóðfélagsins. Eins og ég sagði áðan þá held ég að ESB-umsóknin hafa komið of bratt í upphafi stjórnarsamstarfs, og með henni hafi ágreiningur komið upp í röðum Vg. Þann ágreining hefði verið hægt að koma í veg fyrir með aðeins yfirvegaðri vinnubrögðum. Það var farið full hratt í bæði ESB umsókn og Icesave-samningana – enda tíðkast reyndar snör handtök við rústabjörgun.

Telurðu að mistök hafi verið gerð þegar Guðfríður Lilja Grétarsdóttir var tekin af sem þingflokksmaður?

Hún var nú reyndar ekki tekin af, heldur var hún ekki endurkjörin; kjörtímabil hennar var útrunnið fyrir löngu og hafði verið framlengt um marga mánuði og Árni Þór þótti nógu góður til að gegna því í hennar fjarveru. Það voru mér vonbrigði að ekki skyldi vera hægt að leysa þetta mál með öðrum hætti, enda skilaði ég auðu í kosningunni innan þingflokksins.

Í ljósi ástandsins þarna innandyra, voru mistök hjá þér að ganga til liðs við Vg?

Ef mig hefði dreymt um huggulega og rólega daga hefði ég auðvitað gengið í Samfylkinguna, en mér fannst þörfin meiri í Vg fyrir liðsmann sem væri heill í stuðningi sínum við stjórnina. Vg er líka í mínum huga nær mínum grundvallarhugsjónum sem eru jöfnuður, lýðræði og virðing fyrir umhverfinu.

Með jöfnuði vil ég leggja áherslu á tekjujöfnun, því að í auðugu landi eins og Íslandi byggist farsæld og hamingja þegnanna ekki lengur á stöðugum hagvexti heldur fyrst og fremst réttlátri og jafnri tekjuskiptingu í samfélaginu. Þetta er ekki bara mín skoðun heldur staðfesta ýmsar nýjar rannsóknir hana. Allt félagshyggjufólk verður að lesa bókina „The Spirit Level – Why Equality is Better for Everyone“ eftir Richard Wilkinson og Kate Picett. Samfylkingin er of snokin fyrir alskonar hagfræðibulli fyrir minn smekk, en ég vona samt að þessi félagshyggjuflokkar muni eiga langt og gott samstarf og allrahelst sameinast í framtíðinni.

Ráðfærðir þig þú við vin þinn Össur Skarphéðinsson áður en þú gekkst til liðs við flokkinn, því sumir töldu þetta velheppnaða áætlun til að styrkja þingmeirihlutann og fjölga stuðningsmönnum ríkisstjórnarinnar um einn?

Um það ráðgaðist ég bara við konuna mína. Við Össur erum bara vinir og frændur, ekki hjón.

Hvernig er sambandi ykkar háttað nú?

Við spjöllum saman þegar tóm gefst til í þinginu og fáum okkur jafnvel einstöku sinnum kaffi þess utan. Þá ræðum við bækur, stjórnmál almennt og svo náttúrlega fjölskyldumálin, svona eins og vinir gera. Össur er hlýr og vitur maður, dásamlegur húmoristi. Við erum í stórum dráttum sammála um margt í pólitík, en hann er í Samfylkingunni og ég í Vg.

Sagt er að líf ríkisstjórnarinnar sé í þínum höndum. Þú mátt til dæmis ekki kalla inn varamann án þess að óvíst sé um stjórnarmeirihlutann. Upplifir þú að fjöreggið sé hjá þér?

Nei, ekki lengur. Ég gerði það stundum meðan ég var formlega séð í stjórnarandstöðu. Ég er auðvitað meðvitaður um að mitt atkvæði vegur býsna þungt og mun notað það til þess að vinna þeim stefnumálum framgang sem ég var kosinn á þing fyrir á vegum Borgarahreyfingarinnar. [kassi]Ég er auðvitað meðvitaður um að mitt atkvæði vegur býsna þungt.[/kassi]Ný stjórnarskrá er í vinnslu. Nú vil ég fara að sjá ný lög um persónukjör. Það stefnir í að þær lýðræðisumbætur sem löðuðu mig að Borgarahreyfingunni séu í sjónmáli og þá finnst mér ekki til einskis barist. Auk þess er ég ákaflega stoltur af því að hafa eftir mætti stutt við þessa velferðarstjórn við þá rústabjörgun sem var hlutskipti hennar þegar hún tók við landi sem lá í sárum eftir tveggja áratuga frjálshyggjufyllerí á kostnað almennings, launafólks. Svo lengi sem menn halda að líf ríkisstjórnarinnar sé í mínum höndum vona ég að það sé í góðum höndum, því að hjarta mitt slær með almenningi í þessu landi, upp af þeirri rót er ég sprottinn.

