Laugardagur 30.04.2011 - 14:57 - Ummæli ()

Kristján Þór vill landsfund í haust með fullum þunga: Afskiptasamir fyrrverandi forystumenn ljóður á íslenskri pólitík

 

Mynd: Pressphotos.biz

Er Sjálfstæðisflokkurinn að klofna eins og sumir vilja vera láta? Það er hart tekist á innan flokks um ýmis grundvallarmál og stóru orðin síst spöruð.

Þegar sjálfstæðismenn hætta að rökræða og takast á um hugmyndir mun Sjálfstæðisflokkurinn hætta að vera það hreyfiafl íslenskra stjórnmála sem hann hefur verið allt frá stofnun. Flokkur sem þolir ekki að tekist sé á um mál – stundum af töluverðri hörku, en af virðingu fyrir ólíkum skoðunum – er ekki upp á marga fiska. Mér hefur alltaf fundist það vera styrkur Sjálfstæðisflokksins að þar hafa menn getað tekist á en komið ósærðir frá orðræðunni og það sem meira er samhentir og sameinaðir.

Hvernig blasir við þér sem þingmanni flokksins að sjá forystumenn takast svo harkalega á innbyrðis, jafnvel gamla formenn?

[kassi]Það er ljóður á íslenskri pólitík hve afskiptasamir fyrrverandi forystumenn í öllum flokkum eru varðandi viðfangsefni þeirra sem tekið hafa við keflinu.[/kassi]Það er ljóður á íslenskri pólitík hve afskiptasamir fyrrverandi forystumenn í öllum flokkum eru varðandi viðfangsefni þeirra sem tekið hafa við keflinu. Þetta á við Sjálfstæðisflokkinn en ekki síður aðra flokka. Vissulega má tiltaka ýmislegt sem Bjarni Benediktsson, Þorsteinn Pálsson og Davíð Oddsson hafa sagt opinberlega síðustu mánuði, sem ég hefði kosið að hefði verið látið ósagt eða orðað með öðrum hætti.

Telur þú að Bjarni Benediktsson hafi sem formaður Sjálfstæðisflokksins gert mistök með afstöðu sinni í Icesave-málinu sem ýmsir flokksmenn eru honum svo reiðir yfir?

Mynd: Pressphotos.biz

Það er erfitt að gagnrýna menn sem fylgja sannfæringu sinni. En það er rétt að margir góðir sjálfstæðismenn eru reiðir yfir afstöðu meirihluta þingflokksins í Icesave-málinu. Og ég skil þá reiði – hún er eðlileg og sanngjörn. Ég held að við getum lært mikið af því hvernig við þingmenn Sjálfstæðisflokksins héldum á málinu – við vorum  ekki í því sambandi við flokksmenn sem við hefðum þurft að vera áður en tekin var afstaða í svo umdeildu máli, ekki síst þegar eindregin afstaða landsfundar er höfð í huga.

En Bjarni hafði flesta þingmenn og forystumenn flokksins með sér, þótt grasrótin hafi ef til vill verið á öðru máli, ekki satt?

Meirihluti þingflokksins fylgdi formanni Sjálfstæðisflokksins að málum þar sem menn töldu sig hafa nægilega sannfæringu um að fyrirliggjandi samningar við Hollendinga og Breta, væru viðunandi. En um leið var það eindregin afstaða allra þingmanna flokksins að ekki væri hægt að skuldbinda þjóðina með þeim hætti sem að var stefnt, nema með samþykki hennar. Því vildum við þjóðaratkvæðagreiðslu. Það var einnig niðurstaða nær allra þingmanna að halda sig frá umræðu um Icesave og lofa þannig almenningi og þá ekki síst sjálfstæðismönnum um allt land að taka til máls og greiða atkvæði eftir eigin sannfæringu en ekki af einhverri hollustu við flokksforystuna. Ég hygg að þetta hafi ráðið miklu um að þjóðin hafnaði Icesave í annað sinn.

Hver var skoðun þín á þeirri ákvörðun forsetans að skjóta Icesave-lögunum til þjóðaratkvæðagreiðslu?

Hún var rétt, enda taldi ég alla tíð að þingmenn hefðu ekki siðferðilegan rétt til að ganga frá Icesave-málinu án samþykkis meirihluta þjóðarinnar. Nauðasamningar við Breta og Hollendinga voru keyrðir í gegnum Alþingi undir lok árs 2009 með ofbeldi. Ég fullyrði að í  raun var ekki þingmeirihluti fyrir þeirri niðurstöðu. Um 93% landsmanna höfnuðu nauðasamningunum í þjóðaratkvæðagreiðslu á síðasta ári. Nýir samningar og að allra mati miklu hagstæðari, gáfu þingmönnum ekki siðferðilega heimild til að samþykkja samninga án samráðs við þjóðina.

