Föstudagur 13.05.2011 - 22:37 - Ummæli ()

Björgólfur Jóhannsson forstjóri Icelandair Group: „Ferðamennskan verður okkar mikilvægasta atvinnugrein“

Mynd: Presshotos.biz

Þú komst með nokkuð óvæntum hætti inn í fluggeirann og hefur stýrt Icelandair Group í gegnum efnahagshrun á Íslandi, eigendaskipti og miklar sviptingar. Hvernig finnst þér hafa til tekist á þessum tima?

Ég hóf störf hjá þessu félagi um miðjan janúar 2008. Þá þegar voru komin ákveðin merki um að fjármögnun gæti reynst erfiðari og jafnvel erfið. Ég lagði áherslu á það við stjórnendur allra fyrirtækja innan samstæðunnar að einbeita sér að rekstrinum, ekki velta fyrir sér fjármögnun samstæðunnar né hvernig og hvaða hreyfingar væru í hluthafahópnum. Við áttum mjög erfiða tíma haustið 2008 og framan af ársins 2009 en síðan þá hefur rekstur félagsins gengið vel. Ég tel að við höfum náð að aðlaga samstæðuna breyttum aðstæðum, við höfum breytt stefnunni og horfum nú til okkar kjarnastarfsemi og lykillinn er að hafa skýran fókus. Ég held að það hafi tekist þokkalega til á þessum tíma. Staða félagsins er sterk. Efnahagurinn er sterkur, eiginfjárhlutfall 30% og peningaleg staða sterk. Reksturinn er einnig góður um þessar mundir en ljóst að breytingar geta orðið hratt til beggja átta.

Þú kemur úr allt öðrum geira, hvernig kom það til að leitað var til þín í starf forstjóra samstæðunnar, Icelandair Group?

Ég er ekki rétti maðurinn til að svara því. Hvað mig varðar fékk ég bara hringingu og fór í viðtal og síðan átti ráðning sér stað. Ég veit ekki hvernig þetta gerðist innan stjórnar og hef ekki leitað eftir upplýsingum um það.

Nú átti Icelandair Group ávallt töluvert mikið reiðufé. Hvernig var staða félagsins þegar þú tekur við? Hvernig var viðskilnaður FL Group?

Peningaleg staða var ekki nægilega sterk og nokkur verkefni í gangi sem kostuðu verulegar fjárfestingar. Einnig var fjármögnun félagsins nær öll til mjög skamms tíma þannig að þegar þrengdist um hjá bönkunum var ekki hlaupið að nýju fé og/eða framlengingu á eldri lánum. Mér varð það strax ljóst að við yrðum að byggja upp sterkari peningalega stöðu og reyndar var staðan þokkaleg þegar bankarnir hrundu haustið 2008 þó hún hafi alls ekki verið nógu sterk. Það er ljóst í mínum huga að FL Group seldi félagið dýrt og þar með þeir sem keyptu greiddu ríflega fyrir það. En á móti má segja að þetta gat auðvitað gengið upp ef uppsveiflan hefði haldið áfram. Það er þetta ef og kannski í fortíðinni sem útilokað er að svara á vitrænan hátt. Félagið var alltof veikt byggt upp fjárhagslega alveg frá upphafi skráningar á árinu 2006.

Nú eru lífeyrissjóðirnir á Íslandi komnir inn í eigendahóp Icelandair með stórfelldum hætti, var það að frumkvæði stjórnenda félagsins að sú leið var farin eða kröfuhafa?

Ljóst var að styrkja þurfti félagið. Bankarnir höfðu tekið yfir stóra eignarhluta og voru komnir með yfirráð í félaginu. Við þurftum að vinna að aukningu hlutafjár samhliða öðrum aðgerðum í fjárhagslegri endurskipulagningu. Spurningin hver talaði við hvern á ekki við, að sjálfsögðu koma bæði eigendur og stjórnendur að slíku með kynningu á félaginu og framtíðarplönum. Núverandi eigendur sáu tækifæri í kaupum þrátt fyrir margar úrtöluraddir. Ennþá að minnsta kosti eru þessir fjárfestar í plús af fjárfestingunni.

Nokkur gagnrýni kom fram á aðkomu lífeyrissjóðanna og sagt að þeir ættu ekki að standa í svo áhættusamri starfsemi og samkeppnisrekstri, hvað fannst þér um það sjónarmið?