Hefurðu sjálfur sóst eftir ráðherrasæti, eða muntu gera það?

Já, auðvitað. Ég hef mestalla ævina verið í einkaframtakinu og ráðið mér sjálfur. Ég er vanur að stjórna og óvanur því að vera í fótgönguliðinu. Persónulegum metnaði mínum hef ég þó að mestu leyti svalað á öðrum vettvangi. Ég er þekktur og ég er bjargálna og mér er einskis vant. Mér finnst mjög ágætt að þurfa ekki að bera meiri ábyrgð en ég geri. Reyndar hefði ég alveg getað hugsað mér að leysa Katrínu Jakobsdóttur af í fæðingarorlofinu hennar, en svo ákvað ég eftir svolitla umhugsun að sækjast ekki eftir því vegna þess að það hefði ruglað kynjajafnrétti í ríkisstjórn. Það sæmir mér ekki að ryðjast fram fyrir konur í Vg og mér finnst það eiginlega standa upp á ráðherra Vg að standa upp og sýna jafnréttisvilja sinn í verki með því að víkja fyrir konum til að jafna kynjahlutföll í ríkisstjórninni. Ég ætla ekki að notfæra mér stöðu mína til að ryðjast fram fyrir neinn, en ef mín er þörf til einhverra verka þá er ég reiðubúinn.

Nú er rætt um að styrkja þurfi ríkisstjórnina. Telur þú að það sé gerlegt en Jóhanna Sigurðardóttir haldi samt áfram sem forsætisráðherra?

Já, auðvitað. Steingrímur ætti reyndar skilið að fá tilbreytingu frá fjármálaráðuneytinu en mér sýnist hann því miður vera búinn að gera sig ómissandi þar í augnablikinu. Jóhanna og Steingrímur vinna vel saman og vinna mikið. Núna er tími Jóhönnu kominn í íslenskum stjórnmálum. Það er bara þannig.

Mynd: Pressphotos.biz

En hvað með annars konar uppstokkun? Til dæmis að Össur Skarphéðinsson eða Bjarni Benediktsson verði forsætisráðherra án þess að gengið verði til kosninga?

Ég get ekki ímyndað mér að Össur sækist eftir því núna og Bjarna vegna vona ég að honum detti það ekki í hug að hann hafi burði til að leiða ríkisstjórn fyrr en hann sjálfur hefur náð töluvert auknum þroska og flokkurinn hans öðlast lágmarks siðferðiskennd og fengið einhverja fyrirgefningu hjá þeim hluta þjóðarinnar sem öfugt við sjálfstæðismenn man enn eftir hruninu.

Í ljósi úrslita Icesave-atkvæðagreiðslunnar segja ýmsir að menn geti gleymt því að þjóðin samþykki nokkru sinni aðild að Evrópusambandinu í atkvæðagreiðslu. Ertu sammála því?

Alls ekki. Ég held að það sé mjög sterkur vilji fyrir því að klára þetta umsóknarferli svo að þjóðin geti sjálf ákveðið hvort hún vill ganga í þetta samband Evrópuþjóða. Það sjá flestir að ef þessari spurningu verður ekki svarað með fullnægjandi hætti og umsókninni verður kippt til baka þá mun þjóðin rífast næstu 20 árin um hvað hefði staðið til boða, um hvað hefði verið í pakkanum – og það rifrildi yrði engum til gleði.

Það er undarleg stemning í íslenskum stjórnmálum. Sagt er að harðir hægrimenn og þeir yst til vinstri nái nú saman um mörg mál, til að mynda utanríkismál. Hvernig stendur á þessu?

Þarna kemurðu alveg á mig flatan. Þetta er spurning sem ég hef oft velt fyrir mér. Hvern hefði grunað að Styrmir Gunnarsson, Davíð Oddsson, Ragnar Arnalds og Hjörleifur Guttormsson yrðu ofstopafullir samherjar?
[kassi]Hvern hefði grunað að Styrmir Gunnarsson, Davíð Oddsson, Ragnar Arnalds og Hjörleifur Guttormsson yrðu ofstopafullir samherjar?[/kassi] Þetta er kannski bara einhver athyglissýki hjá eldri borgunum sem eru dottnir út úr pólitík en sakna púðurreyksins á hinum pólitíska vígvelli? Ég botna ekkert í þessu, en mér þætti það mjög góð þróun ef ofstopa- og jaðarfólk í öllum flokkum gæti gefið venjulegu fólki vinnufrið og sameinast í einum flokki sem gæti þá til dæmis heitið Ofstopa- og jaðarhreyfingin og starfað með Einingar- og samstöðubandalagi Lilju Mósesdóttur og félaga.