Eiga ekki hefðbundin lögmál við um þessa ríkisstjórn? Lifir hún allt af, jafnvel  banatilræði?

Ef við líkjum ríkisstjórninni við áhöfn flugvélar, er ljóst að ég myndi ekki vilja vera farþegi í vélinni.  Áhöfnin er einnig að fara eitthvað allt annað en farþegarnir ætluðu. Verst er að stöðugt fleiri farþegar hafa sannfærst um að flugstjórinn kunni ekkert til verka og ætti í besta falli að vera farþegi aftur í vélinni. [kassi]Ef við líkjum ríkisstjórninni við áhöfn flugvélar, er ljóst að ég myndi ekki vilja vera farþegi í vélinni.[/kassi]

Formaður Öryrkjabandalags Íslands lýsti ástandinu nýlega á þennan veg: „Ástandið í landinu er skelfilegt. Það er hneysa að þessi ríkisstjórn skuli kennd við velferð“  og hann  metur það svo að mörg hundruð manns muni svelta á Íslandi á þessu ári.

Ríkisstjórnin er lögð upp í allt annað ferðalag en kjósendur veittu henni umboð til.

Telurðu að hún sitji út kjörtímabilið?

Mynd: Pressphotos.biz

Því miður óttast ég það, því það eru svo margir þingmenn sem treysta sér ekki til að mæta kjósendum. Þeir munu gera flest til að koma í veg fyrir að boðað verði til kosninga. Þar ráða ekki hagsmunir almennings.

Viltu sjá kosningar?

Já, það er nauðsynlegt að endurnýja umboð þingsins. Það er útséð með að þingmenn nái að breyta starfsháttum sínum í takt við þær kröfur sem gerðar eru út í þjóðfélaginu. Þingmenn, hvort sem þeim líkar það betur eða verr, verða því að leita eftir endurnýjuðu umboði. Margir munu örugglega frá nýtt umboð, en aðrir ekki og í stað þeirra koma nýir.

Kæmi til greina að Sjálfstæðisflokkurinn gangi til liðs við núverandi stjórnarflokka til þess að styrkja ríkisstjórnina?

Nei ekki undir neinum kringumstæðum. Við sjálfstæðismenn höfum lagt fram fjölda tillagna í góðri trú, tillögur sem miðað við að því að brjóta upp kyrrstöðuna og koma hjólum efnahagslífsins af stað og tryggja fjárhagslega stöðu heimila og fyrirtækja. Þessar tillögur hafa fallið í grýttan jarðveg. Ríkisstjórnin hefur farið sínu fram og því er staðan sú sem raun ber vitni.

Forystumenn í atvinnulífi hafa gagnrýnt forsætisráðherra harkalega. Ræður Jóhanna Sigurðardóttir við hlutverk sitt, að þínu mati?

Jóhanna Sigurðardóttir hefur setið manna lengst á Alþingi. Þar sannast að langur tími bjargar ekki  vondri reynslu. Núverandi stjórnarmeirihluta er stýrt af fjórum einstaklingum sem samanlagt hafa setið á þingi í nær 100 ár. Þetta eru Jóhanna, Össur Skarphéðinsson, Steingrímur J. Sigfússon og Ögmundur Jónasson. Forsætisráðherra fellur ágætlega inn í þennan hóp og gengur ágætlega að spila á stjórnarmeirihlutann en hún leikur ekki á þjóðina með sama hætti – þjóðin er farin að sjá í gegnum hana.

Hver væri staða Sjálfstæðisflokksins í slíkum kosningum? Er hætta á nýjum framboðum sem geta tekið sviðið, samanber Besta flokkinn?

Síðustu skoðanakannanir benda til þess að æ fleiri gera sér grein fyrir því að stefna ríkisstjórnarinnar er ekki leiðin út úr erfiðleikunum – þvert á móti. Það er vaxandi eftirspurn eftir þeim áherslum sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur alla tíð haft og byggja á krafti, frumkvæði og sjálfstæði  fólksins í landinu. Flokkurinn hefur trú á þjóðinni,-  ólíkt þeim sem telja best að leita til Brussel – á framtaki einstaklinga og leggur áherslu á traust milli fólks og fyrirtækja. Ef sjálfstæðismenn fylgja stefnumálum sínum fast eftir mun flokknum vegna vel í kosningum hvernær sem þær svo verða.

