Laugardagur 21.05.2011 - 00:11 - Ummæli ()

Össur Skarphéðinsson segir bláþræðina oft býsna sterka: „Heimurinn ferst ekki þó það komi önnur ríkisstjórn“

Mynd: pressphotos.biz

Það hljómar kannski klisjukennt en þessari ríkisstjórn hefur lengi verið spáð falli og hún sögð hanga á bláþræði eftir brotthlaup nokkurra stjórnarliða. Hangir þetta saman að þínu mati, jafnvel út kjörtímabilið?

[kassi]Það gerist bara sem á að gerast, og heimurinn ferst ekki þó það komi önnur ríkisstjórn[/kassi] Bláþræðirnir eru oft býsna sterkir. Mig minnir að viðreisnarstjórnin hafi setið heilt kjörtímabil með eins manns meirihluta og þótti bara nokkuð seig. Svo ég ber ekki sérstakan kvíðboga fyrir því að þessi falli vegna þess hve meirihlutinn er tæpur. Það gerist bara sem á að gerast, og heimurinn ferst ekki þó það komi önnur ríkisstjórn.

Hefur þú átt þátt í einhverjum viðræðum eða þreifingum við aðra flokka eða þingmenn úr stjórnarandstöðunni í því skyni að styrkja stjórnarmeirihlutann?

Nei, ég held ekki að neitt slíkt sé í gangi núna, en forsætisráðherra opnaði hins vegar á hugmyndir um að breikka ríkisstjórnina í stórviðtali við DV ekki alls fyrir löngu. Ég lá heldur ekkert á því þegar þessi ríkisstjórn var mynduð að ég vildi sjá Framsóknarflokkinn með, enda átti hann frumburðarréttinn að minnihlutastjórninni sem var undanfari þessarar. Ástæðan fyrir því var ekki síst sú að á þeim tíma taldi ég farsælast miðað við stöðuna að stefna að myndun félagshyggjustjórnar sem sæti tvö kjörtímabil og skrúbbaði frjálshyggjuna úr samfélaginu einsog þegar menn notuðu sápu á orðljótan ungling. Ef forystufólk stjórnarflokkanna vill hugsa langt fram í tímann þá held ég reyndar að sú hugmynd sé ennþá meira en einnar messu virði.

En heldurðu að Sigmundur Davíð og Framsókn hafi ekki meiri áhuga á að mynda meirihlutastjórn með Sjálfstæðisflokknum?

Ég tel litlar líkur á því að Framsókn og Sjálfstæðisflokkur nái meirihluta um töluvert langan tíma, og alls ekki meðan Sjálfstæðisflokkurinn er jafn klofinn og hann er í dag. Sigmundur er líka klókari en margir skilja, einsog sást til dæmis af tímasetningu flokksþingsins, sem var nokkuð úthugsuð. Mér hefur fundist hann leggja mesta áherslu á að losa Framsókn við fortíðina og virðist telja það forsendu þess að blása aftur sæmilegu lífi í flokkinn. Þá væri það hrein skákblinda að stefna í stjórn með íhaldinu. Það myndi fyrst og fremst undirstrika fortíðina sem hann vill gleyma. Vafalítið stefnir hann á að verða langlífur forystumaður og þá þarf hann að koma Framsókn í stjórn ekki síðar en í lok næstu kosninganætur. Í Framsókn eru margir á stalli sem bryðja mélin.

Teldir þú koma til greina að semja við einstaka þingmenn utan meirihlutans um stuðning við einstök mál, líkt og gert er í þeim löndum sem búa við minnihlutastjórnir?

Skemmtilegasta stjórnin af þeim fjórum sem ég hefi setið í var nú minnihlutastjórnin sem ég átti svolítinn hlut að því að mynda. Ég samdi auðvitað Evrópumálið þannig í gegnum þingið, og þar á undan fjárfestingasamninginn um Helguvík. Minnihlutastjórnir eru skemmtilega heilbrigðar og menn þurfa að vera kvikir í þannig umhverfi.

Er eitthvað því til fyrirstöðu að boða til kosninga nú?

Það er fyrst og fremst heilbrigð skynsemi sem mælir á móti þingrofi. Það er lítil ástæða til að kjósa ef ríkisstjórn er með þingmeirihluta og kemur málum sínum þokkalega fram. Ríkisstjórn Jóhönnu býr þess utan við betri heilsu en tíðar fregnir af yfirvofandi andláti hennar á stöku vefmiðlum gefa til kynna. Sjálfur held ég að fólk sé hundþreytt á kosningum. Ég dreg líka í efa að stjórnarandstöðuna langi mikið í kosningar núna.