Ég taldi þetta góðan fjárfestingakost fyrir lífeyrissjóðina. Áhættusamt vissulega eins og rekstur er almennt. Mér fannst það liggja alveg ljóst fyrir að lífeyrissjóðirnir yrðu að koma að uppbyggingu félaga sem höfðu farið illa útúr hruni bankanna, þar á meðal Icelandair Group. Þetta félag er mjög mikilvægt fyrir tengingu landsins við umheiminn allt árið um kring og raunar má segja merkilegt fyrir 300 þúsund manna samfélag að geta boðið uppá slíkar tengingar til Evrópu og Bandaríkjanna allt árið um kring, nokkuð sem sést ekki víða. Samfélagslega er félagið mikilvægt og einnig mikilvægt fyrir lífeyrissjóðina. Ég vona að sjálfsögðu að lífeyrissjóðirnir hagnist á þessari fjárfestingu sem hefur reyndar komið í ljós nú strax. En þetta á að vera langtímafjárfesting og mikilvægt að halda vel á spilum þannig að hagnaður þeirra verði enn meiri, sem er gott fyrir þá, félagið og alla landsmenn.

Er félagið vel fjármagnað til framtíðar, eða sérðu fyrir þér hlutafjáraukningu á næstunni eða sölu eigna?

Félagið er mjög vel fjármagnað og allar kennitölur úr efnahagsreikningi sterkar. Það er engin þörf á þessari stundu að auka við fé í félaginu með hlutafjáraukningu eða sölu eigna. En auðvitað getur það breyst ef ný tækifæri koma upp til eflingar félagsins sem gæti gerst með samblandi af hlutafjáraukningu og lántökum. Sala eigna er alltaf möguleiki en engin þörf á því fjárhagslega.

Við búum á eyju og samgöngur skipta okkur öllu máli. Hversu mikilvægt er fyrir íslenskt samfélag að Icelandair Group sé í eigu Íslendinga og reki starfsemi sína hér með sambærilegum hætti og verið hefur?

[kassi]Ég tel mikilvægt að félagið sé í meirihlutaeigu Íslendinga hverju sinni.[/kassi]Ég tel mikilvægt að félagið sé í meirihlutaeigu Íslendinga hverju sinni. Mikilvægi félagsins fyrir tengingu landsins við umheiminn má ekki vanmeta og hætta er á að til dæmis vetrartíminn verði afskiptur vegna daprar afkomu á þeim tíma. Ég lít á Icelandair Group sem hornstein í íslenskri ferðaþjónustu og mikilvægasta hlekkinn í þeirri aukningu sem við höfum séð undanfarin ár í ferðamennsku til landsins. Mér er til efs að sú þróun væri eins og raun ber vitni ef eignarhaldið væri ekki íslenskt.

Er það rétt, sem hvíslað hefur verið um, að félagið hafi á undanförnum árum verið raunverulega nærri því að komast í hendur útlendinga, sem jafnvel ætluðu að gjörbreyta flugleiðum, fækka ferðum og selja vélar?

Það hefur ekki komið til í minni tíð en ég hef heyrt sögur af því að erlendir aðilar hafi verið nærri því að eignast félagið. Ég skil hins vegar vel að mörg flugfélög í nágrannalöndunum hefðu áhuga á þessu félagi. Ég tel hins vegar að félagið eigi á hverjum tíma að vera í eigu Íslendinga að meirihluta að minnsta kosti.

Í viðskiptaheiminum er stundum haft á orði að einna mesta áhættan sé fólgin í kaupum á hlutabréfum í flugfélögum, þar sem ótal ytri þættir geti ráðið úrslitum um reksturinn, til dæmis veðurfar og hamfarir, stríð og olíuverð í heiminum. Er ekki mikill ábyrgðarhluti að stýra svo stóru félagi sem landsmenn eiga beint og óbeint?

[kassi]Ef einbeitingin er á meginstarfsemina og horft til innri vaxtar á skynsömum nótum þá tel ég fjárfestingu í flugrekstri álitlegan kost[/kassi]Flugrekstur er áhættusamur rekstur og ef til vill áhættusamari en margur annar rekstur. Ekki má gleyma því að í samstæðunni eru fleiri félög en flugfélög þó svo að flugtengdur rekstur sé í meirihluta. Það eru svo margir þættir í rekstrinum sem geta breyst mjög hratt og haft áhrif á félögin. Hins vegar getur ávinningur orðið mikill þegar vel gengur. Ég tel að ef varlega er farið þá sé hægt að lágmarka áhættuna mjög. Auðvelt er að taka mikla áhættu, ná hugsanlega miklum ávinningi en það getur snúist upp í andhverfu sína. Ef einbeitingin er á meginstarfsemina og horft til innri vaxtar á skynsömum nótum þá tel ég fjárfestingu í flugrekstri álitlegan kost.