Ný framboð fela ekki hættu í sér fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Þau munu miklu fremur safna saman einhverjum flokksbrotum á vinstri vængnum. Ef kjósendur vilja endurtaka leikinn með Besta flokkinn þá gera þeir það og munu greiða reikninginn. Þetta er auðvitað tómt rugl þegar kjósendur Besta flokksins eru farnir að púa á borgarstjóra innan við ári eftir kosningar, líkt og við höfum orðið vitni að í ótrúlegri aðför Samfylkingarinnar og Besta flokksins að leik- og grunnskólum borgarinnar.

Mynd: Pressphotos.biz

Við blasa deilur á vinnumarkaði og deilt er um framtíð fiskveiðistjórnarkerfisins. Eru Samtök atvinnulífsins að gæta hagsmuna sinna félagsmanna, eða vilja þau ríkisstjórnina frá og eru í bullandi pólitík?

Við skulum hafa eitt á hreinu. Það er pólitískt hagsmunamál fyrir Samfylkinguna að skapa ágreining um fiskveiðistjórnunarkerfið. Það ofbeldi sem Samfylkingin beitti Vinstri græna, í Evrópusambandsmálinu, er á góðri leið að eyðileggja flokk Steingríms J. Svik forystu VG í Evrópusambandsmálum verða flokknum dýrkeypt en ofbeldið er einnig að éta Samfylkinguna. Aðildarumsóknin er í algjörum ógöngum og æ fleiri innan Samfylkingarinnar átta sig á því að aðild að Evrópusambandinu verður aldrei samþykkt. Þannig er helsta baráttumál flokksins – sumir segja eina baráttumál – orðið að engu. Þess vegna hefur Samfylkingin hengt sig í umbyltingu fiskveiðistjórnunar. Forysta Samfylkingarinnar telur að það séu meiri pólitískur ávinningur af því að ágreiningur ríki um sjávarútveg en að sátt takist. Ágreiningur og ósátt um sjávarútveg er einskonar bjarghringur flokksins sem hefur þurft að horfa upp á hvernig ESB -draumurinn er hratt og örugglega að verða að engu. Náist sátt um stjórnun og skipulag fiskveiða mun Samfylkingin standa berstrípuð.

Það hefði verið fullkomlega ábyrgðarlaust af Samtökum atvinnulífsins að ganga til kjarasamninga með sjávarútvegsmálin í uppnámi sérstaklega þegar haft er í huga að hátt í 14000 manns eru atvinnulausir á Íslandi í dag. Allir sanngjarnir menn sjá þetta. Einhverjir vilja kalla þetta pólitík en ég segi aðeins, að verið er að verja hagsmuni allra fyrirtækja á landinu og hag heimilanna. Við getum ekki verið svo úr takt við íslenskan raunveruleika að við skiljum ekki mikilvægi sjávarútvegs og nauðsyn þess að hér séu rekin öflug fyrirtæki í veiðum, vinnslu og sölu.

Hefur stjórnarandstaðan staðið sig nægilega vel? Sagt er að vinstri stjórnin sé í óða önn að breyta hér þjóðskipulaginu?

Það er aldrei gott að dæma í eigin sök. Við sjálfstæðismenn höfum verið gagnrýndir fyrir að halda ekki hugmyndafræði okkar fastar fram. Það er margt til í þeirri gagnrýni. Við getum alltaf gert betur. En staðreyndin er sú að hér er meirihluta ríkisstjórn – vinstri stjórn sem hefur engan áhuga á samstarfi eða samráði þegar á reynir. Þetta er ríkisstjórn sem ætlar að fara sínu fram. Þó það hafi kvarnast úr stjórninni og hún sé veikari en áður, er ljóst að innan ríkisstjórnarflokkanna er fólk sem lítur á þetta sem einstakt tækifæri til að gjörbreyta þjóðskipulaginu. Þetta er fólk sem er andvígt séreignastefnunni og andvígt einkaframtakinu. Draumurinn er að hverfa frá þjóðfélagi sem grundvallast á frelsi og byggja upp samfélag miðstýringar og skrifræðis.

Erum við dæmd til kreppu hér á næstu árum, eða mun takast að örva hagvöxt og efla atvinnulíf?