[kassi]Sjálfur væri ég ekki hræddur við kosningar síðar á þessu ári því málin eru að leggjast með stjórninni[/kassi] Sjálfstæðisflokkurinn er að búa sig undir uppgjör og verður lengi að sleikja sárin. Mér finnst líklegt að Framsókn hafi meiri áhuga á að komast í ríkisstjórn en fara í kosningar. Sjálfur væri ég ekki hræddur við kosningar síðar á þessu ári því málin eru að leggjast með stjórninni og ég held að Samfylkingin þyrfti að bera minnstan kvíðboga fyrir kosningum. Við höfum mesta málefnasérstöðu í dag.

Hefur óróinn í samstarfsflokknum valdið þér vonbrigðum?

Já. Svolítið að minnsta kosti. Ég er búinn að blanda blóði við þetta ágæta fólk í stjórn og stjórnarandstöðu í hálfan annan áratug og sé ekki pólitísku ástæðurnar á bak við ólguna sem stundum freyðir. Mér finnst þessi órói vera persónulegur fremur en pólitískur. Þá er lógíkin farin úr pólitíkinni og menn einsog ég hættir að skilja. Ég er þrátt fyrir allt öryggisnarkóman og lifi illa með hlutum sem ég skil ekki.

Telur þú að væringarnar í VG hafi rennt stoðum undir kenningar um að flokkurinn sé ekki stjórntækur?

Nei, það er of sterkt að segja það. VG er stjórntækur flokkur einsog sést á því að hann er að að klára verkefni sem Sjálfstæðisflokkurinn hafði ekki þrek til. En það er ekki einsog þetta sé í fyrsta skipti sem það bullar í pottum stjórnmálaflokka eða ríkisstjórna. Á tímum Viðreisnarstjórnarinnar felldi ráðherra frumvarp sinnar eigin ríkisstjórnar í atkvæðagreiðslu á Alþingi. Allir muna að Sjálfstæðisflokkurinn var klofinn í ríkisstjórn Gunnars Thoroddsen. Enginn dó. Í fyrstu ríkisstjórninni sem ég sat í greiddu ekki allir sjálfstæðismenn alltaf atkvæði með ríkisstjórninni. Svo flokkar verða ekki óstjórntækir þó menn pústrist svolítið á innan flokks eða við ríkisstjórnarborðið. Líklega er það partur af ólgandi lýðræði en fyrir suma er það þreytandi á köflum. Aðalatriðið er að stefnumálin nái fram að ganga.

Frumvörpin um breytingar á kvótakerfinu sem nú eru lögð fram, eru þau tilræði við sjávarútveginn einsog aðrir telja?

Er það ekki spuni LÍÚ? Málið snýst um að skapa öryggi til langs tíma fyrir sjávarútveginn með því að gera við hann langtímasamninga um nýtingarrétt, en láta hann um leið greiða meira fyrir réttinn til að nýta það sem þjóðin á sameiginlega. Það er erfitt að skilja ramakveinin um að samningstíminn sé alltof stuttur þegar vitað er að í Noregi eru fyrirtæki með enn styttri tíma en hagnast samt vel. Segir ekki LÍÚ að íslenskur sjávarútvegur sé sá besti? Grátinn um of hátt veiðigjald er jafnerfitt að skilja í ljósi þess að bestu fyrirtækin í Evrópu – íslensk – eru að greiða miklu hærra verð fyrir þorskígildið við Grænland. Svo eru frændur okkar Færeyingar að búa sig undir að setja veiðigjald á makríl, sem er jafnhátt því sem er á þorsknum okkar í dag, og ætla þar að auki að bjóða upp 20 þúsund tonn af makrílnum. Í Færeyjum talar samt enginn um að sigla flotanum í land. Það er of mikið testósterón í þessari umræðu. Ræðum saman í jafnvægi og skoðum ef eitthvað er of eða van í þessum frumvörpum. Svo má ekki gleyma að framundan eru ár aukningar í þorski, vonandi strax í sumar. Ég held að það séu góð ár framundan hjá sjávarútveginum sem hann hefur aldrei lifað áður.

En sumir, þar á meðal í þínum flokki, halda því fram að þessi frumvörp séu útvötnuð útgáfa af því sem lagt er fyrir um í stjórnarsáttmálanum. Hvað segirðu um það?