Mynd: Presshotos.biz

Er Icelandair Group upptekið af samkeppninni hér innanlands, til dæmis við Iceland Express?

Nei. Ég tel að samkeppni verði alltaf til staðar og þá skiptir ekki máli hverjir eiga þar hlut að máli. Við verðum einfaldlega að gera betur en samkeppnin til að lifa af. Samkeppnin er af hinu góða bæði fyrir neytendur og ekki síður félagið sjálft.

Mun fjölgun erlendra ferðamanna hingað til lands halda áfram?

[kassi]Við höfum reiknað með að fjöldi erlendra ferðamanna geti aukist um 15-20% í ár[/kassi]Við höfum okkar spá um þessa þróun og horfum einnig til markmiða ríkisstjórnarinnar í þeim efnum. Við höfum reiknað með að fjöldi erlendra ferðamanna geti aukist um 15-20% í ár.

Nú fer olíuverð lækkandi eftir miklar hækkanir, hversu mikil áhrif hefur það á reksturinn?

Hækkandi olíuverð hefur neikvæð áhrif á reksturinn þegar það gerist hratt eins og gerðist núna. Það tekur tíma að koma verðhækkunum út í flugmiðana og síðan er alltaf áhætta að eftirspurn minnki þegar verðið er komið í ákveðnar hæðir. Lækkandi olíuverð er því jákvætt fyrir rekstur þessa félags sem annarra í sömu grein.

En breytingar á opinberum gjöldum, skattar og þess háttar?

Það getur haft mikil áhrif á eftirspurn að auka skattheimtu. Við vörum alltaf við slíku en vonum að eftirspurnin minnki ekki að sjálfsögðu. Stjórnvöld eru vissulega ekki í öfundsverðri stöðu og við horfum alltaf til þess að vinna með þeim ákvörðunum sem teknar eru.

Þú varst í forsvari fyrir útvegsmenn og þekkir vel til í atvinnulífinu. Sagt er að nýgerðir samningar séu á ystu mörkum þess sem atvinnulífið þolir, ertu sammála því?

Já það er teflt mjög djarft. Við erum að hækka laun meira en önnur lönd og eigum á sama tíma í samkeppni við þau lönd. Traust á að takist að snúa þróuninni við er mikið í þessum samningum þannig að áhættan er mikil. Mest um vert er að fara ekki þá leið sem við þekkjum vel, víxlverkun launa og verðlags sem endar illa fyrir alla.

En þótt þannig hafi tekist að forða verkföllum, er nú að blossa upp kjaradeila við flugumferðastjóra og yfirvinnubann með tilheyrandi áhrifum á ferðir til og frá landinu. Kemur þetta ekki á versta tíma fyrir flugfélögin og ferðaþjónustuna?

Verkföll og aðgerðir sem takmarka atvinnurekstur er aldrei af hinu góða. Tímasetningin núna er afleit útfrá hagsmunum ferðaþjónustunnar og allt tal um aðgerðir getur mjög hratt haft áhrif á áhuga ferðamanna að koma til landsins. Bókanir geta hrunið á einni nóttu þannig séð ef áhrif verkfallsaðgerða segja til sín. Ég vona auðvitað að aðilum beri gæfa til að leysa þessa deilu því alveg er ljóst að það síðasta sem Ísland þarf er slík deila sem rýrir tekjumöguleika okkar.

Mynd: Presshotos.biz


Er hægt að búa við það aftur og aftur að flugumferðarstjórar beiti sér þannig í kjaradeilum í ljósi þess að þeir eru ekki beinlínis láglaunastétt?

Alltaf spurning hvernig skilgreiningin er á láglaunastétt. Verkfallsaðgerðir þeirra koma mjög við ferðalanga og hafa áhrif á marga, svo sem starfsmenn í ferðaþjónustu. Því er ekki óeðlilegt að það tekið sé eftir þeirra aðgerðum. Mér finnst ábyrgðarhluti að beita verkfallsvopninu og þarf að fara vel með. Lausnin er varla að taka verkfallsréttinn af. Það eru fleiri stéttir sem geta haft slík áhrif og ég er ekki þeirrar skoðunar að lausnin felist í að taka af verkfallsrétt einstakra stétta. Hvaða lausn á að koma á kjaramál þessarar stéttar er spurning, því það er mjög erfitt að búa við þessa ógn svo oft sem raun ber vitni.