Nei, langt í frá. Við höfum öll tækifæri til að byggja hér upp glæsilegt þjóðfélag velmegunar. Ég hef óbilandi trú á fólki sé því gefið tækifæri. Þetta er munurinn á okkur sjálfstæðismönnum og forystumönnum ríkisstjórnarinnar. Við treystum og höfum trú á einstaklingnum og samtökum þeirra.

Vandinn er sá að ríkisvaldið og þá ríkisstjórnin þvælist fyrir og drepur niður þor og dugnað. Ég hef haldið því fram að það sé ákall eftir því að fólki og fyrirtækjum verði gefið tækifæri til að skapa. Svar Jóhönnu og Steingríms J. við þessu ákalli er að hækka skatta. Það er kallað eftir Alþingi sem þjóðin getur treyst, en meirihluti þingmanna treystir sér ekki að mæta kjósendum. Það er kallað eftir því að ríkisstjórn víki, boði til kosninga og opni möguleika á því að þjóðin vinni sig til betri lífskjara. Steingrímur og Jóhanna eru hætt að hlusta.

En við Íslendingar erum þrátt fyrir allt í öfundsverðri stöðu. Eftir liðlega tveggja ára óstjórn vinstri flokkanna hefur ekki tekist að eyðileggja sterkar undirstöður þjóðfélagsins. Möguleikarnir eru fyrir hendi og framtíð björt ef við tökum höndum saman og endurnýjum traustið – traustið á Alþingi, á ríkisstjórn, á atvinnulífið – og styrkjum trúna á okkar eigin getu sem einstaklinga og þjóðar.

Það er sagt að deilt sé um hvort boða eigi til landsfundar á þessu ári. Viltu fá landsfund nú í haust eins og hluti flokksmanna kallar eftir?

[kassi]Mér finnst líklegt að landsfundur verði í október eða nóvember næstkomandi[/kassi]Það er fullt tilefni til landsfundar með fullum þunga. Það liggur fyrir miðstjórn að ákveða fundartíma. Mér finnst líklegt að landsfundur verði í október eða nóvember næstkomandi. Það hefur aldrei skaðað flokkinn að sjálfstæðismenn komi saman og ræði málin. Við höfum alltaf komið af landsfundi sterkari og öflugri með styrkjan málefnagrundvöll og þéttar raðir flokksmanna til nýrrar sóknar.

Muntu gefa þar kost á þér í forystusæti að nýju?

Sagt er að vika í stjórnmálum sé langur tími. Sex eða jafnvel átta mánuðir, fram að landsfundi er því hrein eilífð. Ég er í stjórnmálum til að hafa áhrif og hrinda hugmyndum í framkvæmd. Það væri fráleitt af minni hendi að gefa út yfirlýsingu  um að ég muni ekki sækjast eftir auknum áhrifum innan flokksins í framtíðinni. Tíminn mun leiða það í ljós. Við Bjarni Benediktsson tókumst á um formannsembættið á landsfundi 2009 og hann hafði þar betur. Á þeim fundi lýsti ég yfir eindregnum stuðningi við Bjarna sem formann Sjálfstæðisflokksins. og við það hef ég staðið alla tíð síðan.

Hvernig er sambandi þínu og formanns flokksins háttað? En varaformanns?

Við eigum ágætt samstarf, þó við séum ekki alltaf sammála. Ég held að mér sé óhætt að segja að um gagnkvæma virðingu sé að ræða þar sem tekið er tillit til mismunandi skoðana. Þetta á jafnt við um Bjarna Benediktsson og Ólöfu Nordal. Bjarni hefur falið mér trúnaðarstörf er varðar framtíðarskipulag flokksins. Þetta er umfangsmikið starf þar sem margir hafa lagt hönd á plóg. Við erum að færa flokkinn inn í nýja tíma, auka lýðræði og opna flokkinn upp með aukinni umræðu, þátttöku og áhrifum almennra flokksmanna.

Hver er þín skoðun á þjóðmálaumræðunni, margir kvarta yfir illmælgi, deilum og endalausri neikvæðni.

Ef okkur Íslendinga ber gæfu til að nýta það afl sem býr í fólki og fyrirtækjum hér á landi, þá höfum við allar forsendur til að tryggja heimilum í landinu góð lífsskilyrði og fjárhagslegt öryggi. Það gerum við ekki með naggi, nuddi eða rógi.

Hefur þú velt fyrir þér að láta af stjórnmálaþátttöku?

Nei, en þátttaka í pólitík er ekki upphaf og endir alls hjá mér.

 

Nýtt laugardagsviðtal með Birni Inga birtist vikulega á Eyjunni.

«
»