 

Og segja sumir að Davíð Oddsson og Ólafur Ragnar Grímsson séu orðnir vopnabræður, að minnsta er kostir er samhljómur með þeim á ýmsum sviðum.

Já, mér finnst það til marks um dásamlega kaldhæðni örlaganna að Ólafur Ragnar skuli hafa bjargað Davíð Oddssyni úr skammarkróknum þarna á deyjandi LÍÚ-fjölmiðli og leitt hann inn í sviðsljósið á ný. Þetta sado-maso-samband þessara fyrrverandi stjórnmálamanna sem aldrei þóttu tiltakanlega vandir að meðölum er pínlegt að horfa uppá.

En heldurðu að Davíð Oddsson ætli sér endurkomu í pólitík? Hannes Hólmsteinn kallar eftir sterkum forystumönnum á borð við hann.

Napóleon dreymdi um endurkomu meðan hann var á Elbu og það fór ekki vel. En Davíð Oddsson er enginn Napóleon og Mogginn er engin Elba þótt hann sé lítill og ömurlegur.

En er ekki athyglisvert fyrir lífsreyndan mann eins og þig, sem lengi hefur tekið þátt í opinberri umræðu á Íslandi, að sjá nú forystufólk til síðustu áratuga vera orðið mest áberandi í henni á nýjan leik

Það segir mér að almenn stjórnmálaumræða er nú miklu frjálsari, ekki endilega skynsamlegri, en miklu frjálsari en meðan fjölmiðlun var að mestu í höndum dagblaða stjórnmálaflokka sem voru undir hörðum aga. Nú getur hvaða sótraftur sem er sagt hvað sem er á netinu og ef viðkomandi er frægur taka stærri fjölmiðlar það upp og sömuleiðis ef lítt þekktur aðili leggur eitthvað sérlega athyglisvert til málanna. Umræða um stjórnmál er opnari en áður. Vald stjórnmálaflokkanna hefur breyst og valdsvið þeirra minnkað. Að sumu leyti er þetta framför. Allt þróast. Allt breytist. Þannig er gangur lífsins.

Þú ert kvikmyndaleikstjóri, handritshöfundur og rithöfundur. Tekur ástandið nú í íslenskum samtíma dramatík skáldskaparins fram?

Því miður er það ekki eins spennandi og skemmtilegt og margir halda að gera kvikmyndir. Það er mikið og langdregið þolinmæðisverk. Það er líka þolinmæðisverk að skrifa bækur og sjaldan sem maður getur klappað sjálfum sér á bakið yfir fallega mótaðri hugsun eða vel skrifaðri setningu.

Ég held að pólitík sé líka þolinmæðisverk. „Maraþon-hlaup“ en ekki grindahlaup eins og Steingrímur kallaði fram í fyrir Bjarna Ben þegar Bjarni mælti fyrir vantrauststillögunni. Að fá einhverju áorkað í pólitík getur tekið langan tíma, en svo koma inn á milli spennandi augnablik, neistaflug og jafnvel flugeldasýningar. Á góðum degi nálgast pólitík það að vera list, rétt eins og listin nálgast það stundum að vera pólitík. Ég er lukkunnar pamfíll. Ég hef haft ánægju af flestu sem ég hef tekið mér fyrir hendur um dagana hérna í þessu besta landi af öllum mögulegum löndum.

Er þetta lokaversið þitt í pólitíkinni, eða muntu bjóða þig fram aftur í næstu kosningum?

Það fer eftir tvennu, langlífi sitjandi stjórnar og heilsufari mínu. Helst sé ég það fyrir mér að stjórnin sitji út kjörtímabilið og mér takist að hnika áfram þeim málum sem ég hef borið fyrir brjósti. Hins vegar gerðist það merkilegast á Íslandi á öldinni sem leið að ævialdur fólks lengdist um 20 ár og ég er við góða heilsu, svo að ef ég treysti mér í slaginn og tel mig geta komið að liði þá kemur til greina að halda áfram.  Ég held að aldur og reynsla séu vanmetnar auauðlindir sem við ættum að umgangast af meiri virðingu og kappkosta að nýta betur.

Nýtt laugardagsviðtal með Birni Inga birtist vikulega á Eyjunni.

»