Samtök atvinnulífsins eru gagnrýnd, meðal annars af Félagi atvinnurekenda, fyrir að hafa klúðrað hagstæðari kjarasamningum með því að blanda inn í deilurnar óskyldum málum, þ.e. breytingum á kvótakerfinu. Ertu sammála því?

Nei ég er ekki sammála því. Ég sé ekki hvernig útgerð og fiskvinnsla getur samið til langs tíma þegar fyrir liggur að breyta eigi grundvellinum. Það er óábyrgt að gera samninga við slíkar aðstæður og skiptir allt atvinnulíf í landinu máli. Því tel ég mikilvægt fyrir allan atvinnurekstur að línur séu skýrar og skil því vel þessa afstöðu. Mér finnst stjórnvöld hafi sýnt þessari atvinnugrein lítilsvirðingu í þessu ferli öllu, það er ekkert að því að breyta leikreglum en það verður að gerast í sem mestri sátt.

Hvernig líst þér á frumvarpið sem lagt hefur verið fram um stjórnkerfi fiskveiða?

[kassi]Ég vil ekki sjá gamla kerfið þar sem allir höfðu það jafn skítt[/kassi] Ég hef ekki kynnt mér það ennþá en miðað við umfjöllun einstakra þingmanna skil ég ekki niðurstöðuna. Auka á skattheimtuna á greinina, aukin skattheimta dregur úr kraftinum og getur gengið að sterkum og vel þróuðum sjávarútvegi dauðum. Ég vil ekki sjá gamla kerfið þar sem allir höfðu það jafn skítt – flest sjávarútvegsfyrirtæki nánast gjaldþrota og upp á náð og miskunn lánastofnana komin. Pólitísk afskipti af dreifingu aflaheimilda eru ekki af hinu góða.

Mörgum þykir miða hægt í endurreisn atvinnulífsins. Finnst þér Íslendingar vera að spila vel úr sinni stöðu eftir hrun?

Margt hefðum við átt að gera betur. Það er auðvelt að gagnrýna eftirá en við vorum fyrst inn í kreppuna, sem margir töldu kost, en mér sýnist við vera á sama stað ennþá að mörgu leyti. Ég tel að aukin skattheimta í samdrætti sé ekki ávísun á bætta tíma. Fjárfestingar verða að komast í gang sem leiðir svo aftur af sér minnkun atvinnuleysis sem er mikil vá fyrir svo lítið land sem okkar.

Hver verður staða Icelandair Group eftir fimm ár, héðan í frá?

Við vinnum að innri vexti og teljum okkur eiga góða möguleika þar. Við munum fara varlega og ekki missa sjónar af okkar styrkleikum og horfum á Ísland sem okkar hornstein. Ég sé fyrir mér sterkt félag sem við getum verið stolt af. Icelandair Group verður sterkasta stoðin í íslenskri ferðaþjónustu og sú atvinnugrein verður okkar mikilvægasta atvinnugrein þá.

Björgólfur Jóhannsson er viðskiptafræðingur. Hann varð forstjóri Icelandair Group í janúar 2008, en hann hafði þá starfað sem forstjóri Icelandic Group frá mars 2006. Fram að því eða frá árinu 1999 starfaði hann sem framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar, en áður hafði hann gegnt starfi framkvæmdastjóra nýsköpunar- og þróunarsviðs Samherja frá 1996. Björgólfur var fjármálastjóri Útgerðarfélags Akureyringa frá 1992-1996 en þá hafði hann unnið frá 1980 við endurskoðun á Endurskoðunarskrifstofu Sig. Stefánssonar og Endurskoðun Akureyri hf. Björgólfur var formaður L.Í.Ú. frá árinu 2003 til ársins 2008.

Hann útskrifaðist sem viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands árið 1983 og varð löggiltur endurskoðandi 1985. Icelandair Group er móðurfélag fjölda fyrirtækja, þar á meðal Icelandair, Flugfélags Íslands, Icelandair Hotels (Loftleiðir, Hilton, Hérað, Eddu hótelin, Akureyrarhótelið og fl), Icelandair Cargo, Loftleiðir Icelandic, Iceland Travel og Ferðaskrifstofunnar Vita, Fjárvakurs auk IGS í Keflavík.

Nýtt laugardagsviðtal með Birni Inga birtist vikulega á Eyjunni.

«
»