Mynd: pressphotos.biz
Það er ýmislegt sem einn og annar vildi hafa öðru vísi. Ég er til dæmis hissa á hvað menn ganga hart að framsalinu. Í svona máli næst hins vegar aldrei niðurstaða sem er fullkomin fyrir alla, og það þurfa mínir flokksmenn líka að skilja. Menn verða að vera reiðubúnir til að gera málamiðlanir til að ná fram prinsippatriðum sem ella næðust aldrei. Meginprinsippin eru tvenns konar. Það var að festast einskonar einkaeignarréttur á aflaheimildunum sem aldrei var ætlunin. Nú er hann endanlega rofinn, og það er gert með samningum um nýtingarrétt til nógu langs tíma til að allar góðar útgerðir lifi góðu lífi. Einhver ár til eða frá skipta mig ekki máli, heldur prinsippið. Tilgangurinn er alls ekki að slá af vel rekin fyrirtæki heldur styrkja þau með auknu öryggi. Hitt prinsippið felst í leigupottinum sem 15 prósent heimildanna eiga að lokum að renna í. Allir standa jafnfætis varðandi aflaheimildir úr honum. Það opnar leið fyrir nýliðun, skapar þjóðinni tekjur, og það sem skiptir ekki sístu máli, svarar áliti Mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna. Það síðasta er mikilvægt.

Þorir þessi ríkisstjórn ekki að taka slaginn við LÍÚ?

Það er ekki spurning um að þora. Í þessu máli þurfa menn að vinna saman að niðurstöðu sem er góð fyrir heildina, líka fyrir útgerðina. Allir þurfa að vera sveigjanlegir, og það væri ánægjuleg tilbreyting ef menn tækju ofan boxhanskana. Kannski vill LÍÚ heldur láta útkljá málið í þjóðaratkvæðagreiðslu einsog ég lagði til.

Er ekki líklegt að málið taki miklum breytingum í þinginu?

Ef þingið kemst að annarri niðurstöðu í einhverjum efnum en ríkisstjórnin þá getur ráðherra á plani lítið kvartað undan því. Þingið ræður og ég hef alltaf verið á móti ráðherraræði.

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra sagði í viðtali við mig á þessum vettvangi hér fyrir viku að hann hefði gert mistök með stuðningi sínum við aðildarumsókn Íslands að ESB, þar sem í reynd væri í gangi aðlögun að sambandinu en ekki viðræður. Voru Vinstri grænir blekktir til stuðnings eða hvernig á að skilja þetta útspil vinar þíns Ögmundar?

Mynd: pressphotos.biz

Ég hef enn engan mann hitt sem hefur getað platað Ögmund. Sjálfur hef ég aldrei reynt það enda þykir mér vænna um hann en flesta menn í pólitík. Við höfum lært list hinnar fullkomnu hreinskilni hvor við annan. Hann er hins vegar í flokki sem samþykkti stjórnarsáttmála þar sem ritað var einsog á töflurnar forðum að ný ríkisstjórn hygðist leggja fyrir Alþingi tillögu um umsókn að Evrópusambandinu og samningurinn yrði svo settur í dóm þjóðarinnar. Það er beint lýðræði, og enginn er því eins fylgjandi og Ögmundur. Þessvegna greiddi hann tillögunni atkvæði með þeirri sterku röksemd að þjóðin ætti rétt á að fá að kjósa sjálf um Evrópusambandið. Þetta hefur hann margítrekað opinberlega og ef það er eitthvað sem hægt er að segja um félaga Ögmund þá er það að hann hefur aldrei gengið á bak sinna eigin orða.

Erum við Íslendingar staddir í miðju aðlögunarferli gagnvart ESB?

Nei, við erum ekki að breyta neinum lögum, reglum eða setja á stofn nýjar stofnanir vegna umsóknarinnar. Það er engin aðlögun í gangi vegna ESB. Fram að þjóðaratkvæði búum við okkur undir ferlið með því að leggja fram áætlanir um þær breytingar sem þarf að ráðast í ef þjóðin segir já við aðild, einsog um hvaða lögum þyrfti þá að breyta, hvort og hvernig þyrfti að breyta einhverjum stofnunum, eða undirbúa ný kerfi til dæmis í tolla- og skattamálum. Einsog aðrar umsóknarþjóðir eigum við rétt á því að Evrópusambandið standi straum af verulegum hluta þess kostnaðar. Ef þjóðin segir já verður þessum breytingum hrundið í framkvæmd á tímanum sem líður frá þjóðaratkvæði fram að staðfestingu aðildarinnar, eða á þeim tíma sem um kann að semjast í samningunum. Mottóið er semsagt, að það verður ekkert gert fram að þjóðaratkvæðagreiðslu sem virðir ekki þá grundvallarreglu að það er íslenska þjóðin sem á lokaorðið um aðild. Ég túlka álit utanríkismálanefndar þannig að ég hafi heimild til að gera allt sem þarf til að klára samninga og koma með þá heim í atkvæðagreiðslu, svo fremi það feli ekki í sér lagabreytingar án sérstaks samþykkis þingsins, eða nýjar stofnanir. Þetta er í gadda slegið milli okkar og Evrópusambandsins, og margrætt á Alþingi.

Ertu ósáttur við þennan málflutning af hálfu andstæðinga aðildar sem þú segir að haldi því ranglega fram að í gangi sé aðlögun?

Ég er sjaldan ósáttur en stundum undrandi á því að rök andstæðinga aðildar eru sjaldan málefnaleg. Þau snúast aldrei um hvað er gott eða vont fyrir Ísland, heldur um tæknilega hluti einsog hvort aðlögun sé í gangi, eða hvort það sé verið að múta fólki. Mér finnst stundum tvískinnungur í máli manna.

Mynd: pressphotos.biz

Í hverju birtist þetta sem þú kallar tvískinnung?

Til dæmis því að formaður Heimssýnar og aðrir andstæðingar ESB sífra mikið um það sem þeir kalla aðlögun á sama tíma og þeir greiða atkvæði viku eftir viku og mánuð eftir mánuð með fjölda laga og tilskipana, sem fela í sér blóðhráa aðlögun að Evrópusambandinu gegnum þátttöku okkar í Evrópska efnahagssvæðinu. Þá segja þessir heiðursmenn ekki múkk og samþykkja möglunarlaust allt sem ESB kemur með, jafnvel þó þeir eða Alþingi geti ekki breytt einum einasta stafkrók. Í mínum huga er þetta aðlögun einsog hún gerist verst, og fjarri því að vera lýðræðisleg. Ég veit ekki einu sinni hvort hún stenst lengur stjórnarskrána. Ein af ástæðunum til að ganga í ESB er að geta haft áhrif á lögin sem við þurfum í dag að taka hrá frá Brussel án þess að geta nokkru breytt.

Telurðu líklegt að þjóðin muni samþykkja ESB við þessar aðstæður?

Ég er nokkuð sannfærður um það. Icesave umræðan var hörð og pendúll þjóðarinnar sló þá inn í aukna þjóðerniskennd og fælni gegn útlöndum. Pendúllinn slær alltaf til baka. Icesave er að fjarlægjast, og nú eru menn að slakna. Þeir eru aftur orðnir opnari gagnvart umheiminum. Rótið á evrusvæðinu leiddi líka til aukinnar vantrúar á ESB, ekki bara hér heldur í öllum löndum Evrópu. Nú er hins vegar búið að styrkja evruna vel, og ég held að óróleikinn sem tengist henni sé senn að baki. Það birtist til dæmis í vaxandi hagvexti á evrusvæðinu. Það er svo nokkuð sterk vísbending um hvað kraumar undir niðri að ítrekaðar kannanir sýna að yfirgnæfandi meirihluti Íslendinga vill halda samningunum áfram. Þegar við náum góðum samningi um fisk, og fólk sér að við töpum ekki stöðu sem fiskveiðiþjóð munu Íslendingar fara að skoða málin af kostgæfni. Við erum Evrópuþjóð sem á heima í sambandinu, við höfum sterka pólitíska hagsmuni af því að gerast aðilar, til dæmis varðandi öryggi Íslands í framtíðinni, og þegar evran er komin á lygnari sjó munu menn skilja enn betur hversu mikið það myndi styrkja efnahag okkar í framtíðinni að taka hana upp. Hjá smáþjóðunum sem hafa gengið í Evrópusambandið hefur aðildin alls staðar leitt til aukins stöðugleika, miklu meiri fjárfestinga, lægri viðskiptakostnaðar og lægri vaxta. Í okkar tilviki myndi evran létta okkur leiðina frá verðtryggingunni og hjálpa okkur til að kasta gjaldeyrishöftunum sem ella gætu orðið viðvarandi í einhverri mynd. Öndvert Icesave, þar sem menn áttu bara val um mismunandi tegund af pústrum, þá er Evrópuleiðin valkostur um kjarabætur og um viðnám gegn atvinnuleysi. Þessvegna held ég að samningurinn verði samþykktur.

Þorsteinn Pálsson hefur ítrekað sagt að það þurfi að sýna fram á skýran meirihluta fyrir samningunum á Alþingi, og hefur kallað eftir nýjum meirihluta. Hefur hann rétt fyrir sér?

Þorsteinn virðist vilja meirihlutastjórn með aðild Sjálfstæðisflokksins sem styður ESB. Það er nú dálítið snúið. Staðan í Sjálfstæðisflokknum í dag er þannig að Hádegismóri og hans lið ráða mestu í flokknum. Dagana eftir Icesave-kosningarnar dikteraði hann í leiðurum Moggans uppgjafaskilmála í stíl við Versalasamningana gagnvart forystu flokksins. Þar var blátt bann við því að flokkurinn færi í ríkisstjórn án kosninga og landsfundarályktunin áréttuð sem svartstakkarnir knúðu í gegn á landsfundinum gegn Evrópu. Þetta er hættuspil því fast að helmingi flokksins er Evrópusinnaður, alveg einsog Bjarni og Ólöf voru á meðan þau voru frjálst fólk. En meðan tvíveldi af þessu tagi ríkir í flokknum er hin kjörna forysta ekki sjálfs sín ráðandi. Það veit jafn glöggur greinandi og Þorsteinn. Hitt kann hann að misskilja, en meirihlutinn sem samþykkti tillöguna um umsóknina hefur ekki minnkað á Alþingi. Í þeim skilningi þarf ekki nýjan meirihluta.

Nú rifja það margir upp að flokkurinn hefur aldrei komist í þær hæðir sem þú náðir honum bæði í sveitarstjórnakosningum og til þings. Margir vilja fá þig sem formann aftur. Hvað segirðu við því?

Það væri stílbrot fyrir mig að verða formaður aftur. Það hreyfir enga taug. Aftur á móti vakna ég hvern morgun og hlakka til að klára daginn sem utanríkisráðherra. Jóhanna er þar að auki kallinn í brúnni, og einsog margir muna varð amma hennar, verkalýðshetjan Jóhanna Egilsdóttur, 102 ára. Svo forsætisráðherrann á vonandi nokkra góða áratugi eftir í pólitík.

Nú felldi svilkona þín Ingibjörg Sólrún þig sem formann þegar flestum, a.m.k. utan flokksins, fannst þú hafa staðið þig vel og skilað flokknum mjög góðum árangri. Ertu sár út í Ingibjörgu og stuðningsmenn hennar?

[kassi]Nei, ég var aldrei sár út í hana. Ég reyndi að koma mér upp almennilegri fýlu en tókst ekki.[/kassi]

Nei, ég var aldrei sár út í hana. Ég reyndi að koma mér upp almennilegri fýlu en tókst ekki. Úrslitin lágu í reynd fyrir löngu áður en kosningin fór fram. Ég tók flokkinn yfir 30 prósent en mörgum flokksmönnum þótti það alltof lítið og hún var karismatískur leiðtogi í borginni. Stuðningsmenn hennar töldu í einlægni að hún myndi bæta við 10-15 prósentum og fara yfir 40 prósent. Þessar væntingar, og hæfileikar hennar, og kannski það að ég var á þeim árum fullglaðlyndur húmoristi fyrir margra smekk malbikuðu sigurinn fyrir hana. En flokkurinn fór aldrei hærra en meðan ég og Röskvuliðið höfðum snarvöndul á honum. Kosningin sjálf var dramatísk því þegar ég var búinn að halda stórlynda tapræðu beið séra Karl V. Matthíasson heimilisprestur eftir mér við sviðið og sagði að mamma hefði kosið þessa stund til að deyja. Ég rétt náði til hennar áður en hún kvaddi. Eina ósk hennar var að útförin yrði gerð í kyrrþey en þetta varð náttúrlega með fyrstu fréttum í öllum miðlum um kvöldið. Það er sérstök kenning til í lífeðlisfræði um sársauka sem segir að nýr og meiri sársauki eyði þeim sem fyrir er, og í þessum ósköpum gufaði formannstapið upp. Þetta var allt skrifað í stjörnurnar og ég varð betri maður upp úr allri þessari dramatík, og kanski líka betri pólitíkus. Í dag er ég fullkomlega sáttur við alla í mínum flokki, tel mér trú um að ég hafi stundum græðandi hönd þegar mest gengur á og hef ekki hug á öðru en vera utanríkisráðherra enn um sinn. Ég segi þó stundum við minn góða ráðgjafa, Kristján Guy Burgess, að nú sé okkur farið að líka við alla í ráðuneytinu og þá sé kominn tími til að draga tjaldhæla sína úr jörðu.

Nýtt laugardagsviðtal með Birni Inga birtist vikulega á Eyjunni.

«
»